Það er áhyggjuefni að ekki skuli hægt að ganga að því gefnu að landslögum, þar með töldum áfengislögum, sé fylgt og lýðheilsa varin eins og lögin gera ráð fyrir. FRÆ hefur, ásamt fleiri félagasamtökum í forvörnum og lýðheilsu, lýst yfir áhyggjum af því að ekki skuli vera farið að landslögum hvað varðar rekstur netsölu með áfengi á Íslandi. Sú netsala afhendir áfengi til neytenda á örfáum mínútum af lager sem er innanlands og er því smásala í samkeppni við ÁTVR. Aukið aðgengi að áfengi með þessu lagi er til þess fallið að auka heildarneyslu áfengis sem gengur þvert á yfirlýst markmið og opinbera stefnumörkun í málaflokknum.

Það er sorglegt að svo virðist sem viðtækt sinnuleysi ríki gagnvart þessu af hálfu stjórnvalda, sem gjarnan vísa í að lagaleg óvissa sé til staðar en gera þó ekkert til þess að eyða þeirri ætluðu óvissu fyrir atbeina dómstóla (ef með þarf) þannig að hægt sé að leggja fram afdráttarlausa staðfestingu á því hvort það fyrirkomulag sem er á netsölu áfengis hér á landi stenst lög eða ekki. Það liggur beint við að rekja megi stöðuga fjölgun áfengisnetsala til þess. Með því er vegið að ríkjandi áfengisstefnu og þeim lýðheilsu- og samfélagshagsmunum sem liggja henni til grundvallar.

Við svo búið má ekki standa og mikilvægt að hafa í huga að samfélagslegur kostnaður af áfengisneyslu er mikill. Felst hann m.a. í kostnaði vegna heilbrigðis- og félagsþjónustu, í löggæslu og réttargæslukerfi, vegna eigna- og líkamstjóns og í minni framleiðni samfélagsins m.a. vegna dauðsfalla og vinnutaps. Kostnaður og önnur áhrif falla þannig á neytendur, aðstandendur þeirra og samfélagið í heild. Þeim meiri sem neyslan er, því hærri má ætla að sá kostnaður verði.

Það felst því umtalsverður þjóðhagslegur sparnaður, sé horft á málin frá þeirri hlið, í því að sporna eftir mætti gegn áfengisneyslu. Í því sambandi má nefna gildandi lýðheilsustefnu til ársins 2030 og markmið gildandi laga um einkasölu ÁTVR á áfengi.

FRÆ er meðal sextán samtaka heilbrigðisstétta og forvarnasamtaka sem sendu ábendingu (sparnaðarráð) í samráðsgátt ríkisstjórnarinnar þann 21. janúar 2025. Þar er meðal annars vakin athygli á því að í bréfi WHO til heilbrigðisyfirvalda á Íslandi þann 18. júlí 2023 er tilgreint að evrópska áætlunin um aðgerðir vegna áfengis 2022-2025, sem samþykkt var einróma af öllum 53 aðildarríkjum árið 2022, hvetur aðildarríkin til að forgangsraða aðgerðum til að stjórna framboði áfengis, þar á meðal að huga að því að taka upp ríkisreknar áfengissölur (including considering the provision of state-operated alcohol outlets). Það er því í fullkominni andstöðu við þessa samþykkt að standa ekki vörð um ÁTVR, og það fyrirkomulag sem aðrar þjóðir eru hvattar til þess að koma á.

Eins og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur undirstrikað þá hefur áfengisiðnaðurinn mikla hagsmuni af því að selja áfengi til að hagnast. Áfengisiðnaðurinn beitir sömu aðferðum og tóbaksiðnaðurinn til að koma í veg fyrir eða tefja fyrir reglusetningu stjórnvalda og grafa undan góðri opinberri stefnu. Í nýju skjal frá WHO (nóvember 2024) Empowering public health advocates to navigate alcohol policy challenges – alcohol policy playbook eru teknar saman þær fullyrðingar sem áfengisiðnaðurinn styðst við í sínum málflutningi og gagnrök lýðheilsufólks og stofnana.

Þar segir í formála (bls. VI); Áfengisiðnaðurinn heldur röngum upplýsingum á lofti sem hafa haft skaðleg áhrif á þekkingu og vitund almennings. Innan við þriðji hver Evrópubúi veit að áfengisneysla eykur hættu á krabbameini og aðeins 20% kvenna hafa nauðsynlegar upplýsingar til að geta tekið upplýst val um áfengisneyslu.

Viðskiptahagsmunir atvinnugreina eins og áfengis- og tóbaksiðnaðarins rekast stöðugt á lýðheilsumarkmið, en við verðum að hefja okkur yfir þær áskoranir. Eins og undirstrikað er í nýlegri skýrslu WHO/EURO um viðskiptaákvarðanir vegna langvinnra sjúkdóma, þá beita atvinnugreinar háþróuðum aðferðum til að móta skynjun almennings, hafa áhrif á fjölmiðlaumfjöllun, og jafnvel stöðva pólitísk ferli. Þetta undirstrikar nauðsyn þess að stefnumótendur, heilbrigðisyfirvöld og talsmenn lýðheilsu fái þau tæki sem þeir þurfa til að fletta ofan af og eyða þessum skaðlegu og röngu upplýsingum.

Í sömu skýrslu kemur fram í kafla 1.3.1 (bls.13) að áætlaður samfélagslegur kostnaður áfengisneyslu ef allt er tekið saman nemi um 2.6% af vergri landsframleiðslu (VLF). Verg landsframleiðsla (VLF) á Íslandi var 4.321 milljarður árið 2023. Því má ætla að samfélagslegur kostnaður af áfengisneyslu hafi verið rúmir 112 milljarðar króna á Íslandi árið 2023 út frá gögnum WHO. Nákvæm uppreiknuð upphæð er 112.346.000.000 krónur.

Samkvæmt úttekt frá desember 2018 er talið að með því að færa áfengissölu frá Systembolaget, ríkissölunni í Svíþjóð, til einkaaðila myndi áfengisneysla þar aukast verulega. Ef salan væri færð til einkarekinna sérverslana mætti gera ráð fyrir því að áfengisneysla ykist um 20% á hvern einstakling. Ef salan væri færð inn í matvöruverslanir ykist áfengisneyslan um 31,2% á hvern einstakling. Fyrirkomulag áfengissölu hefur verið mjög svipað hjá Systembolaget í Svíþjóð og hjá ÁTVR á Íslandi og því mætti gera ráð fyrir að sambærileg neysluaukning yrði hér ef einkaaðilar tækju yfir áfengissölu á Íslandi.

Allar rannsóknir sýna að áfengisneysla hefur neikvæð áhrif á lýðheilsu og mikinn samfélagslegan kostnaði í för með sér. Þær sýna einnig að öll aukning í sölu áfengis, m.a. vegna aukins aðgengis að áfengi, veldur tilheyrandi aukningu á áfengistengdum skaða og samfélagslegum kostnaði.

Það felst því mikill sparnaður í því að hvika í engu frá samþykktri lýðheilsustefnu til ársins 2030 og markmiðum gildandi laga um einkasölu ÁTVR á áfengi. Sá sparnaður hleypur á milljörðum króna á ári.

Árni Einarsson, framkvæmdastjóri FRÆ

Heimir Óskarsson, formaður FRÆ

Úr ársskýrslu FRÆ 2024

Við værum þakklát ef þú deilir þessari frétt ...

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar