Forsíða2019-02-19T13:33:46+00:00

Þekking í þágu forvarna

Fræðslu- og upplýsingamiðstöð í forvörnum og heilsueflingu.

Með forvörnum viljum við fækka þeim sem missa heilsu og fjölga þeim æviárum sem fólk getur notið lífsins við góða heilsu.

Forvarnir eru viðfangsefni sem tekur stöðugum breytingum vegna samfélagsþróunar, nýrrar þekkingar og breyttra viðhorfa. Á undanförnum árum hefur áhugi á lýðheilsu og forvörnum aukist til muna og þeim fjölgar stöðugt sem átta sig á því að auknu álagi á heilbrigðisþjónustu verður ekki endalaust mætt með auknu fjármagni og uppbyggingu heilbrigðisstofnana til þess að takast á við sjúkdóma og vanheilsu.

Fræðsla og hvatning
til heilbrigðra lífshátta
er öflug forvörn

Leiðirnar í þessu skyni er ýmsar. Lífsstílsstýring af ýmsum toga, svo sem að takmarka aðgengi að heilsuspillandi vörum og auka framboð á heilsueflandi valkostum og gera þá eftirsóknarverðari umfram hina. Fræðsla í ýmsu formi og hvatning til heilbrigðra lífshátta.

Lýðheilsufræðsla er margþætt viðfangsefni sem snýr bæði að almenningi og þeim sem bera ábyrgð á samfélagslegum ákvörðunum og stefnumörkun og eru viðvarandi verkefni. Kynslóðir koma og fara og hagsmunir lýðheilsu (samfélagsins) og markaðshagsmunir (einstaklinga/fyrirtækja) togast á í stefnumörkun í lýðheilsu.

OKKAR LEIÐARLJÓS

Styrkja og efla forvarnir í landinu með fjölbreyttu upplýsinga- og fræðslustarfi með þekkingu í þágu forvarna að leiðarljósi. Auka almenna þekkingu og vitund um fjölþætt áhrif ávana- og vímuefna á lýðheilsu og samfélag.

Aukin þekking hvað þetta varðar eflir skilning á mikilvægi forvarna og lýðheilsusjónarmiða við stefnumörkun í ávana- og vímuefnamálum. Sérstök áhersla er lögð á að ná til barna og ungmenna og efla þátttöku og samstarf félagasamtaka í forvörnum.

Þótt starfsemi FRÆ felist fyrst og fremst í fræðslu- og upplýsingastarfi hefur starf og áherslur FRÆ frá upphafi byggst á þeirri sýn að ávana- og vímuvarnir felist ekki eingöngu í fræðslu og upplýsingamiðlun um skaðsemi fíkniefna heldur snerti nánast alla þætti samfélagsins. Fyrir vikið verður viðfangsefnið margslungið og leiðirnar fjölbreyttar.

Starfsemi FRÆ byggir á þeirri sýn að forvarnir séu samfélagslegt viðfangsefni; það sé samfélaginu hagfellt að forvarnir skili árangri og til þess að svo megi verða þurfi allt samfélagið að koma að, hvort heldur er stefnumörkun eða framkvæmd.

Sóknarfærin eru næg og möguleikar samfélags eins og okkar, með sterka innviði, menntakerfi, heilbrigðiskerfi, almenna menntun og almenna velferð, til að gera vel í forvörnum eru miklir. Í öllum þessum kerfum, sveitarfélögum, íþróttastarfi og innan grasrótar- og almannaheillasamtaka eru ótal tækfæri til að vinna á heildrænan og markvissan hátt þess að stuðla að heilbrigði þjóðarinnar. Þar á meðal hvað varðar ávana- og vímuefnaneyslu.

Forvarnastarf krefst þrautseigju, bjartsýni og áhuga, ávinningurinn er oftast í litlum skrefum og margt gengur hægt. en ekki síst krefst úthald í forvörnum vilja til þess að vinna samfélagi sínu vel. Hjá þeim sem vinna að forvörnum er rík löngun til þess að hafa áhrif á samfélagið og bæta mannlífið. Okkur finnst öllum erfitt að horfa upp á það mein sem áfengi og önnur vímuefni er í samfélaginu. Það er erfitt að horfa upp á ungt fólk missa fótanna í lífinu vegna neyslu; það er erfitt að sætta sig við dauðaslys í umferðinni vegna ölvunaraksturs, svo nokkuð sé nefnt. Í því liggur hvatinn að starfsemi FRÆ.

Lýðheilsa- og forvarnir eru langtímaverkefni. Ávinningur þeirra kemur yfirleitt í ljós á löngum tíma og þar reynir á þolinmæði og skýra heildar- og framtíðarsýn. Því miður skortir nokkuð á þennan skilning. Okkur er enn tamt að tala um forvarnir í verkefna- og skammtímasamhengi, s.s. forvarnaátök, forvarnavikur eða forvarnadaga.

Mikilvægi forvarna ætti öllum að vera ljóst. Talið er að sjúkdómar tengdir lífsstíl kosti heilbrigðiskerfið ríflega hundrað milljarða á ári, eða um 70-80 prósent af því fjármagni sem fer til heilbrigðismála. Fyrir utan kostnaðinn fyrir heilbrigðiskerfið missir þjóðfélagið verðmæta þegna; vegna ótímabærs dauða eða örorku missir samfélagið fólk af vinnumarkaði, fólk sem sinnir sjálfboðaliðastörfum, heimilisstörfum, barnauppeldi og öðrum störfum sem halda samfélaginu gangandi og skapa hagvöxt.

Íslenska heilbrigðiskerfið kostaði 139 milljarða árið 2013. 2,6% af þeirri fjárhæð fór í forvarnir. 0,4% til forvarna utan heilbrigðiskerfisins. 70-80% kostnaðar kemur til vegna langvinnra, lífsstílstengdra sjúkdóma. Íslendingar lifa lengi en verja að meðaltali 14 árum (17% ævinnar) við talsvert eða verulega skerta virkni. 17.000 eru á örorkulífeyri á Íslandi og hefur fjölgað þrefalt hraðar en almenn fólksfjölgun á landinu síðastliðin 15 ár. Það er því augljóslega eftir nokkru að slægjast fyrir samfélagið að bæta hér úr.

Stofnun FRÆ árið 1993 var m.a. svar við stöðnun eða hægagangi í forvarnamálum. Miðstöðinni var ætlað að fara nýjar leiðir í starfi sínu og leggja áherslu á þróunarstarf. ,,Forvarnastarf sem ekki fær að þróast í takt við tímann og samfélagsbreytingar er dæmt til þess að verða marklaust,“ segir í kynningarriti frá upphafsárunum. Þar var þekking lykilþáttur, eins og kemur fram í eftirfarandi frá árinu 1997: ,,Forvarnir verða að byggjast á þekkingu. Þekkingu á því hvaða leiðir eru líklegastar til árangurs og þekkingu á því hvernig meta má árangur forvarnastarfs.“ Hlutverk FRÆ skyldi vera að afla upplýsinga og þekkingar um ávana- og vímuefnamál og forvarnir, gera hana aðgengilega (m.a. með starfrækslu gagnasafns og vefsíðu) og koma henni á framfæri með fræðslu, útgáfu og ráðgjöf í forvörnum.

Um þetta segir nánar í áðurnefndum texta frá 1997: ,,Gagna- og upplýsingaöflun, úrvinnsla niðurstaðna rannsókna, áætlanagerð og þróunarstarf eru undirstaða skynsamlegra forvarna. Forvarnastarf verður að reka sem vísindi en ekki eingöngu á góðri trú á góðan málstað.“

Markmiðin í forvörnum og forsendur, þörfin fyrir forvarnir, eru sígild. Við þurfum hins vegar stöðugt að velta því fyrir okkur hvort tækin, eða aðferðirnar, sem við notum standist tímans tönn og séu í takt við þær samfélagsbreytingar sem verða. Það er hið stöðuga viðfangsefni okkar og verður að vera. Ekki til þess að rjúka til og breyta til þess eins að breyta, heldur til þess að halda vöku okkar og nota bestu verkfærin á hverjum tíma. Við þá vinnu þarf hugrekki, hugrekki til þess að sleppa því sem maður hefur og þekkir og grípa í eitthvað sem maður veit ekki fyrir víst hvert leiðir mann. Það þarf hugrekki til þess að ganga á vit óvissunnar. En ekki síst þarf trú á að það sem maður gerir skipti máli og trú á að mögulegt sé að koma einhverju til leiðar með því sem maður er að gera.

FRÆ lagði upp með ákveðnar grunnforsendur, eða leiðarljós, í starfinu. Miðstöðinni var ætlað að styrkja og efla ávana- og vímuvarnir í landinu með fjölbreyttu upplýsinga- og fræðslustarfi; afla upplýsinga um ávana- og vímuefnamál, starfrækja gagnasafn, veita fræðslu og upplýsingar um ávana- og vímuefnamál og veita ráðgjöf í forvörnum. Umfram allt hefur áhersla verið lögð á að byggja starfið á þekkingu, traustum rannsóknum og gagnreyndum aðferðum í forvörnum. Kjörorð FRÆ, þekking í þágu forvarna, endurspeglar þetta vel.

Ávana- og vímuefnamál ganga þvert á landamæri ríkja og alþjóðlegt samstarf því mikilvægt.

Áfengi og önnur ávana- og vímuefni eru notuð í nær öllum hlutum heims, framleiðendur áfengis eru flestir á alþjóðamarkaði og þekktir áhrifaþættir neyslu eru keimlíkir um allan heim, svo nokkrar ástæður séu nefndar. Vandinn vegna neyslu áfengis og annarra ávana- og vímuefna snertir þjóðir heims með líkum hætti þótt minniháttar frávik kunni að vera á birtingarformum hans. Niðurstöður rannsókna ávana- og vímuefnamálum og árangri aðgerða til varna og úrbóta eiga því við allar þjóðir.

FRÆ hefur frá stofnun tekið þátt í samstarfi félagasamtaka á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunun þar sem aðalmarkmiðið hefur verið að varpa ljósi á ávana- og vímuefnamál sem alþjóðlegt viðfangsefni og mikilvægi þess að þjóðir standi saman að stefnumarkandi tilmælum, eða samstarfssamningum, sem þær geta miðað lagasetningar sínar og ákvarðanir við. Þetta á til dæmis vel við um áfengisauglýsingar sem hafa engin landamæri í rafrænum heimi og viðhorf sem birtast í kvikmyndum og tónlist og flæða um heiminn. Tollamál og alþjóðasamningar á ýmsum sviðum gera það einnig að verkum að ávana- og vímuefnamál geta ekki einungis verið innanríkismál einstakra þjóða. Ávana- og vímuefnamál eru því til urmæðu og á dagskrá alþjóðlegra stofnana,svo sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðalögreglunnar, Evrópuráðsins, Evrópusambandsins og ýmiss alþjóðlegra og norrænna samstarfsstofnana.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru gerð með það að markmiði að leiða til betra lífs, lífsskilyrða og umhverfis árið 2030. Fulltrúar allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna samþykktu heimsmarkmiðin og tóku þau gildi í ársbyrjun 2016. Markmiðin eru 17 talsins en undirmarkmiðin eru 169 talsins.

Ísland hefur samþykkt að vinna að heimsmarkmiðunum. Ríkisstjórnin hefur forgangsraðað þeim sérstaklega og á hennar vegum er starfandi verkefnastjórn sem heldur utan um allt í tengslum við innleiðingu markmiðanna hér á landi.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru framkvæmdaáætlun í þágu mannkynsins, jarðarinnar og hagsældar. Með þessum markmiðum er leitast við að tryggja öllum mannréttindi og ná fram kynjajafnrétti og efla vald kvenna og stúlkna. Þau eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli hinna þriggja stoða sjálfbærrar þróunar: hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. Með þeim er einnig leitast við að stuðla að friði um gjörvallan heim og þar með auknu frelsi.

Með markmiðunum er leitast við að byggja á þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og ljúka því sem ekki náðist með þeim og þau munu örva aðgerðir næstu ár á afgerandi sviðum fyrir mannkynið og jörðina.

FRÆ tekur heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna fagnandi sem sameiginlegum grunnviðmiðum, eða framkvæmdaáætlun, í þágu mannkyns og jarðar og hefur skilgreint (eða öllu heldur rýnt) starf sitt með tilliti til þeirra. Starfsemi FRÆ er beinlínis liður í því að ná sumum þessara markmiða og sum markmiðin styðja við að ýmis markmið FRÆ komist til framkvæmda. Finna má tengsl starfsemi FRÆ við mörg þessara markmiða, einkum ef rýnt er í undirmarkmið aðalmarkmiðanna, en beinust er tenging starfsemi FRÆ við eftirfarandi þætti í heimsmarkmiðunum með skírskotun til ávana- og vímuefna. Mun fleiri hafa skírskotun til starfsemi FRÆ, en óbeinni:

1. Útrýma fátækt í allri sinni mynd alls staðar.
Ávana- og vímuefnaneysla er þekktur áhrifaþáttur á fátækt. Vímufíkn og sjúkdómar vegna ávana- og vímuefnaneyslu gera marga óvinnufæra og skerðir fjárhagslega afkomu eða útilokar hana þannig að stundum leiði til fátæktar. Með því að draga úr ávana- og vímuefnaneyslu og vanda vegna hennar leggur FRÆ þessu markmiði lið.

3. Stuðla að heilbrigðu líferni og vellíðan fyrir alla frá vöggu til grafar.
Þetta markmið er inntakið í starfsemi FRÆ og meðal annars vísað beint í ávana- og vímuefnavanda í undirmarkmiðum 3.5 og 3.6.

4. Tryggja jafnan aðgang allra að góðri menntun og stuðla að tækifærum allra til náms alla ævi.
Það segir meðal annars í undirmarkmiði 4.2 að eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allar stúlkur og drengir eigi þess kost að þroskast og dafna frá unga aldri… Ávana- og vímuefnaneysla er meðal helstu áhrifa brottfalls ungmenna úr námi og getur haft varanleg áhrif á lífsgæði þeirra og framtíð.

5. Jafnrétti kynjanna verði tryggt og völd allra kvenna og stúlkna efld.
Í undirmarkmiði 5.2 segir að: Hvers kyns ofbeldi gagnvart konum og stúlkum á opinberum vettvangi sem og í einkalífi, þ.m.t. mansal, kynferðisleg misneyting og misneyting af öðru tagi, verði ekki liðið og regluverk sem styður við ofbeldi afnumið. Ofbeldi gagnvart konum á öllum þessum tilgreindu sviðum tengist mjög ávana- og vímuefnaneyslu.

8. Stuðla að viðvarandi sjálfbærum hagvexti og arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla.
Það segir meðal annars í undirmarkmiði 8.6 að eigi síðar en árið 2020 hafi hlutfall ungmenna, sem eru atvinnulaus, stunda ekki nám eða þjálfun, lækkað verulega. Ávana- og vímuefnaneysla stendur hér oft í vegi ungs fólks sem horfið hefur frá námi hennar vegna og stundar ekki vinnu. Það skapar meðal annars hættu á að þau sjái sér farborða með afbrotum. Í undirmarkmiði 8.7 segir meðal annars að stefnt sé að því að nútímaþrælahald og mansal heyri sögunni til … Mansal í tengslum við vændi hefur beina tengingu við ávana- og vímuefnaneyslu, bæði sem liður í vímuefnatengdri brotastarfsemi (t.d. burðardýr) og þar sem neyð vímuefnafíkla er nýtt til þess að gera þá út í vændi.

10. Draga úr ójöfnuði innan og á milli landa.
Það er þekkt að efnahagur hefur áhrif á nýtingu fólks á heilbrigðisþjónustu og hvort það leitar sér aðstoðar þegar með þarf. Einnig val á hollri fæðu og heilbrigðum lífsstíl. Tóbaksnotkun er t.d. meiri hjá þeim efnaminni.

11. Gera borgir og íbúðasvæði öllum mönnum auðnotuð, örugg, viðnámsþolin og sjálfbær.
Afbrot, ofbeldisglæpir, skemmdarverk og auðgunarbrot eru fylgifiskar ávana- og vímuefnaneyslu. Neysla þessara efna getur skert lífsgæði fólks á heimilum þess og umhverfi. Margir þekkja það á eigin skinni sem ónæði vegna drykkjuláta nágranna, eigin gesta eða heimilisfólks eða sem ógn í almannarými. Sumir þora jafnvel ekki að vera á ferli á ákveðnum svæðum á ákveðnum tímum vegna þeirra hættu sem þeir telja sig vera í.

16. Stuðla að friðsælum og sjálfbærum samfélögum fyrir alla menn, tryggja öllum jafnan aðgang að réttarkerfi og byggja upp skilvirkar og ábyrgar stofnanir fyrir alla menn á öllum sviðum.
Í undirmarkmiðum 16.1 (Dregið verði verulega úr hvers kyns ofbeldi og dauðsföllum sem rekja má til þess.), 16.2 (Tekið verði fyrir misnotkun, misneytingu, mansal og hvers kyns ofbeldi gegn börnum og pyntingar verði upprættar.), 16.4 (Eigi síðar en árið 2030 mun ólöglegt flæði fjármagns og vopna hafa snarminnkað, stolnar eignir verði endurheimtar í stórum stíl og barátta háð gegn hvers kyns skipulagðri glæpastarfsemi.), 16.5 (Dregið verði verulega úr hvers kyns spillingu og mútum.) og 16.a (Tilteknar innlendar stofnanir verði styrktar, meðal annars með alþjóðlegri samvinnu, í því skyni að efla þær, einkum í þróunarlöndunum, til að koma í veg fyrir ofbeldi og berjast gegn hryðjuverkum og glæpastarfsemi.) eru vímuefni, framleiðsla og dreifing (smygl) lykilþættir.
Minna framboð og eftirspurn eftir ávana- og vímuefnum vinnur gegn öllum þeim meinum sem tilgreind eru hér að framan.

FRÉTTIR

STARFSEMI

AÐILD

Fréttir af Fræðslu og forvörnum

Fara á fréttasíðuna

Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.

    Fræðsla og forvarnir

    Hverafold 1-3, 112 Rekjavík

    Phone: +354 861 1582

    Go to Top