Fræðsla og forvarnir

– félag áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu

Félagslög

 1. grein: Nafn og skilgreining
  Nafn félagsins er Fræðsla og forvarnir – félag áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Á alþjóðavettvangi er heimilt að nota enska heitið The Association for Prevention and Health Promotion og hliðstæðar þýðingar á öðrum tungumálum. Félagið starfar samkvæmt lögum nr. 110/2021 um félög til almannaheilla og stjórn og starfsfólk þess starfar á grundvelli siðareglna Almannaheilla, samtaka þriðja geirans.
 2. grein: Markmið
  Markmið félagsins er:
  •   Að eiga frumkvæði að upplýstri og stefnumarkandi umræðu og samstarfi um forvarnir og heilsueflingu.
  •   Að styrkja og efla ávana- og vímuefnavarnir í landinu með fjölbreyttu upplýsinga- og fræðslustarfi með þekkingu í þágu forvarna að leiðarljósi.
  •   Að auka þekkingu í forvörnum og viðfangsefnum forvarna.
  •   Að virkja samfélagið til þátttöku í forvörnum með samstarfi við félagasamtök, stjórnvöld og stofnanir.
  •   Að starfrækja fræðslu- og upplýsingamiðstöð sem hafi að markmiði að afla upplýsinga um ávana- og vímuefnamál og forvarnir, starfrækja gagnasafn, veita fræðslu og upplýsingar um ávana- og vímuefnamál og veita ráðgjöf í forvörnum. Miðstöðinni sé heimilt að fengnu samþykki stjórnar félagsins að eiga fyrir hönd félagsins, eða í samstarfi við það, formlega aðild að sambærilegum samtökum og félögum hérlendis og erlendis sem byggja á sömu markmiðum.
 3. grein: Félagsaðild 
  Félagsmenn geta orðið þeir sem hafa áhuga á eflingu forvarna á Íslandi og styðja markmið félagsins  eins og þau eru skilgreind í 2. grein. Sá sem óskar inngöngu í félagið skal sækja um það formlega til stjórnar á rafrænu skráningarformi eða með öðrum rekjanlegum hætti sem stjórn viðurkennir og auglýsir á hverjum tíma. Félagsaðild verður fyrst gild þegar árgjald viðkomandi árs hefur verið greitt. Félagi sem ekki hefur greitt árgjald undangengins árs fyrir aðalfund telst genginn úr félaginu. Félagsfólk ber ekki persónulega ábyrgð á skuldum eða öðrum skuldbindingum félagsins nema með félagsgjaldi sínu.
  Stjórn félagsins heldur skrá yfir félagsfólk og staðfestir á fyrsta stjórnarfundi hvers árs uppfærða félagaskrá sem gefur rétt til setu á aðalfundi. Í félagaskrá skal skrá fullt nafn, heimilisfang og kennitölu félagsfólks, einnig netfang sé það til staðar.
 4. grein: Tekjur og ráðstöfun fjár
  Tekjur félagsins samanstanda af sjálfsaflafé, árgjaldi félagsfólks sem ákveðið er á aðalfundi, fjáröflunum, styrkjum frá einstaklingum, fyrirtækjum, stofnunum og stjórnvöldum og greiðslum vegna þjónustusamninga.
  Tekjum félagsins skal varið til starfrækslu fræðslu- og upplýsingamiðstöðvar og annarra verkefna sem aðalfundur og stjórn ákveða og eru í samræmi við markmið félagsins, samanber 2. grein.
 5. grein: Úrsögn
  Félagi getur hvenær sem er sagt sig úr félaginu með því að tilkynna það skriflega til stjórnar félagsins eða stjórnarformanns þess. Það getur hann/hún einnig gert á fundi í félaginu með því að tilkynna það til bókunar í fundargerð. Úrsögnin gildir frá þeim degi sem hún berst.
 6. grein: Brottvísun  
  Telji stjórn að félagi tefli hagsmunum félagsins í tvísýnu eða vinni gegn hag þess getur hún beint því til félagsfundar að vísa viðkomandi úr félaginu. Til slíks fundar skal boða á sama hátt og aðalfundar en einungis taka tillöguna að brottvísun á dagskrá. Með fundarboði skal geta um ástæður óskar stjórnar um brottvísunina. Stjórn er skylt að gefa viðkomandi kost á að tjá sig um málið áður en hún boðar til slíks fundar. Við afgreiðslu gildir einfaldur meirihluti greiddra atkvæða.
 7. grein: Aðalfundur og lagabreytingar
  Aðalfundur hefur æðsta vald í öllum málum félagsins. Hann skal halda í febrúar ár hvert og til hans boðað í tölvupósti, eða með öðrum tryggum hætti, með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Rétt til setu á aðalfundi hafa allir sem eru á félagaskrá 31. desember undangengins starfsárs og eru skuldlausir við félagið við upphaf aðalfundar og uppfylla skilyrði sem fram koma í 3. grein. Félagi getur veitt hverjum þeim félaga sem hann vill umboð sitt til atkvæðagreiðslu á aðalfundi. Umboð telst því aðeins gilt að það sé vottað af tveimur fjárráða einstaklingum og lagt fram við upphaf aðalfundar.Eingöngu má taka á dagskrá til afgreiðslu á aðalfundi þau mál sem fram koma í fundarboði. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður við atkvæðagreiðslu.
  Breytingar á lögum félagsins má aðeins gera á aðalfundi. Hið sama á við um tillögu um að leggja félagið niður og tillögu um að leggja fræðslu- og upplýsingamiðstöð niður. Tillögur þessa efnis skulu sendar með fundarboði aðalfundar og öðlast því aðeins gildi að þær hljóti a.m.k. 2/3 hluta greiddra atkvæða. Verði félagið lagt niður eða því slitið skulu eignir þess og skjöl ganga til samtakanna IOGT á Íslandi, eða hliðstæðs félags eða stofnunar sem starfar í sama tilgangi, séu þau ekki til staðar, samkvæmt ákvörðun sama aðalfundar. Þessu ákvæði má aldrei breyta.

  Dagskrá aðalfundar skal vera:
  1. Formaður, eða staðgengill formanns, setur fund.
  2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  3. Skýrsla stjórnar lögð fram og rædd.
  4. Endurskoðaður ársreikningur lagður fram.
  5. Umræða og atkvæðagreiðsla um ársreikning.
  6. Lagabreytingar.
  7. Kosning formanns, tveggja aðalmanna í stjórn og tveggja varamanna.
  8. Kosning tveggja félagskjörinna skoðunarmanna ársreiknings.
  9. Ákvörðun árgjalds.
  10. Önnur mál, sérstaklega tilgreind í fundarboði.
  11. Almennar umræður.

  8. grein: Félagsfundir
  Félagsfundi skal halda ef þriðjungur félagsfólks krefst þess skriflega eða stjórn telur þess þörf. Félagsfundi skal boða á sama hátt og aðalfundi. Sérhver fundur félagsins er löglegur ef sannanlega er til hans boðað. Einungis er hægt að taka til formlegrar afgreiðslu/atkvæðagreiðslu mál sem tilgreind eru í fundarboði félagsfunda.

  9. grein: Stjórn félagsins
  Stjórn félagsins er skipuð þremur félögum sem kosnir eru á aðalfundi til eins árs í senn, frá aðalfundi til aðalfundar. Kosning er einstaklingskosning og er formaður kosinn sérstaklega. Að auki eru kosnir tveir stjórnarmenn til sama tíma sem skipta með sér verkum í störf ritara og gjaldkera. Aðalfundur kýs auk þess tvo varamenn til sama tíma. Varamenn skulu boðaðir á stjórnarfundi. Stjórnarfundur er einungis ákvörðunarbær séu að minnsta kosti þrír aðalmenn og/eða varamenn til staðar. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður á stjórnarfundum komi til atkvæðagreiðslu.
  Stjórn fer með ákvörðunarvald félagsins milli aðalfunda og skal halda að minnsta kosti fjóra formlega fundi á hverju starfsári, staðfundi eða fjarfundi. Formaður boðar til stjórnarfunda. Forfallist aðalmaður eða aðalmenn í stjórn taka varamenn sæti. Skal valið á milli þeirra með hlutkesti. Stjórn skipar í nefndir eftir þörfum og tilnefnir fulltrúa félagsins út á við, eftir því sem ástæða er til.
  Stjórnin skal vinna að því að koma stefnumálum félagsins á framfæri og styrkja grundvöll fræðslu- og upplýsingamiðstöðvar eftir þeim leiðum sem árangursríkastar þykja hverju sinni og leita leiða til almennrar eflingar forvarnastarfs.

  10. grein: Ritun firma
  Stjórn ber ábyrgð á starfsemi og rekstri félagsins og ritar firma þess. Stjórn er heimilt að ráða framkvæmdastjóra og getur þá veitt honum heimild til þess að rita firma þess. Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur félagsins í samræmi við stefnu félagsins og fyrirmæli stjórnar og kemur fram fyrir hönd félagsins í umboði stjórnar. Daglegur rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikilsháttar.

  11. grein: Ársreikningur og skoðunarmenn
  Reikningsár félagsins er almanaksárið. Stjórn skal sjá um að bókhald og ársreikningur séu í samræmi við lög um bókhald. Tveir skoðunarmenn ársreiknings skulu kosnir úr hópi félagsfólks á aðalfundi og kjörtímabil þeirra vera hið sama og stjórnar. Ársreikningur skal lagður fram undirritaður af stjórn og skoðunarmönnum ársreiknings á aðalfundi til samþykktar.

  12. grein: Um lögin og gildi þeirra
  Lög þessi öðluðust gildi á stofnfundi Fræðslu og forvarna, félags áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu sem haldinn var 8. febrúar 2012, með breytingum sem samþykktar voru á aðalfundi 28. febrúar 2017 og aðalfundi 27. febrúar 2023.