Ýmis verkefni
FRÆ hefur staðið að fjölmörgum forvarnaverkefnum, svo sem útgáfu fræðsluefnis, málþingum og vakið athygli á forvörnum og ávana- og vímuefnamálum með ýmsum hætti. Hér fyrir neðan eru nokkur dæmi um ýmis verkefni FRÆ.
Árið 2015 stóð FRÆ fyrir tveimur fræðslumálþingum um kannabis í samstarfi við Embætti landlæknis og velferðarráðuneytið. Hið fyrra var haldið 1. júní, það síðara 13. nóvember; bæði á Grand Hotel í Reykjavík.
Tilgangur málþinganna var að taka saman og vekja athygli á fyrirliggjandi þekkingu á áhrifum kannabisneyslu á einstaklinga og samfélag; auka færni þeirra sem þurfa að fjalla um kannabistengd mál og gera þeim fært að mæta til umræðunnar með bestu fáanlegu fyrirliggjandi þekkingu og stuðla að upplýstri umræðu og ábyrgri opinberri stefnumörkun.
Samantektir og upptökur frá málþingunum báðum eru á vefsíðunni www.baragras.is.
►Fræðslumálþing um kannabis 1 júní 2015
Á málþinginu fjallaði Árni Einarsson, framkvæmdastjóri FRÆ um kannabismál og verkefnið Bara gras? Þórarinn Tyrfingsson yfirlæknir hjá SÁÁ fjallaði um um eðli og eiginleika kannabisefna, áhrif þess á líkamlega heilsu og meint læknisfræði- og lyfjagildi. Halldóra Jónsdóttir yfirlæknir á Bráðageðdeild 32C á Landspítala um áhrif kannabiss á geðheilsu, heilastarfsemi, minni og hugræna getu fólks, Bryndís Björk Ásgeirsdóttir dósent í sálfræði við HR fjallaði um kannabisneyslu á Íslandi; neyslu, neysluvenjur og almenn viðhorf, Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur og prófessor í félagsfræði við HÍ fjallaði um íslensk lög og reglur sem varða kannabis; alþjóðlegt samstarf og skuldbindingar, Þórólfur Þórlindsson prófessor í félagsfræði við HÍ fjallaði um álitamál varðandi núverandi stefnu, hugmyndir um afglæpavæðingu/lögleyfingu og Sveinbjörn Kristjánsson sérfræðingur hjá Embætti landlæknis fjallaði um hagnýtar upplýsingar og ráðgjöf um hvernig tala má um kannabis við ungmenni og hvernig hægt er að nota áhugahvetjandi samtal til að fá ungmenni til að taka ákvörðun um að breyta um lífsstíl og hegðun.
Að loknum erindum var pallborð með umræðum og samantektum en í pallborði sátu auk fyrirlesara Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari, Hrafndís Tekla Pétursdóttir sálfræðingur í Foreldrahúsi og Borgar Þór Einarsson, formaður starfshóps heilbrigðisráðherra um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu. Ráðstefnustjóri var Rafn Jónsson, verkefnastjóri hjá Embætti landlæknis. Málþingið sátu rúmlega 70 manns, ma. starfsfólk háskóla, framhaldsskóla, grunnskóla og annarra menntastofnana, starfsfólk í ungmennastarfi sveitarfélaga og félagasamtaka og starfsfólk sveitarfélaga, ráðuneyta og stofnana.
►Fræðslumálþing um kannabis 13. nóvember 2015
Málþingið 13. nóvember var hliðstætt málþinginu í júní en með öðrum fyrirlesurum og öðrum sjónarhornum. Tæplega eitthundrað manns sátu þetta síðara málþing.
Árni Einarsson, framkvæmdastjóri FRÆ, setti málþingið og sagði frá verkefninu baragras? og tilgangi málþinganna. Aldís Hilmarsdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, fjallaði m.a. um fíkniefnamarkaðinn á Íslandi og stöðuna í nágrannalöndunum og sjónarhorn lögreglunnar á umræðuna um fíkniefnamálin. Rafn Jónsson, verkefnastjóri áfengis- og vímuvarna hjá Embætti landlæknis, sagði frá ráðstefnunni UNGASS sem haldin verður á næsta ári og fór yfir helstu alþjóðasamninga í ávana- og vímuefnamálum. Kolbrún Benediktsdóttir, saksóknari, fjallaði um dómaframkvæmd á Íslandi, fangelsi og önnur úrræði með tilliti til fíkniefna. Borgar Þór Einarsson, formaður starfshóps heilbrigðisráðherra, sagði frá verkefni starfshóps heilbrigðisráðherra um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum áhrifum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu.
Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna, fjallaði um stefnumörkun í ávana- og vímuefnamálum frá sjónarhóli velferðar, öryggis og réttinda barna. Funi Sigurðsson, sálfræðingur og forstöðumaður Stuðla, fjallaði um birtingarform kannabisneyslu í barnavernd og Birgir Guðmundsson, stjórnmálafræðingur og dósent við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri, fjallaði um ábyrgð fjölmiðla.
Ráðstefnustjóri var Rafn Jónsson, verkefnastjóri hjá Embætti landlæknis.
Að loknum erindum var pallborð með umræðum og samantektum. Í pallborði sátu, auk fyrirlesara, Íris Stefánsdóttir frá félagasamtökunum Olnbogabörnunum og Þráinn Farestveit frá Vernd, fangahjálp.
Í upphafi árs 1997 var gerður samningur við menntamálaráðuneytið til eins árs um að FRÆ hefði umsjón með sérstöku verkefni á vegum ráðuneytisins sem hefði að markmiði að efla forvarnastarf í skólum og stuðla að meiri festu í slíku starfi á þeirra vegum.
Komið var á fót teymi fimm sérfræðinga sem vann að því að skipuleggja forvarnastarf í skólum. Í teyminu voru skólastjóri, geðlæknir, námsráðgjafi í grunn- og framhaldsskóla og skólahjúkrunarfræðingur. Teymið lauk störfum í ársbyrjun 1998 og skilaði skýrslu um starf sitt vorið 1998.
Um áramótin 1997/1998 var ákveðið að halda verkefninu áfram um óákveðinn tíma og gerður um það samningur árlega. Árið 2003 gerðu FRÆ og menntamálaráðuneytið samning til þriggja ára sem var síðan endurnýjaður 2007 eða til og með ágústmánuði 2010.
Skömmu fyrir ármót 2010/2011 var skrifað undir nýjan en mikið breyttan samning sem gilti út skólaárið 2012. Í nýja samningnum var gert ráð fyrir að FRÆ legði að mörkum rúmlega tveggja daga vinnu á mánuði á samningstímanum til þess að veita framhaldsskólum ráðgjöf og stuðning við skipulagningu og framkvæmd forvarna á sviði áfengis- og vímuefnamála. Í lok skólaárs 2012 lauk þar með þessu verkefni. Umsjón með verkefninu af hálfu FRÆ höfðu frá upphafi Árni Einarsson og Sigríður Hulda Jónsdóttir.
Meginmarkmið starfsins var að efla og byggja upp markvisst forvarnastarf gegn vímuefnaneyslu og annarri skaðlegri hegðun ungmenna innan framhaldsskóla landsins. Forvarnastarf sem einkenndist ekki einungis af tímabundnum átaksverkefnum heldur væri samofið daglegri starfsemi skólans og endurspeglaði þannig skólabrag, skilaboð til nemenda um hvað sé ásættanleg hegðun, félagslífið, áherslur í kennslunni og aðra þætti daglegs skólastarfs. Áhersla var lögð á almenna lýðheilsu og heilbrigðan lífsstíl. Lögð var áhersla á að starfsmenn skólanna og nemendur kæmu að mótun forvarnastarfsins og tekið yrði sérstakt tillit til þess að framhaldsskólarnir eru afar ólíkir, bæði að formi og stærð og mikilvægt að forvarnir tækju mið af aðstæðum í hverjum skóla.
Fastir liðir í starfinu voru vor- og haustþing sem haldin voru í framhaldsskólum víða um land. Á þau voru fengnir fyrirlesarar, bæði innlendir og erlendir. Einnig kynntu forvarnafulltrúar starf sitt og verkefni og skólar sem búa við svipaðar aðstæður báru saman bækur sínar í þeirri viðleitni að leita leiða til þess að efla forvarnastarfið á hverjum stað. Þessi liður reyndist mjög gagnlegur og hvetjandi til nýjunga í starfi.
Settur var upp póstlisti forvarnafulltrúa, forv@ismennt.is sem var mikið notaður. Markmiðið með listanum var meðal annars að forvarnafulltrúar hefðu þar vettvang til að miðla hugmyndum og leiðum í starfi. Þetta markmið náðist vel og á listanum fór fram mikil miðlun upplýsinga og uppbyggjandi skoðanaskipti. Þá hafði verkefnið sérstakt svæði á vefsíðu FRÆ.
Til þess að leggja mat á starfið og fá upplýsingar um stöðuna í skólunum var skólameisturum og forvarnafulltrúum sendur spurningalisti við lok hvers skólaárs. Könnunin var send rafrænt á þessa tvo aðila innan hvers skóla í maí. Yfirleitt voru það forvarnafulltrúarnir sem svöruðu könnuninni, en í nokkrum tilfellum skólameistarar. Þannig fékkst allgott yfirlit yfir stöðu og framvindu verkefnisins, svo og ýmsa aðra forvarnatengda þætti í starfi skólanna.
Strax í upphafi verkefnisins var áhersla lögð á að innan hvers skóla væri tilgreindur starfsmaður sem bæri ábyrgð á forvarnastarfinu og að með honum starfaði forvarnateymi. Forvarnafulltrúi og forvarnateymið bæri ábyrgð á starfinu, áætlanagerð og framkvæmd en forvarnafulltrúinn væri tengiliður skólans, bæði inná við og útá við. Þetta gekk vel eftir og við lok verkefnisins voru starfandi forvarnafulltrúar við nær alla framhaldsskóla í landinu. Verkefnið skilaði því að forvarnastarf festi sig í sessi í starfsemi flestra framhaldsskóla landsins.
Þrátt fyrir að formlegum afskiptum FRÆ af forvarnastarfi framhaldsskóla lyki í lok skólaárs 2012 hafa ýmis tengsl haldið áfram, bæði fagleg og persónuleg, og forvarnafulltrúar hafa haldið áfram að leita til FRÆ eftir upplýsingum og ýmiss konar ráðgjöf. Það var því ánægjulegt að FRÆ bauðst að taka þátt í undirbúningi og framkvæmd ráðstefnu um Heilsueflandi framhaldsskóla 2. nóvember 2015 í samstarfi við Embætti landlæknis og Heimili og skóla. Ráðstefnan tókst mjög vel og var fjölsótt bæði af starfsfólki framhaldsskólanna og fulltrúum foreldra og nemenda. Yfirskrift ráðstefnunnar var: Opnum verkfærakisturnar. Framhaldsskólarnir kynntu þarna ýmis verkefni sem þeir eru að vinna að undir formerkjum verkefnisins. Líflegar umræður og skoðanaskipti urðu um kynningar skólanna og ljóst að mikil gróska er í þessu starfi.
Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra heimsótti ráðstefnuna og afhenti Gulleplið, sem er viðurkenning fyrir framúrskarandi starf á sviði heilsueflandi framhaldsskóla. Þetta er í fimmta sinn sem Gulleplið er veitt og féll það í skaut Borgarholtsskóla. Áður hafa Flensborgarskólinn, Verzlunarskóli Íslands, Fjölbrautaskóli Vesturlands og Fjölbrautaskóli Suðurlands hlotið Gulleplið.
Verkefnið Heilsueflandi framhaldsskóli skiptist í fjóra meginflokka, næringu, hreyfingu, geðrækt og lífsstíl. Inntak þess er að nálgast forvarnir út frá víðtæku og jákvæðu sjónarhorni með það að markmiði að stuðla að vellíðan og auknum árangri allra í skólasamfélaginu, nemenda og starfsfólks.
FRÆ stóð fyrir málþingi um heilsufarsleg og samfélagsleg áhrif áfengis 9. maí 2017. Markmiðið með málþinginu var að vekja athygli á og auka almenna þekkingu og vitund um fjölþætt áhrif áfengis á lýðheilsu og samfélag. Aukin þekking hvað þetta varðar eflir skilning á mikilvægi forvarna og lýðheilsusjónarmiða við stefnumörkun í áfengismálum.
Annars vegar var sjónum beint að þekkingu á margþættum heilsufarslegum áhrifum og sjúdómabyrði vegna áfengisneyslu og þekktum áhrifum á ýmsa sjúkdóma, s.s. fíknsjúkdóma og krabbamein. Hins vegar var sjónum beint að samfélagslegum áhrifum áfengisneyslu, s.s. löggæslu, félagsmálum, afbrotum og ofbeldi og áhrifum áfengisneyslu á aðra en neytandann sjálfan.
Málþingið var haldið á Grand Hotel Reykjavík 9. maí 2017, kl. 10-16 í samstarfi við Krabbameinsfélag Íslands, Krabbameinsfélag Reykjavíkur, SAFF-Samstarf félagasamtaka í forvörnum, IOGT á Íslandi og Embætti landlæknis. Því var skipt í tvær lotur. Annars vegar kl 10:00-12:30 (áfengi og heilsa); hins vegar kl 13:15-16:00 (áfengi og samfélag). Málþingið var öllum opið og gjaldfrjálst. Þátttakendur voru 45.
Fyrirlesarar voru sérfræðingar á ýmsum sviðum áfengismála eða sviðum sem tengjast áfengismálum.
Árni Einarsson, framkvæmdastjóri FRÆ, Fræðslu og forvarna og formaður Krabbameinsfélags Reykjavíkur. og Rafn Jónsson, verkefnisstjóri áfengis- og vímuvarna hjá Embætti landlæknis fluttu ávörp.
Aðrir fyrirlesarar voru:
Lára G Sigurðardóttir, læknir og doktor í lýðheilsuvísindum
Laufey Tryggvadóttir, faraldursfræðingur, klínískur prófessor við læknadeild og framkvæmdastjóri Krabbameinsskrár Krabbameinsfélags Íslands
Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á sjúkrahúsinu Vogi
Karl Andersen, prófessor í hjartalækningum við læknadeild Háskóla Íslands
Kristina Sperkova, sálfræðingur og formaður alþjóðahreyfingar IOGT
Ágúst Mogensen, afbrotafræðingur, rannsóknarstjóri umferðarslysasviðs Rannsóknarnefndar samgönguslysa
Guðbjörg S. Bergsdóttir, verkefnastjóri rannsókna og þróunar hjá Ríkislögreglustjóra
Halla Björk Marteinsdóttir, félagsfræðingur hjá Barnaverndarstofu
Sveinbjörn Kristjánsson, verkefnisstjóri áhrifaþátta heilbrigðis hjá Embætti landlæknis
Fundarstjórar voru Ögmundur Jónasson og Siv Friðleifsdóttir, sem bæði eru fyrrverandi heilbrigðisráðherrar.
Dagana 25. – 29. september 2017 dvaldi hér á landi Tim Stockwell forstöðumaður Miðstöðvar vímuefnarannsókna í Bresku Kólumbíu í Kanada (Centre for Addictions Research of British Columbia) og prófessor við Háskólann í Viktoríu í Kanada. Tim fór fyrir alþjóðlegum hópi vísindamanna sem rannsakaði fyrir sænsku áfengisverslunina (Systembolaget) líkleg áhrif þess að einkavæða smásölu áfengis. Tilgangur heimsóknar hans til Íslands var að kynna niðurstöður rannsóknarinnar. IOGT- NTO í Svíþjóð stóð straum af kostnaði vegna komu hans og þýðingu á útdrætti á skýrslu um niðurstöður rannsóknarinnar. Árni Einarsson endurskoðaði þá þýðingu og IOGT á Íslandi kostaði fjölföldun henna og kostnað vegna funda sem haldnir voru í kringum heimsókn hans.
Tim flutti erindi á opnum fundi sem haldinn var í Háskóla Íslands við Stakkahlíð 27. september og á fundi með fulltrúum ýmissa stofnana og félagsamtaka sem haldinn var í Víkurhvarfi 1 í Kópavogi þann 28. september. Tim átti einnig fundi með fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins, forstjóra ÁTVR og framkvæmdastjóra Krabbameinsskrár Krabbameinsfélagsins.
Árni Einarsson, framkvæmdastjóri FRÆ og Aðalsteinn Gunnarsson, framkvæmdastjóri IOGT á Íslandi skipulögðu heimsókn Tim og önnuðust undirbúning og framkvæmd funda hans á meðan á dvölinni stóð
Verkefni Fræðslu og forvarna sem hafa sér heimasíður:
Bara gras?
Upplýsingaverkefni sem sett var á laggirnar árið 2010.
HEIL HEIM
Verkefnið felst í birtingu upplýsinga um ölvunarakstur og áhrif ávana- og vímuefna á ökuhæfni.
ALLSGÁÐ
Verkefnið Hátíðir barnanna felst í 5 einföldum heilræðum til að spilla ekki hátíðagleði barna með áfengisneyslu og hvatningu um að skapa börnum góðar minningar um gleðilega jóla- og áramótahátið.
Óáfengt
Óáfengir drykkir. Aukin áhersla á heilbrigði og hollar lífsvenjur og aukin þekking á áhrifum áfengis á heilbrigði hefur leitt til vaxandi áhuga og eftirspurnar eftir óáfengum drykkjum.
Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.