Heilbrigðisvandi vegna ýmissa langvinnra sjúkdóma hefur farið vaxandi og leitt til aukins álags á heilbrigðiskerfið á síðustu áratugum. Talið er að þessir sjúkdómar valdi um 70% dauðsfalla í heiminum á ári hverju og að tengja megi slíka sjúkdóma að mestu við þá lífshætti sem Vesturlandabúar hafa tamið sér á síðustu áratugum. Við þetta má svo bæta fjölþættum félagslegum vanda og samfélagslegum kostnaði sem til að mynda fylgir neyslu ávana- og vímuefna. Það er því engin furða þótt flest ríki reyni eftir mætti að vinna gegn því tjóni sem ákveðnir lífshættir valda. Þar er Ísland engin undantekning, að minnsta kosti í orði kveðnu. Til þess að mæta þessu eru forvarnir og heilsuefling sterkasta vopnið, hvort heldur litið er til lífsgæða fólks almennt eða efnahagslegra sjónarmiða.

Opinber stefna íslenskra stjórnvalda að takmarka aðgengi að ávana- og vímuefnum.

Í desember árið 2013 settu íslensk stjórnvöld sér stefnu í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020 sem tekur til forvarna, meðferðarúrræða, eftirfylgni meðferðar og endurhæfingar auk lagaumhverfis. Stefnan endurspeglar alþjóðlegar áherslur og alþjóðlegar skuldbindingar um stefnumótun um málefnið og styðst við gildandi lagaramma er varða áfengi og önnur ávana- og vímuefni. Þótt gildistími þessarar stefnu sé formlega liðinn verður að líta svo á að á meðan ekki komi önnur í staðinn eða hún uppfærð með einhverjum hætti sé hún grundvöllur ákvarðana og aðgerða stjórnvalda.

Til þess að bregðast við þessu var á síðasta þingi samþykkt þingsályktunartillaga (stjórnartillaga) um lýðheilsustefnu til ársins 2030, þingskjal 1108, 645. mál. Þar segir meðal annars: ,,Stjórnvöld hafi lýðheilsu að leiðarljósi við alla áætlanagerð og stefnumótun.” Ennfremur: ,,Við eflingu lýðheilsu þarf því að taka mið af öðrum stefnumálum með markvissa samvinnu og sameiginleg markmið í huga svo samlegðaráhrifin og árangur verði sem mestur. Þessi nálgun samræmist því markmiði stjórnvalda að tekið sé tillit til lýðheilsusjónarmiða í allri áætlanagerð og stefnumótun.”

Í ljósi þess að heilsufarslegur og samfélagslegur vandi vegna ávana- og vímuefnaneyslu er umtalsverður er afar brýnt að vandað sé til verka við allar breytingar sem gerðar eru í málaflokknum. Það felur vitaskuld ekki í sér að engu megi breyta. En það verður að vera ljóst að markmiðin með breytingunum séu skýr og að ætla megi að þær nái þeim markmiðum sem að er stefnt. Það verður einnig að liggja fyrir að hugsanleg önnur áhrif breytinganna valdi ekki skaða, sem jafnvel er meiri og verri en sá sem þeim er ætlað að leysa. Það er hlutverk stjórnvalda að standa vörð um heilsu og líðan íbúanna í samfélaginu við stefnumótun og stjórnsýsluákvarðanir og byggja þær á traustri þekkingu.

Það er grundvallaratriði að á hverjum tíma liggi fyrir langtíma, heildstæð, markmiðadrifin stefnumörkun í forvörnum og lýðheilsu. Til þess að hún verði annað en orðin tóm þarf einnig að fylgja fjármögnuð framkvæmdaáætlun og skilgreind ábyrgð og hlutverk þeirra sem að henni koma. Hún þarf að byggjast á gagnreyndri þekkingu og fela í sér reglulega endurskoðun sem byggð er á árangursmati.

Lýðheilsumat á áhrif lagabreytinga.

FRÆ hefur talað fyrir því að ávallt fari fram lýðheilsumat á áhrifum lagabreytinga og stefnumarkandi ákvarðana áður en þær eru afgreiddar frá Alþingi. Með lýðheilsumati er lagt mat á það hver séu líkleg bein og óbein áhrif tiltekinna aðgerða stjórnvalda, eins og lagasetningar og ýmissa stjórnsýsluákvarðana, á lýðheilsu. Þannig yrði stuðlað að því að ekki yrði ráðist í breytingar sem varða lýðheilsu án undangengins mats og greiningar. FRÆ leggur einnig áherslu á hlutverk og mikilvægi almannaheillasamtaka í lýðheilsu. Þau hafa í gegnum árin leikið lykilhlutverk í að virkja samfélagið í þágu lýðheilsu á öllum sviðum.

Lýðheilsumat þarf að hafa sterka skírskotun til opinberrar stefnu stjórnvalda, stefnu sem allir sem vilja leggja henni lið geta mátað sig við og gengið út frá. Opinber stefna í ávana- og vímuefnamálum er nokkuð skýr. Það á því ekki að vera flókið mál að leggja mat á aðgerðir í málaflokknum. Til dæmis í lagafrumvörpum sem lögð eru fram á Alþingi. Dæmin hér á eftir sýna það ágætlega:

  1. Það er stefna íslenskra stjórnvalda að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum, enda sé það ein mikilvægasta aðgerðin til að draga úr skaðlegum áhrifum og vandamálum tengdum neyslu áfengis og annarra vímugjafa. Þessu markmiði vilja stjórnvöld ná meðal annars með aðhaldsaðgerðum varðandi sölufyrirkomulag áfengis, virku eftirliti með notkun lyfseðilsskyldra lyfja, öflugri löggæslu og virku tolleftirliti. Þetta er skýr birtingarmynd hamlandi stefnu þegar kemur að áfengis- og vímuefnavörnum.

Með þessa skýru stefnu í huga þarf því meðal annars að meta hugmyndir um aðgerðir út frá því hvort fyrirhuguð aðgerð opni fyrir greiðara flæði ávana- og vímuefna um samfélagið og gangi þar með gegn þeirri meginforsendu sem þessi stefna og forvarnir byggjast á, þ.e. að takmarka framboð og aðgengi að ávana- og vímuefnum eins og kostur er.

  1. Annað grundvallarstefnumið íslenskra stjórnvalda er að vernda viðkvæma hópa fyrir skaðlegum áhrifum áfengis og annarra vímugjafa. Ýmsir hópar í samfélaginu eru viðkvæmari en aðrir, til dæmis börn foreldra með áfengis- og vímuefnavanda, konur á meðgöngu og ungmenni. Öll börn og ungmenni eiga rétt á að alast upp í umhverfi þar sem þau eru vernduð gegn neikvæðum afleiðingum áfengis- og vímuefnaneyslu.

Hér er skýr sýn á rétt barna og ungmenna. Þar af leiðir þarf að liggja fyrir hvort aðgerðir eða breytingar í lýðheilsumálum verndi börn foreldra með áfengis- og vímuefnavanda, konur á meðgöngu og ungmenni? Að hvaða leyti mun breytingin stuðla að rétti íslenskra barna og ungmenna til þess að alast upp í umhverfi þar sem þau eru vernduð gegn neikvæðum afleiðingum áfengis- og vímuefnaneyslu?

  1. Í þriðja lagi er það stefna stjórnvalda að koma í veg fyrir að ungmenni byrji að nota áfengi eða aðra vímugjafa. Gagnreyndar aðgerðir sem falla undir þetta yfirmarkmið eru meðal annars að sporna gegn markaðssetningu á áfengi til ungmenna, eftirlit með að aldurstakmörk til áfengiskaupa séu virt og að efla skólakerfið frekar í hlutverki sínu í velferð barna, til dæmis með þátttöku í heilsueflandi skóla og aukinni þátttöku foreldra og frjálsra félagasamtaka í forvörnum.

Á löngum tíma hefur Íslendingum tekist að ná nokkuð góðum tökum á ávana- og vímuefnaneyslu barna og ungmenna svo eftir er tekið. Það sama má segja um árangur í tóbaksvörnum. Það er því eðlilegt að allar breytingar sem snúa að ávana- og vímuefnaneyslu séu metnar út frá því hvort þær vinni gegn því að íslensk ungmenni byrji að nota ávana- og vímuefni.

  1. Í fjórða lagi stefna stjórnvöld að því að fækka þeim sem þróa með sér skaðlegt neyslumynstur áfengis eða annarra vímugjafa.

Þetta markmið er afar skýrt og afdráttarlaust. Hugmyndir um aðgerðir verða því að svara með skýrum hætti hvort þær séu líklegar til að stuðla að fækkun eða fjölgun þeirra sem þróa með sér skaðlegt neyslumynstur ávana- og vímuefna.

  1. Í fimmta lagi er það markmið stjórnvalda að tryggja aðgengi fólks sem á í vanda vegna misnotkunar eða ávana að samfelldri og samþættri þjónustu sem byggist á bestu þekkingu og kröfum um gæði. Nauðsynlegt er að samfella sé í þjónustu við fólk sem á í

vanda vegna misnotkunar eða ávana. Auk þess er virkt samstarf og skýr hlutverkaskipting þeirra sem veita þjónustu forsenda góðs árangurs. Um leið verði tryggt aðgengi að viðeigandi þjónustu. Þetta stefnumið byggir þannig á skaðaminnkun fyrst og fremst.

  1. Í sjötta lagi vilja stjórnvöld draga úr skaða og fjölda dauðsfalla vegna eigin neyslu eða annarra á áfengi eða öðrum vímugjöfum. Skaðleg neysla áfengis og annarra vímugjafa á stóran þátt í ótímabærum dauðsföllum, ofbeldi, slysum, langvinnum sjúkdómum og töpuðum góðum æviárum.

Vandi vegna misnotkunar ávana- og vímuefna er afar þungbær, bæði þeim sem í hlut eiga, fjölskyldum þeirra og öllu samfélaginu. Af þeim sökum þarf að liggja skýrt fyrir hvort, hvernig aðgerðir og hvaða áhrif aðgerðir í ávana- og vímuefnamálum hafa á fjölda dauðsfalla, ofbeldi, slys, langvinna sjúkdóma og töpuð góð æviár sem tengd eru við neyslu þessara efna.

Að standa vörð um það sem skilar árangri.

Íslendingar hafa náð frábærum árangri hvað varðar ávana- og vímuefnaneyslu ungmenna og almenn samstaða ríkt um að taka hana alvarlega og sporna gegn henni eins og hægt er. Þessi góði árangur byggist meðal annars á þeirri stefnu sem fylgt hefur verið á Íslandi hvað varðar aðgengi að og framboð á ávana- og vímuefnum. Stjórnvöld, sem hafa mótun stefnunnar í ávana- og vímuefnamálum í hendi sér, þurfa að gera sér ljósa grein fyrir mikilvægi vandaðrar og heildstæðrar stefnumörkunar í þessum góða árangri.

Árni Einarsson, framkvæmdastjóri FRÆ

Úr ársskýrslu FRÆ 2021

Við værum þakklát ef þú deilir þessari frétt ...

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar