Greinar og viðtöl2024-05-11T14:42:35+00:00

Greinar og viðtöl

FRÆ kemur upplýsingum m.a. á framfæri með greinum og viðtölum í prent-, ljósvaka og netmiðlum

Ráðgjöf vegna vímuefnavanda

Árni Einarsson, viðtal í Morgunblaðinu 25. júlí 1997

OPNUÐ hefur verið fjölskyldumiðstöð vegna barna í vímaefnavanda í húsakynnum Heilsuverndarstöðvarinnar við Barónsstíg í Reykjavík og er hún opin mánudaga til miðvikudaga klukkan 14 til 18. Fjölskyldumiðstöðin býður foreldrum ráðgjöf og stuðning þeim að kostnaðarlausu. Árni Einarsson veitir þessari starfsemi forstöðu.

Hvers vegna skyldi henni hafa verið komið á?

„Þessari starfsemi er komið á til þess að auðvelda foreldrum að leita sér aðstoðar vegna barna sinna sem þeir telja að séu hugsanlega farin að neyta vímuefna. Foreldrar geta með einu símtali fengið viðtal hjá ráðgjafa og síðar í framhaldi af því unnið frekar með sín mál í svokölluðum foreldrahópum sem starfa undir leiðsögn reyndra ráðgjafa.“

Hefur þetta fyrirkomulag reynst vel annars staðar?

„Þetta verkefni er tilraun sem ekki á sér beina hliðstæðu hér á landi og ég þekki heldur ekki hliðstæðu þessa erlendis. Að þessu verkefni koma margir aðilar, svo sem fólk frá Stuðlum, Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar og Teigi, meðferðarstofnun Landspítalans. Verið er að gera tilraun til að þetta fólk sameini krafta sína til þess að nýta sem best þá víðtæku reynslu sem þarna er fyrir hendi.“

Er aukin þörf á svona starfsemi?

„Já, tvímælalaust. Samfara aukinni áfengis- og vímuefnaneyslu barna og unglinga fjölgar þeim sem missa tök á neyslunni og þarfnast aðstoðar. Þess vegna er mjög mikilvægt að foreldrar og aðrir aðstandendur séu vel á verði og bregðist sem fyrst við telji þeir að eitthvað sé ekki eins og það á að vera.“

Hvernig getur fólk merkt að eitthvað verulegt sé að?

„Það þarf ekki að vera verulegur vandi á ferðum til þess að ástæða sé til að bregðast við. Versnandi gengi í skóla er eitt einkenni, versnandi samskipti við foreldra og aðra heimilismenn er annað. Auknar fjarvistir og/eða aukin peningaþörf er einkenni sem gefa þarf sérstakan gaum. Loks má nefna að breyttur vinahópur og nýir félagar samfara einhverju þessara einkenna sem fyrr eru nefnd er oft vísbending um að eitthvað sé að.“

Hvað hefur gefist best til þess að leiða út af þessari braut?

„Í fyrsta lagi er mikilvægt fyrir foreldra og aðstandendur að bregðast við snemma, í öðru lagi að sýna staðfestu og leita sér aðstoðar ef eigin ráð duga ekki.“

Geta unglingar sjálfir leitað til ykkar?

„Já, þeir geta það. Hjá okkur eru einnig starfræktir unglingahópar þar sem saman koma unglingar sem komnir eru út í neyslu en ekki svo mikla að hefðbundinnar meðferðar, svo sem innlagnar, sé þörf.“

Hvað með þegar foreldrar komast að því að börn þeirra hafa fiktað“ við neyslu en eru hættir því?

„Við vitum að mjög margir fikta“ og flestir láta þar við sitja og þá er ekki afskipta þörf. Við skiptum aðgerðum okkar í vímuefnamálum í þrennt, í fyrsta lagi reynum við að ná til allra með fræðslu um skaðsemi þessara efna, í öðru lagi reynum við að ná til þeirra sem við teljum að séu í sérstakri hættu og í þriðja lagi reynum við að aðstoða þá sem misst hafa tökin á neyslunni.“

Hverjir eru í sérstakri hættu?

„Það eru til að mynda börn sem hefja áfengisneyslu á unga aldri, börn sem búa við afskiptaleysi eða höfnun, börn sem verða fyrir einelti eða ofbeldi og börn alkóhólista. Börn sem eru með neikvæða sjálfsmynd, hafa lítið sjálfstraust og eru þar af leiðandi ósjálfstæð gagnvart þrýstingi frá öðrum eru í meiri hættu gagnvart vímuefnum en önnur börn.“

Geta afskipti foreldra skipt sköpum í svona málum?

„Já, engir standa nær börnunum en foreldrar þeirra eða forráðamenn. Það ber að líta á það sem hluta af uppeldisskyldunni að verja börn og unglinga gegn áfengi og öðrum fíkniefnum, ekki síst í ljósi þess að neysla þessara efna er meðal þess sem ógnar helst börnum okkar nú um stundir. Vímuefnin reynast mörgum hættuleg og verða sumum að fjörtjóni.“

Er forvarnarstarfi nægilega vel sinnt?

„Það er víða verið að vinna vel að forvörnum, okkur hefur hins vegar lengi skort vettvang þar sem hægt er að stilla saman kraftana og þessi nýja fjölskyldumiðstöð sem nú hefur tekið til starfa í Heilsuverndarstöðinni í Reykjavík er hugsuð sem slíkur vettvangur. Þetta er tilraunaverkefni sem stendur fram að áramótum og það er eingöngu fólk í Reykjavík sem þjónustu hennar nýtur. Hvað við tekur svo, leiðir tíminn í ljós.“

Sjá greinina í Morgunblaðinu hér.

Áfengiskaup fyrir unglinga og skyldur uppalenda

Birt í Mbl. Þriðjudaginn 9. maí, 2000.

Árni Einarsson

Neikvæð afstaða foreldra til drykkju barna sinna, segir Árni Einarsson, er þeim nauðsynlegur hemill eða jafnvel styrkur gegn utanaðkomandi.

ÁFENGISNEYSLA íslenskra unglinga er mikil og hefur færst neðar í aldursflokka undanfarna áratugi. Ölvunardrykkja barna er einnig algeng.

Kannanir á áfengisneyslu unglinga hér á landi benda til þess að hlutfall þeirra sem neyta áfengis hafi hækkað verulega eftir 1970. Í könnun árið 1970 sögðust 39% 15 ára pilta og 24% stúlkna hafa prófað að drekka, en árið 1980 var hlutfall 15 ára pilta sem hafa drukkið 80% og 76% stúlkna.

Samkvæmt könnun sem gerð var á síðasta ári sögðust u.þ.b. 80% nemenda í 10. bekk grunnskóla hafa smakkað áfengi einhvern tímann um ævina og hefur það hlutfall verið óbreytt síðustu ár og enginn munur á milli kynja. Hið sama má segja um hlutfall 10. bekkinga sem segjast hafa orðið ölvaðir einhvern tímann um ævina. Því svara 63-64% játandi og hefur þar ekki orðið breyting á síðustu ár.

Kannanir á undanförnum árum benda til þess að börn hefji nú áfengisneyslu yngri en áður en síðustu ár virðist hafa hægt á þróun í þá veru. Margar skýringar eru mögulegar á þessari þróun. Ein er sú að unglingar geri nú yngri en áður kröfu um sömu réttindi og fullorðnir. Einnig verður að taka með í reikninginn aukna og almennari áfengisneyslu fullorðinna og aukna undanlátssemi og umburðarlyndi gagnvart áfengisneyslu og ölvun unglinga.

Unglingum sérstök hætta búin vegna reynsluleysis

Unglingar pukrast ekki lengur með áfengi sem þeir hafa undir höndum né reyna að fela fyrir öðrum að þeir séu ölvaðir. Þvert á móti veifa þeir áfengi opinskátt framan í aðra og láta mikið með ölvun sína. Almennri ölvun unglinga fylgja gífurleg vandamál, afbrot, slys og ofbeldi eins og alþekkt er.

Börn eru í sérstakri áhættu vegna reynsluleysis síns og þroskaleysis. Ölvun unglinga er því ekki sambærileg við ölvun fullorðinna af þessum sökum og einnig þeim að okkur ber að tryggja öryggi barna og unglinga í hvívetna.

Að kenna góða siði

Margir foreldrar láta undan þrýstingi frá börnum sínum um að kaupa áfengi fyrir þau eða horfa í gegnum fingur sér vegna áfengisneyslu þeirra á þeirri forsendu að þeir neyti sjálfir áfengis og geti því ekki bannað börnum sínum það. Þetta er varasamt viðhorf. Það gildir alls ekki það sama um börn og fullorðna að þessu leyti.

Foreldrar gefa stundum þá skýringu á linkind gagnvart áfengisneyslu barna sinna að með því að hafa hönd í bagga með neyslunni, t.d. með því að kaupa bjór eða léttvín fyrir börnin til þess að koma í veg fyrir að þau kaupi eða drekki sterkt áfengi eða landa, hafi þeir jákvæð áhrif á neysluna. Jafnvel að með því séu þeir að kenna barninu „rétta“ drykkjusiði. Hér verða foreldrar að fara varlega. Hvað felst í því að kaupa áfengi fyrir barn sitt? Hvaða áhrif kann það að hafa á viðhorf og venjur barnsins?

Í fyrsta lagi felst í því viðurkenning á drykkju barnsins. Fyrst pabbi og mamma kaupa fyrir mig áfengi hlýtur þeim að vera sama þó að ég drekki. Þau gera mér það meira að segja auðveldara. Er ekki líklegt að barnið líti á áfengiskaupin frekar sem hvatningu en hitt? Við skulum hafa í huga að neikvæð afstaða foreldra til drykkju barna sinna er þeim nauðsynlegur hemill eða jafnvel styrkur gegn utanaðkomandi þrýstingi til þess að neyta áfengis.

Í öðru lagi er það rangt af foreldrum að stuðla með þessum hætti að því að áfengi berist inn í raðir barna og unglinga. Almennt gera foreldrar hvað þeir geta til þess að sporna gegn áfengisneyslu barna sinna. Hvers eiga þeir að gjalda að foreldrar annarra barna kaupi áfengi sem berst til þeirra með félögum barnanna?

Í þriðja lagi eru áfengiskaup til barna og unglinga ólögleg. Í raun er enginn munur á því hvort foreldri kaupir áfengi fyrir barn sitt eða annar fullorðinn. Báðir hafa gerst brotlegir við lög. Það getur ekki talist góð fyrirmynd að brjóta lög með þessum hætti né að gera lítið úr þeirri almennu viðleitni að vinna gegn áfengisneyslu barna og unglinga.

Í fjórða lagi bendir ekkert til þess að foreldrar hafi með einhverjum hætti jákvæð áhrif á áfengisneyslu barnanna með því að kaupa áfengi fyrir þau. Sumir kunna að kaupa áfengi fyrir börn sín í þeirri trú að með því séu þeir að koma í veg fyrir að þau drekki eitthvað annað, t.d. landa. Engar vísbendingar eru um að sú sé raunin.

Mikill ávinningur

Með því að koma í veg fyrir áfengisneyslu barna og unglinga vinnst margt. Kannanir sýna til að mynda að því fyrr sem börn fara að neyta áfengis þeim mun meira drekka þau sem fullorðin (Áfengisvarnaráð, 1994). Það á bæði við um magn og tíðni. Í því felst aukin áhætta á ýmsum skakkaföllum vegna áfengisneyslu svo og aukin hætta á fíknmyndun. Með öðrum orðum nær ávinningur þess að taka fast á barna- og unglingadrykkju allt til fullorðinsára.

Uppeldisskylda að sporna gegn unglingadrykkju

Uppeldisskylda foreldra gagnvart áfengisneyslu barna sinna ætti að vera augljós. Sú áhætta sem felst í barna- og unglingadrykkju er svo ljós að hvert foreldri ætti að líta á það sem sjálfsagða skyldu sína að beita öllum tiltækum ráðum til þess að koma í veg fyrir hana með það í huga að því lengur sem tekst að fresta því að börnin hefji áfengisneyslu þeim mun minni líkur eru almennt á að illa fari. Það er ekkert athugavert við það að foreldrar banni börnum sínum áfengisneyslu og fylgi því eftir. Í slíkri afstöðu felst umhyggja fyrir velferð barnsins en ekki óeðlileg afskipti af lífi þeirra og ákvörðunum.

Gamalt íslenskt máltæki segir að betra sé heilt en vel gróið. Það sannast betur en flest annað á börnum og unglingum sem misstíga sig í viðskiptum við áfengi og önnur fíkniefni. Þá reynslu vilja örugglega allir foreldrar vera lausir við. Sársaukinn sem fylgir því að sjá líf barna sinna verða að rjúkandi rúst vegna áfengis og annarra fíkniefna er e.t.v. óskiljanlegur öðrum en þeim sem sjálfir hafa upplifað hann. Kannske er það ástæðan fyrir andvaraleysi okkar. Þetta kemur ekki fyrir barnið mitt.

Höfundur er framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar í fíknivörnum.

Skilgreind og virk þátttaka almannasamtaka í vímuvörnum

Erindi á fundi áfengis- og vímuvarnaráðs 21. maí 2003

Árni Einarsson

 

Forseti Íslands,

Góðir gestir.

 1. Vímuefnaneysla og vandi: Skilgreiningar og heildarmynd

Afleiðingar vímuefnaneyslu eru eitt af stóru viðfangsefnunum í nútímasamfélagi. Ekki þarf að fjölyrða hér um fórnarkostnaðinn sem neyslu vímuefna fylgir. Hann má mæla í dauðsföllum, slysum, sjúkdómum, afbrotum og efnahagslegum og félagslegum vanda af ýmsu tagi. Hagsmunirnir snúa bæði að einstaklingum og stjórnvöldum og felast í fjölskylduharmleikjum, almannaheill og öryggi og útgjöldum fyrir samfélagið.

Við þessum vanda er brugðist með ýmsum hætti eftir því á hvaða stigi vandinn er og hvert birtingarform hans er. Í fyrsta lagi er beitt forvörnum sem ætlað er að koma í veg fyrir að vandi verði til; í öðru lagi íhlutun þegar einkenni eða vísbendingar um vanda eru komin fram; og í þriðja lagi meðferð þegar vandinn er orðinn mjög alvarlegur og þörf á umfangsmeiri afskiptum.

Eftir því sem vandinn þróast og vex snýr hann í auknum mæli að einstaklingum, með öðrum orðum um færri einstaklinga er að ræða, en á hinn bóginn verða aðgerðir kostnaðarsamari, hvort sem litið er til mannauðs eða fjárútláta. Forvarnir eru því ódýrari fyrir samfélagið en meðferð og ætti því að mínu viti að hafa algeran forgang í áfengis- og vímuefnamálum. Að ekki sé talað um ávinninginn fyrir einstaklinga og fjölskyldur.

Viðbrögð samfélagsins og ákvarðanir um aðgerðir felast í fyrsta lagi á skilningi okkar á vandanum á hverjum tíma; hvenær er ástandið komið í það horf að við sættum okkur okkur ekki við það og lítum á það sem vanda sem taka verði á. Dæmi um þetta er t.d. afstaða okkar til áfengisneyslu barna. Hvaða aldursmörk sættum við okkur við í þeim efnum og hvers konar drykkjusiði?

Í öðru lagi felast viðbrögð okkar í vali á aðgerðum, hvort við viljum beina kröftum okkar að því að hafa áhrif á eftirspurn eftir vímuefnum eða framboði þeirra.

Í þriðja lagi byggjast viðbrögð okkar á þekkingu okkar á áhrifaþáttum og áhættuþáttum vímuefnaneyslu og vandans sem til verður vegna neyslunnar.

Út frá þessum þáttum skoðum við vímuefnamál og vanda vegna neyslu vímuefna og tökum ákvarðanir um aðgerðir og viðbrögð. Taka verður tillit til allra þessara þátta og mikilvægt að setja ákvarðanir um aðgerðir og val á leiðum í víðtækt samhengi.

 1. Frumkvæði og framlag almannasamtaka til vímuefnamála og forvarna

Löng hefð er fyrir virkri þátttöku og frumkvæði íslenskra almannasamtaka og
einstaklinga í forvörnum sem hafa rutt brautina á ýmsum sviðum, þar á meðal vímuvörnum. Stjórnvöld hafa svo fylgt á eftir. Dæmi um sporgöngusamtök í vímuvörnum eru:

-IOGT og önnur bindindissamtök

-SÁÁ

-Vímulaus æsku

-Krabbameinsfélögin

og fleiri mætti hér telja.

Á vegum almannasamtaka hefur verið, og er, rekið umfangsmikið fræðslu-, ráðgjafar- og meðferðarstarf, yfirleitt með fjárhagslegum stuðningi stjórnvalda, sem í gegnum tíðina hafa látið að sér kveða í stefnumörkun í þessum málaflokki, þó að minna fari fyrir þeim nú en oft áður. Mér er t.d. til efs að við Íslendingar gætum státað af einna minnstri áfengisneyslu þjóða per íbúa, sem er þrátt fyrir allt, ef ekki hefði komið til virk þátttaka og einurð almannasamtaka í áfengismálum. Annað dæmi er starf krabbameinsfélaganna að tóbaksvörnum, þar sem náðst hefur frábær árangur.

Fyrir tilstuðlan almannasamtaka rennur einnig mikið fjármagn til forvarna til viðbótar því sem stjórnvöld láta renna til málaflokksins, sem mér finnst stundum gleymast þegar rætt er um hlut almannasamtaka í vímuvörnum. Þeir fjármunir sem t.d. er útdeilt hér í dag til vímuvarnaverkefna almannasamtaka munu vaxa og jafnvel margfaldast í meðförum þeirra með sjálfboðaliðastarfi.  Þetta er vert að hafa í huga.

 1. Vímuvarnir eru kjörið viðfangsefni almannasamtaka

Hjá almannasamtökum sem komið hafa að áfengis- og fíkniefnamálum hefur orðið til dýrmæt reynsla og þekking á þessum málum, sem samfélagið þarf að notfæra sér bæði við stefnumörkunina og framkvæmd stefnunnar. Virk þátttaka almannasamtaka er liður í að virkja samfélagslega vitund og ábyrgð borgaranna og hlúir að og viðheldur þar að auki lýðræðisvitundinni. Þátttaka í starfi samtaka styrkir þá vitund að viðfangsefnið sé almennt hagsmunamál sem kalli á þátttöku og ábyrgð borgaranna, en sé ekki einungis lögbundið verkefni stjórnvalda.

Almannasamtök eru vettvangur til þess að hrinda í framkvæmd hugmyndum og hugsjónum, stuðla að upplýstum viðhorfum með umræðum sem þar eiga sér stað og skerpa sýn fólks í málum. Þar verða því frekar til viðhorf og stefna sem tekur mið af víðtækum almannahagsmunum í stað þröngra sérhagsmuna. Ef einhver viðfangsefni eiga vel heima á vettvangi almannasamtaka, eiga vímuefnamál, s.s. fræðsla- og upplýsingastarf, það sannarlega. Virkja má krafta almannasamtaka í forvörnum með þjónustu- og verkefnasamningum eins og gert er í meðferð og rannsóknum með góðum árangri.

Það er því skoðun mín að stjórnvöld eigi að virkja eins og kostur er og nýta möguleika almannasamtaka í þessum málaflokki en halda afskiptum sínum í lágmarki. Þau ættu að miða afskipti sín við að setja nauðsynleg lög og reglur um áfengis- og vímuefnamál og sjá til þess að þeim sé framfylgt, tryggja nauðsynlega samfélagslega þjónustu og leggja henni til fjármagn. Vera sem mest í hlutverki ljósmóðurinnar, en láta aðra um framkvæmdina eins og kostur er. Stjórnvöld eiga að skilgreina hlutverk stofnana sinna í áfengis- og fíkniefnamálum, þar með taldar forvarnir, og tryggja þeim svigrúm og möguleika til þess að sinna því hlutverki með því að setja þeim stefnu og reglur þar að lútandi og sjá þessum stofnunum fyrir nauðsynlegu fjármagni.

 1. Minnkandi hlutur almannasamtaka í vímuvörnum

Ef litið er til úthlutunar úr forvarnasjóði undanfarin ár má glögglega sjá að sú stefna sem ég er hér að mæla fyrir hefur ekki verið ráðandi. Þessi mynd sýnir það vel.

Forvarnasjóður – úthlutun 1999 – 2002  –  hlutfall

 

Hér gefur að líta hlutfallslega skiptingu þess fjármagns sem sjóðurinn hefur úthlutað til forvarna, en þó ekki tekinn með kostnaður við rekstur áfengis- og vímuvarnaráðs, eins og þó væri rétt. Við það myndi hlutur stjórnvalda í þessari skiptingu vaxa enn og hlutur almannasamtaka rýrna að sama skapi. Ég tek það fram að hér er heldur ekki tekið með fjármagn sem fer til tóbaksvarna.

Á myndinni hefur fjármagni sem forvarnasjóður veitir til forvarna verið skipt í fernt: Í fyrsta lagi verkefni sem ríkisstofnanir og stofnanir sveitarfélaga reka; í öðru lagi verkefni á vegum almannasamtaka; í þriðja lagi styrkir til áfangaheimila og fjórða lagi styrkir til samstarfsverkefna stjórnvalda og almannasamtaka. Sú þróun sem þessi mynd sýnir er á rangri leið að mínu mati og þessu ætti að breyta.

 1. Heildarsýn í vímuvörnum

Tökum fyrst hlut stofnana ríkis og sveitarfélaga

Neysla fíkniefna er ekki einangraður þáttur í samfélaginu. Neysla fíkniefna og vandi sem af henni leiðir tengist ýmsum öðrum þáttum, hvort sem litið er til áhættu- og áhrifaþátta eða afleiðinga neyslunnar. Forvarnir gegn fíkniefnum eiga því samleið með forvörnum gegn ýmsum öðrum vanda. Forvarnir þurfa því að vera hluti af mörgum sviðum samfélagsins, samþættar öllu uppeldisstarfi og sjálfsagður hluti af uppeldisskilyrðum barna og unglinga.

Þar koma stjórnvöld til skjalanna,  t.d. með stefnu sinni og framkvæmd í skóla- og fræðslumálum, félagsstarfi, félagsþjónustu, fjölskyldu- og uppeldisráðgjöf, löggæslu, tollgæslu, o.s.frv. Ríka áherslu verður að leggja á þátttöku foreldra og samstarf stjórnvalda við heimili og virka þátttöku ungs fólks. Samfélagið þarf að líta á það sem sjálfsögð mannréttindi að börn og unglingar alist upp án ógnunar frá fíkniefnum hverju nafni sem þau nefnast.

Ríki og sveitarfélög eiga að skilgreina hlutverk sitt og stofnana á sínum vegum og gera þeim kleift að sinna hlutverkum sínum í áfengis- og vímuefnamálum og sjá þeim fyrir því fjármagni sem þarf til þess að sinna þeim hlutverkum.

Styrkir til verkefna á vegum opinberra stofnana af takmörkuðum fjármunum forvarnasjóðs ætti aðeins að veita að því gefnu að um þróunarverkefni sé að ræða. Að reynslan af slíkum verkefnum skili sér til allra skyldra stofnana en sitji ekki einungis hjá viðkomandi stofnun; séu með öðrum orðum liður í því að bæta og efla starf þessara stofnana í heildina. Með þessu væri verið að nýta fjármuni skynsamlega um leið, stuðlað væri að gæðum og því að fleiri sinntu forvarnastarfi.

Lítum svo á hlut almannasamtaka

Íslensk stjórnvöld hafa lengi séð hag sinn í að nýta sér frumkvæði, áhuga og styrk almannasamtaka í meðferðarmálum og gera við þau þjónustusamninga.  Þessu hefur verið öðruvísi farið í fræðslu- og upplýsingastarfi. Þar er þessi stuðningur undantekningalítið verkefnatengdur, í stað þess að byggja hann á skilgreindu hlutverki samtaka og samningi við þau um að sinna ákveðnum þáttum í fræðslu og forvörnum. Það er þó ekkert því til fyrirstöðu að fara sömu leið í fræðslunni og í meðferðinni og hægt að gera þar sömu kröfur til fagmennsku og vinnubragða.

Til þess að hægt sé að nýta krafta og reynslu almannasamtaka sem best í fræðslu og öðru forvarnastarfi og stuðla að sem mestri þátttöku borgaranna þarf að skilgreina hlutverk þeirra og möguleika, sérkenni og sérsvið. Til þess að samtök geti sinnt þessu hlutverki svo að vel sé þurfa þau skilgreind verkefni og fjármagn. Vera hluti af heildarmynd sem þau taka þátt í að móta og mynda og bera ábyrgð á. Sú heildarmynd mótist af því hvað þarf að gera í fræðslu og forvörnum og hverjir hafa burði til þess að taka að sér ákveðin hlutverk, hlutverk sem ráðist, eins og ég sagði áðan, af möguleikum þeirra og sérstöðu.

 1. Breytt viðmið forvarnasjóðs

Verði haldið áfram á þeirri braut sem þróunin á þessari mynd sýnir dregur smátt og smátt úr mætti og hugsanlega áhuga almannasamtaka á vímuvörnum. Það væri miður.

Fyrir liggur veruleg breyting í forvörnum með tilkomu Lýðheilsustöðvar.Við þær breytingar fyndist mér upplagt að endurskoða starfsemi áfengis- og vímuvarnaráðs, sem mun verða felld undir stofnunina, út frá þeim sjónarmiðum sem ég hef sett hér fram. Það sama þyrfti að eiga við um starfsemi forvarnasjóðs.

Sá knappi tími sem ég hef hér til þess að ræða þessi mál gerir það að verkum að margt er hér ósagt sem gæti gert þá mynd, sem ég er hér að draga upp, fyllri. Ég vil í lokin setja fram hugmynd um hvernig forvarnasjóður gæti hagað og skilgreint úthlutun sína til þess að vinna í þeim anda sem ég er hér að kynna.

Forvarnasjóður skipti úthlutunarfé sínu í þrjá flokka:

 1. Skilgreindir þjónustusamningar (70%)
 2. Þróunarverkefni (20%)
 3. Verkefnastyrkir (10%)
 1. Ég hef áður rætt um hlutverk þjónustusamninga og bæti hér engu við nema því að taka verður tillit til þess að forvarnir eru langtímaverkefni sem ekki má þröngva inn í skammtíma verkefnahugsun. Sú verkregla forvarnasjóðs að styrkja einungis verkefni er í andstöðu við eðli þessa málaflokks.
 2. Þróunarverkefni hef ég einnig aðeins minnst á, en styrkir þeirra hefðu það að markmiði að þróa hugmyndir og leiðir í forvörnum sem ætlunin væri að fella að og festa í sessi í starfi stofnana og félagasamtaka í víðu samhengi.
 3. Verkefnastyrkir hefðu að markmiði að láta reyna á og koma á legg afmörkuðum hugmyndum eða taka á mjög sértækum aðstæðum.

Tímans vegna er framsetning hugmynda minna stuttaralegri en ég hefði kosið. Ég þakka hins vegar fyrir tækifærið til þess að reifa þær við ykkur hér. Framundan eru breytingar á fyrirkomulagi stjórnvalda í áfengis- og vímuvörnum með tilkomu Lýðheilsustöðvar og því rétti tíminn til þess að endurmeta það sem gert er í þessum efnum nú. Ég minni á klásúlu í lögum um Lýðheilsustofnun um hlut almannasamtaka og vona að hún verði ekki orðin tóm þegar kemur að framkvæmdinni.

Þar segir að styðja skuli starfsemi stofnana og frjálsra félagasamtaka til eflingar lýðheilsu. Einnig að: Lýðheilsustöð sé heimilt, í samráði við ráðherra, að semja við aðra um að sinna starfsemi sem stöðinni er falið að annast samkvæmt lögum eða
reglugerðum.

Forvarnir þurfa að vera í stöðugri endurskoðun í takt við tímann og samfélagsbreytingar. Það geta almannasamtök tekið að sér ekkert síður en stjórnvöld.

Ég óska styrkþegum forvarnasjóðs og viðtakendum viðurkenninga áfengis- og vímuvarnaráðs til hamingju og óska þeim góðs árangurs og velfarnaðar í starfi.

Þakka ykkur fyrir gott hljóð.

Í umræðum um skaðsemi fíkniefnaneyslu er mest áhersla lögð á heilsufarsþætti, s.s. líkamlegan skaða, sjúkdóma og dauðsföll, sem að einhverju marki er hægt að mæla í tölum. Minna er rætt um hin félagslegu áhrif neyslunnar, s.s. áhrif á skólagöngu, skuldasöfnun og álag á fjölskyldur neytenda.

Unglingar sem byrja að drekka ungir leiðast frekar út í neyslu annarra vímuefna

Í rannsóknum hér á landi hefur komið í ljós að því fyrr sem unglingar hefja neyslu áfengis því lakari verður námsárangur þeirra við lok grunnskóla. Þær leiða einnig í ljós að unglingar sem byrja að drekka ungir eru líklegri en hinir sem byrja síðar til þess að leiðast út í neyslu annarra vímuefna þegar fram í sækir. Staða þessara unglinga er í alla staði síðri en annarra, þeim líður verr í skóla og þeir hafa litla skuldbindingu við námið. Þetta getur svo orðið til þess að nemendur missa sjónar á tilgangi námsins, hætta að undirbúa sig fyrir kennslustundir, skrópa í tímum, lenda ,,upp á kant” við kennarana og frammistaða þeirra verður lakari. Nemendur sem lenda í slíkum vítahring eiga það á hættu að detta út úr skólakerfinu strax á grunnskólaaldri.

Hafa verður í huga að námsárangur og líðan í skóla ræðst ekki eingöngu af þáttum innan skóla, heldur að verulegu leyti af þáttum utan skólans sjálfs, af því umhverfi sem unglingarnir lifa og hrærast í. Erfiðleika í skóla og námi má því einnig rekja til þroska- og hegðunarfrávika, vanda heima fyrir og erfiðra uppeldisaðstæðna. Þessir þættir geta svo spilað saman með ýmsu móti.

Erfitt líf utan skóla

Erfiðleikar í skóla, og sérstaklega ef nemendur flosna frá námi, geta orðið til þess að unglingarnir verða berskjaldaðri fyrir áhrifum og viðhorfum sem beinast gegn ,,hefðbundnu” líferni. Festan og hin félagslegu tengsl sem fylgja skólagöngu eru ekki lengur fyrir hendi. Þeir leita því á önnur mið sem oft einkennast af neyslu vímuefna

Erfiðleikar í grunnskólagöngu tengjast því mjög að unglingar heltast úr framhaldssnámi. Íslenskar rannsóknir leiða í ljós að hagir og líðan ungmenna sem ekki stunda nám við framhaldsskóla eru síðri en þeirra ungmenna sem stunda nám í framhaldsskólum og vímuefnaneysla þeirra er meiri.[1] Það er því mikið áhyggjuefni að unglingar hverfi frá námi í grunnskóla og staða unglinga sem ekki stunda framhaldsskólanám er lakari en hinna. Nauðsynlegt er að taka sérstaklega tillit til þessa í forvarnastarfi.

Álag á fjölskyldur, örvænting og upplausn

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þær þjáningar sem foreldrar og fjölskyldur ungmenna sem ánetjast fíkniefnum ganga í gegnum. Að horfa upp á börn sín hverfa frá námi og missa fótanna í lífinu er óbærilegt. Foreldrar gera hvað þeir geta til þess að sporna gegn þessu en reynist erfitt. Árekstrar og átök verða svo stundum til þess að barnið leggst út, fer að heiman og hafnar öllum tengslum við fjölskyldur sínar.

Afbrot

Fíkniefnaneysla kostar mikla peninga. Fíkniefnaneytandi sem er orðinn háður efnum á sjaldnast þá fjármuni sem þarf til að kosta neysluna. Þá þarf að leita annarra leiða, s.s. þjófnaða, vændis eða taka lán. Fyrst hugsanlega hjá ættingjum og vinum en þegar ekki er staðið við endurgreiðslur hverfur sá möguleiki. Þá er ekki öðru til að dreifa en undirheimunum.

Vítahringur skuldarans

Í þeim tilgangi að leysa fjárhagsvanda og borga skuldir freistast margir fíkniefnaneytendur til þess að taka lán í undirheimunum eða taka að sér sölu fíkniefna. Ef þeir reynast svo ekki borgunarmenn fyrir skuldinni er vítahringurinn fullkomnaður. Í dópheimum er ekki farin sú leið að senda kurteisleg áminningarbréf til þess að minna skuldarann á að greiða skuld sína hið fyrsta til þess að komist verði hjá frekari innheimtuaðgerðum. Í dópheimum ríkir ógn, kúgun og ofbeldi. Óvægin innheimta beinist ekki aðeins að skuldaranum sjálfum. Ef hann getur ekki borgað er spjótum beint að fjölskyldu og vinum. Hótanir og ofbeldi eru notuð til að knýja fram greiðslu, annað hvort af skuldaranum sjálfum eða fjölskyldu. Þetta hafa margir foreldrar reynt, makar fíkla og ýmis skyldmenni. Foreldrar hafa leiðst inn í undirheimana í tilraunum sínum til þess að koma börnum sínum til bjargar og stundum misst allt. Óttinn við afleiðingarnar kemur í veg fyrir að fólk leiti til lögreglu. Óttast að það eigi von á enn verri útreið ef það gerir það.

Undanfarna mánuði hefur harka og mannvonska undirheimanna verið hér töluvert í umræðunni. Ofbeldismenn, handrukkarar, minna okkur á alvarleika málsins og það líf sem margir fíkniefnaneytendur búa við. Þetta er heimur sem veldur óhug og andúð. Vonandi verður það til þess að við herðum enn betur róðurinn gegn fíkniefnaneyslu.

[1]Svandís Nína Jónsdóttir, Stefán Hrafn Jónsson, Inga Dóra Sigfúsdóttir, Hera Hallbera Björnsdóttir og Bryndís Björk Ásgeirsdóttir (2003). Utanskólarannsókn. Félagsleg staða ungmenna utan framhaldsskóla og samanburðurvið jafnaldra þeirra í framhaldsskólum. Reykjavík:Rannsóknir & Greining.

Meiri nálægð við vímuefni þegar komið er í framhaldsskólann

Við það að hefja nám í framhaldsskóla upplifa margir unglingar sig sem fullorðna. Oft verður nálægð við vímuefni meiri en áður, m.a. vegna aukinna samskipta við eldra fólk og breytt félagslíf. Þá reynir á að geta valið og hafa styrk til að segja NEI! Á framhaldsskólaárunum kemur oft fram hverjir hafa ekki stjórn á neyslu vímugjafa.

Stuðningur og aðhald foreldra afar mikilvægt

Við upphaf framhaldsskólagöngu barna sinna þurfa foreldrar að hafa hugfast að nýnemi er þrátt fyrir allt ennþá barn sem þarf stuðning og aðhald. Foreldrar þurfa því áfram að fylgjast með því sem börn þeirra aðhafast og hverja þau umgangast. Ábyrgð og áhrifamáttur foreldra er enn fyrir hendi, þeir þurfa að setja mörk sem unglingarnir virða. Áfengisneysla og fikt við fíkniefni á unga aldri er mikið hættumerki. Ölvað eða uppdópað barn er í raunverulegri hættu. Mikilvægt er að foreldrar bregðist við slíku. Framtíð barns getur oltið á afskiptum og skilaboðum foreldranna.

Foreldrafélög og forvarnafulltrúar við skólana

Við marga framhaldsskóla hafa verið stofnuð foreldrafélög sem eru vettvangur fyrir umræðu og samstarf foreldra. Forvarnafulltrúar eru starfandi í flestum skólum, þeir hafa umsjón með forvarnastarfi skólanna og eru oft við gæslu á dansleikjum. Foreldrar geta sett sig í samband við forvarnafulltrúa viðkomandi skóla.

Partí og „bjórkvöld“

Ungmenni undir lögaldri ættu aldrei að bjóða upp á eða taka þátt í partíum án þess að fullorðinn aðili sé á staðnum. Við slíkar aðstæður koma oft upp ýmis mál sem ungmennin ráða ekki við að leysa. Undanfarin ár hafa svokölluð bjórkvöld framhaldsskólanema rutt sér til rúms. Slíkar uppákomur eru EKKI á vegum framhaldsskólanna sjálfra eða nemendafélagsins. Þær eru skipulagðar af nokkrum nemendum og veitingastöðunum sjálfum. Stjórnendur framhaldsskóla, forvarnafulltrúar og lögregla hafa reynt að koma í veg fyrir að bjórkvöld séu haldin.

Því seinna…því betra!

Það er mikilvægt að leggja áherslu á að seinka upphafi neyslu vímugjafa hjá ungu fólki. Hvert ár eða mánuður, sem líður án þess að ungmenni byrji að fikta við vímugjafa, er dýrmætur tími. Því seinna – því minni líkur á vímuefnavanda síðar á ævinni, brotthvarfi úr skóla og ýmsum erfiðleikum. Sumir leggja jafnvel til að foreldrar verðlauni börn sín ef þau eru vímugjafalaus t.d. 18 ára eða um tvítugt. Gleymum ekki að alltaf eru nokkrir sterkir unglingar sem taka þá ákvörðun að neyta ekki vímugjafa. Þeir sýna sterkan persónuleika. Það er ekki sjálfsagt að allir velji að nota vímugjafa. ÞAÐ ER KÚL AÐ VERA KLÍN!!

Árni Einarsson og Sigríður Hulda Jónsdóttir skrifa opið bréf til foreldra nýnema í framhaldsskólum

Höfundar hafa umsjón með forvarnaverkefni menntamálaráðuneytisins í framhaldsskólum.

Árni Einarsson

Sigríður Hulda Jónsdóttir

Hver stund og hvert augnablik felur í sér í senn upphaf og endi í straumi tímans. Allt er breytingum undirorpið þó e.t.v. megi líka segja að ekkert sé nýtt undir sólinni. Að það sem við gerum í dag sé aðeins endurtekning á því sem við gerðum í gær að því viðbættu að lítið eitt hafi bæst í þekkingar- og reynslusarpinn. Tækifærin felast við hvert fótmál. Sum nærtæk en önnur langsótt. Það er í höndum okkar hvers og eins eða saman að grípa þau. Þau eru efniviðurinn sem árangurinn er spunninn úr.

Það er stundum talað um að mikilvægt sé að laga sig að breytingum sem verða, fylgja straumnum, annars eigi maður á hættu að verða gamaldags og úreltur, eða fúnkeri ekki í samtímanum. Það sé um að gera að vera nógu fljótur að skipta um gír til þess að sitja ekki eftir eða missa af hlutunum. Það mætti stundum halda að breytingarnar sem vissulega verða hellist stjórnlaust yfir okkur eins og náttúruhamfarir sem við komum hvergi nærri við að móta og eigum enga hlutdeild í.

Bindindismenn þekkja þessa stöðu ágætlega og spegla sig í henni. Í samfélagi þar sem áfengisneysla verður sífellt sjálfsagðari, almennari og meiri að magni til standa þeir frammi fyrir því hvort sú ákvörðun þeirra að drekka ekki áfengi sé til merkis um að þeir séu gamaldags, úreltir og að þeir passi ekki inn í samfélagið, fitti ekki inn, eins og kannski má segja á unglingamáli. Hvers vegna að vera að leggja það á sig að temja sér siði sem einungis fáir aðhyllast; Er ekki miklu einfaldara og léttara að gera bara eins og meirihlutinn?

Sú staða að tilheyra minnihluta kann að ala á vanmetakennd. Maður fari hjá sér fyrir að vera ekki eins og meirihlutinn eða efist jafnvel um réttmæti þess sem maður hefur ákveðið eða valið. Þá reynir á undirstöðurnar, trúna á réttmæti þess sem maður er að gera, trúna á að það skipti máli og trúna á að mögulegt sé að koma einhverju til leiðar með því sem maður er að gera.

Ég ætla ekki, á þessum stutta tíma sem ég hef með ykkur hér, að leggjast í heimspekilegar pælingar um grundvöll bindindissemi eða forsendur forvarnastarfs en finnst það sem ég var hér að nefna eiga ágætlega við um stöðuna og aðdraganda þess að við nokkur úr röðum bindindismanna veltum fyrir okkur framtíð bindindis- og forvarnastarfs. Árangurinn af þeim vangaveltum var svo stofnun Samstarfsráðs um forvarnir snemma árs 2003.

Sex starfandi bindindissamtök á Íslandi gerðu með sér og undirskrifuðu 27. maí 2003 yfirlýsingu um aukið samstarf í forvörnum og áfengis- og bindindismálum. Barnahreyfing IOGT-B, Bindindisfélag ökumanna BFÖ, Bindindissamtökin IOGT á Íslandi , Íslenskir ungtemplarar  ÍUT, Samvinnunefnd skólamanna um bindindisfræðslu SSB, Ungmennahreyfing IOGT-U.

Samkomulagið verður endurskoðað fyrir árslok 2004 og tekin ákvörðun um áframhaldandi samstarf að endurskoðun lokinni.

Samstarfsráði um forvarnir er ætlað að vera samstarfsvettvangur íslenskra bindindisfélaga og samtaka og sameiginlegur málsvari þeirra gagnvart stjórnvöldum þegar það á við.

Samstarfsyfirlýsing

– Neysla áfengis og annarra fíkniefna snertir öll svið samfélagsins. Henni fylgir tjón, hvort sem miðað er við efnahagsleg eða mannleg verðmæti.
– Bindindissamtök vilja efla menningu sem hafnar áfengi og öðrum fíkniefnum. Þau telja neyslu slíkra efna standa í vegi fyrir heilbrigðu mannlífi á mörgum sviðum. Samdráttur í neyslu fíkniefna leiðir því til aukinna framfara.
– Bindindissamtök hafa sérstöðu meðal þeirra samtaka sem vinna gegn neyslu fíkniefna. Félagsmenn þeirra haga lífi sínu í samræmi við þá stefnu sem þeir halda fram í fíkniefnamálum.
– Bindindissamtök vinna að því að móta viðhorf og lífsvenjur þar sem fíkniefnum er hafnað. Þau leggja áherslu á að draga sem mest úr heildarneyslu áfengis og annarra fíkniefna, en þá minnkar tjónið sem þessi efni valda.
-Með félagsstarfi sínu og fordæmi leggja bindindissamtök menningarlegan grundvöll að samfélagi og umhverfi án áfengis og annarra fíkniefna. Samskipti og lífsvenjur þar sem þessum efnum er hafnað eru styrkt bæði í daglegu lífi og félagslífi. Stofnaðilar

Árið 2004 gerði Samfo samning við þrjú ráðuneyti um verkefni á sviði vímuvarna. Samningurinn var til þriggja ára og skyldi Samfo fá 10 millj. árlega til þessara verkefna gegn því að leggja jafnháa upphæð á móti. Nú er upp runnið síðasta ár þessa samnings og unnið að því að fá ráðuneytin þrjú til þess að gera nýjan samning til jafnlangs tíma. Hvort það gengur eftir veit ég ekki. En ég tel að það væru mikil mistök af hálfu stjórnvalda að taka ekki í útrétta hönd okkar. Ekki til þess að veita okkur einhverja ölmusu, heldur til þess að gera okkur kleift að bæta íslenskt þjóðlíf og efla mannlíf á Íslandi. Það er hugsunarháttur sem stjórnvöld verða að temja sér. Við höfum ekki sett þau til þess að deila og drottna, heldur til þess að byggja upp samfélagið í umboði okkar og eftir þeim leikreglum sem við teljum bestar og farsælastar. Stjórnvöld ættu því frekar að grípa í höndina full þakklætis fyrir góðan vilja og ásetning um að vinna gegn áfengis- og vímuefnavanda, en slá á hana á þeirri forsendu að engir peningar séu í kassanum eða að þeim hafi þegar verið ráðstafað.

Mörg verkefni hafa orðið til fyrir tilverknað þessa samnings og hefur áhersla verið lögð á að þau styrktu innviði aðildarfélaga Samstarfsráðsins og eflu starfið. Önnur verkefni hafa haft að markmiði að afla sjónarmiðum bindindismanna fylgi, bæði meðal annarra félagasamtaka og stjórnmálamanna. Einnig verkefni sem hafa að markmiði að vekja athygli almennings á ýmsum áhrifum áfengis- og vímuefnaneyslu á einstaklinga, fjölskyldur og samfélag.

Reynslan af Samfo hefur verið góð en tímabært er að endurmeta fyrirkomulag þess. Í leiðinni finnst mér að aðildarfélögin ættu að gera slíkt hið sama varðandi sín mál og uppbyggingu. Er ekki tímabært að við endurmetum öll okkar mál með það að markmiði að efla og styrkja það sem við höfum og taka sem virkastan þátt í að móta framvinduna í stað þess að sitja og láta hana yfir okkur ganga hvort sem okkur líkar betur eða ver. Markmiðin sem lágu til grundvallar stofnunar bindindissamtaka á sínum tíma eru jafn góð og gild og þá, þörfin er jafn brýn eða brýnni og þekkingin á öllum hliðum áfengis- og vímuefnamála er meiri en var og fellur öll okkar megin. Rannsóknarniðurstöður staðfesta það sem bindindismenn hafa alltaf sagt.

Við getum hins vegar velt því fyrir okkur hvort tækin, eða aðferðirnar, sem við notum standist jafnvel tímans tönn og séu í takt við þær samfélagsbreytingar sem orðið hafa. Það er hið stöðuga viðfangsefni okkar og verður að vera. Ekki til þess að rjúka til og breyta til þess eins að breyta, heldur til þess að halda vöku okkar og endurnýja trúna á það sem við erum að gera. Við þá vinnu þarf hugrekki, hugrekki til þess að sleppa því sem maður hefur og þekkir og grípa í eitthvað sem maður veit ekki vel hvert leiðir mann. Það þarf hugrekki til þess að ganga á vit óvissunnar.

Ágætu landsþingsfulltrúar.

Við erum öll meira eða minna sammála um grundvöllinn fyrir starfi bindindissamtaka. Með okkur bærist löngunin til þess að hafa áhrif á samfélagið og bæta mannlífið. Við erum ekki endilega sammála um hversu langt við viljum ganga til þess að hafa áhrif. Þar getur forgangsröðin verið mismunandi. Erum við t.d. tilbúin til þess að láta afstöðu frambjóðenda til sveitarstjórna og Alþingis ráða atkvæði okkar í kosningum og veita þeim brautargengi sem vilja það sama og við, eða látum við önnur sjónarmið ráða og stillum okkur á bak við þá sem við vitum að munu vinna gegn sjónarmiðum okkar í áfengis- og vímuefnamálum. Forvarnastarf er í eðli sínu pólitískt. Í því felst hugmynd um fyrirkomulag eða ástand sem við teljum æskilegt og eftirsóknarvert. Í því felast ýmis álitamál sem varða samfélagið, réttarfar og persónufrelsi. Það er því eðlilegt að tekist sé á um margt sem snýr að forvarnastarfi. En þetta þekkið þið allt á eigin skinni.

Ég vil í lokin segja þetta.

Það er á brattan að sækja fyrir hugmyndina um albindindi á tímum þegar áróður fyrir áfengisneyslu gegnsýrir alt í kringum okkur.  Það er erfitt að halda úti ýmsum takmörkunum á verslun, dreifingu og áróðri fyrir áfengis- og vímuefnaneyslu á tímum þegar allt á að vera frjálst og leyfilegt. Það er erfitt að halda úti félagsstarfi á tímum offramboðs á afþreyingu og tómstundastarfi.

Það er líka erfitt að horfa upp á það mein sem áfengi og önnur vímuefni er í samfélaginu. Það er erfitt að horfa upp á ungt fólk missa fótanna í lífinu vegna neyslu; það er erfitt að sætta sig við dauðaslys í umferðinni vegna ölvunaraksturs. Það er erfitt að sitja hjá þegar þörf er aðgerða.

Ég sagði í upphafi að tækifæri fælust við hvert fótmál. Sum nærtæk en önnur langsótt. Ég segi aftur: Það er í höndum okkar hvers og eins eða saman að grípa þau. Hvort það tekst fer eftir því hvort við verjum tímanum í að horfa til baka, beint á tærnar á okkur, eða fram á veginn. Ég vil líka segja að það fer enginn lengra en hann ætlar sér.

Árni Einarsson

Það er ánægjulegt að hugað sé að hlutverki félagasamtaka í forvörnum. Félagasamtök framleiða ekki vörur og þjónustu á markaði í hagnaðar­skyni fyrir eigendur sína. Þau starfa af hugsjónaástæðum,  gegna marg­víslegum hlutverkum við að uppfræða almenning, halda á lofti málstað ein­stakra þjóðfélags­hópa, efla menningar- og listalíf eða inna af hendi samfélags­þjónustu. Félagasamtök yfir höfuð eru því engin afgangsstærð í samfélaginu þótt þau séu ekki til daglegrar umfjöllunar í fjölmiðlum nú á tímum efnishyggju; þvert á móti sinna félagasamtök verðugum samfélagsmarkmiðum og þjóna margvíslegu og mikilvægu hlutverki sem mér finnst oft á tíðum vanmetið.

Hluti af ástæðunni fyrir því kann að vera sú að við tökum tilvist og starfsemi félagasamtaka svo sjálfsagða að við leiðum hugann lítið að því hvaða þýðingu þau hafa. Nánast daglega varðar starfsemi félagasamtaka líf okkar á einhvern hátt, s.s. starf íþróttafélaga, ýmissa æskulýðsfélaga, foreldrafélaga o.s.frv. Við göngum að starfsemi þessara samtaka og félaga sem vísri, en leiðum líklega sjaldan hugann að mikilvægi þeirra, hlutverki og vinnuframlagi hundruða eða þúsunda fólks og ómældum vinnustundum sem lagðar eru fram endurgjaldslaust af félagsfólki þeirra. Það væri kannski fyrst ef þessi samtök hættu störfum og hyrfu af vettvangi að mikilvægi þeirra kæmi í ljós. Í það minnsta má ljóst vera að nyti félagasamtaka ekki við yrðu opinberir aðilar í ríkari mæli að koma beint að fjár­mögnun og framkvæmd ýmissa samfélagslegra verkefna sem nú eru að miklu leyti í höndum félagasamtaka. Ég leyfi mér því að halda því fram að opinberar fjárveitingar til félagasamtaka beri að skoða sem sjálfsagt framlag til félagslegra verkefna, verkefna í höndum félagasamtaka. Fjárveitingar til félagasamtaka geta auk þess ýtt undir að viðkomandi þjónusta yrði veitt í ríkari mæli en ella.

Samfélagsleg hlutverk félagasamtakanna og mörg verkefni eru vel sýnileg og augljós. Nægir að nefna líknarfélög, hjálparsamtök og björgunarsveitir í því sambandi. Þótt starfsemi þessara félaga beinist oft að einstaklingum, sem njóta beinnar þjónustu, þá hefur samfélagið hag af því að vanda­mál þeirra séu leyst. Félagasamtök geta t.d. beitt sér fyrir því því að losa einstaklinga úr fátæktar­gildrum, en allt samfélagið hefur hag af minnkandi fátækt. Annað dæmi gæti verið samtök sem vinna að vímuvörnum, en allt samfélagið hefur hag af því að vímuefnavandanum sé sem mest haldið niðri.

Til eru fræðimenn sem halda því jafnvel fram að félagasamtök séu betur til þess fallin að leysa líknarmál heldur en opinberir aðilar[1]; þau leysi málin oft á hagkvæmari hátt, séu ekki jafn yfirþyrmandi og ágeng eins og opinberum aðilum hættir til að vera, og séu skapandi í leit að úrræðum og lausnum – að samkeppnin um stuðningsaðila ýti undir frumkvæði og nýsköpun.

Félagasamtök á Íslandi eru fjölmörg og fjölbreytileg og eiga sér mjög ólíkan tilverugrundvöll. Þeim má skipt í ýmsa flokka, s.s. eftir því hvort þeim sé eingöngu ætlað að sinna og efla hag félagsfólks, eða hvort þeim sé ætlað víðtækara og flóknara hlutverk. Í fyrri flokkinn, hagsmunafélög félagsmanna[2], falla m.a. húsfélög, stéttarfélög og félaga­starfsemi atvinnuvega og vinnuveitenda. Seinni flokkurinn, almannaheilla­samtök[3], nær yfir félög sem vinna á einhvern hátt að bættum hag ótiltekins fjölda manna, annarra en þeirra sem reka og stýra félaginu, svo sem líknarfélög, trúfélög, neytenda­félög, fræðslu- og menningar­samtök. Það sem einkennir þau félög er að hagsmunir einstaklinga ráða þar ekki öllu, þótt vissulega njóti einstaklingar ávinnings af baráttu og starfi ýmiss þessara samtaka.

Verkefnum og hlutverki félagasamtaka má vafalaust skipta upp og flokka með öðrum hætti. Nefna má að Alþjóðabankinn skiptir félagasamtökum í tvo meginflokka eftir því í hve ríkum mæli þau eru baráttusamtök annars vegar, og hins vegar eftir því hve mikla samfélagslega þjónustu þau veita. Það gæti vafalaust verið gagnlegt fyrir okkur sem vinnum á vettvangi félagasamtaka að skilgreina starf samtaka okkar á þessum forsendum. Að hve miklu leyti eru samtök okkar baráttusamtök og hver eru þá helstu baráttumálin og að hvaða leyti eru samtök okkar þjónustusamtök? Hefur aukið þjónustuhlutverk e.t.v. dregið úr okkur baráttutennurnar? Erum við hugsanlega orðin of skuldbundin stjórnvöldum í gegnum styrkjakerfi og þjónustusamninga til þess að geta gagnrýnt þau af einhverjum þunga þegar tilefni er til? Er starf okkar e.t.v. frekar fólgið í að framfylgja stefnu og markmiðum stjórnvalda en að berjast fyrir umbótum og þörfum breytingum?

Í sagði áðan að mér fyndist hlutverk félagasamtaka oft vanmetið. Það er kannski að breytast. Geir Haarde forsætisráðherra sagði í ræðu á Alþingi í gær að efla þyrfti starf frjálsra félagasamtaka og treysta samstarf þeirra við ýmsar félagslegar stofnanir. Per Unckle, fyrrverandi framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, sagði á ráðstefnu í Stokkhólmi (Baltic Sea NGO forum) í október á síðasta ári:

„Frjáls félagasamtök skipta gífurlega miklu máli í okkar lýðræðissamfélagi vegna þess að þau setja á dagskrá mikilvæg mál sem skipta stóra hópa í samfélaginu máli og einnig vegna þess að þau eru vettvangur borgaranna til þess að hafa áhrif á samfélagsþróunina.” Og Heidi Grande Røys samstarfsráðherra Noregs sagði á sömu ráðstefnu að með því að gefa félagasamtökum tækifæri til að starfa og þróast væri borgaralegt samfélag eflt og stuðlað að uppbyggingu lýðræðis.

Hér erum við komin að þeim þætti í mikilvægi félagasamtaka sem er ekki jafn sýnilegur og sá þáttur sem snýr að baráttu- og þjónustuhlutverkinu. Þetta er sá þáttur sem felst í eflingu félagsauðs og þar með styrkingu lýðræðisins sem við látum okkur svo annt um, a.m.k. í orði kveðnu. Ég leyfi mér að kalla þetta hlutverk vöggu lýðræðisins, hvorki meira né minna. Félagsamtök eru vettvangur þar sem við æfum okkur í þeim grundvallarleikreglum sem lýðræðið byggir á. Æfum okkur í að ræða hlutina í návígi, takast á um skiptar skoðanir, leita samstöðu, leggja línur um leiðir og framkvæmd verkefna sem ákveðið er að ráðast í. Á þessum vettvangi æfum við okkur í að halda úti smættaðri mynd af þjóðfélagskerfinu sem við búum við, kjósum stjórn, skiptum með okkur verkum, skilgreinum ábyrgð, ráðum starfsfólk ef svo ber við o.s.frv.

Hugtakið félagsauður (social capital) sem ég nefndi hér áðan kemur nú í auknum mæli fyrir í umræðu og umfjöllun opinberra aðila, s.s. sveitarfélaga, sjálfboðasamtaka og jafnvel fyrirtækja og hugtakið félagsauður er víða um lönd tekið í vaxandi mæli inní stefnumörkun stjórnvalda og rannsóknir fræðimanna. Það er skilgreint sem verðmæti vegna áhrifa þeirra félagstengsla sem einstaklingar mynda í fjölskyldum, vinahópum, vinnustöðum, félagasamtökum ofl. Verðmæti eða auður vegna þeirra margvíslegu jákvæðu áhrifa sem það getur haft á velsæld og hagsæld einstaklinga sem samfélaga. Litið er á ,,social capital“ sem auðlind samfélaga með sama hætti og efnislegan auð (physical- capital) og mannauð (human-capital). Hér er hlutverk félagasamtaka mikilvægt.

Hlutverk og mikilvægi félagasamtaka fer held ég síður en svo minnkandi. Mörg af þeim réttinda- og velferðarmálum sem áður var barist fyrir á þeim vettvangi hafa náð fram að ganga, verið lögfest og stjórnvöld tekið upp á sína arma. Ný baráttumál hafa bæst við, s.s. ýmis mál sem snúa að umhverfismálum og náttúruvernd. Félagasamtaka bíður að taka að sér vaxandi þátt í þróun og viðgangi lýðræðis í samfélaginu. Þeirra bíða margvísleg verkefni á sviði heilbrigðis- og félagsmála, við fátækraaðstoð og þróunarhjálp, til stuðnings ungum og öldruðum, svo fátt eitt sé nefnt. Þá tel ég að félagasamtök öðlist nýtt mikilvægi með auknum styrk markaðsafla, vera vettvangur og vörn borgaranna gagnvart ásælni þeirra og sérhagsmunum. Þá hefur þjónustuhlutverk félagasamtaka á ýmsum sviðum farið vaxandi og stjórnvöld, bæði á landsvísu og á sveitarstjórnarstigi, eru farin að gera samstarfs- og þjónustusamninga við félagasamtök um mismunandi afmarkaða þjónustuþætti. Það er mikilvægt að félagasamtök geti blómstrað og verið þess megnug að sinna sínu mikilvæga hlutverki og taka að sér ný og vaxandi samfélagsleg verkefni.

Hvert er og gæti svo hlutverk félagasamtaka verið í forvörnum eða vímuvörnum? Svar mitt við því er að hluta falið í því sem ég hef sagt hér á undan. Forvarnir snerta flesta grundvallarþætti samfélagsins og varða flestar grunnstofnanir þess. Margt, eða jafnvel flest, sem varðar þróun og viðgang samfélagsins  snertir því í raun forvarnir. Vímuefnavandinn, sem kallar á víðtækar og skilvirkar forvarnir, er þjóðfélagslegt mein sem verður að taka á með öllum tiltækum ráðum. Þar koma félagasamtök heldur betur við sögu.

Lengstum hafa félagasamtök haft frumkvæði  í áfengis- og vímuvörnum á Íslandi. Fyrir meira en hundrað árum reið IOGT á vaðið og var raunar einnig brautryðjandi í meðferðarmálum áfengissjúkra. Síðar bættust aðrir í þennan hóp, Bindindisfélag ökumanna, Samtök skólamanna í bindindisfræðslu, Íslenskir ungtemplarar og fleiri bindindissamtök. Á síðari hluta síðustu aldar bættust SÁÁ, Vímulaus æska, Fræðslumiðstöð í fíknivörnum og ýmis meðferðarsamtök í þennan hóp. Samtök sem starfa að mestu leyti á öðrum sviðum, s.s. íþróttahreyfingin, foreldrasamtök og æskulýðssamtök hafa í auknum mæli farið að sinna markvissum vímuvörnum sem hluta af uppeldis- og forvarnastarfi sínu.

Samhliða þessum aðilum hefur ríkið rekið meðferðarstofnanir og áfengisvarnaráð sem stofnað var 1954 hafði eftirlit með áfengisvarnanefndum sveitarfélaga og því að áfengislögum væri framfylgt. Það ráð var lagt niður þegar nýtt ráð, áfengis- og vímuvarnaráð leysti það af hólmi árið 1998. Nú hefur Lýðheilsustöð tekið yfir starfsemi og hlutverk áfengis- og vímuvarnastarfs. Í nokkra áratugi hefur grunnskólum verið ætlað forvarnahlutverk með reglugerðum og lögum og í ýmsum lögum,s.s. barnaverndarlögum, eru stefnumarkandi ákvæði eða fyrirmæli sem snúa að forvörnum.

Saga vímuvarna á Íslandi er því orðin nokkuð löng og snertir marga þætti í samfélaginu en hefur alla tíð einkennst af frumkvæði og virkni almannasamtaka með þeim ágæta árangri að áfengisneysla Íslendinga er með því minnsta sem þekkist í heiminum og staða okkar varðandi önnur vímuefni er ekki svo slæm í samanburði við nágrannaþjóðir. Hið sama má segja um tóbaksvarnir. Þar hafa krabbameinsfélögin farið fyrir (með þátttöku ríkisins síðustu ár) og náð frábærum árangri.

Hlutverk félagasamtaka í vímuvörnum felst í fyrsta lagi í því að berjast fyrir úrbótum og kalla eftir árangri í baráttunni gegn vímuefnavandanum. Hér á ég bæði við stefnu og leiðir. Í því þarf bæði að beina spjótum inn á við, til borgaranna, til fólksins í landinu og til stjórnvalda. Hvað þetta varðar eru aðkoma samtaka með ýmsum hætti. Samtök sem leggja fram heildstæða forvarnastefnu, þ.e. áfengis- og vímuvarnapólitík, s.s. bindindissamtökin, setja fram annars konar áherslur en samtök sem sinna öðrum verkefnum, s.s. íþróttastarfi eða foreldrasamstarfi. Það er eðlilegt og skiljanlegt. Síðarnefndu samtökin hafa eðli málsins samkvæmt þrengra sjónarhorn á vímuvarnir, sjónarhorn sem takmarkast við verksvið þeirra og viðfangsefni. Samtök sem hafa eitthvað að segja um markmið og leiðir í vímuvörnum þurfa þó öll að láta rödd sína heyrast, fylkja liði og afla stuðnings við baráttumál sín og stefnu.

Í forvörnum eru ýmis álitamál. Margt í forvörnum varðar t.d. grundvallarspurningar í stjórnmálum og viðskiptum. Dæmi um það er t.d. fyrirliggjandi frumvarp um að leyfa sölu áfengis í verslunum, svo dæmi sé tekið úr líðandi stund. Við getum sjálfagt flest verið sammála um þann fróma ásetning að vinna gegn áfengisvandanum. Um leiðirnar er hins vegar deilt. Þá geta rekist á sjónarmið um hvað líklegast er til árangurs og pólitískir og/eða fjárhagslegir hagsmunir staðið gegn forvarna- og lýðheilsusjónarmiðum. Rannsóknir segja okkur að aukið aðgengi að áfengi auki neyslu áfengis og þar með vandann sem af neyslunni hlýst. Frumvarpið gengur því gegn almannaheill og lýðheilsumarkmiðum. Á móti kemur svo hagnaðarsjónarmið verslunar og viðskipta, jafnvel pólitísk sýn sem gerir lítið úr lýðheilsuþættinum en telur grundvallarviðmið viðskipta og verslunar veigameiri.

Í öðru lagi felst hlutverk félagasamtaka í að skapa sér samræðu- og samstarfsvettvang um forvarnir. Stilla saman strengi þar sem við á og skipta með sér verkum þar sem það á við.

Í þriðja lagi felst hlutverk félagasamtaka í að ráðast í verkefni á sviði forvarna ef þeim er ekki sinnt með öðrum hætti. Standa fyrir fræðslu- og upplýsingastarfi, tómstunda- og félagsstarfi og veita ráðgjöf. Hér geta félagasamtök gert í það minnsta jafnvel og stjórnvöld eða opinberar stofnanir. Félagasamtök ráða sérfrótt og sérmenntað fólk til að sinna sértækum verkefnum, rétt eins og stjórnvöld. Ábyrgð og faglegur metnaður er ekkert síðri.

Hér koma stjórnvöld til sögunnar með fjármagn til starfsemi og verkefna félagasamtaka. Með fjármagni til verkefna og almennrar starfsemi er verið að styrkja undirstöður félagasamtaka og auðvelda þeim að standa vaktina í forvörnum. Þetta á t.d. við um bindindissamtökin. Hljóðni sú rödd sem óhikað hefur beitt sér í stefnumótun í áfengis- og vímuvörnum án tillitis til pólitískra eða fjárhagslegra hagsmuna kann að draga úr einurðinni í þessari baráttu.

Að síðustu vil ég segja þetta. Það er mikilvægt að góð tengsl séu á milli stjórnvalda og opinberra stofnana og félagasamtaka. Það þurfa báðir að virða takmarkanir, möguleika og sérstöðu hins. Samskipti og samstarf á jafnræðisgrundvelli skapar okkur sterkari stöðu og stuðlar að frjórra starfi. Fjölþætt nálgun í forvörnum er kostur en ekki ókostur. Áfengis- og vímuefnavandinn snertir flest svið samfélagsins. Leiðir til úrbóta, forvarnirnar gera það væntanlega einnig.

Árni Einarsson

[1] Belknap, 1977 C. Belknap, The federal income tax exemption of charitable organizations: its history and underlying policy, Research Papers, Taxes vol. IV, Commission on Private Philanthropy and Public Needs, Department of the Treasury, Washington, DC (1977), pp. 2025–2043.

[2] Á ensku er þessi hópur nefndur Mutual Benefit Organizations.

[3] Sambærilegt við enska hugtakið Public Benefit Organization.

Um foreldrasamstarf og forvarnir

Viðtal við Árna Einarsson í Heimili og skóli árið 2009

Forvarnaskólinn, bætt menntun og færni þeirra sem starfa að forvörnum

Árangursríkt forvarnarstarf í grunnskólum er lykilatriði í víðtækum forvörnum og til þess þarf þekkingu og færni. Forvarnaskólinn var stofnaður í janúar 2007. Markmið skólans er að auka þekkingu þeirra sem starfa að forvörnum og auka gæði slíks starfs með því að bjóða upp á skipulagða og skilgreinda fræðslu. Námið er ætlað þeim sem vinna, eða ætla sér að vinna, að forvörnum á ýmsum sviðum, s.s. sveitarfélögum, fyrirtækjum, skólum, félagasamtökum, æskulýðs- og íþróttastarfi, fólki sem starfar við löggæslu, sálgæslu, félagsþjónustu eða tekur þátt í kirkjulegu starfi. Með náminu gefst kostur á að öðlast yfirsýn á stuttum tíma sem annars tæki flesta langan tíma. Námið er alls 150 klukkustundir og spannar fjóra mánuði. 100 klukkustundir eru skipulagðar kennslustundir; 50 klukkustundir eru til heimanáms og verkefnavinnu.

Hvers vegna eru forvarnir mikilvægar?

,,Það er margt í lífsstíl okkar sem beinlínis veldur okkur skaða, rænir okkur heilsu og skerðir lífsgæði. Það góða er að margt, jafnvel flest sem hér um ræðir, er hægt að fyrirbyggja. Þar kemur til kasta forvarna. Það er hins vegar ekki þar með sagt að viðfangsefnið sé einfalt. Í fyrsta lagi þarf að ríkja skilningur og sæmileg samstaða um hvað við viljum fyrirbyggja. Við þurfum að skilgreina vandann og koma okkur saman um að mikilvægt sé að koma í veg fyrir hann. Í öðru lagi þurfum við að setja okkur markmið; koma okkur saman um hvernig við viljum hafa ástandið. Í þriðja lagi þurfum við að koma okkur saman um hvað við ætlum að gera til þess að fyrirbyggja vandann sem við er að fást, velja leiðir. Til þess þurfum við að þekkja og kunna skil á hvað veldur vandanum sem við viljum bregðast við, þekkja svokallaða áhrifaþætti. Það er ekki víst að það gangi þrautalaust fyrir sig að komast að samkomulagi um leiðir þótt við vitum hvaða áhrifaþætti við er að eiga. Forvarnir snúast því ekki síst um siðferðileg gildi okkar sem samfélags og almenna lífssýn. Hvaða mannlegu og félagslegu verðmæti eru það t.d. sem eru okkur svo mikilvæg að við teljum nauðsynlegt að verja þau með öllum tiltækum ráðum?”

– Hvernig tengjast forvarnir siðferðisuppeldi heimila og skóla?

,,Forvarnir koma inn á flest svið lífsins og varða fjölmarga þætti samfélagsins. Við þurfum því að varast trú á einfaldar, afmarkaðar lausnir. Við skulum hafa hugfast að forvarnir felast ekki eingöngu í fræðslu og þekkingu, t.d. á skaðsemi vímuefna, þótt þetta tvennt sé mikilvægt. Árangur í forvörnum byggist á því að vinna markvisst og skipulega á mörgum sviðum. Foreldrar eru í lykilhlutverki í forvörnum í mörgu tilliti, fyrst og fremst, vitaskuld, í uppeldi eigin barna. Það felst t.d. í því hvernig búið er að börnum og lögð rækt við þau tilfinningalega, vitsmunalega og félagslega. Uppeldishlutverk okkar  hvers og eins felst líka í því hvers konar fyrirmyndir við erum börnum okkar og áhrifum okkar á lífsviðhorf þeirra, gildismat og framtíðarsýn. Stuðningur foreldra við tómstundastarf barna er einnig mikilvægur.

Uppeldishlutverk okkar sem foreldra felst líka í ýmsum ákvörðunum sem við tökum í störfum okkar á fjölmörgum sviðum þjóðfélagsins og geta haft mikil og djúpstæð áhrif á börn og ungmenni, okkar eigin og annarra, og ráðið miklu um hvernig þeim farnast. Þetta á ekki síst við um þá sem eru leiðandi í opinberri stefnumörkun og mótandi fyrir samfélagsgerðina. Við þurfum að hafa í huga hagsmuni hverra við erum að tryggja eða verja í ákvörðunum okkar?

Hlutverk og ábyrgð skóla er um margt líkt og foreldra. Nær öll börn ganga í skóla og verja stærstum hluta vökutíma síns innan veggja skóla eða á ábyrgð hans. Aðbúnaður og umönnun starfsfólks skóla eru því meðal mikilvægustu verkefna samfélagsins. Við ætlum skólum, auk heimilanna, að undirbúa börnin okkar fyrir framtíðina, mennta þau og gera þau fær um að sjá fótum sínum forráð og njóta lífsins. Í því starfi eigum við aðeins að sætta okkur við það besta sem völ er á og gera skólunum kleift að sinna hlutverki sínu sem best.”

-Hvernig geta foreldrasamtök tekið þátt í forvörnum?

,,Mikilvægt er að þeir sem sinna forvörnum hafi gott samstarf sín á milli svo að forvarnirnar verði markvissari. Heimili og skóli eru mikilvægir samherjar og samstarfsaðilar um uppeldi barna og ungmenna. Foreldrafélög eru í senn lýðræðislegur samstarfsvettvangur foreldra og samstarfsvettvangur foreldra og starfsfólks skóla. Öflugt foreldrastarf er því eitt af því sem stuðlar að árangri í forvörnum og felur svo margt í sér. Foreldrastarfið er m.a. vettvangur stefnumörkunar þar sem foreldrar koma sér saman um ýmsar áherslur og uppeldisleg gildi. Við getum nefnt útivist barna í því sambandi. Gott samstarf heimila og skóla stuðlar að samræmi í orðum og athöfnum, að skólinn fylgi eftir uppeldisáherslum foreldra og öfugt.”

Árni bendir á að þeir sem nú ráðast til starfa í forvörnum komi að þeim á ýmsum forsendum og með ólíkan bakgrunn. Í því felist bæði kostir og gallar. Kostirnir  kunni að vera þeir að vegna mismunandi forsendna og bakgrunns leiti fólk mismunandi leiða í forvörnum, en gallarnir hins vegar þeir að grundvallarþekkingu skorti, s.s. varðandi áhrifaþætti, stefnumótun og framkvæmd. Náminu í Forvarnaskólanum sé ætlað að koma til móts við þetta og sé viðleitni til þess að bæta menntun og færni þeirra sem starfa að forvörnum.

Sjá viðtalið í blaðinu hér á bls. 38-39..

Lýðheilsa- og forvarnir eru langtímaverkefni. Ávinningur þeirra kemur yfirleitt í ljós á löngum tíma og þar reynir á þolinmæði og skýra heildar- og framtíðarsýn. Því miður skortir nokkuð á að þessu sé til að dreifa hér á landi. Okkur er enn tamt að tala um forvarnir í verkefna- og skammtímasamhengi, s.s. forvarnaátök, forvarnavikur eða forvarnadaga. Frumvarpið um breytingu á áfengislögum sem nú liggur fyrir Alþingi og, að því er virðist, nýtur ótrúlega mikils stuðnings þingmanna, er dæmi um skort á heildar- og framtíðarsýn.

Okkur sem vinnum að forvörnum finnst við stundum tala fyrir daufum eyrum, þegar stjórnmálastéttin er annars vegar og að orðum þeirra fylgi ekki alltaf mikil alvara. Það þýðir þó ekki að forvarnir standi og falli eingöngu með þeim. Við þurfum hvert og eitt að horfa í eigin barm; hvað getum við lagt að mörkum; hverju getum við breytt í okkar eigin lífi og lífsvenjum; erum við góðar fyrirmyndir?

Mikilvægi forvarna ætti öllum að vera ljóst. Talið er að sjúkdómar tengdir lífsstíl kosti heilbrigðiskerfið ríflega hundrað milljarða á ári, eða um 70-80 prósent af því fjármagni sem fer til heilbrigðismála. Fyrir utan kostnaðinn fyrir heilbrigðiskerfið missir þjóðfélagið verðmæta þegna; vegna ótímabærs dauða eða örorku missir samfélagið fólk af vinnumarkaði, fólk sem sinnir sjálfboðaliðastörfum, heimilisstörfum, barnauppeldi og öðrum störfum sem halda samfélaginu gangandi og skapa hagvöxt.

Íslenska heilbrigðiskerfið kostaði 139 milljarða árið 2013. 2,6% af þeirri fjárhæð fór í forvarnir. 0,4% til forvarna utan heilbrigðiskerfisins. 70-80% kostnaðar kemur til vegna langvinnra, lífsstílstengdra sjúkdóma. Íslendingar lifa lengi en verja að meðaltali 14 árum (17% ævinnar) við talsvert eða verulega skerta virkni. 17.000 eru á örorkulífeyri á Íslandi og hefur fjölgað þrefalt hraðar en almenn fólksfjölgun á landinu síðastliðin 15 ár. Það er því augljóslega eftir nokkru að slægjast fyrir samfélagið að bæta hér úr.

Guðmundur Löve, framkvæmdastjóri SÍBS, gerir þessu ágæt skil í SÍBS-blaðinu sem kom út í október 2014. Þar segir hann megináherslu íslenska heilbrigðiskerfisins vera að bregðast við þeim skaða sem þegar er orðinn í stað þess að koma í veg fyrir hann. Hann bendir á að með auknum forvörnum væri hægt að spara gríðarlega fjármuni.

„Það má segja að við höfum náð eins langt og núverandi tækni og peningar leyfa í meðhöndlun sjúkdóma enda er lífaldur Íslendinga hár. Við erum mjög dugleg að halda fólki á lífi en eigum erfiðara með að koma í veg fyrir að langvinnir sjúkdómar vindi upp á sig og dæmi fólk úr leik.“

Viðbragðsdrifna heilbrigðiskerfið fær fertugfalt fjármagn á við forvarnadrifna kerfið. „Þetta er að mörgu leyti óeðlilegt þar sem stór hluti langvinnra sjúkdóma tengist lífsstíl sterkum böndum og hægt væri að koma í veg fyrir þá með markvissum forvörnum. Við gætum notað peninginn betur. Tökum sem dæmi sameiginlegt tryggingarfyrirtæki okkar allra, Sjúkratryggingar Íslands, sem borgar allan sjúkrakostnað. Stofnunin hefur engar heimildir til að fjárfesta í forvörnum til að takmarka sínar eigin útgreiðslur eins og öll önnur tryggingarfélög í heiminum gera.“

Guðmundur segir mikilvægt að líta á heilsufarsskaða á víðari grunni en aðeins út frá dauðsföllum og banvænum sjúkdómum því að í raun sé jafn stórum hluta æviára varið við skerðingu og örorku á Íslandi.

„Við komumst ekki lengur upp með viðhorfið að heilbrigðiskerfið sé verkstæði sem geri við brotna og bilaða líkama og huga. Hagfræðin lítur á mannauð sem langtímafjárfestingu og við verðum að sinna viðhaldi til að halda fólkinu okkar heilbrigðu – að ekki sé nú talað um þá mannlegu þjáningu sem liggur að baki sjúkdómum og dauða.“

Sóknarfærin eru næg og möguleikar samfélags eins og okkar, með sterka innviði, menntakerfi, heilbrigðiskerfi, almenna menntun og almenna velferð, til að gera vel í forvörnum eru miklir. Í öllum þessum kerfum, sveitarfélögum, íþróttastarfi og innan grasrótar- og almannaheillasamtaka eru ótal tækfæri til að vinna á heildrænan og markvissan hátt þess að stuðla að heilbrigði þjóðarinnar. Þar á meðal hvað varðar ávana- og vímuefnaneyslu.

Hlutverk Fræðslu og forvarna er að styrkja og efla forvarnir í landinu með fjölbreyttu upplýsinga- og fræðslustarfi með þekkingu í þágu forvarna að leiðarljósi. Auk þess byggir starf FRÆ á þeirri sýn að forvarnir séu samfélagslegt viðfangsefni; það sé samfélaginu hagfellt að forvarnir skili árangri og til þess að svo megi verða þurfi allt samfélagið að koma að, hvort heldur er stefnumörkun eða framkvæmd.

Þessi sýn fellur vel að þörfum forvarna nú. FRÆ hefur því engu minna hlutverki að gegna nú en þegar miðstöðin var sett á laggirnar fyrir rúmum tuttugu árum. Það er enn þörf fyrir þekkingu í forvörnum, frumkvæði og samstarf.

Reykjavík, 20. janúar 2016.

Árni Einarsson

Lífsins alvara-hugleiðing um mikilvægi heilsueflingar og forvarna

Heilsuefling og heilbrigðir lífshættir eru eitt af mikilvægastu viðfangsefnum samtímans, bæði í pólitísku og efnahagslegu tilliti. Við erum að nálgast leiðarenda í meðferð og viðgerðum í heilbrigðiskerfinu. Við þurfum gagngera hugarfarsbreytingu með þátttöku alls samfélagsins. Það er tímabært að ávinningur heilsueflingar og forvarna verði meira í umræðunni. Góð heilsa er langtímafjárfesting sem skilar sér beint sem fjárhagslegur ávinningur til samfélagsins, að ekki sé talað um þá mannlegu þjáningu sem liggur að baki sjúkdómum og dauða.

Ekki bara gamlir og sjúkir

Þegar varað er við fyrirsjáanlega auknu álagi á heilbrigðiskerfi landa er eðlilega bent á að meðallífslíkur í heiminum eru að aukast. Árið 2013 voru reiknaðar meðalævilíkur við fæðingu í OECD-löndunum 80,5 ár, en ævilíkur í þessum löndum hafa aukist um meira en tíu ár frá árinu 1970. Á sama tímabili hafa ævilíkur Íslendinga við fæðingu aukist úr 74 árum í 82,1 ár.[1]

Með öðrum orðum: Ævi fólks lengist að meðaltali og líkur eru á að þeim sem ná háum aldri fjölgi. Þegar aldurinn færist yfir fer heilsan að bila og þörfin fyrir heilbrigðisþjónustu eykst. Því verður ekki mótmælt.

Þörfin fyrir heilbrigðisþjónustu og kostnaður samfélagins vegna vanheilsu er þó ekki bundin við aldur. Ýmislegt fleira kemur til. Kyrrseta fólks (hreyfingarleysi hefur aukist), mataræði er ábótavant, sykurneysla er óhófleg og notkun ýmissa heilsuspillandi efna, s.s. tóbaks, áfengis og annarra vímuefna er útbreidd.

Þessu fylgir mikið álag á heilbrigðiskerfið með tilheyrandi kostnaði. Vissulega viljum við öll gott og traust heilbrigðiskerfi sem er til staðar þegar við þurfum á að halda. Það hefur samt sín takmörk og ekki endalaust hægt að bæta í. Þá kemur til kasta heilsueflingar og forvarna.

Ábyrgðin er okkar

Stærstan hluta vanheilsu fólks má rekja til lífsstíls (að mati Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar), þ.e. byggist á vali og ákvörðunum fólks um hvernig það hagar lífi sínum. Ofþyngd, háþrýstingur, há blóðfita, hár blóðsykur ýmsir hjarta- og æðasjúkdómar og krabbamein eru allt dæmi um þetta. Það jákvæða er hins vegar að úrbæturnar liggja hjá okkur sjálfum. Það er ekkert náttúrulögmál að hafa þetta svona. Við getum breytt þessu. Ábyrgðin er okkar, hvers og eins, og saman. Til þess að ná árangri þurfum við líklega umfram allt samstilltan vilja, einhug, þar sem allir leggja sitt að mörkum. Stjórnvöld, félagasamtök og einstaklingar hafa þar hlutverk, hver á sinn hátt. Við þurfum að hugsa heildrænt, samræma og sérhæfa eftir þörfum. Við þurfum fræðslu og hvatningu um heilbrigðan lífsstíl, við þurfum að bregðast skjótt við vísbendingum um óheillavænlega þróun, við þurfum að þora að beita neyslustýrandi ráðum, hvort heldur gagnvart heilsueflandi þáttum eða óhollustu og við þurfum gott aðgengi og möguleika til þess að velja heilbrigðan lífsstíl,

Líf og heilsa, stöndum vörð um æviárin

Það er mikilvægt að hafa í huga að þegar talað er um tjón samfélagsins vegna heilsutjóns þá er ekki bara horft til dauðsfalla og taps samfélagsins vegna þeirra. Skoðum þetta aðeins nánar.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin notar mælikvarðann „glötuð góð æviár“ sem mælikvarða á þau æviár sem glatast vegna ótímabærs dauða og örorku til skemmri eða lengri tíma. Tökum sem dæmi: Meðalævi á Íslandi er 86 ár. Ef manneskja fær sjúkdóm fertug og fer á örorku hefur hún glatað 46 góðum æviárum samkvæmt þessum skilningi. Æviárin eru glötuð að því marki að fólk getur ekki tekið fullan, óskertan og sjálfvalinn þátt í daglegu lífi eða á vinnumarkaði. Þessu vilja allir, bæði þeir sem fyrir verða og samfélagið allt, sporna gegn og lágmarka. Hér þurfum við líka að hafa í huga að heilsa er ekki einungis spurning um líkamsástand. Við þurfum einnig að hafa sálræna og félagslega heilsu í myndinni.

Dýrt að vanrækja heilsueflingu og forvarnir

Nú er lögð mun meiri áhersla á að bregðast við heilsuskaða sem þegar er orðinn í stað þess að koma í veg fyrir hann. Við erum mjög fær í að halda fólki á lífi en minna er lagt upp úr að koma í veg fyrir heilsutjón. Það er miður, því að með auknum og markvissum forvörnum væri hægt að spara gríðarlega fjármuni og nota þá betur.

Ótímabær dauði og æviár lifuð við örorku eða sjúkdóm á einu ári á Íslandi kosta samfélagið umtalsverðar fjárhæðir, hugsanlega á bilinu 3-400 milljarða.[2] Það er því eftir miklu að slægjast og hver prósenta dýr. Það er því óeðlilegt að viðbragðsdrifna heilbrigðiskerfið fái fertugfalt fjármagn á við forvarnadrifna kerfið.

Ef við svo horfum til þess að íslenska heilbrigðiskerfið kostaði 139 milljarða árið 2013[3] og 2,6% af þeirri fjárhæð fór í forvarnir, 0,4% til forvarna utan heilbrigðiskerfisins með hliðsjón af því að 70-80% kostnaðar heilbrigðiskerfisins kemur til vegna langvinnra, lífsstílstengdra sjúkdóma, þá verður þessi áhersluskekkja enn skýrari. Við þurfum algera hugarfarsbreytingu.

Sjá greinina í Skinfaxa hér á bls. 47.

[1] Talnabrunnur. Fréttabréf landlæknis um heilbrigðisupplýsingar. 9. árg. 10. tölublað. Nóvember 2015.

[2] Guðmundur Löve: Úr hverju deyjum við. Sótt á internetið 29. febrúar 2016.

[3] Erla Björg Gunnarsdóttir: Lífsstíllinn að drepa landann. Sótt á internetið 29. febrúar 2016.

FRÆ hefur frá stofnun beitt sér í stefnumörkun á ávana- og vímuefnamálum. Fyrir liggur að ýmsir þættir sem varða aðgengi að áfengi og öðrum ávana- og vímuefnum eru meðal áhrifaríkustu forvarnaaðgerða sem hægt er að beita. Þar á meðal er fyrirkomulag á smásölu áfengis. Af þeirri ástæðu hefur FRÆ lagt ríka áherslu á að núverandi fyrirkomulagi í þeim efnum hér á landi verði viðhaldið. Afnám þess fyrirkomulags gemgur gegn öllum þekktum forsendum árangursríkra áfengisvarna og markmiðum í lýðheilsu og til þess fallið að auka áfengisneyslu landsmanna.

Neysla áfengis er talin meðal stærstu áhrifaþátta heilsufarsvandamála og ótímabærra dauðsfalla í heiminum. Neysla áfengis hefur þar af leiðandi umtalsverð áhrif á samfélagið í heild vegna sjúkdómabyrði, beins og óbeins fjárhagslegs kostnaðar s.s. í heilbrigðiskerfinu, félagskerfinu og réttarkerfinu, og í formi óefnislegs tjóns eða miska.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, hefur ítrekað bent á að sjúkdómar vegna áfengisneyslu séu verulegt vandamál. Áfengisneysla hafi mikil áhrif á dánaraldur og sé meiriháttar áhrifavaldur fjölmargra alvarlegra sjúkdóma og líkamsáverka sem unnt væri að draga úr eða koma í veg fyrir með minni neyslu.[1]

Áfengisneysla hefur ekki aðeins í för með sér heilsufarsleg vandamál. Samfélagsleg vandamál tengd áfengisneyslu eru ekki síður áhyggjuefni. WHO hefur auk þess vakið sérstaka athygli á því samfélagsmeini sem áfengisneysla og ölvun ungmenna er, einkum í Vestur-Evrópu.4  Mat stofnuninarrinar er að í aldurshópnum 20-30 ára megi rekja fjórðung allra dauðsfalla til neyslu áfengis.

Þá eru ótaldar afleiðingar fyrir aðra en neytandann sjálfan, bæði félagslegar og heilsufarslegar. WHO telur að gefa þurfi þeim skaða sem áfengisneysla getur haft á aðra en þann sem neytir áfengisins sérstakan gaum og leggja áherslu á að draga úr þessum óbeinu áhrifum áfengisneyslunnar, sem rannsóknir benda til að séu mjög umgangsmikil. Sem dæmi um skaðann sem aðrir geta beðið eru meiðsli, hvort tveggja af ráðnum hug t.d. ofbeldi og manndráp og slysni s.s. umferðaslys og slys á vinnustað, tjón vegna vanrækslu eða misnotkunar, eignatjón og röskun á friði og öryggi.

Rannsóknir sýna að mikil tengsl eru á milli aðgengis að áfengi og neyslu þess, þ.e. að aukið aðgengi leiði til aukinnar neyslu.[2] Því meiri sem neyslan er, þeim mun umfangsmeiri er skaðinn. Öll viðleitni til þess að draga úr eða lágmarka neyslu áfengis er því stuðningur við heilsu einstaklinga, hag fjölskyldna, almenna velferð og dregur úr samfélagslegum kostnaði.[3]

Það er því ekki að ófyrirsynju að sérfræðingar í lýðheilsu og heilbrigðismálum hvetji stjórnvöld um allan heim til þess að taka áfengisneyslu föstum tökum, skilgreini áfengisvarnir sem eitt af forgangsmálum í lýðheilsu og beiti árangursríkum aðferðum til þess að halda neyslu áfengis sem mest niðri.

Einkasala ríkisins á áfengi er dæmi um einfalda leið til þess að stýra aðgengi að áfengi. Miklar líkur eru á að einkasala á áfengissölu dragi úr neyslu og tjóni sem af neyslunni getur hlotist. Þá benda niðurstöður til þess að heildarneysla áfengis aukist verði einkasölunni aflétt. Að takmarka smásölu áfengis við áfengisverslanir sem falla undir almannavald, eins og nú er hér á landi, er hagkvæmur og áhrifaríkur þáttur í áfengisforvörnum.[4

Markaðssetning áfengis er iðnaður á heimsvísu. Áfengi er auglýst í útvarpi, sjónvarpi og í dagblöðum auk þess eru kynningar í verslunum og á Internetinu. Við síendurteknar auglýsingar á áfengi myndast ákveðin jákvæð viðhorf til áfengis og um leið aukast líkurnar á að áfengisneysla aukist.[5]

Áfengisauglýsingar gera ungt fólk móttækilegt fyrir áfengi löngu áður en það hefur aldur til að kaupa það og neyta þess. Sannað þykir að áfengisauglýsingar auki og efli það viðhorf að neysla áfengis sé jákvæð, flott og hættulaus.5

Núverandi fyrirkomulag hefur gefist vel, m.a. með þeim árangri að áfengisneysla Íslendinga er með því minnsta sem þekkist. Góður árangur sem náðst hefur í barna- og unglingadrykkju hefur vakið alþjóðlega athygli og aðdáun. Hann rennir gildum stoðum undir þá áfengisstefnu sem mótuð hefur verið og fylgt á Íslandi. Þessum árangri má ekki stefna í hættu. Mikill stuðningur almennings við núverandi fyrirkomulag á smásölu áfengis sem fram kemur í fjölda viðhorfskannana sýnir að þjóðinni er þetta ljóst.

Reykjavík, 23. febrúar 2018.

Árni Einarsson

[1] Global status report on alcohol and health 2014 (World Health Organization).

[2] European action plan to reduce the harmful use of alcohol 2012-2020.

[3] Global status report on alcohol and health 2014 (World Health Organization).

[4] Alconol: No Ordinary Commodity – Research and Public Policy. Babor o.fl. í endurbættri útgáfu árið 2010. íslensk samantekt.

[5] Árni Einarsson (2004). Börn og unglingar, helsti markhópur áfengisauglýsinga. Áhrif, 1. tbl. 2004.

Forvarnir eru alvörumál!

Ávana- og vímuefnaforvarnir eru lifandi og síkvikt viðfangsefni. Markmið þeirra og inntak er að bæta lífsgæði fólks og firra samfélagið kostnaði sem fylgir ávana- og vímuefnaneyslu. Birtingarform viðfangsefnisins eru ekki ávallt þau sömu og ný þekking á áhrifaþáttum hennar hefur áhrif á þær leiðir sem lögð er áhersla á hverju sinni og ýmsar samfélagsbreytingar kalla á breytta nálgun í forvörnum.

Meðal brýnna verkefna þeirra sem vinna að ávana- og vímuefnavörnum á Íslandi hefur verið að verja það fyrirkomulag á áfengissölu að það lúti samfélagslegri ábyrgð og sé á forræði almannavaldsins, svo og að halda aftur af markaðssetningu áfengis þar sem hvatinn er fjárhagslegur ávinningur á kostnað almannahagsmuna og lýðheilsu. Ítrekað hafa alþingismenn, eða hluti þeirra, lagt fram á Alþingi frumvörp sem hafa að markmiði að heimila sölu áfengis í almennum verslunum. Það er óneitanlega sérstakt að flestar hugmyndir og tillögur sem koma frá þingmönnum og varða ávana- og vímuefni miði að því að grafa undan og leggja af fyrirkomulag sem vitað er að skilar árangri og kemur bæði borgurunum og ríkisrekstrinum vel. Hvort um er að ræða vanþekkingu eða stuðning við aðra hagsmuni en almannahagsmuni er ekki ljóst. Sem betur fer eru þó á þessu undantekningar eins og samþykkt laga um rafsígarettur sem samþykktar voru í júní 2018 og koma til framkvæmda 1. mars 2019. Þótt æskilegt væri að lögin gengju lengra en sátt náðist um í þinginu eru þau samt spor í þá átt að bregðast við stóraukinni notkun rafsígaretta meðal ungmenna og ná tökum á því ástandi sem ríkt hefur í þessum efnum. Það hefur svo komið á daginn að betur má ef duga skal.

Með forvörnum viljum við fækka þeim sem missa ótímabært heilsu sína og fjölga þeim æviárum sem fólk getur notið lífsins við góða heilsu og hámarkað lífsgæði sín. Ávinningurinn af því nýtist bæði einstaklingum og samfélaginu öllu. Á undanförnum árum hefur áhugi á lýðheilsu og forvörnum aukist til muna og þeim fjölgar stöðugt sem átta sig á því að auknu álagi á heilbrigðisþjónustu verður ekki endalaust og eingöngu mætt með auknu fjármagni og uppbyggingu heilbrigðisstofnana til þess að takast á við sjúkdóma og vanheilsu. Þess vegna þurfa forvarnir og heilsuefling að vera forgangsmál stjórnvalda og félagsamtaka sem vinna að almannaheill. Það hagnast margir á því að framleiða, dreifa, selja og hvetja til neyslu ávana- og vímuefna og fleiri skaðlegra efna. Þeir eru meðal stærstu hindrana í því að draga úr eða uppræta neyslu þessara efna og vinna gegn lausnum á þeim skaða sem þau valda. Það er því meðal verkefna FRÆ- Fræðslu og forvarna og annarra sem vinna að heilsueflingu og forvörnum að takmarka eða koma í veg fyrir afskipti þessara aðila af stefnumörkun og forvarnastarfi. Þessi viðleitni mætti að ósekju njóta meiri stuðnings á Alþingi.

FRÆ hefur ekki skilgreint formlega eða metið vægi helstu áhættuþátta í íslensku samfélagi, það er þátta sem ógna lífi okkar, heilsu og velferð. Stærstu áhættuþættirnir sem við stöndum frammi fyrir eru alþjóðlegir eða hnattrænir. Það er nokkuð augljóst að ógnir sem steðja að í umhverfismálum eru þær sem kalla á skjótust og víðtækust viðbrögð og aðgerðir. Lífsvenjur okkar og lífsgæði, eins og við þekkjum þau nú, eru þar að veði. FRÆ hefur hins vegar valið að verja kröftum sínum að lífsstílstengdum heilsufarsáhættuþáttum, það er því sem hefur áhrif á heilsu og velferð fólks og er í mannlegu valdi að stjórna eða hafa markviss áhrif á. Þar er eftir miklu að slægjast, enda áætlað að koma megi í veg fyrir 60-80% lífstílstengdra sjúkdóma og samfélagslegra vandamála sem mannkynið stendur frammi fyrir.

Tilvist og starfsemi FRÆ helgast af samfélagslegri ábyrgð, sé sá skilningur lagður í það hugtak að það sem gert er skili ávinningi til samfélagsins. Aðgerðir sem miða að því að draga úr neyslu ávana- og vímuefna, hverju nafni sem þær nefnast, skila samfélaginu ávinningi. Sá ávinningur snýr bæði að einstaklingum, fjölskyldum og þjóðarbúinu öllu. Starfsemin og reksturinn er óhagnaðardrifinn og öllu fjármagni sem félagið hefur úr að spila er ráðstafað í þágu samfélagsins.

FRÆ byggir starf sitt og tilvist á þeim skilningi að til þess að koma á samfélagslegum breytinga, sem verða á lýðræðislegan hátt, þurfi að vera til staðar öflugir málsvarar þeirra og almenn þátttaka og viðurkenning borgaranna. Þessu reynir FRÆ að ná með víðtæku samstarfi við fjölda aðila, ýmist beint með formlegri aðild eða í gegnum ýmis tengslanet, bæði innanlands og í Evrópu (einkum á hinum Norðurlöndunum). Framkvæmdastjóri FRÆ og stjórnarfólk situr í stjórnum sumra þessara samtaka og tengslaneta til þess að styrkja þessar stoðir enn frekar. Meðal samstarfsaðila eru opinberar stofnanir (á landsvísu og sveitarstjórnarstigi) og félagasamtök sem vinna að forvörnum og eflingu lýðheilsu og eiga þar af leiðandi beina samleið með FRÆ. Einnig aðilar sem vinna að rannsóknum. Þessir aðildar eru margir hverjir bæði notendur þjónustu FRÆ og samstarfsaðilar.

FRÆ leggur áhersla á að fræða og þjálfa þá sem vinna með þeim í daglegu starfi á vettvangi skóla og frístundastarfs og hagnýta þekkingu á áhrifaríkum leiðum. Með því er lagður grunnur að því að forvarnir og heilsuefling séu hluti af skipulögðu uppeldis- og fræðslustarfi í höndum þeirra sem eru í daglegum tengslum við börn og ungmenni í stað þess að vera tilfallandi ,,viðburður“ í lífi þeirra, sem sjaldan eða ekki er fylgt eftir. Með öðrum orðum, áhersla er lögð á að ná til kennara, forvarnafulltrúa og annars starfsfólks grunnskóla, stjórnenda og starfsfólks í íþrótta- og tómstundastarfi og foreldra og auka þekkingu þeirra og færni til þess að sinna forvörnum á sínum sviðum.

Árni Einarsson, framkvæmdastjóri FRÆ

(Byggt á ársskýrslu FRÆ 2019)

Covid-19 faraldurinn, sem hófst í byrjun ársins 2020, hefur sett heimsbyggðina úr skorðum og heldur henni enn í heljargreipum. Endurteknar bylgjur faraldursins sýna ljóslega að ógjörningur er að spá fyrir um lok hans, þrátt fyrir að væntingar um slíkt hafi aukist samhliða almennri bólusetningu sem hafin er um allan heim.

Faraldurinn sjálfur og heilsufarslegar afleiðingar hans, hin víðtæku inngrip í gangvirki samfélagsins og efnahagsleg áhrif hafa sett veruleika okkar úr skorðum. Margt af því sem við áður töldum sjálfsagt og nánast sjálfgefið er það ekki lengur. Jafnvel ómögulegt. Fólk hefur dáið, og deyr vegna faraldursins og missir heilsu. Sumar atvinnugreinar berjast í bökkum, fólk hefur misst atvinnu sína og lífsafkoma fjölmargra er í uppnámi. Samskiptum okkar hafa verið settar ýmsar hömlur og daglegt líf gjörbreyst.

En þótt hinar neikvæðu afleiðingar séu okkur e.t.v. efstar í huga hefur faraldurinn einnig haft jákvæð áhrif. Dregið hefur úr losun gróðurhúsalofttegunda, loftmengun minnkað og viðhorf okkar til ýmissa hluta breyst, sum vonandi til batnaðar. Líklega metum við betur ýmis gæði en áður og faraldurinn opnað augu okkar fyrir ýmsu sem áður var njörvað í viðjar vanans og við sjaldan leitt hugann að. Nýjar leiðir og lausnir hafa verið þróaðar til þess að mæta breyttum aðstæðum og ýmsu sem áður hafði verið á byrjunarstigi eða þróunarferli verið hrint í framkvæmd á stuttum tíma.

Það er enn of snemmt að gera áhrif faraldursins upp. Margt munum við ekki sjá fyrr en að löngum tíma liðnum. Þar á meðal eru áhrif á heilsu okkar, bæði líkamlega, félagslega og geðræna. Við vitum til að mynda ekki hvaða áhrif faraldurinn hefur á notkun ávana- og vímuefna, né heldur viðhorf okkar til þeirra og þess skaða sem þau valda. Við vitum ekki hvernig ýmsir áhrifaþættir ávana- og vímuefnaneyslu munu þróast, svo sem geðheilsa, og skortur á tækifærum, félagslegum og efnahagslegum.

Staðan sem leiddi af Covid faraldrinum hefur haft ýmiss konar áhrif á starfsemi FRÆ. Sérstaklega á möguleika til fræðslu svo sem að halda málþing, námskeið og fyrirlestra. Þessi þáttur starfseminnar hefur raskast mikið vegna samkomutakmarkana. Tekjur FRÆ af þessum þætti starfseminnar eru þar af leiðandi mun minni en áður.

Áhersla hefur verið lögð á að viðhalda tengslaneti FRÆ í gegnum samstarf við önnur félagsamtök. Mikilvægt er að halda þeim tengslum, sem eru einn af hornsteinunum í starfsemi FRÆ. Það sama á við um að nýta möguleika til þess að hafa áhrif á stefnumörkun, til dæmis með því að senda inn umsagnir um þingmál sem varða ávana- og vímuefnamál og forvarnir og virkja aðra til þess að láta sig mörkun stefnunnar í málaflokknum varða.

Forvarnir hafa átt undir högg að sækja hjá stjórnvöldum á síðustu misserum. Íslendingar hafa náð frábærum árangri hvað varðar ávana- og vímuefnaneyslu ungmenna og almenn samstaða ríkt um að taka hana alvarlega og sporna gegn henni eins og hægt er. Þessi góði árangur byggist meðal annars á þeirri stefnu sem fylgt hefur verið á Íslandi hvað varðar aðgengi að og framboð á ávana- og vímuefnum. Stjórnvöld, sem hafa mótun stefnunnar í ávana- og vímuefnamálum í hendi sér, virðast gera sér takmarkaða grein fyrir mikilvægi vandaðrar og heilstæðrar stefnumörkunar á þennan góða árangur.

Þingmál hafa að undanförnu komið á færibandi og flest eiga það sammerkt að hverfa frá stefnunni og auka aðgengi að ávana- og vímuefnum. Meðal slíkra mála eru frumvarp um að heimila vörslu fíkniefna af öllum tegundum, stórauka fjölda sölustaða áfengis með því að heimila framleiðendum sölu áfengs öls beint frá framleiðslustað og afnema bann við heimabruggun til einkaneyslu. Undantekningar frá þessu eru ákvæðu í nýjum umferðarlögum um magn vínanda í blóði ökumanna og áform um að taka fastar á sölu og dreifingu íblöndunarnefna í rafsígarettur og koma böndum á óhefta sölu niktótíns.

Á sama tíma er dregið úr fjárveitingum til Lýðheilsusjóðs.

Af þessu leiðir að þeir, sem vilja standa vörð um þá stefnu Íslendinga sem hefur dugað vel í baráttunni við ávana- og vímuefnavandann, þurfa sem aldrei fyrr að standa vaktina og standa saman. Þar hefur FRÆ í mörg horn að líta.

Liður í starfsemi FRÆ er að koma upplýsingum á framfæri í greinum í dagblöðum, tímaritum og öðrum prentmiðlum. Það er einnig gert í formi viðtala við prent- og ljósvakamiðla.

Ráðgjöf vegna vímuefnavanda

Árni Einarsson, viðtal í Morgunblaðinu 25. júlí 1997

OPNUÐ hefur verið fjölskyldumiðstöð vegna barna í vímaefnavanda í húsakynnum Heilsuverndarstöðvarinnar við Barónsstíg í Reykjavík og er hún opin mánudaga til miðvikudaga klukkan 14 til 18. Fjölskyldumiðstöðin býður foreldrum ráðgjöf og stuðning þeim að kostnaðarlausu. Árni Einarsson veitir þessari starfsemi forstöðu.

Hvers vegna skyldi henni hafa verið komið á?

„Þessari starfsemi er komið á til þess að auðvelda foreldrum að leita sér aðstoðar vegna barna sinna sem þeir telja að séu hugsanlega farin að neyta vímuefna. Foreldrar geta með einu símtali fengið viðtal hjá ráðgjafa og síðar í framhaldi af því unnið frekar með sín mál í svokölluðum foreldrahópum sem starfa undir leiðsögn reyndra ráðgjafa.“

Hefur þetta fyrirkomulag reynst vel annars staðar?

„Þetta verkefni er tilraun sem ekki á sér beina hliðstæðu hér á landi og ég þekki heldur ekki hliðstæðu þessa erlendis. Að þessu verkefni koma margir aðilar, svo sem fólk frá Stuðlum, Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar og Teigi, meðferðarstofnun Landspítalans. Verið er að gera tilraun til að þetta fólk sameini krafta sína til þess að nýta sem best þá víðtæku reynslu sem þarna er fyrir hendi.“

Er aukin þörf á svona starfsemi?

„Já, tvímælalaust. Samfara aukinni áfengis- og vímuefnaneyslu barna og unglinga fjölgar þeim sem missa tök á neyslunni og þarfnast aðstoðar. Þess vegna er mjög mikilvægt að foreldrar og aðrir aðstandendur séu vel á verði og bregðist sem fyrst við telji þeir að eitthvað sé ekki eins og það á að vera.“

Hvernig getur fólk merkt að eitthvað verulegt sé að?

„Það þarf ekki að vera verulegur vandi á ferðum til þess að ástæða sé til að bregðast við. Versnandi gengi í skóla er eitt einkenni, versnandi samskipti við foreldra og aðra heimilismenn er annað. Auknar fjarvistir og/eða aukin peningaþörf er einkenni sem gefa þarf sérstakan gaum. Loks má nefna að breyttur vinahópur og nýir félagar samfara einhverju þessara einkenna sem fyrr eru nefnd er oft vísbending um að eitthvað sé að.“

Hvað hefur gefist best til þess að leiða út af þessari braut?

„Í fyrsta lagi er mikilvægt fyrir foreldra og aðstandendur að bregðast við snemma, í öðru lagi að sýna staðfestu og leita sér aðstoðar ef eigin ráð duga ekki.“

Geta unglingar sjálfir leitað til ykkar?

„Já, þeir geta það. Hjá okkur eru einnig starfræktir unglingahópar þar sem saman koma unglingar sem komnir eru út í neyslu en ekki svo mikla að hefðbundinnar meðferðar, svo sem innlagnar, sé þörf.“

Hvað með þegar foreldrar komast að því að börn þeirra hafa fiktað“ við neyslu en eru hættir því?

„Við vitum að mjög margir fikta“ og flestir láta þar við sitja og þá er ekki afskipta þörf. Við skiptum aðgerðum okkar í vímuefnamálum í þrennt, í fyrsta lagi reynum við að ná til allra með fræðslu um skaðsemi þessara efna, í öðru lagi reynum við að ná til þeirra sem við teljum að séu í sérstakri hættu og í þriðja lagi reynum við að aðstoða þá sem misst hafa tökin á neyslunni.“

Hverjir eru í sérstakri hættu?

„Það eru til að mynda börn sem hefja áfengisneyslu á unga aldri, börn sem búa við afskiptaleysi eða höfnun, börn sem verða fyrir einelti eða ofbeldi og börn alkóhólista. Börn sem eru með neikvæða sjálfsmynd, hafa lítið sjálfstraust og eru þar af leiðandi ósjálfstæð gagnvart þrýstingi frá öðrum eru í meiri hættu gagnvart vímuefnum en önnur börn.“

Geta afskipti foreldra skipt sköpum í svona málum?

„Já, engir standa nær börnunum en foreldrar þeirra eða forráðamenn. Það ber að líta á það sem hluta af uppeldisskyldunni að verja börn og unglinga gegn áfengi og öðrum fíkniefnum, ekki síst í ljósi þess að neysla þessara efna er meðal þess sem ógnar helst börnum okkar nú um stundir. Vímuefnin reynast mörgum hættuleg og verða sumum að fjörtjóni.“

Er forvarnarstarfi nægilega vel sinnt?

„Það er víða verið að vinna vel að forvörnum, okkur hefur hins vegar lengi skort vettvang þar sem hægt er að stilla saman kraftana og þessi nýja fjölskyldumiðstöð sem nú hefur tekið til starfa í Heilsuverndarstöðinni í Reykjavík er hugsuð sem slíkur vettvangur. Þetta er tilraunaverkefni sem stendur fram að áramótum og það er eingöngu fólk í Reykjavík sem þjónustu hennar nýtur. Hvað við tekur svo, leiðir tíminn í ljós.“

Sjá greinina í Morgunblaðinu hér.

Áfengiskaup fyrir unglinga og skyldur uppalenda

Birt í Mbl. Þriðjudaginn 9. maí, 2000.

Árni Einarsson

Neikvæð afstaða foreldra til drykkju barna sinna, segir Árni Einarsson, er þeim nauðsynlegur hemill eða jafnvel styrkur gegn utanaðkomandi.

ÁFENGISNEYSLA íslenskra unglinga er mikil og hefur færst neðar í aldursflokka undanfarna áratugi. Ölvunardrykkja barna er einnig algeng.

Kannanir á áfengisneyslu unglinga hér á landi benda til þess að hlutfall þeirra sem neyta áfengis hafi hækkað verulega eftir 1970. Í könnun árið 1970 sögðust 39% 15 ára pilta og 24% stúlkna hafa prófað að drekka, en árið 1980 var hlutfall 15 ára pilta sem hafa drukkið 80% og 76% stúlkna.

Samkvæmt könnun sem gerð var á síðasta ári sögðust u.þ.b. 80% nemenda í 10. bekk grunnskóla hafa smakkað áfengi einhvern tímann um ævina og hefur það hlutfall verið óbreytt síðustu ár og enginn munur á milli kynja. Hið sama má segja um hlutfall 10. bekkinga sem segjast hafa orðið ölvaðir einhvern tímann um ævina. Því svara 63-64% játandi og hefur þar ekki orðið breyting á síðustu ár.

Kannanir á undanförnum árum benda til þess að börn hefji nú áfengisneyslu yngri en áður en síðustu ár virðist hafa hægt á þróun í þá veru. Margar skýringar eru mögulegar á þessari þróun. Ein er sú að unglingar geri nú yngri en áður kröfu um sömu réttindi og fullorðnir. Einnig verður að taka með í reikninginn aukna og almennari áfengisneyslu fullorðinna og aukna undanlátssemi og umburðarlyndi gagnvart áfengisneyslu og ölvun unglinga.

Unglingum sérstök hætta búin vegna reynsluleysis

Unglingar pukrast ekki lengur með áfengi sem þeir hafa undir höndum né reyna að fela fyrir öðrum að þeir séu ölvaðir. Þvert á móti veifa þeir áfengi opinskátt framan í aðra og láta mikið með ölvun sína. Almennri ölvun unglinga fylgja gífurleg vandamál, afbrot, slys og ofbeldi eins og alþekkt er.

Börn eru í sérstakri áhættu vegna reynsluleysis síns og þroskaleysis. Ölvun unglinga er því ekki sambærileg við ölvun fullorðinna af þessum sökum og einnig þeim að okkur ber að tryggja öryggi barna og unglinga í hvívetna.

Að kenna góða siði

Margir foreldrar láta undan þrýstingi frá börnum sínum um að kaupa áfengi fyrir þau eða horfa í gegnum fingur sér vegna áfengisneyslu þeirra á þeirri forsendu að þeir neyti sjálfir áfengis og geti því ekki bannað börnum sínum það. Þetta er varasamt viðhorf. Það gildir alls ekki það sama um börn og fullorðna að þessu leyti.

Foreldrar gefa stundum þá skýringu á linkind gagnvart áfengisneyslu barna sinna að með því að hafa hönd í bagga með neyslunni, t.d. með því að kaupa bjór eða léttvín fyrir börnin til þess að koma í veg fyrir að þau kaupi eða drekki sterkt áfengi eða landa, hafi þeir jákvæð áhrif á neysluna. Jafnvel að með því séu þeir að kenna barninu „rétta“ drykkjusiði. Hér verða foreldrar að fara varlega. Hvað felst í því að kaupa áfengi fyrir barn sitt? Hvaða áhrif kann það að hafa á viðhorf og venjur barnsins?

Í fyrsta lagi felst í því viðurkenning á drykkju barnsins. Fyrst pabbi og mamma kaupa fyrir mig áfengi hlýtur þeim að vera sama þó að ég drekki. Þau gera mér það meira að segja auðveldara. Er ekki líklegt að barnið líti á áfengiskaupin frekar sem hvatningu en hitt? Við skulum hafa í huga að neikvæð afstaða foreldra til drykkju barna sinna er þeim nauðsynlegur hemill eða jafnvel styrkur gegn utanaðkomandi þrýstingi til þess að neyta áfengis.

Í öðru lagi er það rangt af foreldrum að stuðla með þessum hætti að því að áfengi berist inn í raðir barna og unglinga. Almennt gera foreldrar hvað þeir geta til þess að sporna gegn áfengisneyslu barna sinna. Hvers eiga þeir að gjalda að foreldrar annarra barna kaupi áfengi sem berst til þeirra með félögum barnanna?

Í þriðja lagi eru áfengiskaup til barna og unglinga ólögleg. Í raun er enginn munur á því hvort foreldri kaupir áfengi fyrir barn sitt eða annar fullorðinn. Báðir hafa gerst brotlegir við lög. Það getur ekki talist góð fyrirmynd að brjóta lög með þessum hætti né að gera lítið úr þeirri almennu viðleitni að vinna gegn áfengisneyslu barna og unglinga.

Í fjórða lagi bendir ekkert til þess að foreldrar hafi með einhverjum hætti jákvæð áhrif á áfengisneyslu barnanna með því að kaupa áfengi fyrir þau. Sumir kunna að kaupa áfengi fyrir börn sín í þeirri trú að með því séu þeir að koma í veg fyrir að þau drekki eitthvað annað, t.d. landa. Engar vísbendingar eru um að sú sé raunin.

Mikill ávinningur

Með því að koma í veg fyrir áfengisneyslu barna og unglinga vinnst margt. Kannanir sýna til að mynda að því fyrr sem börn fara að neyta áfengis þeim mun meira drekka þau sem fullorðin (Áfengisvarnaráð, 1994). Það á bæði við um magn og tíðni. Í því felst aukin áhætta á ýmsum skakkaföllum vegna áfengisneyslu svo og aukin hætta á fíknmyndun. Með öðrum orðum nær ávinningur þess að taka fast á barna- og unglingadrykkju allt til fullorðinsára.

Uppeldisskylda að sporna gegn unglingadrykkju

Uppeldisskylda foreldra gagnvart áfengisneyslu barna sinna ætti að vera augljós. Sú áhætta sem felst í barna- og unglingadrykkju er svo ljós að hvert foreldri ætti að líta á það sem sjálfsagða skyldu sína að beita öllum tiltækum ráðum til þess að koma í veg fyrir hana með það í huga að því lengur sem tekst að fresta því að börnin hefji áfengisneyslu þeim mun minni líkur eru almennt á að illa fari. Það er ekkert athugavert við það að foreldrar banni börnum sínum áfengisneyslu og fylgi því eftir. Í slíkri afstöðu felst umhyggja fyrir velferð barnsins en ekki óeðlileg afskipti af lífi þeirra og ákvörðunum.

Gamalt íslenskt máltæki segir að betra sé heilt en vel gróið. Það sannast betur en flest annað á börnum og unglingum sem misstíga sig í viðskiptum við áfengi og önnur fíkniefni. Þá reynslu vilja örugglega allir foreldrar vera lausir við. Sársaukinn sem fylgir því að sjá líf barna sinna verða að rjúkandi rúst vegna áfengis og annarra fíkniefna er e.t.v. óskiljanlegur öðrum en þeim sem sjálfir hafa upplifað hann. Kannske er það ástæðan fyrir andvaraleysi okkar. Þetta kemur ekki fyrir barnið mitt.

Höfundur er framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar í fíknivörnum.

Skilgreind og virk þátttaka almannasamtaka í vímuvörnum

Erindi á fundi áfengis- og vímuvarnaráðs 21. maí 2003

Árni Einarsson

 

Forseti Íslands,

Góðir gestir.

 1. Vímuefnaneysla og vandi: Skilgreiningar og heildarmynd

Afleiðingar vímuefnaneyslu eru eitt af stóru viðfangsefnunum í nútímasamfélagi. Ekki þarf að fjölyrða hér um fórnarkostnaðinn sem neyslu vímuefna fylgir. Hann má mæla í dauðsföllum, slysum, sjúkdómum, afbrotum og efnahagslegum og félagslegum vanda af ýmsu tagi. Hagsmunirnir snúa bæði að einstaklingum og stjórnvöldum og felast í fjölskylduharmleikjum, almannaheill og öryggi og útgjöldum fyrir samfélagið.

Við þessum vanda er brugðist með ýmsum hætti eftir því á hvaða stigi vandinn er og hvert birtingarform hans er. Í fyrsta lagi er beitt forvörnum sem ætlað er að koma í veg fyrir að vandi verði til; í öðru lagi íhlutun þegar einkenni eða vísbendingar um vanda eru komin fram; og í þriðja lagi meðferð þegar vandinn er orðinn mjög alvarlegur og þörf á umfangsmeiri afskiptum.

Eftir því sem vandinn þróast og vex snýr hann í auknum mæli að einstaklingum, með öðrum orðum um færri einstaklinga er að ræða, en á hinn bóginn verða aðgerðir kostnaðarsamari, hvort sem litið er til mannauðs eða fjárútláta. Forvarnir eru því ódýrari fyrir samfélagið en meðferð og ætti því að mínu viti að hafa algeran forgang í áfengis- og vímuefnamálum. Að ekki sé talað um ávinninginn fyrir einstaklinga og fjölskyldur.

Viðbrögð samfélagsins og ákvarðanir um aðgerðir felast í fyrsta lagi á skilningi okkar á vandanum á hverjum tíma; hvenær er ástandið komið í það horf að við sættum okkur okkur ekki við það og lítum á það sem vanda sem taka verði á. Dæmi um þetta er t.d. afstaða okkar til áfengisneyslu barna. Hvaða aldursmörk sættum við okkur við í þeim efnum og hvers konar drykkjusiði?

Í öðru lagi felast viðbrögð okkar í vali á aðgerðum, hvort við viljum beina kröftum okkar að því að hafa áhrif á eftirspurn eftir vímuefnum eða framboði þeirra.

Í þriðja lagi byggjast viðbrögð okkar á þekkingu okkar á áhrifaþáttum og áhættuþáttum vímuefnaneyslu og vandans sem til verður vegna neyslunnar.

Út frá þessum þáttum skoðum við vímuefnamál og vanda vegna neyslu vímuefna og tökum ákvarðanir um aðgerðir og viðbrögð. Taka verður tillit til allra þessara þátta og mikilvægt að setja ákvarðanir um aðgerðir og val á leiðum í víðtækt samhengi.

 1. Frumkvæði og framlag almannasamtaka til vímuefnamála og forvarna

Löng hefð er fyrir virkri þátttöku og frumkvæði íslenskra almannasamtaka og
einstaklinga í forvörnum sem hafa rutt brautina á ýmsum sviðum, þar á meðal vímuvörnum. Stjórnvöld hafa svo fylgt á eftir. Dæmi um sporgöngusamtök í vímuvörnum eru:

-IOGT og önnur bindindissamtök

-SÁÁ

-Vímulaus æsku

-Krabbameinsfélögin

og fleiri mætti hér telja.

Á vegum almannasamtaka hefur verið, og er, rekið umfangsmikið fræðslu-, ráðgjafar- og meðferðarstarf, yfirleitt með fjárhagslegum stuðningi stjórnvalda, sem í gegnum tíðina hafa látið að sér kveða í stefnumörkun í þessum málaflokki, þó að minna fari fyrir þeim nú en oft áður. Mér er t.d. til efs að við Íslendingar gætum státað af einna minnstri áfengisneyslu þjóða per íbúa, sem er þrátt fyrir allt, ef ekki hefði komið til virk þátttaka og einurð almannasamtaka í áfengismálum. Annað dæmi er starf krabbameinsfélaganna að tóbaksvörnum, þar sem náðst hefur frábær árangur.

Fyrir tilstuðlan almannasamtaka rennur einnig mikið fjármagn til forvarna til viðbótar því sem stjórnvöld láta renna til málaflokksins, sem mér finnst stundum gleymast þegar rætt er um hlut almannasamtaka í vímuvörnum. Þeir fjármunir sem t.d. er útdeilt hér í dag til vímuvarnaverkefna almannasamtaka munu vaxa og jafnvel margfaldast í meðförum þeirra með sjálfboðaliðastarfi.  Þetta er vert að hafa í huga.

 1. Vímuvarnir eru kjörið viðfangsefni almannasamtaka

Hjá almannasamtökum sem komið hafa að áfengis- og fíkniefnamálum hefur orðið til dýrmæt reynsla og þekking á þessum málum, sem samfélagið þarf að notfæra sér bæði við stefnumörkunina og framkvæmd stefnunnar. Virk þátttaka almannasamtaka er liður í að virkja samfélagslega vitund og ábyrgð borgaranna og hlúir að og viðheldur þar að auki lýðræðisvitundinni. Þátttaka í starfi samtaka styrkir þá vitund að viðfangsefnið sé almennt hagsmunamál sem kalli á þátttöku og ábyrgð borgaranna, en sé ekki einungis lögbundið verkefni stjórnvalda.

Almannasamtök eru vettvangur til þess að hrinda í framkvæmd hugmyndum og hugsjónum, stuðla að upplýstum viðhorfum með umræðum sem þar eiga sér stað og skerpa sýn fólks í málum. Þar verða því frekar til viðhorf og stefna sem tekur mið af víðtækum almannahagsmunum í stað þröngra sérhagsmuna. Ef einhver viðfangsefni eiga vel heima á vettvangi almannasamtaka, eiga vímuefnamál, s.s. fræðsla- og upplýsingastarf, það sannarlega. Virkja má krafta almannasamtaka í forvörnum með þjónustu- og verkefnasamningum eins og gert er í meðferð og rannsóknum með góðum árangri.

Það er því skoðun mín að stjórnvöld eigi að virkja eins og kostur er og nýta möguleika almannasamtaka í þessum málaflokki en halda afskiptum sínum í lágmarki. Þau ættu að miða afskipti sín við að setja nauðsynleg lög og reglur um áfengis- og vímuefnamál og sjá til þess að þeim sé framfylgt, tryggja nauðsynlega samfélagslega þjónustu og leggja henni til fjármagn. Vera sem mest í hlutverki ljósmóðurinnar, en láta aðra um framkvæmdina eins og kostur er. Stjórnvöld eiga að skilgreina hlutverk stofnana sinna í áfengis- og fíkniefnamálum, þar með taldar forvarnir, og tryggja þeim svigrúm og möguleika til þess að sinna því hlutverki með því að setja þeim stefnu og reglur þar að lútandi og sjá þessum stofnunum fyrir nauðsynlegu fjármagni.

 1. Minnkandi hlutur almannasamtaka í vímuvörnum

Ef litið er til úthlutunar úr forvarnasjóði undanfarin ár má glögglega sjá að sú stefna sem ég er hér að mæla fyrir hefur ekki verið ráðandi. Þessi mynd sýnir það vel.

Forvarnasjóður – úthlutun 1999 – 2002  –  hlutfall

 

Hér gefur að líta hlutfallslega skiptingu þess fjármagns sem sjóðurinn hefur úthlutað til forvarna, en þó ekki tekinn með kostnaður við rekstur áfengis- og vímuvarnaráðs, eins og þó væri rétt. Við það myndi hlutur stjórnvalda í þessari skiptingu vaxa enn og hlutur almannasamtaka rýrna að sama skapi. Ég tek það fram að hér er heldur ekki tekið með fjármagn sem fer til tóbaksvarna.

Á myndinni hefur fjármagni sem forvarnasjóður veitir til forvarna verið skipt í fernt: Í fyrsta lagi verkefni sem ríkisstofnanir og stofnanir sveitarfélaga reka; í öðru lagi verkefni á vegum almannasamtaka; í þriðja lagi styrkir til áfangaheimila og fjórða lagi styrkir til samstarfsverkefna stjórnvalda og almannasamtaka. Sú þróun sem þessi mynd sýnir er á rangri leið að mínu mati og þessu ætti að breyta.

 1. Heildarsýn í vímuvörnum

Tökum fyrst hlut stofnana ríkis og sveitarfélaga

Neysla fíkniefna er ekki einangraður þáttur í samfélaginu. Neysla fíkniefna og vandi sem af henni leiðir tengist ýmsum öðrum þáttum, hvort sem litið er til áhættu- og áhrifaþátta eða afleiðinga neyslunnar. Forvarnir gegn fíkniefnum eiga því samleið með forvörnum gegn ýmsum öðrum vanda. Forvarnir þurfa því að vera hluti af mörgum sviðum samfélagsins, samþættar öllu uppeldisstarfi og sjálfsagður hluti af uppeldisskilyrðum barna og unglinga.

Þar koma stjórnvöld til skjalanna,  t.d. með stefnu sinni og framkvæmd í skóla- og fræðslumálum, félagsstarfi, félagsþjónustu, fjölskyldu- og uppeldisráðgjöf, löggæslu, tollgæslu, o.s.frv. Ríka áherslu verður að leggja á þátttöku foreldra og samstarf stjórnvalda við heimili og virka þátttöku ungs fólks. Samfélagið þarf að líta á það sem sjálfsögð mannréttindi að börn og unglingar alist upp án ógnunar frá fíkniefnum hverju nafni sem þau nefnast.

Ríki og sveitarfélög eiga að skilgreina hlutverk sitt og stofnana á sínum vegum og gera þeim kleift að sinna hlutverkum sínum í áfengis- og vímuefnamálum og sjá þeim fyrir því fjármagni sem þarf til þess að sinna þeim hlutverkum.

Styrkir til verkefna á vegum opinberra stofnana af takmörkuðum fjármunum forvarnasjóðs ætti aðeins að veita að því gefnu að um þróunarverkefni sé að ræða. Að reynslan af slíkum verkefnum skili sér til allra skyldra stofnana en sitji ekki einungis hjá viðkomandi stofnun; séu með öðrum orðum liður í því að bæta og efla starf þessara stofnana í heildina. Með þessu væri verið að nýta fjármuni skynsamlega um leið, stuðlað væri að gæðum og því að fleiri sinntu forvarnastarfi.

Lítum svo á hlut almannasamtaka

Íslensk stjórnvöld hafa lengi séð hag sinn í að nýta sér frumkvæði, áhuga og styrk almannasamtaka í meðferðarmálum og gera við þau þjónustusamninga.  Þessu hefur verið öðruvísi farið í fræðslu- og upplýsingastarfi. Þar er þessi stuðningur undantekningalítið verkefnatengdur, í stað þess að byggja hann á skilgreindu hlutverki samtaka og samningi við þau um að sinna ákveðnum þáttum í fræðslu og forvörnum. Það er þó ekkert því til fyrirstöðu að fara sömu leið í fræðslunni og í meðferðinni og hægt að gera þar sömu kröfur til fagmennsku og vinnubragða.

Til þess að hægt sé að nýta krafta og reynslu almannasamtaka sem best í fræðslu og öðru forvarnastarfi og stuðla að sem mestri þátttöku borgaranna þarf að skilgreina hlutverk þeirra og möguleika, sérkenni og sérsvið. Til þess að samtök geti sinnt þessu hlutverki svo að vel sé þurfa þau skilgreind verkefni og fjármagn. Vera hluti af heildarmynd sem þau taka þátt í að móta og mynda og bera ábyrgð á. Sú heildarmynd mótist af því hvað þarf að gera í fræðslu og forvörnum og hverjir hafa burði til þess að taka að sér ákveðin hlutverk, hlutverk sem ráðist, eins og ég sagði áðan, af möguleikum þeirra og sérstöðu.

 1. Breytt viðmið forvarnasjóðs

Verði haldið áfram á þeirri braut sem þróunin á þessari mynd sýnir dregur smátt og smátt úr mætti og hugsanlega áhuga almannasamtaka á vímuvörnum. Það væri miður.

Fyrir liggur veruleg breyting í forvörnum með tilkomu Lýðheilsustöðvar.Við þær breytingar fyndist mér upplagt að endurskoða starfsemi áfengis- og vímuvarnaráðs, sem mun verða felld undir stofnunina, út frá þeim sjónarmiðum sem ég hef sett hér fram. Það sama þyrfti að eiga við um starfsemi forvarnasjóðs.

Sá knappi tími sem ég hef hér til þess að ræða þessi mál gerir það að verkum að margt er hér ósagt sem gæti gert þá mynd, sem ég er hér að draga upp, fyllri. Ég vil í lokin setja fram hugmynd um hvernig forvarnasjóður gæti hagað og skilgreint úthlutun sína til þess að vinna í þeim anda sem ég er hér að kynna.

Forvarnasjóður skipti úthlutunarfé sínu í þrjá flokka:

 1. Skilgreindir þjónustusamningar (70%)
 2. Þróunarverkefni (20%)
 3. Verkefnastyrkir (10%)
 1. Ég hef áður rætt um hlutverk þjónustusamninga og bæti hér engu við nema því að taka verður tillit til þess að forvarnir eru langtímaverkefni sem ekki má þröngva inn í skammtíma verkefnahugsun. Sú verkregla forvarnasjóðs að styrkja einungis verkefni er í andstöðu við eðli þessa málaflokks.
 2. Þróunarverkefni hef ég einnig aðeins minnst á, en styrkir þeirra hefðu það að markmiði að þróa hugmyndir og leiðir í forvörnum sem ætlunin væri að fella að og festa í sessi í starfi stofnana og félagasamtaka í víðu samhengi.
 3. Verkefnastyrkir hefðu að markmiði að láta reyna á og koma á legg afmörkuðum hugmyndum eða taka á mjög sértækum aðstæðum.

Tímans vegna er framsetning hugmynda minna stuttaralegri en ég hefði kosið. Ég þakka hins vegar fyrir tækifærið til þess að reifa þær við ykkur hér. Framundan eru breytingar á fyrirkomulagi stjórnvalda í áfengis- og vímuvörnum með tilkomu Lýðheilsustöðvar og því rétti tíminn til þess að endurmeta það sem gert er í þessum efnum nú. Ég minni á klásúlu í lögum um Lýðheilsustofnun um hlut almannasamtaka og vona að hún verði ekki orðin tóm þegar kemur að framkvæmdinni.

Þar segir að styðja skuli starfsemi stofnana og frjálsra félagasamtaka til eflingar lýðheilsu. Einnig að: Lýðheilsustöð sé heimilt, í samráði við ráðherra, að semja við aðra um að sinna starfsemi sem stöðinni er falið að annast samkvæmt lögum eða
reglugerðum.

Forvarnir þurfa að vera í stöðugri endurskoðun í takt við tímann og samfélagsbreytingar. Það geta almannasamtök tekið að sér ekkert síður en stjórnvöld.

Ég óska styrkþegum forvarnasjóðs og viðtakendum viðurkenninga áfengis- og vímuvarnaráðs til hamingju og óska þeim góðs árangurs og velfarnaðar í starfi.

Þakka ykkur fyrir gott hljóð.

Í umræðum um skaðsemi fíkniefnaneyslu er mest áhersla lögð á heilsufarsþætti, s.s. líkamlegan skaða, sjúkdóma og dauðsföll, sem að einhverju marki er hægt að mæla í tölum. Minna er rætt um hin félagslegu áhrif neyslunnar, s.s. áhrif á skólagöngu, skuldasöfnun og álag á fjölskyldur neytenda.

Unglingar sem byrja að drekka ungir leiðast frekar út í neyslu annarra vímuefna

Í rannsóknum hér á landi hefur komið í ljós að því fyrr sem unglingar hefja neyslu áfengis því lakari verður námsárangur þeirra við lok grunnskóla. Þær leiða einnig í ljós að unglingar sem byrja að drekka ungir eru líklegri en hinir sem byrja síðar til þess að leiðast út í neyslu annarra vímuefna þegar fram í sækir. Staða þessara unglinga er í alla staði síðri en annarra, þeim líður verr í skóla og þeir hafa litla skuldbindingu við námið. Þetta getur svo orðið til þess að nemendur missa sjónar á tilgangi námsins, hætta að undirbúa sig fyrir kennslustundir, skrópa í tímum, lenda ,,upp á kant” við kennarana og frammistaða þeirra verður lakari. Nemendur sem lenda í slíkum vítahring eiga það á hættu að detta út úr skólakerfinu strax á grunnskólaaldri.

Hafa verður í huga að námsárangur og líðan í skóla ræðst ekki eingöngu af þáttum innan skóla, heldur að verulegu leyti af þáttum utan skólans sjálfs, af því umhverfi sem unglingarnir lifa og hrærast í. Erfiðleika í skóla og námi má því einnig rekja til þroska- og hegðunarfrávika, vanda heima fyrir og erfiðra uppeldisaðstæðna. Þessir þættir geta svo spilað saman með ýmsu móti.

Erfitt líf utan skóla

Erfiðleikar í skóla, og sérstaklega ef nemendur flosna frá námi, geta orðið til þess að unglingarnir verða berskjaldaðri fyrir áhrifum og viðhorfum sem beinast gegn ,,hefðbundnu” líferni. Festan og hin félagslegu tengsl sem fylgja skólagöngu eru ekki lengur fyrir hendi. Þeir leita því á önnur mið sem oft einkennast af neyslu vímuefna

Erfiðleikar í grunnskólagöngu tengjast því mjög að unglingar heltast úr framhaldssnámi. Íslenskar rannsóknir leiða í ljós að hagir og líðan ungmenna sem ekki stunda nám við framhaldsskóla eru síðri en þeirra ungmenna sem stunda nám í framhaldsskólum og vímuefnaneysla þeirra er meiri.[1] Það er því mikið áhyggjuefni að unglingar hverfi frá námi í grunnskóla og staða unglinga sem ekki stunda framhaldsskólanám er lakari en hinna. Nauðsynlegt er að taka sérstaklega tillit til þessa í forvarnastarfi.

Álag á fjölskyldur, örvænting og upplausn

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þær þjáningar sem foreldrar og fjölskyldur ungmenna sem ánetjast fíkniefnum ganga í gegnum. Að horfa upp á börn sín hverfa frá námi og missa fótanna í lífinu er óbærilegt. Foreldrar gera hvað þeir geta til þess að sporna gegn þessu en reynist erfitt. Árekstrar og átök verða svo stundum til þess að barnið leggst út, fer að heiman og hafnar öllum tengslum við fjölskyldur sínar.

Afbrot

Fíkniefnaneysla kostar mikla peninga. Fíkniefnaneytandi sem er orðinn háður efnum á sjaldnast þá fjármuni sem þarf til að kosta neysluna. Þá þarf að leita annarra leiða, s.s. þjófnaða, vændis eða taka lán. Fyrst hugsanlega hjá ættingjum og vinum en þegar ekki er staðið við endurgreiðslur hverfur sá möguleiki. Þá er ekki öðru til að dreifa en undirheimunum.

Vítahringur skuldarans

Í þeim tilgangi að leysa fjárhagsvanda og borga skuldir freistast margir fíkniefnaneytendur til þess að taka lán í undirheimunum eða taka að sér sölu fíkniefna. Ef þeir reynast svo ekki borgunarmenn fyrir skuldinni er vítahringurinn fullkomnaður. Í dópheimum er ekki farin sú leið að senda kurteisleg áminningarbréf til þess að minna skuldarann á að greiða skuld sína hið fyrsta til þess að komist verði hjá frekari innheimtuaðgerðum. Í dópheimum ríkir ógn, kúgun og ofbeldi. Óvægin innheimta beinist ekki aðeins að skuldaranum sjálfum. Ef hann getur ekki borgað er spjótum beint að fjölskyldu og vinum. Hótanir og ofbeldi eru notuð til að knýja fram greiðslu, annað hvort af skuldaranum sjálfum eða fjölskyldu. Þetta hafa margir foreldrar reynt, makar fíkla og ýmis skyldmenni. Foreldrar hafa leiðst inn í undirheimana í tilraunum sínum til þess að koma börnum sínum til bjargar og stundum misst allt. Óttinn við afleiðingarnar kemur í veg fyrir að fólk leiti til lögreglu. Óttast að það eigi von á enn verri útreið ef það gerir það.

Undanfarna mánuði hefur harka og mannvonska undirheimanna verið hér töluvert í umræðunni. Ofbeldismenn, handrukkarar, minna okkur á alvarleika málsins og það líf sem margir fíkniefnaneytendur búa við. Þetta er heimur sem veldur óhug og andúð. Vonandi verður það til þess að við herðum enn betur róðurinn gegn fíkniefnaneyslu.

[1]Svandís Nína Jónsdóttir, Stefán Hrafn Jónsson, Inga Dóra Sigfúsdóttir, Hera Hallbera Björnsdóttir og Bryndís Björk Ásgeirsdóttir (2003). Utanskólarannsókn. Félagsleg staða ungmenna utan framhaldsskóla og samanburðurvið jafnaldra þeirra í framhaldsskólum. Reykjavík:Rannsóknir & Greining.

Meiri nálægð við vímuefni þegar komið er í framhaldsskólann

Við það að hefja nám í framhaldsskóla upplifa margir unglingar sig sem fullorðna. Oft verður nálægð við vímuefni meiri en áður, m.a. vegna aukinna samskipta við eldra fólk og breytt félagslíf. Þá reynir á að geta valið og hafa styrk til að segja NEI! Á framhaldsskólaárunum kemur oft fram hverjir hafa ekki stjórn á neyslu vímugjafa.

Stuðningur og aðhald foreldra afar mikilvægt

Við upphaf framhaldsskólagöngu barna sinna þurfa foreldrar að hafa hugfast að nýnemi er þrátt fyrir allt ennþá barn sem þarf stuðning og aðhald. Foreldrar þurfa því áfram að fylgjast með því sem börn þeirra aðhafast og hverja þau umgangast. Ábyrgð og áhrifamáttur foreldra er enn fyrir hendi, þeir þurfa að setja mörk sem unglingarnir virða. Áfengisneysla og fikt við fíkniefni á unga aldri er mikið hættumerki. Ölvað eða uppdópað barn er í raunverulegri hættu. Mikilvægt er að foreldrar bregðist við slíku. Framtíð barns getur oltið á afskiptum og skilaboðum foreldranna.

Foreldrafélög og forvarnafulltrúar við skólana

Við marga framhaldsskóla hafa verið stofnuð foreldrafélög sem eru vettvangur fyrir umræðu og samstarf foreldra. Forvarnafulltrúar eru starfandi í flestum skólum, þeir hafa umsjón með forvarnastarfi skólanna og eru oft við gæslu á dansleikjum. Foreldrar geta sett sig í samband við forvarnafulltrúa viðkomandi skóla.

Partí og „bjórkvöld“

Ungmenni undir lögaldri ættu aldrei að bjóða upp á eða taka þátt í partíum án þess að fullorðinn aðili sé á staðnum. Við slíkar aðstæður koma oft upp ýmis mál sem ungmennin ráða ekki við að leysa. Undanfarin ár hafa svokölluð bjórkvöld framhaldsskólanema rutt sér til rúms. Slíkar uppákomur eru EKKI á vegum framhaldsskólanna sjálfra eða nemendafélagsins. Þær eru skipulagðar af nokkrum nemendum og veitingastöðunum sjálfum. Stjórnendur framhaldsskóla, forvarnafulltrúar og lögregla hafa reynt að koma í veg fyrir að bjórkvöld séu haldin.

Því seinna…því betra!

Það er mikilvægt að leggja áherslu á að seinka upphafi neyslu vímugjafa hjá ungu fólki. Hvert ár eða mánuður, sem líður án þess að ungmenni byrji að fikta við vímugjafa, er dýrmætur tími. Því seinna – því minni líkur á vímuefnavanda síðar á ævinni, brotthvarfi úr skóla og ýmsum erfiðleikum. Sumir leggja jafnvel til að foreldrar verðlauni börn sín ef þau eru vímugjafalaus t.d. 18 ára eða um tvítugt. Gleymum ekki að alltaf eru nokkrir sterkir unglingar sem taka þá ákvörðun að neyta ekki vímugjafa. Þeir sýna sterkan persónuleika. Það er ekki sjálfsagt að allir velji að nota vímugjafa. ÞAÐ ER KÚL AÐ VERA KLÍN!!

Árni Einarsson og Sigríður Hulda Jónsdóttir skrifa opið bréf til foreldra nýnema í framhaldsskólum

Höfundar hafa umsjón með forvarnaverkefni menntamálaráðuneytisins í framhaldsskólum.

Árni Einarsson

Sigríður Hulda Jónsdóttir

Hver stund og hvert augnablik felur í sér í senn upphaf og endi í straumi tímans. Allt er breytingum undirorpið þó e.t.v. megi líka segja að ekkert sé nýtt undir sólinni. Að það sem við gerum í dag sé aðeins endurtekning á því sem við gerðum í gær að því viðbættu að lítið eitt hafi bæst í þekkingar- og reynslusarpinn. Tækifærin felast við hvert fótmál. Sum nærtæk en önnur langsótt. Það er í höndum okkar hvers og eins eða saman að grípa þau. Þau eru efniviðurinn sem árangurinn er spunninn úr.

Það er stundum talað um að mikilvægt sé að laga sig að breytingum sem verða, fylgja straumnum, annars eigi maður á hættu að verða gamaldags og úreltur, eða fúnkeri ekki í samtímanum. Það sé um að gera að vera nógu fljótur að skipta um gír til þess að sitja ekki eftir eða missa af hlutunum. Það mætti stundum halda að breytingarnar sem vissulega verða hellist stjórnlaust yfir okkur eins og náttúruhamfarir sem við komum hvergi nærri við að móta og eigum enga hlutdeild í.

Bindindismenn þekkja þessa stöðu ágætlega og spegla sig í henni. Í samfélagi þar sem áfengisneysla verður sífellt sjálfsagðari, almennari og meiri að magni til standa þeir frammi fyrir því hvort sú ákvörðun þeirra að drekka ekki áfengi sé til merkis um að þeir séu gamaldags, úreltir og að þeir passi ekki inn í samfélagið, fitti ekki inn, eins og kannski má segja á unglingamáli. Hvers vegna að vera að leggja það á sig að temja sér siði sem einungis fáir aðhyllast; Er ekki miklu einfaldara og léttara að gera bara eins og meirihlutinn?

Sú staða að tilheyra minnihluta kann að ala á vanmetakennd. Maður fari hjá sér fyrir að vera ekki eins og meirihlutinn eða efist jafnvel um réttmæti þess sem maður hefur ákveðið eða valið. Þá reynir á undirstöðurnar, trúna á réttmæti þess sem maður er að gera, trúna á að það skipti máli og trúna á að mögulegt sé að koma einhverju til leiðar með því sem maður er að gera.

Ég ætla ekki, á þessum stutta tíma sem ég hef með ykkur hér, að leggjast í heimspekilegar pælingar um grundvöll bindindissemi eða forsendur forvarnastarfs en finnst það sem ég var hér að nefna eiga ágætlega við um stöðuna og aðdraganda þess að við nokkur úr röðum bindindismanna veltum fyrir okkur framtíð bindindis- og forvarnastarfs. Árangurinn af þeim vangaveltum var svo stofnun Samstarfsráðs um forvarnir snemma árs 2003.

Sex starfandi bindindissamtök á Íslandi gerðu með sér og undirskrifuðu 27. maí 2003 yfirlýsingu um aukið samstarf í forvörnum og áfengis- og bindindismálum. Barnahreyfing IOGT-B, Bindindisfélag ökumanna BFÖ, Bindindissamtökin IOGT á Íslandi , Íslenskir ungtemplarar  ÍUT, Samvinnunefnd skólamanna um bindindisfræðslu SSB, Ungmennahreyfing IOGT-U.

Samkomulagið verður endurskoðað fyrir árslok 2004 og tekin ákvörðun um áframhaldandi samstarf að endurskoðun lokinni.

Samstarfsráði um forvarnir er ætlað að vera samstarfsvettvangur íslenskra bindindisfélaga og samtaka og sameiginlegur málsvari þeirra gagnvart stjórnvöldum þegar það á við.

Samstarfsyfirlýsing

– Neysla áfengis og annarra fíkniefna snertir öll svið samfélagsins. Henni fylgir tjón, hvort sem miðað er við efnahagsleg eða mannleg verðmæti.
– Bindindissamtök vilja efla menningu sem hafnar áfengi og öðrum fíkniefnum. Þau telja neyslu slíkra efna standa í vegi fyrir heilbrigðu mannlífi á mörgum sviðum. Samdráttur í neyslu fíkniefna leiðir því til aukinna framfara.
– Bindindissamtök hafa sérstöðu meðal þeirra samtaka sem vinna gegn neyslu fíkniefna. Félagsmenn þeirra haga lífi sínu í samræmi við þá stefnu sem þeir halda fram í fíkniefnamálum.
– Bindindissamtök vinna að því að móta viðhorf og lífsvenjur þar sem fíkniefnum er hafnað. Þau leggja áherslu á að draga sem mest úr heildarneyslu áfengis og annarra fíkniefna, en þá minnkar tjónið sem þessi efni valda.
-Með félagsstarfi sínu og fordæmi leggja bindindissamtök menningarlegan grundvöll að samfélagi og umhverfi án áfengis og annarra fíkniefna. Samskipti og lífsvenjur þar sem þessum efnum er hafnað eru styrkt bæði í daglegu lífi og félagslífi. Stofnaðilar

Árið 2004 gerði Samfo samning við þrjú ráðuneyti um verkefni á sviði vímuvarna. Samningurinn var til þriggja ára og skyldi Samfo fá 10 millj. árlega til þessara verkefna gegn því að leggja jafnháa upphæð á móti. Nú er upp runnið síðasta ár þessa samnings og unnið að því að fá ráðuneytin þrjú til þess að gera nýjan samning til jafnlangs tíma. Hvort það gengur eftir veit ég ekki. En ég tel að það væru mikil mistök af hálfu stjórnvalda að taka ekki í útrétta hönd okkar. Ekki til þess að veita okkur einhverja ölmusu, heldur til þess að gera okkur kleift að bæta íslenskt þjóðlíf og efla mannlíf á Íslandi. Það er hugsunarháttur sem stjórnvöld verða að temja sér. Við höfum ekki sett þau til þess að deila og drottna, heldur til þess að byggja upp samfélagið í umboði okkar og eftir þeim leikreglum sem við teljum bestar og farsælastar. Stjórnvöld ættu því frekar að grípa í höndina full þakklætis fyrir góðan vilja og ásetning um að vinna gegn áfengis- og vímuefnavanda, en slá á hana á þeirri forsendu að engir peningar séu í kassanum eða að þeim hafi þegar verið ráðstafað.

Mörg verkefni hafa orðið til fyrir tilverknað þessa samnings og hefur áhersla verið lögð á að þau styrktu innviði aðildarfélaga Samstarfsráðsins og eflu starfið. Önnur verkefni hafa haft að markmiði að afla sjónarmiðum bindindismanna fylgi, bæði meðal annarra félagasamtaka og stjórnmálamanna. Einnig verkefni sem hafa að markmiði að vekja athygli almennings á ýmsum áhrifum áfengis- og vímuefnaneyslu á einstaklinga, fjölskyldur og samfélag.

Reynslan af Samfo hefur verið góð en tímabært er að endurmeta fyrirkomulag þess. Í leiðinni finnst mér að aðildarfélögin ættu að gera slíkt hið sama varðandi sín mál og uppbyggingu. Er ekki tímabært að við endurmetum öll okkar mál með það að markmiði að efla og styrkja það sem við höfum og taka sem virkastan þátt í að móta framvinduna í stað þess að sitja og láta hana yfir okkur ganga hvort sem okkur líkar betur eða ver. Markmiðin sem lágu til grundvallar stofnunar bindindissamtaka á sínum tíma eru jafn góð og gild og þá, þörfin er jafn brýn eða brýnni og þekkingin á öllum hliðum áfengis- og vímuefnamála er meiri en var og fellur öll okkar megin. Rannsóknarniðurstöður staðfesta það sem bindindismenn hafa alltaf sagt.

Við getum hins vegar velt því fyrir okkur hvort tækin, eða aðferðirnar, sem við notum standist jafnvel tímans tönn og séu í takt við þær samfélagsbreytingar sem orðið hafa. Það er hið stöðuga viðfangsefni okkar og verður að vera. Ekki til þess að rjúka til og breyta til þess eins að breyta, heldur til þess að halda vöku okkar og endurnýja trúna á það sem við erum að gera. Við þá vinnu þarf hugrekki, hugrekki til þess að sleppa því sem maður hefur og þekkir og grípa í eitthvað sem maður veit ekki vel hvert leiðir mann. Það þarf hugrekki til þess að ganga á vit óvissunnar.

Ágætu landsþingsfulltrúar.

Við erum öll meira eða minna sammála um grundvöllinn fyrir starfi bindindissamtaka. Með okkur bærist löngunin til þess að hafa áhrif á samfélagið og bæta mannlífið. Við erum ekki endilega sammála um hversu langt við viljum ganga til þess að hafa áhrif. Þar getur forgangsröðin verið mismunandi. Erum við t.d. tilbúin til þess að láta afstöðu frambjóðenda til sveitarstjórna og Alþingis ráða atkvæði okkar í kosningum og veita þeim brautargengi sem vilja það sama og við, eða látum við önnur sjónarmið ráða og stillum okkur á bak við þá sem við vitum að munu vinna gegn sjónarmiðum okkar í áfengis- og vímuefnamálum. Forvarnastarf er í eðli sínu pólitískt. Í því felst hugmynd um fyrirkomulag eða ástand sem við teljum æskilegt og eftirsóknarvert. Í því felast ýmis álitamál sem varða samfélagið, réttarfar og persónufrelsi. Það er því eðlilegt að tekist sé á um margt sem snýr að forvarnastarfi. En þetta þekkið þið allt á eigin skinni.

Ég vil í lokin segja þetta.

Það er á brattan að sækja fyrir hugmyndina um albindindi á tímum þegar áróður fyrir áfengisneyslu gegnsýrir alt í kringum okkur.  Það er erfitt að halda úti ýmsum takmörkunum á verslun, dreifingu og áróðri fyrir áfengis- og vímuefnaneyslu á tímum þegar allt á að vera frjálst og leyfilegt. Það er erfitt að halda úti félagsstarfi á tímum offramboðs á afþreyingu og tómstundastarfi.

Það er líka erfitt að horfa upp á það mein sem áfengi og önnur vímuefni er í samfélaginu. Það er erfitt að horfa upp á ungt fólk missa fótanna í lífinu vegna neyslu; það er erfitt að sætta sig við dauðaslys í umferðinni vegna ölvunaraksturs. Það er erfitt að sitja hjá þegar þörf er aðgerða.

Ég sagði í upphafi að tækifæri fælust við hvert fótmál. Sum nærtæk en önnur langsótt. Ég segi aftur: Það er í höndum okkar hvers og eins eða saman að grípa þau. Hvort það tekst fer eftir því hvort við verjum tímanum í að horfa til baka, beint á tærnar á okkur, eða fram á veginn. Ég vil líka segja að það fer enginn lengra en hann ætlar sér.

Árni Einarsson

Það er ánægjulegt að hugað sé að hlutverki félagasamtaka í forvörnum. Félagasamtök framleiða ekki vörur og þjónustu á markaði í hagnaðar­skyni fyrir eigendur sína. Þau starfa af hugsjónaástæðum,  gegna marg­víslegum hlutverkum við að uppfræða almenning, halda á lofti málstað ein­stakra þjóðfélags­hópa, efla menningar- og listalíf eða inna af hendi samfélags­þjónustu. Félagasamtök yfir höfuð eru því engin afgangsstærð í samfélaginu þótt þau séu ekki til daglegrar umfjöllunar í fjölmiðlum nú á tímum efnishyggju; þvert á móti sinna félagasamtök verðugum samfélagsmarkmiðum og þjóna margvíslegu og mikilvægu hlutverki sem mér finnst oft á tíðum vanmetið.

Hluti af ástæðunni fyrir því kann að vera sú að við tökum tilvist og starfsemi félagasamtaka svo sjálfsagða að við leiðum hugann lítið að því hvaða þýðingu þau hafa. Nánast daglega varðar starfsemi félagasamtaka líf okkar á einhvern hátt, s.s. starf íþróttafélaga, ýmissa æskulýðsfélaga, foreldrafélaga o.s.frv. Við göngum að starfsemi þessara samtaka og félaga sem vísri, en leiðum líklega sjaldan hugann að mikilvægi þeirra, hlutverki og vinnuframlagi hundruða eða þúsunda fólks og ómældum vinnustundum sem lagðar eru fram endurgjaldslaust af félagsfólki þeirra. Það væri kannski fyrst ef þessi samtök hættu störfum og hyrfu af vettvangi að mikilvægi þeirra kæmi í ljós. Í það minnsta má ljóst vera að nyti félagasamtaka ekki við yrðu opinberir aðilar í ríkari mæli að koma beint að fjár­mögnun og framkvæmd ýmissa samfélagslegra verkefna sem nú eru að miklu leyti í höndum félagasamtaka. Ég leyfi mér því að halda því fram að opinberar fjárveitingar til félagasamtaka beri að skoða sem sjálfsagt framlag til félagslegra verkefna, verkefna í höndum félagasamtaka. Fjárveitingar til félagasamtaka geta auk þess ýtt undir að viðkomandi þjónusta yrði veitt í ríkari mæli en ella.

Samfélagsleg hlutverk félagasamtakanna og mörg verkefni eru vel sýnileg og augljós. Nægir að nefna líknarfélög, hjálparsamtök og björgunarsveitir í því sambandi. Þótt starfsemi þessara félaga beinist oft að einstaklingum, sem njóta beinnar þjónustu, þá hefur samfélagið hag af því að vanda­mál þeirra séu leyst. Félagasamtök geta t.d. beitt sér fyrir því því að losa einstaklinga úr fátæktar­gildrum, en allt samfélagið hefur hag af minnkandi fátækt. Annað dæmi gæti verið samtök sem vinna að vímuvörnum, en allt samfélagið hefur hag af því að vímuefnavandanum sé sem mest haldið niðri.

Til eru fræðimenn sem halda því jafnvel fram að félagasamtök séu betur til þess fallin að leysa líknarmál heldur en opinberir aðilar[1]; þau leysi málin oft á hagkvæmari hátt, séu ekki jafn yfirþyrmandi og ágeng eins og opinberum aðilum hættir til að vera, og séu skapandi í leit að úrræðum og lausnum – að samkeppnin um stuðningsaðila ýti undir frumkvæði og nýsköpun.

Félagasamtök á Íslandi eru fjölmörg og fjölbreytileg og eiga sér mjög ólíkan tilverugrundvöll. Þeim má skipt í ýmsa flokka, s.s. eftir því hvort þeim sé eingöngu ætlað að sinna og efla hag félagsfólks, eða hvort þeim sé ætlað víðtækara og flóknara hlutverk. Í fyrri flokkinn, hagsmunafélög félagsmanna[2], falla m.a. húsfélög, stéttarfélög og félaga­starfsemi atvinnuvega og vinnuveitenda. Seinni flokkurinn, almannaheilla­samtök[3], nær yfir félög sem vinna á einhvern hátt að bættum hag ótiltekins fjölda manna, annarra en þeirra sem reka og stýra félaginu, svo sem líknarfélög, trúfélög, neytenda­félög, fræðslu- og menningar­samtök. Það sem einkennir þau félög er að hagsmunir einstaklinga ráða þar ekki öllu, þótt vissulega njóti einstaklingar ávinnings af baráttu og starfi ýmiss þessara samtaka.

Verkefnum og hlutverki félagasamtaka má vafalaust skipta upp og flokka með öðrum hætti. Nefna má að Alþjóðabankinn skiptir félagasamtökum í tvo meginflokka eftir því í hve ríkum mæli þau eru baráttusamtök annars vegar, og hins vegar eftir því hve mikla samfélagslega þjónustu þau veita. Það gæti vafalaust verið gagnlegt fyrir okkur sem vinnum á vettvangi félagasamtaka að skilgreina starf samtaka okkar á þessum forsendum. Að hve miklu leyti eru samtök okkar baráttusamtök og hver eru þá helstu baráttumálin og að hvaða leyti eru samtök okkar þjónustusamtök? Hefur aukið þjónustuhlutverk e.t.v. dregið úr okkur baráttutennurnar? Erum við hugsanlega orðin of skuldbundin stjórnvöldum í gegnum styrkjakerfi og þjónustusamninga til þess að geta gagnrýnt þau af einhverjum þunga þegar tilefni er til? Er starf okkar e.t.v. frekar fólgið í að framfylgja stefnu og markmiðum stjórnvalda en að berjast fyrir umbótum og þörfum breytingum?

Í sagði áðan að mér fyndist hlutverk félagasamtaka oft vanmetið. Það er kannski að breytast. Geir Haarde forsætisráðherra sagði í ræðu á Alþingi í gær að efla þyrfti starf frjálsra félagasamtaka og treysta samstarf þeirra við ýmsar félagslegar stofnanir. Per Unckle, fyrrverandi framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, sagði á ráðstefnu í Stokkhólmi (Baltic Sea NGO forum) í október á síðasta ári:

„Frjáls félagasamtök skipta gífurlega miklu máli í okkar lýðræðissamfélagi vegna þess að þau setja á dagskrá mikilvæg mál sem skipta stóra hópa í samfélaginu máli og einnig vegna þess að þau eru vettvangur borgaranna til þess að hafa áhrif á samfélagsþróunina.” Og Heidi Grande Røys samstarfsráðherra Noregs sagði á sömu ráðstefnu að með því að gefa félagasamtökum tækifæri til að starfa og þróast væri borgaralegt samfélag eflt og stuðlað að uppbyggingu lýðræðis.

Hér erum við komin að þeim þætti í mikilvægi félagasamtaka sem er ekki jafn sýnilegur og sá þáttur sem snýr að baráttu- og þjónustuhlutverkinu. Þetta er sá þáttur sem felst í eflingu félagsauðs og þar með styrkingu lýðræðisins sem við látum okkur svo annt um, a.m.k. í orði kveðnu. Ég leyfi mér að kalla þetta hlutverk vöggu lýðræðisins, hvorki meira né minna. Félagsamtök eru vettvangur þar sem við æfum okkur í þeim grundvallarleikreglum sem lýðræðið byggir á. Æfum okkur í að ræða hlutina í návígi, takast á um skiptar skoðanir, leita samstöðu, leggja línur um leiðir og framkvæmd verkefna sem ákveðið er að ráðast í. Á þessum vettvangi æfum við okkur í að halda úti smættaðri mynd af þjóðfélagskerfinu sem við búum við, kjósum stjórn, skiptum með okkur verkum, skilgreinum ábyrgð, ráðum starfsfólk ef svo ber við o.s.frv.

Hugtakið félagsauður (social capital) sem ég nefndi hér áðan kemur nú í auknum mæli fyrir í umræðu og umfjöllun opinberra aðila, s.s. sveitarfélaga, sjálfboðasamtaka og jafnvel fyrirtækja og hugtakið félagsauður er víða um lönd tekið í vaxandi mæli inní stefnumörkun stjórnvalda og rannsóknir fræðimanna. Það er skilgreint sem verðmæti vegna áhrifa þeirra félagstengsla sem einstaklingar mynda í fjölskyldum, vinahópum, vinnustöðum, félagasamtökum ofl. Verðmæti eða auður vegna þeirra margvíslegu jákvæðu áhrifa sem það getur haft á velsæld og hagsæld einstaklinga sem samfélaga. Litið er á ,,social capital“ sem auðlind samfélaga með sama hætti og efnislegan auð (physical- capital) og mannauð (human-capital). Hér er hlutverk félagasamtaka mikilvægt.

Hlutverk og mikilvægi félagasamtaka fer held ég síður en svo minnkandi. Mörg af þeim réttinda- og velferðarmálum sem áður var barist fyrir á þeim vettvangi hafa náð fram að ganga, verið lögfest og stjórnvöld tekið upp á sína arma. Ný baráttumál hafa bæst við, s.s. ýmis mál sem snúa að umhverfismálum og náttúruvernd. Félagasamtaka bíður að taka að sér vaxandi þátt í þróun og viðgangi lýðræðis í samfélaginu. Þeirra bíða margvísleg verkefni á sviði heilbrigðis- og félagsmála, við fátækraaðstoð og þróunarhjálp, til stuðnings ungum og öldruðum, svo fátt eitt sé nefnt. Þá tel ég að félagasamtök öðlist nýtt mikilvægi með auknum styrk markaðsafla, vera vettvangur og vörn borgaranna gagnvart ásælni þeirra og sérhagsmunum. Þá hefur þjónustuhlutverk félagasamtaka á ýmsum sviðum farið vaxandi og stjórnvöld, bæði á landsvísu og á sveitarstjórnarstigi, eru farin að gera samstarfs- og þjónustusamninga við félagasamtök um mismunandi afmarkaða þjónustuþætti. Það er mikilvægt að félagasamtök geti blómstrað og verið þess megnug að sinna sínu mikilvæga hlutverki og taka að sér ný og vaxandi samfélagsleg verkefni.

Hvert er og gæti svo hlutverk félagasamtaka verið í forvörnum eða vímuvörnum? Svar mitt við því er að hluta falið í því sem ég hef sagt hér á undan. Forvarnir snerta flesta grundvallarþætti samfélagsins og varða flestar grunnstofnanir þess. Margt, eða jafnvel flest, sem varðar þróun og viðgang samfélagsins  snertir því í raun forvarnir. Vímuefnavandinn, sem kallar á víðtækar og skilvirkar forvarnir, er þjóðfélagslegt mein sem verður að taka á með öllum tiltækum ráðum. Þar koma félagasamtök heldur betur við sögu.

Lengstum hafa félagasamtök haft frumkvæði  í áfengis- og vímuvörnum á Íslandi. Fyrir meira en hundrað árum reið IOGT á vaðið og var raunar einnig brautryðjandi í meðferðarmálum áfengissjúkra. Síðar bættust aðrir í þennan hóp, Bindindisfélag ökumanna, Samtök skólamanna í bindindisfræðslu, Íslenskir ungtemplarar og fleiri bindindissamtök. Á síðari hluta síðustu aldar bættust SÁÁ, Vímulaus æska, Fræðslumiðstöð í fíknivörnum og ýmis meðferðarsamtök í þennan hóp. Samtök sem starfa að mestu leyti á öðrum sviðum, s.s. íþróttahreyfingin, foreldrasamtök og æskulýðssamtök hafa í auknum mæli farið að sinna markvissum vímuvörnum sem hluta af uppeldis- og forvarnastarfi sínu.

Samhliða þessum aðilum hefur ríkið rekið meðferðarstofnanir og áfengisvarnaráð sem stofnað var 1954 hafði eftirlit með áfengisvarnanefndum sveitarfélaga og því að áfengislögum væri framfylgt. Það ráð var lagt niður þegar nýtt ráð, áfengis- og vímuvarnaráð leysti það af hólmi árið 1998. Nú hefur Lýðheilsustöð tekið yfir starfsemi og hlutverk áfengis- og vímuvarnastarfs. Í nokkra áratugi hefur grunnskólum verið ætlað forvarnahlutverk með reglugerðum og lögum og í ýmsum lögum,s.s. barnaverndarlögum, eru stefnumarkandi ákvæði eða fyrirmæli sem snúa að forvörnum.

Saga vímuvarna á Íslandi er því orðin nokkuð löng og snertir marga þætti í samfélaginu en hefur alla tíð einkennst af frumkvæði og virkni almannasamtaka með þeim ágæta árangri að áfengisneysla Íslendinga er með því minnsta sem þekkist í heiminum og staða okkar varðandi önnur vímuefni er ekki svo slæm í samanburði við nágrannaþjóðir. Hið sama má segja um tóbaksvarnir. Þar hafa krabbameinsfélögin farið fyrir (með þátttöku ríkisins síðustu ár) og náð frábærum árangri.

Hlutverk félagasamtaka í vímuvörnum felst í fyrsta lagi í því að berjast fyrir úrbótum og kalla eftir árangri í baráttunni gegn vímuefnavandanum. Hér á ég bæði við stefnu og leiðir. Í því þarf bæði að beina spjótum inn á við, til borgaranna, til fólksins í landinu og til stjórnvalda. Hvað þetta varðar eru aðkoma samtaka með ýmsum hætti. Samtök sem leggja fram heildstæða forvarnastefnu, þ.e. áfengis- og vímuvarnapólitík, s.s. bindindissamtökin, setja fram annars konar áherslur en samtök sem sinna öðrum verkefnum, s.s. íþróttastarfi eða foreldrasamstarfi. Það er eðlilegt og skiljanlegt. Síðarnefndu samtökin hafa eðli málsins samkvæmt þrengra sjónarhorn á vímuvarnir, sjónarhorn sem takmarkast við verksvið þeirra og viðfangsefni. Samtök sem hafa eitthvað að segja um markmið og leiðir í vímuvörnum þurfa þó öll að láta rödd sína heyrast, fylkja liði og afla stuðnings við baráttumál sín og stefnu.

Í forvörnum eru ýmis álitamál. Margt í forvörnum varðar t.d. grundvallarspurningar í stjórnmálum og viðskiptum. Dæmi um það er t.d. fyrirliggjandi frumvarp um að leyfa sölu áfengis í verslunum, svo dæmi sé tekið úr líðandi stund. Við getum sjálfagt flest verið sammála um þann fróma ásetning að vinna gegn áfengisvandanum. Um leiðirnar er hins vegar deilt. Þá geta rekist á sjónarmið um hvað líklegast er til árangurs og pólitískir og/eða fjárhagslegir hagsmunir staðið gegn forvarna- og lýðheilsusjónarmiðum. Rannsóknir segja okkur að aukið aðgengi að áfengi auki neyslu áfengis og þar með vandann sem af neyslunni hlýst. Frumvarpið gengur því gegn almannaheill og lýðheilsumarkmiðum. Á móti kemur svo hagnaðarsjónarmið verslunar og viðskipta, jafnvel pólitísk sýn sem gerir lítið úr lýðheilsuþættinum en telur grundvallarviðmið viðskipta og verslunar veigameiri.

Í öðru lagi felst hlutverk félagasamtaka í að skapa sér samræðu- og samstarfsvettvang um forvarnir. Stilla saman strengi þar sem við á og skipta með sér verkum þar sem það á við.

Í þriðja lagi felst hlutverk félagasamtaka í að ráðast í verkefni á sviði forvarna ef þeim er ekki sinnt með öðrum hætti. Standa fyrir fræðslu- og upplýsingastarfi, tómstunda- og félagsstarfi og veita ráðgjöf. Hér geta félagasamtök gert í það minnsta jafnvel og stjórnvöld eða opinberar stofnanir. Félagasamtök ráða sérfrótt og sérmenntað fólk til að sinna sértækum verkefnum, rétt eins og stjórnvöld. Ábyrgð og faglegur metnaður er ekkert síðri.

Hér koma stjórnvöld til sögunnar með fjármagn til starfsemi og verkefna félagasamtaka. Með fjármagni til verkefna og almennrar starfsemi er verið að styrkja undirstöður félagasamtaka og auðvelda þeim að standa vaktina í forvörnum. Þetta á t.d. við um bindindissamtökin. Hljóðni sú rödd sem óhikað hefur beitt sér í stefnumótun í áfengis- og vímuvörnum án tillitis til pólitískra eða fjárhagslegra hagsmuna kann að draga úr einurðinni í þessari baráttu.

Að síðustu vil ég segja þetta. Það er mikilvægt að góð tengsl séu á milli stjórnvalda og opinberra stofnana og félagasamtaka. Það þurfa báðir að virða takmarkanir, möguleika og sérstöðu hins. Samskipti og samstarf á jafnræðisgrundvelli skapar okkur sterkari stöðu og stuðlar að frjórra starfi. Fjölþætt nálgun í forvörnum er kostur en ekki ókostur. Áfengis- og vímuefnavandinn snertir flest svið samfélagsins. Leiðir til úrbóta, forvarnirnar gera það væntanlega einnig.

Árni Einarsson

[1] Belknap, 1977 C. Belknap, The federal income tax exemption of charitable organizations: its history and underlying policy, Research Papers, Taxes vol. IV, Commission on Private Philanthropy and Public Needs, Department of the Treasury, Washington, DC (1977), pp. 2025–2043.

[2] Á ensku er þessi hópur nefndur Mutual Benefit Organizations.

[3] Sambærilegt við enska hugtakið Public Benefit Organization.

Um foreldrasamstarf og forvarnir

Viðtal við Árna Einarsson í Heimili og skóli árið 2009

Forvarnaskólinn, bætt menntun og færni þeirra sem starfa að forvörnum

Árangursríkt forvarnarstarf í grunnskólum er lykilatriði í víðtækum forvörnum og til þess þarf þekkingu og færni. Forvarnaskólinn var stofnaður í janúar 2007. Markmið skólans er að auka þekkingu þeirra sem starfa að forvörnum og auka gæði slíks starfs með því að bjóða upp á skipulagða og skilgreinda fræðslu. Námið er ætlað þeim sem vinna, eða ætla sér að vinna, að forvörnum á ýmsum sviðum, s.s. sveitarfélögum, fyrirtækjum, skólum, félagasamtökum, æskulýðs- og íþróttastarfi, fólki sem starfar við löggæslu, sálgæslu, félagsþjónustu eða tekur þátt í kirkjulegu starfi. Með náminu gefst kostur á að öðlast yfirsýn á stuttum tíma sem annars tæki flesta langan tíma. Námið er alls 150 klukkustundir og spannar fjóra mánuði. 100 klukkustundir eru skipulagðar kennslustundir; 50 klukkustundir eru til heimanáms og verkefnavinnu.

Hvers vegna eru forvarnir mikilvægar?

,,Það er margt í lífsstíl okkar sem beinlínis veldur okkur skaða, rænir okkur heilsu og skerðir lífsgæði. Það góða er að margt, jafnvel flest sem hér um ræðir, er hægt að fyrirbyggja. Þar kemur til kasta forvarna. Það er hins vegar ekki þar með sagt að viðfangsefnið sé einfalt. Í fyrsta lagi þarf að ríkja skilningur og sæmileg samstaða um hvað við viljum fyrirbyggja. Við þurfum að skilgreina vandann og koma okkur saman um að mikilvægt sé að koma í veg fyrir hann. Í öðru lagi þurfum við að setja okkur markmið; koma okkur saman um hvernig við viljum hafa ástandið. Í þriðja lagi þurfum við að koma okkur saman um hvað við ætlum að gera til þess að fyrirbyggja vandann sem við er að fást, velja leiðir. Til þess þurfum við að þekkja og kunna skil á hvað veldur vandanum sem við viljum bregðast við, þekkja svokallaða áhrifaþætti. Það er ekki víst að það gangi þrautalaust fyrir sig að komast að samkomulagi um leiðir þótt við vitum hvaða áhrifaþætti við er að eiga. Forvarnir snúast því ekki síst um siðferðileg gildi okkar sem samfélags og almenna lífssýn. Hvaða mannlegu og félagslegu verðmæti eru það t.d. sem eru okkur svo mikilvæg að við teljum nauðsynlegt að verja þau með öllum tiltækum ráðum?”

– Hvernig tengjast forvarnir siðferðisuppeldi heimila og skóla?

,,Forvarnir koma inn á flest svið lífsins og varða fjölmarga þætti samfélagsins. Við þurfum því að varast trú á einfaldar, afmarkaðar lausnir. Við skulum hafa hugfast að forvarnir felast ekki eingöngu í fræðslu og þekkingu, t.d. á skaðsemi vímuefna, þótt þetta tvennt sé mikilvægt. Árangur í forvörnum byggist á því að vinna markvisst og skipulega á mörgum sviðum. Foreldrar eru í lykilhlutverki í forvörnum í mörgu tilliti, fyrst og fremst, vitaskuld, í uppeldi eigin barna. Það felst t.d. í því hvernig búið er að börnum og lögð rækt við þau tilfinningalega, vitsmunalega og félagslega. Uppeldishlutverk okkar  hvers og eins felst líka í því hvers konar fyrirmyndir við erum börnum okkar og áhrifum okkar á lífsviðhorf þeirra, gildismat og framtíðarsýn. Stuðningur foreldra við tómstundastarf barna er einnig mikilvægur.

Uppeldishlutverk okkar sem foreldra felst líka í ýmsum ákvörðunum sem við tökum í störfum okkar á fjölmörgum sviðum þjóðfélagsins og geta haft mikil og djúpstæð áhrif á börn og ungmenni, okkar eigin og annarra, og ráðið miklu um hvernig þeim farnast. Þetta á ekki síst við um þá sem eru leiðandi í opinberri stefnumörkun og mótandi fyrir samfélagsgerðina. Við þurfum að hafa í huga hagsmuni hverra við erum að tryggja eða verja í ákvörðunum okkar?

Hlutverk og ábyrgð skóla er um margt líkt og foreldra. Nær öll börn ganga í skóla og verja stærstum hluta vökutíma síns innan veggja skóla eða á ábyrgð hans. Aðbúnaður og umönnun starfsfólks skóla eru því meðal mikilvægustu verkefna samfélagsins. Við ætlum skólum, auk heimilanna, að undirbúa börnin okkar fyrir framtíðina, mennta þau og gera þau fær um að sjá fótum sínum forráð og njóta lífsins. Í því starfi eigum við aðeins að sætta okkur við það besta sem völ er á og gera skólunum kleift að sinna hlutverki sínu sem best.”

-Hvernig geta foreldrasamtök tekið þátt í forvörnum?

,,Mikilvægt er að þeir sem sinna forvörnum hafi gott samstarf sín á milli svo að forvarnirnar verði markvissari. Heimili og skóli eru mikilvægir samherjar og samstarfsaðilar um uppeldi barna og ungmenna. Foreldrafélög eru í senn lýðræðislegur samstarfsvettvangur foreldra og samstarfsvettvangur foreldra og starfsfólks skóla. Öflugt foreldrastarf er því eitt af því sem stuðlar að árangri í forvörnum og felur svo margt í sér. Foreldrastarfið er m.a. vettvangur stefnumörkunar þar sem foreldrar koma sér saman um ýmsar áherslur og uppeldisleg gildi. Við getum nefnt útivist barna í því sambandi. Gott samstarf heimila og skóla stuðlar að samræmi í orðum og athöfnum, að skólinn fylgi eftir uppeldisáherslum foreldra og öfugt.”

Árni bendir á að þeir sem nú ráðast til starfa í forvörnum komi að þeim á ýmsum forsendum og með ólíkan bakgrunn. Í því felist bæði kostir og gallar. Kostirnir  kunni að vera þeir að vegna mismunandi forsendna og bakgrunns leiti fólk mismunandi leiða í forvörnum, en gallarnir hins vegar þeir að grundvallarþekkingu skorti, s.s. varðandi áhrifaþætti, stefnumótun og framkvæmd. Náminu í Forvarnaskólanum sé ætlað að koma til móts við þetta og sé viðleitni til þess að bæta menntun og færni þeirra sem starfa að forvörnum.

Sjá viðtalið í blaðinu hér á bls. 38-39..

Lýðheilsa- og forvarnir eru langtímaverkefni. Ávinningur þeirra kemur yfirleitt í ljós á löngum tíma og þar reynir á þolinmæði og skýra heildar- og framtíðarsýn. Því miður skortir nokkuð á að þessu sé til að dreifa hér á landi. Okkur er enn tamt að tala um forvarnir í verkefna- og skammtímasamhengi, s.s. forvarnaátök, forvarnavikur eða forvarnadaga. Frumvarpið um breytingu á áfengislögum sem nú liggur fyrir Alþingi og, að því er virðist, nýtur ótrúlega mikils stuðnings þingmanna, er dæmi um skort á heildar- og framtíðarsýn.

Okkur sem vinnum að forvörnum finnst við stundum tala fyrir daufum eyrum, þegar stjórnmálastéttin er annars vegar og að orðum þeirra fylgi ekki alltaf mikil alvara. Það þýðir þó ekki að forvarnir standi og falli eingöngu með þeim. Við þurfum hvert og eitt að horfa í eigin barm; hvað getum við lagt að mörkum; hverju getum við breytt í okkar eigin lífi og lífsvenjum; erum við góðar fyrirmyndir?

Mikilvægi forvarna ætti öllum að vera ljóst. Talið er að sjúkdómar tengdir lífsstíl kosti heilbrigðiskerfið ríflega hundrað milljarða á ári, eða um 70-80 prósent af því fjármagni sem fer til heilbrigðismála. Fyrir utan kostnaðinn fyrir heilbrigðiskerfið missir þjóðfélagið verðmæta þegna; vegna ótímabærs dauða eða örorku missir samfélagið fólk af vinnumarkaði, fólk sem sinnir sjálfboðaliðastörfum, heimilisstörfum, barnauppeldi og öðrum störfum sem halda samfélaginu gangandi og skapa hagvöxt.

Íslenska heilbrigðiskerfið kostaði 139 milljarða árið 2013. 2,6% af þeirri fjárhæð fór í forvarnir. 0,4% til forvarna utan heilbrigðiskerfisins. 70-80% kostnaðar kemur til vegna langvinnra, lífsstílstengdra sjúkdóma. Íslendingar lifa lengi en verja að meðaltali 14 árum (17% ævinnar) við talsvert eða verulega skerta virkni. 17.000 eru á örorkulífeyri á Íslandi og hefur fjölgað þrefalt hraðar en almenn fólksfjölgun á landinu síðastliðin 15 ár. Það er því augljóslega eftir nokkru að slægjast fyrir samfélagið að bæta hér úr.

Guðmundur Löve, framkvæmdastjóri SÍBS, gerir þessu ágæt skil í SÍBS-blaðinu sem kom út í október 2014. Þar segir hann megináherslu íslenska heilbrigðiskerfisins vera að bregðast við þeim skaða sem þegar er orðinn í stað þess að koma í veg fyrir hann. Hann bendir á að með auknum forvörnum væri hægt að spara gríðarlega fjármuni.

„Það má segja að við höfum náð eins langt og núverandi tækni og peningar leyfa í meðhöndlun sjúkdóma enda er lífaldur Íslendinga hár. Við erum mjög dugleg að halda fólki á lífi en eigum erfiðara með að koma í veg fyrir að langvinnir sjúkdómar vindi upp á sig og dæmi fólk úr leik.“

Viðbragðsdrifna heilbrigðiskerfið fær fertugfalt fjármagn á við forvarnadrifna kerfið. „Þetta er að mörgu leyti óeðlilegt þar sem stór hluti langvinnra sjúkdóma tengist lífsstíl sterkum böndum og hægt væri að koma í veg fyrir þá með markvissum forvörnum. Við gætum notað peninginn betur. Tökum sem dæmi sameiginlegt tryggingarfyrirtæki okkar allra, Sjúkratryggingar Íslands, sem borgar allan sjúkrakostnað. Stofnunin hefur engar heimildir til að fjárfesta í forvörnum til að takmarka sínar eigin útgreiðslur eins og öll önnur tryggingarfélög í heiminum gera.“

Guðmundur segir mikilvægt að líta á heilsufarsskaða á víðari grunni en aðeins út frá dauðsföllum og banvænum sjúkdómum því að í raun sé jafn stórum hluta æviára varið við skerðingu og örorku á Íslandi.

„Við komumst ekki lengur upp með viðhorfið að heilbrigðiskerfið sé verkstæði sem geri við brotna og bilaða líkama og huga. Hagfræðin lítur á mannauð sem langtímafjárfestingu og við verðum að sinna viðhaldi til að halda fólkinu okkar heilbrigðu – að ekki sé nú talað um þá mannlegu þjáningu sem liggur að baki sjúkdómum og dauða.“

Sóknarfærin eru næg og möguleikar samfélags eins og okkar, með sterka innviði, menntakerfi, heilbrigðiskerfi, almenna menntun og almenna velferð, til að gera vel í forvörnum eru miklir. Í öllum þessum kerfum, sveitarfélögum, íþróttastarfi og innan grasrótar- og almannaheillasamtaka eru ótal tækfæri til að vinna á heildrænan og markvissan hátt þess að stuðla að heilbrigði þjóðarinnar. Þar á meðal hvað varðar ávana- og vímuefnaneyslu.

Hlutverk Fræðslu og forvarna er að styrkja og efla forvarnir í landinu með fjölbreyttu upplýsinga- og fræðslustarfi með þekkingu í þágu forvarna að leiðarljósi. Auk þess byggir starf FRÆ á þeirri sýn að forvarnir séu samfélagslegt viðfangsefni; það sé samfélaginu hagfellt að forvarnir skili árangri og til þess að svo megi verða þurfi allt samfélagið að koma að, hvort heldur er stefnumörkun eða framkvæmd.

Þessi sýn fellur vel að þörfum forvarna nú. FRÆ hefur því engu minna hlutverki að gegna nú en þegar miðstöðin var sett á laggirnar fyrir rúmum tuttugu árum. Það er enn þörf fyrir þekkingu í forvörnum, frumkvæði og samstarf.

Reykjavík, 20. janúar 2016.

Árni Einarsson

Lífsins alvara-hugleiðing um mikilvægi heilsueflingar og forvarna

Heilsuefling og heilbrigðir lífshættir eru eitt af mikilvægastu viðfangsefnum samtímans, bæði í pólitísku og efnahagslegu tilliti. Við erum að nálgast leiðarenda í meðferð og viðgerðum í heilbrigðiskerfinu. Við þurfum gagngera hugarfarsbreytingu með þátttöku alls samfélagsins. Það er tímabært að ávinningur heilsueflingar og forvarna verði meira í umræðunni. Góð heilsa er langtímafjárfesting sem skilar sér beint sem fjárhagslegur ávinningur til samfélagsins, að ekki sé talað um þá mannlegu þjáningu sem liggur að baki sjúkdómum og dauða.

Ekki bara gamlir og sjúkir

Þegar varað er við fyrirsjáanlega auknu álagi á heilbrigðiskerfi landa er eðlilega bent á að meðallífslíkur í heiminum eru að aukast. Árið 2013 voru reiknaðar meðalævilíkur við fæðingu í OECD-löndunum 80,5 ár, en ævilíkur í þessum löndum hafa aukist um meira en tíu ár frá árinu 1970. Á sama tímabili hafa ævilíkur Íslendinga við fæðingu aukist úr 74 árum í 82,1 ár.[1]

Með öðrum orðum: Ævi fólks lengist að meðaltali og líkur eru á að þeim sem ná háum aldri fjölgi. Þegar aldurinn færist yfir fer heilsan að bila og þörfin fyrir heilbrigðisþjónustu eykst. Því verður ekki mótmælt.

Þörfin fyrir heilbrigðisþjónustu og kostnaður samfélagins vegna vanheilsu er þó ekki bundin við aldur. Ýmislegt fleira kemur til. Kyrrseta fólks (hreyfingarleysi hefur aukist), mataræði er ábótavant, sykurneysla er óhófleg og notkun ýmissa heilsuspillandi efna, s.s. tóbaks, áfengis og annarra vímuefna er útbreidd.

Þessu fylgir mikið álag á heilbrigðiskerfið með tilheyrandi kostnaði. Vissulega viljum við öll gott og traust heilbrigðiskerfi sem er til staðar þegar við þurfum á að halda. Það hefur samt sín takmörk og ekki endalaust hægt að bæta í. Þá kemur til kasta heilsueflingar og forvarna.

Ábyrgðin er okkar

Stærstan hluta vanheilsu fólks má rekja til lífsstíls (að mati Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar), þ.e. byggist á vali og ákvörðunum fólks um hvernig það hagar lífi sínum. Ofþyngd, háþrýstingur, há blóðfita, hár blóðsykur ýmsir hjarta- og æðasjúkdómar og krabbamein eru allt dæmi um þetta. Það jákvæða er hins vegar að úrbæturnar liggja hjá okkur sjálfum. Það er ekkert náttúrulögmál að hafa þetta svona. Við getum breytt þessu. Ábyrgðin er okkar, hvers og eins, og saman. Til þess að ná árangri þurfum við líklega umfram allt samstilltan vilja, einhug, þar sem allir leggja sitt að mörkum. Stjórnvöld, félagasamtök og einstaklingar hafa þar hlutverk, hver á sinn hátt. Við þurfum að hugsa heildrænt, samræma og sérhæfa eftir þörfum. Við þurfum fræðslu og hvatningu um heilbrigðan lífsstíl, við þurfum að bregðast skjótt við vísbendingum um óheillavænlega þróun, við þurfum að þora að beita neyslustýrandi ráðum, hvort heldur gagnvart heilsueflandi þáttum eða óhollustu og við þurfum gott aðgengi og möguleika til þess að velja heilbrigðan lífsstíl,

Líf og heilsa, stöndum vörð um æviárin

Það er mikilvægt að hafa í huga að þegar talað er um tjón samfélagsins vegna heilsutjóns þá er ekki bara horft til dauðsfalla og taps samfélagsins vegna þeirra. Skoðum þetta aðeins nánar.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin notar mælikvarðann „glötuð góð æviár“ sem mælikvarða á þau æviár sem glatast vegna ótímabærs dauða og örorku til skemmri eða lengri tíma. Tökum sem dæmi: Meðalævi á Íslandi er 86 ár. Ef manneskja fær sjúkdóm fertug og fer á örorku hefur hún glatað 46 góðum æviárum samkvæmt þessum skilningi. Æviárin eru glötuð að því marki að fólk getur ekki tekið fullan, óskertan og sjálfvalinn þátt í daglegu lífi eða á vinnumarkaði. Þessu vilja allir, bæði þeir sem fyrir verða og samfélagið allt, sporna gegn og lágmarka. Hér þurfum við líka að hafa í huga að heilsa er ekki einungis spurning um líkamsástand. Við þurfum einnig að hafa sálræna og félagslega heilsu í myndinni.

Dýrt að vanrækja heilsueflingu og forvarnir

Nú er lögð mun meiri áhersla á að bregðast við heilsuskaða sem þegar er orðinn í stað þess að koma í veg fyrir hann. Við erum mjög fær í að halda fólki á lífi en minna er lagt upp úr að koma í veg fyrir heilsutjón. Það er miður, því að með auknum og markvissum forvörnum væri hægt að spara gríðarlega fjármuni og nota þá betur.

Ótímabær dauði og æviár lifuð við örorku eða sjúkdóm á einu ári á Íslandi kosta samfélagið umtalsverðar fjárhæðir, hugsanlega á bilinu 3-400 milljarða.[2] Það er því eftir miklu að slægjast og hver prósenta dýr. Það er því óeðlilegt að viðbragðsdrifna heilbrigðiskerfið fái fertugfalt fjármagn á við forvarnadrifna kerfið.

Ef við svo horfum til þess að íslenska heilbrigðiskerfið kostaði 139 milljarða árið 2013[3] og 2,6% af þeirri fjárhæð fór í forvarnir, 0,4% til forvarna utan heilbrigðiskerfisins með hliðsjón af því að 70-80% kostnaðar heilbrigðiskerfisins kemur til vegna langvinnra, lífsstílstengdra sjúkdóma, þá verður þessi áhersluskekkja enn skýrari. Við þurfum algera hugarfarsbreytingu.

Sjá greinina í Skinfaxa hér á bls. 47.

[1] Talnabrunnur. Fréttabréf landlæknis um heilbrigðisupplýsingar. 9. árg. 10. tölublað. Nóvember 2015.

[2] Guðmundur Löve: Úr hverju deyjum við. Sótt á internetið 29. febrúar 2016.

[3] Erla Björg Gunnarsdóttir: Lífsstíllinn að drepa landann. Sótt á internetið 29. febrúar 2016.

FRÆ hefur frá stofnun beitt sér í stefnumörkun á ávana- og vímuefnamálum. Fyrir liggur að ýmsir þættir sem varða aðgengi að áfengi og öðrum ávana- og vímuefnum eru meðal áhrifaríkustu forvarnaaðgerða sem hægt er að beita. Þar á meðal er fyrirkomulag á smásölu áfengis. Af þeirri ástæðu hefur FRÆ lagt ríka áherslu á að núverandi fyrirkomulagi í þeim efnum hér á landi verði viðhaldið. Afnám þess fyrirkomulags gemgur gegn öllum þekktum forsendum árangursríkra áfengisvarna og markmiðum í lýðheilsu og til þess fallið að auka áfengisneyslu landsmanna.

Neysla áfengis er talin meðal stærstu áhrifaþátta heilsufarsvandamála og ótímabærra dauðsfalla í heiminum. Neysla áfengis hefur þar af leiðandi umtalsverð áhrif á samfélagið í heild vegna sjúkdómabyrði, beins og óbeins fjárhagslegs kostnaðar s.s. í heilbrigðiskerfinu, félagskerfinu og réttarkerfinu, og í formi óefnislegs tjóns eða miska.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, hefur ítrekað bent á að sjúkdómar vegna áfengisneyslu séu verulegt vandamál. Áfengisneysla hafi mikil áhrif á dánaraldur og sé meiriháttar áhrifavaldur fjölmargra alvarlegra sjúkdóma og líkamsáverka sem unnt væri að draga úr eða koma í veg fyrir með minni neyslu.[1]

Áfengisneysla hefur ekki aðeins í för með sér heilsufarsleg vandamál. Samfélagsleg vandamál tengd áfengisneyslu eru ekki síður áhyggjuefni. WHO hefur auk þess vakið sérstaka athygli á því samfélagsmeini sem áfengisneysla og ölvun ungmenna er, einkum í Vestur-Evrópu.4  Mat stofnuninarrinar er að í aldurshópnum 20-30 ára megi rekja fjórðung allra dauðsfalla til neyslu áfengis.

Þá eru ótaldar afleiðingar fyrir aðra en neytandann sjálfan, bæði félagslegar og heilsufarslegar. WHO telur að gefa þurfi þeim skaða sem áfengisneysla getur haft á aðra en þann sem neytir áfengisins sérstakan gaum og leggja áherslu á að draga úr þessum óbeinu áhrifum áfengisneyslunnar, sem rannsóknir benda til að séu mjög umgangsmikil. Sem dæmi um skaðann sem aðrir geta beðið eru meiðsli, hvort tveggja af ráðnum hug t.d. ofbeldi og manndráp og slysni s.s. umferðaslys og slys á vinnustað, tjón vegna vanrækslu eða misnotkunar, eignatjón og röskun á friði og öryggi.

Rannsóknir sýna að mikil tengsl eru á milli aðgengis að áfengi og neyslu þess, þ.e. að aukið aðgengi leiði til aukinnar neyslu.[2] Því meiri sem neyslan er, þeim mun umfangsmeiri er skaðinn. Öll viðleitni til þess að draga úr eða lágmarka neyslu áfengis er því stuðningur við heilsu einstaklinga, hag fjölskyldna, almenna velferð og dregur úr samfélagslegum kostnaði.[3]

Það er því ekki að ófyrirsynju að sérfræðingar í lýðheilsu og heilbrigðismálum hvetji stjórnvöld um allan heim til þess að taka áfengisneyslu föstum tökum, skilgreini áfengisvarnir sem eitt af forgangsmálum í lýðheilsu og beiti árangursríkum aðferðum til þess að halda neyslu áfengis sem mest niðri.

Einkasala ríkisins á áfengi er dæmi um einfalda leið til þess að stýra aðgengi að áfengi. Miklar líkur eru á að einkasala á áfengissölu dragi úr neyslu og tjóni sem af neyslunni getur hlotist. Þá benda niðurstöður til þess að heildarneysla áfengis aukist verði einkasölunni aflétt. Að takmarka smásölu áfengis við áfengisverslanir sem falla undir almannavald, eins og nú er hér á landi, er hagkvæmur og áhrifaríkur þáttur í áfengisforvörnum.[4

Markaðssetning áfengis er iðnaður á heimsvísu. Áfengi er auglýst í útvarpi, sjónvarpi og í dagblöðum auk þess eru kynningar í verslunum og á Internetinu. Við síendurteknar auglýsingar á áfengi myndast ákveðin jákvæð viðhorf til áfengis og um leið aukast líkurnar á að áfengisneysla aukist.[5]

Áfengisauglýsingar gera ungt fólk móttækilegt fyrir áfengi löngu áður en það hefur aldur til að kaupa það og neyta þess. Sannað þykir að áfengisauglýsingar auki og efli það viðhorf að neysla áfengis sé jákvæð, flott og hættulaus.5

Núverandi fyrirkomulag hefur gefist vel, m.a. með þeim árangri að áfengisneysla Íslendinga er með því minnsta sem þekkist. Góður árangur sem náðst hefur í barna- og unglingadrykkju hefur vakið alþjóðlega athygli og aðdáun. Hann rennir gildum stoðum undir þá áfengisstefnu sem mótuð hefur verið og fylgt á Íslandi. Þessum árangri má ekki stefna í hættu. Mikill stuðningur almennings við núverandi fyrirkomulag á smásölu áfengis sem fram kemur í fjölda viðhorfskannana sýnir að þjóðinni er þetta ljóst.

Reykjavík, 23. febrúar 2018.

Árni Einarsson

[1] Global status report on alcohol and health 2014 (World Health Organization).

[2] European action plan to reduce the harmful use of alcohol 2012-2020.

[3] Global status report on alcohol and health 2014 (World Health Organization).

[4] Alconol: No Ordinary Commodity – Research and Public Policy. Babor o.fl. í endurbættri útgáfu árið 2010. íslensk samantekt.

[5] Árni Einarsson (2004). Börn og unglingar, helsti markhópur áfengisauglýsinga. Áhrif, 1. tbl. 2004.

Forvarnir eru alvörumál!

Ávana- og vímuefnaforvarnir eru lifandi og síkvikt viðfangsefni. Markmið þeirra og inntak er að bæta lífsgæði fólks og firra samfélagið kostnaði sem fylgir ávana- og vímuefnaneyslu. Birtingarform viðfangsefnisins eru ekki ávallt þau sömu og ný þekking á áhrifaþáttum hennar hefur áhrif á þær leiðir sem lögð er áhersla á hverju sinni og ýmsar samfélagsbreytingar kalla á breytta nálgun í forvörnum.

Meðal brýnna verkefna þeirra sem vinna að ávana- og vímuefnavörnum á Íslandi hefur verið að verja það fyrirkomulag á áfengissölu að það lúti samfélagslegri ábyrgð og sé á forræði almannavaldsins, svo og að halda aftur af markaðssetningu áfengis þar sem hvatinn er fjárhagslegur ávinningur á kostnað almannahagsmuna og lýðheilsu. Ítrekað hafa alþingismenn, eða hluti þeirra, lagt fram á Alþingi frumvörp sem hafa að markmiði að heimila sölu áfengis í almennum verslunum. Það er óneitanlega sérstakt að flestar hugmyndir og tillögur sem koma frá þingmönnum og varða ávana- og vímuefni miði að því að grafa undan og leggja af fyrirkomulag sem vitað er að skilar árangri og kemur bæði borgurunum og ríkisrekstrinum vel. Hvort um er að ræða vanþekkingu eða stuðning við aðra hagsmuni en almannahagsmuni er ekki ljóst. Sem betur fer eru þó á þessu undantekningar eins og samþykkt laga um rafsígarettur sem samþykktar voru í júní 2018 og koma til framkvæmda 1. mars 2019. Þótt æskilegt væri að lögin gengju lengra en sátt náðist um í þinginu eru þau samt spor í þá átt að bregðast við stóraukinni notkun rafsígaretta meðal ungmenna og ná tökum á því ástandi sem ríkt hefur í þessum efnum. Það hefur svo komið á daginn að betur má ef duga skal.

Með forvörnum viljum við fækka þeim sem missa ótímabært heilsu sína og fjölga þeim æviárum sem fólk getur notið lífsins við góða heilsu og hámarkað lífsgæði sín. Ávinningurinn af því nýtist bæði einstaklingum og samfélaginu öllu. Á undanförnum árum hefur áhugi á lýðheilsu og forvörnum aukist til muna og þeim fjölgar stöðugt sem átta sig á því að auknu álagi á heilbrigðisþjónustu verður ekki endalaust og eingöngu mætt með auknu fjármagni og uppbyggingu heilbrigðisstofnana til þess að takast á við sjúkdóma og vanheilsu. Þess vegna þurfa forvarnir og heilsuefling að vera forgangsmál stjórnvalda og félagsamtaka sem vinna að almannaheill. Það hagnast margir á því að framleiða, dreifa, selja og hvetja til neyslu ávana- og vímuefna og fleiri skaðlegra efna. Þeir eru meðal stærstu hindrana í því að draga úr eða uppræta neyslu þessara efna og vinna gegn lausnum á þeim skaða sem þau valda. Það er því meðal verkefna FRÆ- Fræðslu og forvarna og annarra sem vinna að heilsueflingu og forvörnum að takmarka eða koma í veg fyrir afskipti þessara aðila af stefnumörkun og forvarnastarfi. Þessi viðleitni mætti að ósekju njóta meiri stuðnings á Alþingi.

FRÆ hefur ekki skilgreint formlega eða metið vægi helstu áhættuþátta í íslensku samfélagi, það er þátta sem ógna lífi okkar, heilsu og velferð. Stærstu áhættuþættirnir sem við stöndum frammi fyrir eru alþjóðlegir eða hnattrænir. Það er nokkuð augljóst að ógnir sem steðja að í umhverfismálum eru þær sem kalla á skjótust og víðtækust viðbrögð og aðgerðir. Lífsvenjur okkar og lífsgæði, eins og við þekkjum þau nú, eru þar að veði. FRÆ hefur hins vegar valið að verja kröftum sínum að lífsstílstengdum heilsufarsáhættuþáttum, það er því sem hefur áhrif á heilsu og velferð fólks og er í mannlegu valdi að stjórna eða hafa markviss áhrif á. Þar er eftir miklu að slægjast, enda áætlað að koma megi í veg fyrir 60-80% lífstílstengdra sjúkdóma og samfélagslegra vandamála sem mannkynið stendur frammi fyrir.

Tilvist og starfsemi FRÆ helgast af samfélagslegri ábyrgð, sé sá skilningur lagður í það hugtak að það sem gert er skili ávinningi til samfélagsins. Aðgerðir sem miða að því að draga úr neyslu ávana- og vímuefna, hverju nafni sem þær nefnast, skila samfélaginu ávinningi. Sá ávinningur snýr bæði að einstaklingum, fjölskyldum og þjóðarbúinu öllu. Starfsemin og reksturinn er óhagnaðardrifinn og öllu fjármagni sem félagið hefur úr að spila er ráðstafað í þágu samfélagsins.

FRÆ byggir starf sitt og tilvist á þeim skilningi að til þess að koma á samfélagslegum breytinga, sem verða á lýðræðislegan hátt, þurfi að vera til staðar öflugir málsvarar þeirra og almenn þátttaka og viðurkenning borgaranna. Þessu reynir FRÆ að ná með víðtæku samstarfi við fjölda aðila, ýmist beint með formlegri aðild eða í gegnum ýmis tengslanet, bæði innanlands og í Evrópu (einkum á hinum Norðurlöndunum). Framkvæmdastjóri FRÆ og stjórnarfólk situr í stjórnum sumra þessara samtaka og tengslaneta til þess að styrkja þessar stoðir enn frekar. Meðal samstarfsaðila eru opinberar stofnanir (á landsvísu og sveitarstjórnarstigi) og félagasamtök sem vinna að forvörnum og eflingu lýðheilsu og eiga þar af leiðandi beina samleið með FRÆ. Einnig aðilar sem vinna að rannsóknum. Þessir aðildar eru margir hverjir bæði notendur þjónustu FRÆ og samstarfsaðilar.

FRÆ leggur áhersla á að fræða og þjálfa þá sem vinna með þeim í daglegu starfi á vettvangi skóla og frístundastarfs og hagnýta þekkingu á áhrifaríkum leiðum. Með því er lagður grunnur að því að forvarnir og heilsuefling séu hluti af skipulögðu uppeldis- og fræðslustarfi í höndum þeirra sem eru í daglegum tengslum við börn og ungmenni í stað þess að vera tilfallandi ,,viðburður“ í lífi þeirra, sem sjaldan eða ekki er fylgt eftir. Með öðrum orðum, áhersla er lögð á að ná til kennara, forvarnafulltrúa og annars starfsfólks grunnskóla, stjórnenda og starfsfólks í íþrótta- og tómstundastarfi og foreldra og auka þekkingu þeirra og færni til þess að sinna forvörnum á sínum sviðum.

Árni Einarsson, framkvæmdastjóri FRÆ

(Byggt á ársskýrslu FRÆ 2019)

Covid og forvarnir

Covid-19 faraldurinn, sem hófst í byrjun ársins 2020, hefur sett heimsbyggðina úr skorðum og heldur henni enn í heljargreipum. Endurteknar bylgjur faraldursins sýna ljóslega að ógjörningur er að spá fyrir um lok hans, þrátt fyrir að væntingar um slíkt hafi aukist samhliða almennri bólusetningu sem hafin er um allan heim.

Faraldurinn sjálfur og heilsufarslegar afleiðingar hans, hin víðtæku inngrip í gangvirki samfélagsins og efnahagsleg áhrif hafa sett veruleika okkar úr skorðum. Margt af því sem við áður töldum sjálfsagt og nánast sjálfgefið er það ekki lengur. Jafnvel ómögulegt. Fólk hefur dáið, og deyr vegna faraldursins og missir heilsu. Sumar atvinnugreinar berjast í bökkum, fólk hefur misst atvinnu sína og lífsafkoma fjölmargra er í uppnámi. Samskiptum okkar hafa verið settar ýmsar hömlur og daglegt líf gjörbreyst.

En þótt hinar neikvæðu afleiðingar séu okkur e.t.v. efstar í huga hefur faraldurinn einnig haft jákvæð áhrif. Dregið hefur úr losun gróðurhúsalofttegunda, loftmengun minnkað og viðhorf okkar til ýmissa hluta breyst, sum vonandi til batnaðar. Líklega metum við betur ýmis gæði en áður og faraldurinn opnað augu okkar fyrir ýmsu sem áður var njörvað í viðjar vanans og við sjaldan leitt hugann að. Nýjar leiðir og lausnir hafa verið þróaðar til þess að mæta breyttum aðstæðum og ýmsu sem áður hafði verið á byrjunarstigi eða þróunarferli verið hrint í framkvæmd á stuttum tíma.

Það er enn of snemmt að gera áhrif faraldursins upp. Margt munum við ekki sjá fyrr en að löngum tíma liðnum. Þar á meðal eru áhrif á heilsu okkar, bæði líkamlega, félagslega og geðræna. Við vitum til að mynda ekki hvaða áhrif faraldurinn hefur á notkun ávana- og vímuefna, né heldur viðhorf okkar til þeirra og þess skaða sem þau valda. Við vitum ekki hvernig ýmsir áhrifaþættir ávana- og vímuefnaneyslu munu þróast, svo sem geðheilsa, og skortur á tækifærum, félagslegum og efnahagslegum.

Staðan sem leiddi af Covid faraldrinum hefur haft ýmiss konar áhrif á starfsemi FRÆ. Sérstaklega á möguleika til fræðslu svo sem að halda málþing, námskeið og fyrirlestra. Þessi þáttur starfseminnar hefur raskast mikið vegna samkomutakmarkana. Tekjur FRÆ af þessum þætti starfseminnar eru þar af leiðandi mun minni en áður.

Áhersla hefur verið lögð á að viðhalda tengslaneti FRÆ í gegnum samstarf við önnur félagsamtök. Mikilvægt er að halda þeim tengslum, sem eru einn af hornsteinunum í starfsemi FRÆ. Það sama á við um að nýta möguleika til þess að hafa áhrif á stefnumörkun, til dæmis með því að senda inn umsagnir um þingmál sem varða ávana- og vímuefnamál og forvarnir og virkja aðra til þess að láta sig mörkun stefnunnar í málaflokknum varða.

Forvarnir hafa átt undir högg að sækja hjá stjórnvöldum á síðustu misserum. Íslendingar hafa náð frábærum árangri hvað varðar ávana- og vímuefnaneyslu ungmenna og almenn samstaða ríkt um að taka hana alvarlega og sporna gegn henni eins og hægt er. Þessi góði árangur byggist meðal annars á þeirri stefnu sem fylgt hefur verið á Íslandi hvað varðar aðgengi að og framboð á ávana- og vímuefnum. Stjórnvöld, sem hafa mótun stefnunnar í ávana- og vímuefnamálum í hendi sér, virðast gera sér takmarkaða grein fyrir mikilvægi vandaðrar og heilstæðrar stefnumörkunar á þennan góða árangur.

Þingmál hafa að undanförnu komið á færibandi og flest eiga það sammerkt að hverfa frá stefnunni og auka aðgengi að ávana- og vímuefnum. Meðal slíkra mála eru frumvarp um að heimila vörslu fíkniefna af öllum tegundum, stórauka fjölda sölustaða áfengis með því að heimila framleiðendum sölu áfengs öls beint frá framleiðslustað og afnema bann við heimabruggun til einkaneyslu. Undantekningar frá þessu eru ákvæðu í nýjum umferðarlögum um magn vínanda í blóði ökumanna og áform um að taka fastar á sölu og dreifingu íblöndunarnefna í rafsígarettur og koma böndum á óhefta sölu niktótíns.

Á sama tíma er dregið úr fjárveitingum til Lýðheilsusjóðs.

Af þessu leiðir að þeir, sem vilja standa vörð um þá stefnu Íslendinga sem hefur dugað vel í baráttunni við ávana- og vímuefnavandann, þurfa sem aldrei fyrr að standa vaktina og standa saman. Þar hefur FRÆ í mörg horn að líta.

Árni Einarsson, framkvæmdastjóri FRÆ

(Byggt á ársskýrslu FRÆ 2020)

Lýðheilsumat og opinber stefna á ávana- og vímuefnamálum.

Heilbrigðisvandi vegna ýmissa langvinnra sjúkdóma hefur farið vaxandi og leitt til aukins álags á heilbrigðiskerfið á síðustu áratugum. Talið er að þessir sjúkdómar valdi um 70% dauðsfalla í heiminum á ári hverju og að tengja megi slíka sjúkdóma að mestu við þá lífshætti sem Vesturlandabúar hafa tamið sér á síðustu áratugum. Við þetta má svo bæta fjölþættum félagslegum vanda og samfélagslegum kostnaði sem til að mynda fylgir neyslu ávana- og vímuefna. Það er því engin furða þótt flest ríki reyni eftir mætti að vinna gegn því tjóni sem ákveðnir lífshættir valda. Þar er Ísland engin undantekning, að minnsta kosti í orði kveðnu. Til þess að mæta þessu eru forvarnir og heilsuefling sterkasta vopnið, hvort heldur litið er til lífsgæða fólks almennt eða efnahagslegra sjónarmiða.

Opinber stefna íslenskra stjórnvalda að takmarka aðgengi að ávana- og vímuefnum.

Í desember árið 2013 settu íslensk stjórnvöld sér stefnu í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020 sem tekur til forvarna, meðferðarúrræða, eftirfylgni meðferðar og endurhæfingar auk lagaumhverfis. Stefnan endurspeglar alþjóðlegar áherslur og alþjóðlegar skuldbindingar um stefnumótun um málefnið og styðst við gildandi lagaramma er varða áfengi og önnur ávana- og vímuefni. Þótt gildistími þessarar stefnu sé formlega liðinn verður að líta svo á að á meðan ekki komi önnur í staðinn eða hún uppfærð með einhverjum hætti sé hún grundvöllur ákvarðana og aðgerða stjórnvalda.

Til þess að bregðast við þessu var á síðasta þingi samþykkt þingsályktunartillaga (stjórnartillaga) um lýðheilsustefnu til ársins 2030, þingskjal 1108, 645. mál. Þar segir meðal annars: ,,Stjórnvöld hafi lýðheilsu að leiðarljósi við alla áætlanagerð og stefnumótun.” Ennfremur: ,,Við eflingu lýðheilsu þarf því að taka mið af öðrum stefnumálum með markvissa samvinnu og sameiginleg markmið í huga svo samlegðaráhrifin og árangur verði sem mestur. Þessi nálgun samræmist því markmiði stjórnvalda að tekið sé tillit til lýðheilsusjónarmiða í allri áætlanagerð og stefnumótun.”

Í ljósi þess að heilsufarslegur og samfélagslegur vandi vegna ávana- og vímuefnaneyslu er umtalsverður er afar brýnt að vandað sé til verka við allar breytingar sem gerðar eru í málaflokknum. Það felur vitaskuld ekki í sér að engu megi breyta. En það verður að vera ljóst að markmiðin með breytingunum séu skýr og að ætla megi að þær nái þeim markmiðum sem að er stefnt. Það verður einnig að liggja fyrir að hugsanleg önnur áhrif breytinganna valdi ekki skaða, sem jafnvel er meiri og verri en sá sem þeim er ætlað að leysa. Það er hlutverk stjórnvalda að standa vörð um heilsu og líðan íbúanna í samfélaginu við stefnumótun og stjórnsýsluákvarðanir og byggja þær á traustri þekkingu.

Það er grundvallaratriði að á hverjum tíma liggi fyrir langtíma, heildstæð, markmiðadrifin stefnumörkun í forvörnum og lýðheilsu. Til þess að hún verði annað en orðin tóm þarf einnig að fylgja fjármögnuð framkvæmdaáætlun og skilgreind ábyrgð og hlutverk þeirra sem að henni koma. Hún þarf að byggjast á gagnreyndri þekkingu og fela í sér reglulega endurskoðun sem byggð er á árangursmati.

Lýðheilsumat á áhrif lagabreytinga.

FRÆ hefur talað fyrir því að ávallt fari fram lýðheilsumat á áhrifum lagabreytinga og stefnumarkandi ákvarðana áður en þær eru afgreiddar frá Alþingi. Með lýðheilsumati er lagt mat á það hver séu líkleg bein og óbein áhrif tiltekinna aðgerða stjórnvalda, eins og lagasetningar og ýmissa stjórnsýsluákvarðana, á lýðheilsu. Þannig yrði stuðlað að því að ekki yrði ráðist í breytingar sem varða lýðheilsu án undangengins mats og greiningar. FRÆ leggur einnig áherslu á hlutverk og mikilvægi almannaheillasamtaka í lýðheilsu. Þau hafa í gegnum árin leikið lykilhlutverk í að virkja samfélagið í þágu lýðheilsu á öllum sviðum.

Lýðheilsumat þarf að hafa sterka skírskotun til opinberrar stefnu stjórnvalda, stefnu sem allir sem vilja leggja henni lið geta mátað sig við og gengið út frá. Opinber stefna í ávana- og vímuefnamálum er nokkuð skýr. Það á því ekki að vera flókið mál að leggja mat á aðgerðir í málaflokknum. Til dæmis í lagafrumvörpum sem lögð eru fram á Alþingi. Dæmin hér á eftir sýna það ágætlega:

 1. Það er stefna íslenskra stjórnvalda að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum, enda sé það ein mikilvægasta aðgerðin til að draga úr skaðlegum áhrifum og vandamálum tengdum neyslu áfengis og annarra vímugjafa. Þessu markmiði vilja stjórnvöld ná meðal annars með aðhaldsaðgerðum varðandi sölufyrirkomulag áfengis, virku eftirliti með notkun lyfseðilsskyldra lyfja, öflugri löggæslu og virku tolleftirliti. Þetta er skýr birtingarmynd hamlandi stefnu þegar kemur að áfengis- og vímuefnavörnum.

Með þessa skýru stefnu í huga þarf því meðal annars að meta hugmyndir um aðgerðir út frá því hvort fyrirhuguð aðgerð opni fyrir greiðara flæði ávana- og vímuefna um samfélagið og gangi þar með gegn þeirri meginforsendu sem þessi stefna og forvarnir byggjast á, þ.e. að takmarka framboð og aðgengi að ávana- og vímuefnum eins og kostur er.

 1. Annað grundvallarstefnumið íslenskra stjórnvalda er að vernda viðkvæma hópa fyrir skaðlegum áhrifum áfengis og annarra vímugjafa. Ýmsir hópar í samfélaginu eru viðkvæmari en aðrir, til dæmis börn foreldra með áfengis- og vímuefnavanda, konur á meðgöngu og ungmenni. Öll börn og ungmenni eiga rétt á að alast upp í umhverfi þar sem þau eru vernduð gegn neikvæðum afleiðingum áfengis- og vímuefnaneyslu.

Hér er skýr sýn á rétt barna og ungmenna. Þar af leiðir þarf að liggja fyrir hvort aðgerðir eða breytingar í lýðheilsumálum verndi börn foreldra með áfengis- og vímuefnavanda, konur á meðgöngu og ungmenni? Að hvaða leyti mun breytingin stuðla að rétti íslenskra barna og ungmenna til þess að alast upp í umhverfi þar sem þau eru vernduð gegn neikvæðum afleiðingum áfengis- og vímuefnaneyslu?

 1. Í þriðja lagi er það stefna stjórnvalda að koma í veg fyrir að ungmenni byrji að nota áfengi eða aðra vímugjafa. Gagnreyndar aðgerðir sem falla undir þetta yfirmarkmið eru meðal annars að sporna gegn markaðssetningu á áfengi til ungmenna, eftirlit með að aldurstakmörk til áfengiskaupa séu virt og að efla skólakerfið frekar í hlutverki sínu í velferð barna, til dæmis með þátttöku í heilsueflandi skóla og aukinni þátttöku foreldra og frjálsra félagasamtaka í forvörnum.

Á löngum tíma hefur Íslendingum tekist að ná nokkuð góðum tökum á ávana- og vímuefnaneyslu barna og ungmenna svo eftir er tekið. Það sama má segja um árangur í tóbaksvörnum. Það er því eðlilegt að allar breytingar sem snúa að ávana- og vímuefnaneyslu séu metnar út frá því hvort þær vinni gegn því að íslensk ungmenni byrji að nota ávana- og vímuefni.

 1. Í fjórða lagi stefna stjórnvöld að því að fækka þeim sem þróa með sér skaðlegt neyslumynstur áfengis eða annarra vímugjafa.

Þetta markmið er afar skýrt og afdráttarlaust. Hugmyndir um aðgerðir verða því að svara með skýrum hætti hvort þær séu líklegar til að stuðla að fækkun eða fjölgun þeirra sem þróa með sér skaðlegt neyslumynstur ávana- og vímuefna.

 1. Í fimmta lagi er það markmið stjórnvalda að tryggja aðgengi fólks sem á í vanda vegna misnotkunar eða ávana að samfelldri og samþættri þjónustu sem byggist á bestu þekkingu og kröfum um gæði. Nauðsynlegt er að samfella sé í þjónustu við fólk sem á í

vanda vegna misnotkunar eða ávana. Auk þess er virkt samstarf og skýr hlutverkaskipting þeirra sem veita þjónustu forsenda góðs árangurs. Um leið verði tryggt aðgengi að viðeigandi þjónustu. Þetta stefnumið byggir þannig á skaðaminnkun fyrst og fremst.

 1. Í sjötta lagi vilja stjórnvöld draga úr skaða og fjölda dauðsfalla vegna eigin neyslu eða annarra á áfengi eða öðrum vímugjöfum. Skaðleg neysla áfengis og annarra vímugjafa á stóran þátt í ótímabærum dauðsföllum, ofbeldi, slysum, langvinnum sjúkdómum og töpuðum góðum æviárum.

Vandi vegna misnotkunar ávana- og vímuefna er afar þungbær, bæði þeim sem í hlut eiga, fjölskyldum þeirra og öllu samfélaginu. Af þeim sökum þarf að liggja skýrt fyrir hvort, hvernig aðgerðir og hvaða áhrif aðgerðir í ávana- og vímuefnamálum hafa á fjölda dauðsfalla, ofbeldi, slys, langvinna sjúkdóma og töpuð góð æviár sem tengd eru við neyslu þessara efna.

Að standa vörð um það sem skilar árangri.

Íslendingar hafa náð frábærum árangri hvað varðar ávana- og vímuefnaneyslu ungmenna og almenn samstaða ríkt um að taka hana alvarlega og sporna gegn henni eins og hægt er. Þessi góði árangur byggist meðal annars á þeirri stefnu sem fylgt hefur verið á Íslandi hvað varðar aðgengi að og framboð á ávana- og vímuefnum. Stjórnvöld, sem hafa mótun stefnunnar í ávana- og vímuefnamálum í hendi sér, þurfa að gera sér ljósa grein fyrir mikilvægi vandaðrar og heildstæðrar stefnumörkunar í þessum góða árangri.

Árni Einarsson, framkvæmdastjóri FRÆ

(Byggt á ársskýrslu FRÆ 2021)

Ein mikilvægasta aðgerðin til að draga úr skaðlegum áhrifum og vandamálum tengdum áfengisdrykkju er að takmarka aðgengi að áfengi.

Vandi vegna neyslu ávana- og vímuefna getur verið afar þungbær, bæði þeim sem nota efnin, fjölskyldum þeirra og öllu samfélaginu. Af þeim sökum þarf að liggja skýrt fyrir hvort, hvernig og hvaða áhrif aðgerðir í ávana- og vímuefnamálum hafa til að mynda á fjölda dauðsfalla, ofbeldi, slys, langvinna sjúkdóma og töpuð góð æviár sem tengd eru við neyslu þessara efna. Það verður nánast að líta á það sem skyldu stjórnvalda að meta til að mynda áhrif lagabreytinga eða annarra stefnumarkandi aðgerða, hvort heldur þær eru á forræði þingsins eða ríkisstjórnar.

Ein mikilvægasta aðgerðin til að draga úr skaðlegum áhrifum og vandamálum tengdum áfengisdrykkju er að takmarka aðgengi að áfengi. Rannsóknir segja okkur að það sama gildi um önnur ávana- og vímuefni.

Það er því ekki að ófyrirsynju að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) leggi áherslu á að markvisst sé unnið að því að draga úr áfengisdrykkju og setur fram það markmið að aðildarríkin stefni að því að árið 2030 verði áfengisdrykkja orðin 20% minni (meðal íbúa 15 ára og eldri) en hún var árið 2010.

Í ljósi þess að heilsufarslegur og samfélagslegur vandi vegna ávana- og vímuefnaneyslu er umtalsverður er afar brýnt að vandað sé til verka við allar breytingar sem gerðar eru í málaflokknum; það verður að vera ljóst að markmiðin með breytingunum séu skýr og að ætla megi að þær nái þeim markmiðum sem að er stefnt.

Það verður einnig að liggja fyrir að hugsanleg önnur áhrif breytinganna valdi ekki skaða, sem jafnvel er meiri og verri en sá sem þeim er ætlað að leysa. Það er hlutverk stjórnvalda að standa vörð um heilsu og líðan íbúanna í samfélaginu við stefnumótun og stjórnsýsluákvarðanir og byggja þær á traustri þekkingu.

Það er opinber stefna íslenskra stjórnvalda, að minnsta kosti í orði kveðnu, að takmarka aðgengi að ávana- og vímuefnum. Í desember árið 2013 settu íslensk stjórnvöld sér, til að mynda, stefnu í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020 sem tekur til forvarna, meðferðarúrræða, eftirfylgni meðferðar og endurhæfingar auk lagaumhverfis. Í henni er vísað til þess að stefnan sem þar er sett fram endurspegli alþjóðlegar áherslur og alþjóðlegar skuldbindingar um stefnumótun um málefnið. Þótt gildistími þessarar stefnu sé formlega liðinn verður að líta svo á að á meðan ekki komi önnur í staðinn eða hún uppfærð með einhverjum hætti sé hún grundvöllur ákvarðana og aðgerða stjórnvalda.

Það er því vægast sagt, í ljósi þess sem sagt er hér á undan, sérstakt að ákvarðanir fulltrúa þjóðarinnar á alþingi og í ríkisstjórn miði fyrst og fremst að því að auka aðgengi að áfengi og jafnvel öðrum vímuefnum. Tóbaksvörur hafa þó notið nokkurrar sérstöðu hvað þetta varðar, þótt hægagangur í lagasetningu á nýjum nikótínvörum sem hafa hellst yfir hafi valdið tjóni sem ekki er séð fyrir endann á.

Íslendingar hafa náð frábærum árangri hvað varðar ávana- og vímuefnaneyslu ungmenna og almenn samstaða ríkt um að taka hana alvarlega og sporna gegn henni eins og hægt er. Þessi góði árangur byggist meðal annars á þeirri stefnu sem fylgt hefur verið á Íslandi hvað varðar aðgengi að og framboð á ávana- og vímuefnum. Stjórnvöld, sem hafa mótun stefnunnar í ávana- og vímuefnamálum í hendi sér, þurfa að gera sér ljósa grein fyrir mikilvægi vandaðrar og heildstæðrar stefnumörkunar í þessum góða árangri.

Árni Einarsson, framkvæmdastjóri FRÆ

(Byggt á ársskýrslu FRÆ 2022)

Ávana- og vímuefnamál. Ábyrgð stjórnvalda

Ávana- og vímuefnavandinn er þjóðfélagslegt mein sem sporna verður gegn með öllum tiltækum ráðum og forvarnir snerta flesta grundvallarþætti samfélagsins. Þar hafa félagasamtök ríku hlutverki að gegna og verið virk á öllum stigum forvarna. Stjórnvöld, á alþjóðavísu, landsvísu og staðbundin, viðurkenna með ýmsum hætti aðkomu almannaheillasamtaka að ávana- og vímuefnamálum, bæði hvað varðar stefnumörkun og framkvæmd, enda erfitt að sjá að svo viðamikið verkefni geti einvörðungu verið á þeirra höndum.

Góður árangur í forvarnastarfi hefur náðst fyrir tilstilli samstarfs og samstöðu, almennings, félagasamtaka og stjórnvalda. Árangur í tóbaksvörnum frá því um miðan 8. áratug síðustu aldar er dæmi um það og svo aftur í aðgerðum gegn unglingadrykkju á árunum fyrir síðustu aldamót. Almannaheillasamtök léku þar stórt hlutverk með dyggum stuðningi almennings og stjórnavalda. Nú eru hins vegar blikur á lofti og verulegur afturkippur virðist vera í virkni félagsamtaka og áhugaleysi stjórnvalda er augljóst.

Undanfarið hefur á vettvangi stjórnvalda ýmislegt verið gert sem grefur undan þeirri stefnu sem hefur verið fylgt hér á landi og reynst vel. Aðgengi að áfengi hefur verið aukið, til dæmis með því að heimila sölu áfengis á framleiðslustað, nikótínvörur eru seldar á netinu, sömuleiðis áfengi, þótt þar sé um augljóst brot á áfengislöggjöfinni að ræða, og lítil eftirfylgd er með því að auglýsingabann á áfengi sé virt. Þá hafa framlög úr Lýðheilsusjóði til forvarna minnkað ár frá ári undanfarið.

Stefna í áfengis og vímuvörnum, sem sett var í desember 2013, er runnin út þótt í orði kveðnu sé hún enn í gildi. Frá því að hún var samþykkt í ríkisstjórn hafa verið samþykktar ýmsar oinberar stefnumarkandi áætlanir og lög sem kalla á, eða gefa tilefni til, endurskoðun á þessari áætlun enda nauðsynlegt að ávallt sé til staðar heildstæð stefna í áfengis- og vímuvörnum sem endurspegla stöðuna og bestu fyrirliggjandi þekkingu á hverjum tíma. Þar má meðal annars nefna umferðarlög, krabbameinsáætlun, Barnasáttmálann og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Nú er því kjörið tækifæri til þess að taka stefnuna til ítarlegrar skoðunar og horfa til framtíðar.

Við þurfum einnig að taka tillit til þess að meðal markmiða í Evrópusáttmála um áfengi segir að allir eigi rétt á því að fjölskylda, samfélag og atvinnulíf sé verndað fyrir slysum, ofbeldi og öðrum neikvæðum afleiðingum áfengisneyslu og að öll börn og ungmenni eigi rétt á að alast upp vernduð fyrir neikvæðum afleiðingum áfengisneyslu og markaðssetningu á áfengum drykkjum, eins og mögulegt er.

Við endurskoðun stefnunnar þarf að festa í sessi, og gera kröfu um, lýðheilsumat sem tryggir að horft sé á allar breytingar í ávana- og vímuefnamálum á hliðstæðan hátt og gert er í umhverfismálum; láta meta líkleg áhrif breytinganna á lýðheilsu, velferð og ýmsa samfélagslega þætti áður en ákvörðun er tekin, þannig að það sé ljóst hvað áætluð breyting hefur í för með sér.

Stjórnmálamenn verði að hafa hugfast að heilsufarslegur og samfélagslegur vandi vegna ávana- og vímuefnaneyslu er umtalsverður og því afar brýnt að vandað sé til verka við allar breytingar sem gerðar eru í málaflokknum. Það er hlutverk stjórnvalda að standa vörð um heilsu og líðan íbúanna í samfélaginu við stefnumótun og stjórnsýsluákvarðanir og byggja þær á traustri þekkingu. Við skulum ekki gleyma því að það er almenningur sem borgar brúsann þegar upp er staðið. Einstaklingar og fjölskyldur líða fyrir ávana- og vímuefnavanda með ýmsum hætti og mikill kostnaður leggst á samfélagið til þess að bregðast við honum.

Árni Einarsson, framkvæmdastjóri FRÆ

(Byggt á ársskýrslu FRÆ 2023)

Drug policy update from Iceland.

Erindi Árna Einarssonar framkvæmdastjóra FRÆ á netmálþingi NordAN 20. nóvember 2023. – Samantekt og slæður.

Arni Einarsson, FRÆ-Fræðsla og forvarnir

​Sjá slæður/slides.

Arni Einarsson shared insights into the country’s alcohol and drug policy, emphasizing their approach to addressing alcohol and drugs together. The official policy, adopted in 2014, focuses on limiting access, protecting vulnerable groups, preventing initiation, reducing harmful use, providing quality services for those with problems, and reducing deaths related to substance use. Einarsson stressed the importance of a public health perspective in policy decisions.

He highlighted that Iceland maintains a monopoly on alcohol sales, a practice that had been consistent until 2022, when it changed to allow direct sales from producers. This shift also saw the emergence of unregulated online alcohol sales. The legal age for purchasing alcohol is set at 20 years, and 18 for tobacco. Iceland also enforces high alcohol taxes, bans on alcohol and tobacco advertising, and strict limits on legal blood alcohol concentration.

Einarsson presented data indicating no significant changes in drug use among Icelandic youth, with some slight increase in the use of tranquillizers or sedatives without prescriptions, mirroring trends in other European countries. Concerns have been raised about a potential increase in alcohol and drug use among young people based on observations from schools and those working with youth.

For older age groups, there has been an observable increase in cannabis use, particularly among younger adults. After a decline during COVID, drinking has begun to rise again. In terms of nicotine use, there has been a notable shift from smoking to nicotine patches, especially among younger demographics.

The discussion also covered the increase in prescribed drug use, though the total quantity of drugs has not increased proportionally. An opioid pandemic was identified, with a steady rise in opioid addiction cases since 2012.

Public opinion in Iceland on drug use has evolved significantly. There is growing support for legalizing cannabis and possession of drugs for personal use. More people now view regular cannabis use and heavy drinking as low-risk behaviours. Despite these changes, there is still considerable resistance to dismantling the alcohol monopoly. Repeated legislative attempts to legalize possession of drugs for personal use have not progressed in parliament.

Einarsson concluded by reflecting on these trends, noting a recent shift towards treatment over prevention. This shift potentially indicates a move away from the traditional Icelandic model. However, he also observed an increasing number of influential individuals joining the conversation, raising critical questions about the side effects and potential risks of these changing trends.

Takeaway points:

 1. Shift in public opinion and policy: There has been a significant change in public opinion in Iceland regarding drug use, particularly towards the legalization of cannabis and possession of drugs for personal use. This shift is also reflected in policy changes, such as the allowance of direct alcohol sales from producers and the unregulated online sale of alcohol.

 2. Changing trends in substance use: Einarsson highlighted notable changes in substance use patterns in Iceland. Among younger adults, there is an increase in cannabis use, and a shift from smoking to nicotine patches is evident, particularly among the youth. Additionally, there’s a concerning rise in risk drinking post-COVID, reversing the trend observed during the pandemic.

 3. Focus on treatment over prevention: The current trend in Iceland shows a growing emphasis on treatment rather than prevention in addressing drug and alcohol issues. This approach marks a potential shift away from the traditional Icelandic model, which has historically focused more on prevention strategies. This change raises questions about the long-term effectiveness and impacts of such a shift in strategy.

Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.

  Fræðsla og forvarnir

  Hverafold 1-3, 112 Rekjavík

  Phone: +354 861 1582

  Go to Top