Ávana- og vímuefnavandinn er þjóðfélagslegt mein sem sporna verður gegn með öllum tiltækum ráðum og forvarnir snerta flesta grundvallarþætti samfélagsins. Þar hafa félagasamtök ríku hlutverki að gegna og verið virk á öllum stigum forvarna. Stjórnvöld, á alþjóðavísu, landsvísu og staðbundin, viðurkenna með ýmsum hætti aðkomu almannaheillasamtaka að ávana- og vímuefnamálum, bæði hvað varðar stefnumörkun og framkvæmd, enda erfitt að sjá að svo viðamikið verkefni geti einvörðungu verið á þeirra höndum.

Góður árangur í forvarnastarfi hefur náðst fyrir tilstilli samstarfs og samstöðu, almennings, félagasamtaka og stjórnvalda. Árangur í tóbaksvörnum frá því um miðan 8. áratug síðustu aldar er dæmi um það og svo aftur í aðgerðum gegn unglingadrykkju á árunum fyrir síðustu aldamót. Almannaheillasamtök léku þar stórt hlutverk með dyggum stuðningi almennings og stjórnavalda. Nú eru hins vegar blikur á lofti og verulegur afturkippur virðist vera í virkni félagsamtaka og áhugaleysi stjórnvalda er augljóst.

Undanfarið hefur á vettvangi stjórnvalda ýmislegt verið gert sem grefur undan þeirri stefnu sem hefur verið fylgt hér á landi og reynst vel. Aðgengi að áfengi hefur verið aukið, til dæmis með því að heimila sölu áfengis á framleiðslustað, nikótínvörur eru seldar á netinu, sömuleiðis áfengi, þótt þar sé um augljóst brot á áfengislöggjöfinni að ræða, og lítil eftirfylgd er með því að auglýsingabann á áfengi sé virt. Þá hafa framlög úr Lýðheilsusjóði til forvarna minnkað ár frá ári undanfarið.

Stefna í áfengis og vímuvörnum, sem sett var í desember 2013, er runnin út þótt í orði kveðnu sé hún enn í gildi. Frá því að hún var samþykkt í ríkisstjórn hafa verið samþykktar ýmsar oinberar stefnumarkandi áætlanir og lög sem kalla á, eða gefa tilefni til, endurskoðun á þessari áætlun enda nauðsynlegt að ávallt sé til staðar heildstæð stefna í áfengis- og vímuvörnum sem endurspegla stöðuna og bestu fyrirliggjandi þekkingu á hverjum tíma. Þar má meðal annars nefna umferðarlög, krabbameinsáætlun, Barnasáttmálann og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Nú er því kjörið tækifæri til þess að taka stefnuna til ítarlegrar skoðunar og horfa til framtíðar.

Við þurfum einnig að taka tillit til þess að meðal markmiða í Evrópusáttmála um áfengi segir að allir eigi rétt á því að fjölskylda, samfélag og atvinnulíf sé verndað fyrir slysum, ofbeldi og öðrum neikvæðum afleiðingum áfengisneyslu og að öll börn og ungmenni eigi rétt á að alast upp vernduð fyrir neikvæðum afleiðingum áfengisneyslu og markaðssetningu á áfengum drykkjum, eins og mögulegt er.

Við endurskoðun stefnunnar þarf að festa í sessi, og gera kröfu um, lýðheilsumat sem tryggir að horft sé á allar breytingar í ávana- og vímuefnamálum á hliðstæðan hátt og gert er í umhverfismálum; láta meta líkleg áhrif breytinganna á lýðheilsu, velferð og ýmsa samfélagslega þætti áður en ákvörðun er tekin, þannig að það sé ljóst hvað áætluð breyting hefur í för með sér.

Stjórnmálamenn verði að hafa hugfast að heilsufarslegur og samfélagslegur vandi vegna ávana- og vímuefnaneyslu er umtalsverður og því afar brýnt að vandað sé til verka við allar breytingar sem gerðar eru í málaflokknum. Það er hlutverk stjórnvalda að standa vörð um heilsu og líðan íbúanna í samfélaginu við stefnumótun og stjórnsýsluákvarðanir og byggja þær á traustri þekkingu. Við skulum ekki gleyma því að það er almenningur sem borgar brúsann þegar upp er staðið. Einstaklingar og fjölskyldur líða fyrir ávana- og vímuefnavanda með ýmsum hætti og mikill kostnaður leggst á samfélagið til þess að bregðast við honum.

Árni Einarsson, framkvæmdastjóri FRÆ

Heimir Óskarsson, formaður FRÆ

Úr ársskýrslu FRÆ 2023

Við værum þakklát ef þú deilir þessari frétt ...

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar