Í fjölda rannsókna hefur verið sýnt fram á tengsl milli áfengisneyslu og nokkurra tegunda krabbameina. Þess vegna er áfengisneysla flokkuð sem þekktur krabbameinsvaldur hjá Alþjóðakrabbameinsrannsóknarstofnuninni (IARC). Um flest krabbamein gildir að því meira sem drukkið er og því lengri tíma sem drykkjan nær yfir því meiri líkur eru á að fá áfengistengt krabbamein.
Að minnka áfengisdrykkju eða – sem er enn betra – að sleppa henni alveg dregur því úr krabbameinsáhættu.
Á aðalfundi NordAN sem haldinn var 18. nóvember síðastliðinn var rætt um áfengi og krabbameinsáhættu og eftirfarandi ályktun samþykkt:
Áfengi – krabbameinsáhættuþáttur sem fólk veit ekki að þarf að forðast
Að drekka áfengi eykur hættuna á krabbameini í munni og hálsi, barkakýli, vélinda, ristli og endaþarmi, lifur og brjóstum (hjá konum). Byggt á þeirri þekkingu er lagt til í Evrópuráðum gegn krabbameini (European Code against Cancer) að „Ef þú drekkur áfengi af hvaða tagi sem er, takmarkaðu þá neyslu þína. Að drekka ekki áfengi er betra til varnar gegn krabbameini.“
Samkvæmt fyrirliggjandi könnunum og rannsóknum virðast flestir óafvitandi um þá staðreynd að áfengi veldur krabbameini. Gögn sýna að aðeins 20-40% fólks er meðvitað um þau tengsl.
NordAN bendir á að það væru mistök að ganga út frá að fólk viti af þessari áhættu og að það taki upplýsta ákvörðun hvað varðar neyslu áfengis og heilsufarsáhættu. Fólk veit það ekki. Það er ekki gert nóg í að upplýsa það. Ekki aðeins er fólk ekki alltaf vel upplýst, heldur fær það í sumum tilfellum líka í raun rangar upplýsingar. Vísbendingar eru um að áfengisiðnaðurinn setji stundum fram rangar upplýsingar eða geri lítið úr vísbendingum um áfengistengda hættu á krabbameini. Það verður að vera á ábyrgð stjórnvalda að bregðast við rangfærslum áfengisiðnaðarins og tryggja að neytendur séu meðvitaðir um krabbameinsvaldandi áhættu áfengis.
Taka ætti miklu meira tillit til krabbameinsvaldandi áhrifa áfengis í umræðu um stefnumörkun í áfengimálum, bæði á innlendum og alþjóðlegum vettvangi. Áfengisneysla er einn mikilvægasti áhættuþáttur krabbameins sem hægt er að koma í veg fyrir ásamt tóbaksnotkun og ofþyngd. Við ættum öll að viðurkenna það.
Við hvetjum stjórnvöld til þess að tryggja að þessar upplýsingar sé ekki eingöngu að finna í opinberum skjölum, yfirlýsingum og áætlunum sem sjaldan ná eyrum almennings. Það er lykilatriði að þessar upplýsingar nái til neytenda þessara efna sem og almennings alls. Við biðjum stjórnvöld að skoða að setja lög um merkingar á umbúðum, koma á laggirnar upplýsingaherferðum sem ná til mismunandi þjóðfélagshópa og styðja við þetta með öflugri gagnreyndri áfengismálastefnu.