Starfsemi
Verkefni FRÆ skiptast í aðalatriðum í eftirfarandi fjóra þætti.
Þeim til viðbótar kemur svo almennur rekstur, tekjuöflun, tengsl við félagsfólk, samstarfsaðila og stjórnvöld og önnur umsýsla.
1
Öflun upplýsinga og úrvinnsla
Á hverjum tíma er þörf fyrir upplýsingar um stöðu mála og ráðgjöf sem byggist á fyrirliggjandi þekkingu á grundvelli reynslu og rannsókna. Miðstöðin aflar gagna og upplýsinga um ávana- og vímuefnamál með sérstaka áherslu á forvarnir og vinnur úr þeim. Um er að ræða blaðagreinar, útgefnar bækur á íslensku, skýrslur, rannsóknaniðurstöður, fræðslufundi og ráðstefnur. Fylgst er með straumum, stefnum og reynslu annarra þjóða með tengslum við stofnanir og samtök sem vinna að áfengis- og fíkniefnamálum, einkum á hinum Norðurlöndunum og öðrum Evrópuríkjum, s.s. með þátttöku í NordAN, sem er samstarfsvettvangur u.þ.b. eitt hundrað félagasamtaka á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum og tengslum við Eurocare sem er hliðstæður vettvangur félagasamtaka í Evrópu.
2
Upplýsingamiðlun og útgáfa
Þessi þáttur er umfangsmesti þátturinn í starfi FRÆ. Miðstöðin tekur saman og gefur út eftir föngum ýmsar upplýsingar um forvarnamál. Þeim er miðlað í skýrslum, útgefnu efni, á vef- og samfélagsmiðlum FRÆ og dagblöðum og tímaritum. Fréttir, upplýsingaefni og gögn eru aðgengileg á vefsíðu FRÆ, forvarnir.is.
FRÆ stendur að gerð fræðsluefnis, stendur fyrir námskeiðum og miðlar upplýsingum með ýmsum hætti, s.s. með starfrækslu vefsíðna (forvarnir.is, baragras.is, heilheim.is, allsgad.is og oafengt.is), fyrirlestrahaldi á ráðstefnum, málþingum og háskólum og öðrum skólastigum. FRÆ gefur út fréttabréf og tímaritið Áhrif í þeim tilgangi að miðla upplýsingum um ávana- og vímuefnamál og forvarnir.
3
Ráðgjöf í forvörnum
FRÆ veitir stjórnvöldum, sveitarfélögum, skólum, upp alendum og félagasamtökum ráðgjöf, stundum verkefnisstjórn, í forvörnum sem byggð er á rannsóknum, reynslu og mati á árangri verkefna hér á landi og erlendis.
4
Samstarf og stefnumörkun
Árangur í forvörnum kallar á samstarf og heildarsýn. Forvarnir eru viðfangsefni stjórnvalda, stofnana, félagasamtaka, fyrirtækja, fjölskyldna og einstaklinga. FRÆ hefur formlegt og óformlegt samstarf við þessa aðila og aðra sem vinna að ávana- og vímuvörnum í landinu og erlendis eftir föngum. FRÆ leggur sérstaka áherslu á að styrkja aðkomu grasrótarinnar í forvörnum og skapa farveg fyrir fjölþætta þekkingu og framlag félagasamtaka til forvarna og stilla saman strengi þessara aðila. FRÆ nýtir sér möguleika til þess að hafa áhrif á opinbera stefnumörkun og lagasetningu með umsögnum um þingmál og upplýsingagjöf til stjórnvalda, þingnefnda, Alþingis og ríkisstjórnar. FRÆ hefur átt, og á, fulltrúa í ýmsum opinberum nefndum og ráðum um forvarnir og ávana- og vímuefnamál.
Bara gras?
Upplýsinga- og fræðslusíða um kannabis. Fræðsla um eiginleika kannabisefna, áhrif þeirra á heilsu og samfélag, sögu þess, neyslu og útbreiðslu. Aðgengilegir fræðslufyrirlestrar.
HEIL HEIM
ALLSGÁÐ
Óáfengt
Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.