Samstarf og aðild

FRÆ á í samstarfi við fjölmarga
sem tengjast fíkniefnamálum og forvörnum

Eitt af leiðarljósum FRÆ er samstarf, ekki síst þeirra sem sinna uppeldis- og menntamálum, félagsmálum, félagsstarfi eða sinna með öðrum hætti lýðheilsumálum og forvörnum. FRÆ lítur svo á að framkvæmd forvarna, árangurinn, byggist á samstarfi grasrótarinnar og stjórnvalda. Byggist á því að virkja fólk þar sem það er með stuðningi sveitarfélaga og annarra stjórnvalda.

Ýmiss konar samstarfsverkefni sem miða að því að virkja félagasamtök í forvörnum hafa því frá upphafi ávallt verið á dagskrá FRÆ og miðstöðin tekur formlegan og óformlegan þátt í samstarfi við fjölda aðila sem vinna að ávana- og vímuvörnum í landinu og erlendis.

FRÆ hefur tengsl við fjölmarga sem tengjast fíkniefnamálum og forvörnum. Hér á eftir eru nokkrir þeirra nefndir. Ekki er um að ræða tæmandi yfirlit, en gefur þó til kynna umfang þessa þáttar í starfinu og tengsl FRÆ við aðra aðila. Verkefni FRÆ eru mörg, jafnvel flest, unnin í nánu samstarfi við aðra og þess vegna eru þessir þættir hér teknir saman.

SAFF er samstarfsvettvangur íslenskra félagasamtaka í forvörnum, stofnaður árið 2004. Aðildarsamtök SAFF vinna að heilsueflingu og áfengis-, tóbaks- og vímuefnaforvörnum á vettvangi mannræktar, velferðar, félagsmála, samfélagsþróunar, uppeldis- og skólamála, íþróttamála og tómstundastarfs. Samstarfið byggist á virðingu fyrir fjölbreytni, ólíkri aðkomu samtaka í forvörnum og mismunandi áherslum.

Félagasamtök eru þverskurður af samfélaginu með félagsfólk á öllum aldri, af báðum kynjum og starfa í þéttbýli sem dreifbýli. Félagasamtök búa því yfir margvíslegum og mikilvægum möguleikum til þess að vinna að forvörnum og lýðheilsu. Þau geta t.d. nýtt tengslanet sín til þess að virkja sjálfboðaliða í nærsamfélaginu á skömmum tíma og þátttaka þeirra getur haft margfeldniáhrif í samfélaginu. Félagasamtök eru skapandi afl sem getur boðið fjölþættar lausnir í forvörnum.

SAFF leggur sérstaka áherslu á að börn og unglingar njóti verndar gegn skaðsemi ávana- og vímuefna, enda eru þau sérstaklega berskjölduð gagnvart neyslu þeirra. Öll börn og ungmenni eiga rétt á að alast upp vernduð fyrir neikvæðum afleiðingum ávana- og vímuefnaneyslu eins og mögulegt er. Meðal annars er mikilvægt að koma í veg fyrir eða fresta upphafi neyslu áfengis og annarra vímuefna eins og hægt er.

Með samstarfi sínu á á vettvangi SAFF vilja aðildarsamtökin:

 • Efla samstarf sín á milli og vinna að viðurkenningu á mikilvægi félagasamtaka í heilsueflingu og forvörnum.
 • Kalla eftir og taka með formlegum hætti þátt í að móta opinbera stefnu í forvörnum.
 • Þrýsta á stjórnvöld um að tryggja fjármagn til forvarna.
 • Veita stjórnvöldum stuðning við framkvæmd opinberrar stefnumörkunar og framkvæmd hennar, en jafnframt veita stjórnvöldum aðhald hvað það varðar.
 • Eiga frumkvæði að því að taka upp ýmis mál sem varða forvarnir.

Frá stofnun hefur SAFF m.a. staðið fyrir árlegri forvarnaviku í október, Viku 43, þar sem sjónum er beint að ýmsum forvarnamálum, vakin athygli á hlutverki og forvarnastarfi félagasamtaka og gildi samstarfs í forvörnum. SAFF hefur einnig sett á laggirnar ýmis forvarnaverkefni, s.s. fræðsluverkefni um kannabis og fræðsluverkefni sem tengist útisamkomum og frítíma fólks.

SAFF starfar náið með FRÆ, Fræðslu og forvörnum. FRÆ heldur utanum samstarfið, undirbýr verkefni og leiðir framkvæmd þeirra í samstarfi við stjórn SAFF og aðildarsamtök þess:

Bandalag íslenskra skáta

Bindindissamtökin IOGT

Blátt áfram

Brautin, bindindisfélag ökumanna

Félag íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa – FÍÆT

Fræðsla og forvarnir-félag áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu

Heimili og skóli – landssamtök foreldra

Hiv-Ísland, alnæmissamtökin á Íslandi

ÍSÍ – Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands

Krabbameinsfélagið/Krabbameinsfélag Reykjavíkur

Kvenfélagasamband Íslands

Lionsumdæmið á Íslandi

Núll prósent – samtökin

Olnbogabörnin á Íslandi

SAMFÉS, samtök félagsmiðstöðva

Samhjálp, félagasamtök

Samtök foreldra gegn áfengisauglýsingum

Samtök skólamanna um bindindisfræðslu – SSB

Unglingaregla I.O.G.T.

Ungmennafélag Íslands (UMFÍ)

Ungmennahreyfing IOGT

Vernd, fangahjálp

Vímulaus æska – Foreldrahús

Þjóðkirkjan

Stjórn SAFF skipa:

Guðrún Björg Ágústsdóttir, formaður   Foreldrahús/Vímulaus æska

Guðlaug Guðjónsdóttir                             Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins

Málfríður Sigurhansdóttir                       Ungmennafélag Íslands

Árni Guðmundsson                                   Samtök foreldra gegn áfengisauglýsingum

Aðalsteinn Gunnarsson                            IOGT á Íslandi

Náum áttum er forvarna- og fræðsluhópur samtaka, stofnana og áhugafólks um forvarna- og uppeldismál og hefur starfað síðan 2000. Hópurinn heldur nokkra morgunverðarfundi á ári sem eru orðnir fastur liður í upplýsinga- og fræðslustarfi í forvörnum. Fundirnir eru haldnir á Grand Hotel að öllu jöfnu og þá sækir fagfólk og ýmsir sem vinna að málefnum barna og ungmenna. Fundirnir eru yfirleitt teknir upp og eru aðgengilegir á vefsíðu hópsins http://naumattum.is/. Einnig má benda á fésbókarsíðuna https://www.facebook.com/naumattum/.

Umfjöllunarefni morgunverðarfunda Náum áttum undanfarin ár:

2019

 • janúar: Jákvæð samskipti í starfi með börnum – samfélag virðingar og ábyrgðar.
 • febrúar: Persónuvernd barna – áskoranir í skólasamfélaginu.
 • mars: Verum snjöll – jafnvægi í snjalltækjanotkun barna.
 • september: Heilsa og velferð barna og unglinga.
 • október: Stuðningur við ungmenni í áhættu vegna vímuefnaneyslu.

2018

 • mars: Metoo og börnin – öryggi barna og ungmenna í tómstunda-, íþrótta- og æskulýðsstarfi.
 • apríl: Réttur barna í opinberri umfjöllun.
 • september: Skólaforðun – falinn vandi.
 • október: Lyfjanotkun ungmenna. Íslenskur veruleiki.
 • nóvember: Vímuefnavandi ungmenna – Hvar getum við betur?

2017

 • febrúar: Umfang kannabisneyslu: Þróun-áhrif-samfélag.
 • mars: Einmanaleiki og sjálfsskaðandi hegðun ungs fólks.
 • apríl: Rödd unga fólksins-er hlustað á skoðanir ungmenna?
 • maí: Hvernig líður börnum í íþróttum?
 • október: Viðkvæmir hópar – líðan og neysla
 • nóvember: Ungmenni utan skóla. Hagir og úrræði.

2016

 • janúar: Er geðheilbrigði forréttindi? 1001 dagur í lífi hvers barns.
 • febrúar: Verndum börnin. Alþjóðastefna í vímuvörnum.
 • mars: Forvarnir í leikskólum.
 • apríl: ERU Börn í framhaldsskólum? Ábyrgð foreldra og skóla á velferð barna.
 • september: Rafrettur og munntóbak – nýr lífsstíll eða óvægin markaðssetning?
 • október: Foreldar í vanda. Mikilvægi stuðnings og fræðslu til foreldra.
 • nóvember: Of mikið á netinu? Áhrif snjalltækja.

2015

 • 21. janúar: Eru snjalltækin að breyta skólastarfi? Um snjalltækjanotkun barna og ungmenna.
 • 25. febrúar: Heimilisofbeldi, viðbrögð, úrræði, nýjar leiðir
 • 18. mars: Geðheilbrigði barna, viðbrögð, úrræði og nýjar leiðir.
 • 15. apríl: Einelti, úrræði og forvarnir.
 • 30. september: Ester, ný nálgun í forvarnastarfi.
 • 21. október: Líka þér við þig? Sjálfsmynd og forvarnir.
 • 25. nóvember: Skóli fyrir alla – eða hvað? Hvað þarf til að skólinn sé fyrir alla?

2014

 • 22. janúar: Brotthvarf úr framhaldsskólum
 • 12. mars: Úti alla nóttina… næturlíf og neysla
 • 14. maí: Barnafátækt á Íslandi
 • 1. október: Verður áfengi á nýja nammibarnum? Er hagsmuna barna gætt í nýju frumvarpi um sölu áfengis í matvöruverslunum?
 • 29,. október: Opinber umfjöllun um börn – ábyrgð fjölmiðla og foreldra
 • 26. nóvember: eru jólín hátíð allra barna? Velferð, vernd, virkni og virðing

2013

 • 6. febrúar: Hundur eða blaðra? Vímuefnaleit í framhaldsskólum á skólaskemmtunum.
 • 14. mars: Forvarnagildi íþrótta- og tómstundastarfs. Hvað virkar og hvað virkar ekki?
 • 17. apríl: Hver er ég? – Kynferði og sjálfsmynd unga fólksins
 • 15. maí: Brotin sjálfsmynd barna og ungmenna. Ábyrgð fjölmiðla og foreldar – úrræði.
 • 25. september: Unglingar og vímuefni
 • 27. nóvember: Byrgjum brunninn – snemmtæk íhlutun

2012

 • Febrúar: Stuðningur við börn í erfiðum aðstæðum.
 • Mars: Óbein áhrif áfengisneyslu.
 • Apríl: Fastur á netinu? – tölvunotkun unglinga.
 • Maí: Sumarið er tíminn – samvera, úthátíðir; ábyrgð hverra?
 • September: Velferð barna þremur árum eftir Hrun II.
 • Október: Velferð barna þremur árum síðar! Hvað segja lykiltölur um stöðuna í dag?
 • Nóvember: Ábendingar barnaréttanefndar Sameinuðu þjóðanna.

2011

 • Febrúar: Áhrif hagræðingar á velferð barna
 • Mars: Vanlíðan og hegðan barna.
 • Maí: Eru hagsmunir barna hafðir að leiðarljósi við ákvörðunartöku í forsjár og umgengnismálum?
 • September: Frístundir, áhætta, forvarnir.
 • Október: Til að forvarnir virki!
 • Nóvember: Streita og kvíði barna – einkenni og úrræði.

2010

 • Febrúar: Börn og ADHD – ekki gera ekki neitt.
 • Mars: Börn og vímuefni – viðbrögð kerfisins.
 • Apríl: Velferð barna – tækifæri til skimunnar og þjónustu í skólakerfinu.
 • Maí: Að þora að vera foreldri.
 • September: Eineltisáætlun – hvað svo?
 • Október: Að uppræta einelti!
 • Október: „Þetta er bara gras“ – í samvinnu við Viku 43 um kannabis.
 • Nóvember: Áhrif niðurskurðar á framhaldsskólann og brottfall.

Almannaheill – samtök þriðja geirans – voru stofnuð sumarið 2008 til að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum fyrir almannaheillasamtök og sjálfseignastofnanir sem starfa í almannaþágu, vinna að sem hagfelldustu starfsumhverfi fyrir þessa aðila, styrkja ímynd þeirra, efla stöðu hans í samfélaginu og koma fram fyrir hönd þriðja geirans gagnvart opinberum aðilum og fjölmiðlum. Þá vinna samtökin að því að heildarlöggjöf verði sett um starfsemi frjálsra félagasamtaka, að skattaleg staða þeirra verði bætt, og að sýnileiki þriðja geirans í þjóðfélaginu verði aukinn.

FRÆ hefur verið aðili að Almannaheillum frá árinu 2015. Framkvæmdastjóri FRÆ var kjörinn varamaður í stjórn á aðalfundi samtakanna 24. maí 2017 en situr alla stjórnarfundi.

Nánari upplýsingar á vefsíðu samtakanna.

FRÆ gerðist árið 1995 aðili að samstarfi opinberra stofnana og stjórnvalda á Norðurlöndum um vímuvarnir. Þessu samstarfi var hætt í árslok 1998.

Árið 2000 stofnuðu nokkur félagasamtök á Norðurlöndum samstarfsvettvanginn NordAN (Nordic Alcohol and Drug Policy Network). Einu kröfurnar sem gerðar eru til aðildarsamtaka NordAN er að starf þeirra byggist á sjálfboðastarfi, þau styðji virka stefnu í áfengis- og vímuefnamálum og séu á engan hátt á mála hjá áfengisframleiðendum og seljendum áfengis. Nú eru 90 norræn félagasamtök og samtök í Eystrasaltsríkjunum þremur aðilar að NordAN. Þetta eru samtök sem starfa á ýmsum sviðum forvarna og beita sér fyrir áfengis- og vímuvarnastefnu sem hefur að markmiði að draga úr neyslu áfengis og annarra fíkniefna. NordAN er með skrifstofu í Eistlandi og skipa fulltrúar allra Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna þriggja, auk Færeyja, stjórn samtakanna. FRÆ gerðist formlegur aðili að NordAN vorið 2001.

Árni Einarsson framkvæmdastjóri FRÆ hefur setið í stjórn NordAN frá stofnun.

Íslensk aðildarsamtök að NordAN:

Brautin – Bindindisfélag ökumanna
Samtök skólamanna um bindindisfræðslu -SSB
Komið og dansið
FRÆ – Fræðsla og forvarnir
Samstarf félagasamtaka í forvörnum

Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.