Fræðsla og forvarnir

FRÆ í 20 ár – 1993-2013

Stiklað á stóru úr starfinu

Texti: Árni Einarsson

Fræðsla og forvarnir, FRÆ var stofnuð 5. nóvember 1993 undir nafninu Fræðslumiðstöð í fíknivörnum. Að stofnun miðstöðvarinnar stóð stórhuga fólk sem vildi hleypa nýju lífi og krafti í ávana- og vímuvarnastarf í landinu. Árin eftir stofnun FRÆ voru sérstaklega viðburðarrík frá sjónarhóli forvarna. Ný hugsun ruddi sér rúms og bryddað var upp á nýjum leiðum í forvörnum og fleiri voru kallaðir til. Forvarnir urðu samfélagslegt viðfangsefni sem kallaði á samstarf og heildarsýn. FRÆ naut góðs af þessu og festi sig í sessi en lagði einnig sitt að mörkun.

Stofnun og aðdragandi

Á árunum 1991 og 1992 hafði stöðu forvarna í landinu oft borið á góma í samtölum einstaklinga innan samtakanna Íslenskra ungtemplara (stofnuð 1958) og Vímulausrar æsku (stofnuð 1986), einkum skort á samvinnu og takmarkaða þróun í forvarnastarfi. M.a. var rætt að nauðsynlegt væri að stilla saman og samhæfa krafta samtaka, almennings og stofnana sem vinna að framkvæmd forvarna og nýta þannig betur fjármagn sem varið væri til málaflokksins. Horft var til þess að yfirleitt væru forvarnaverkefni afmörkuð og tímabundin og án tengsla við önnur hliðstæð verkefni. Einnig skorti stefnumörkun og leggja þyrfti aukna áherslu á árangursmat og þróunarstarf. Þessi samtöl leiddu til formlegrar ákvörðunar í ársbyrjun 1993 um að setja á stofn Fræðslumiðstöð sem hefði það einkum að markmiði að bæta úr þessum ágöllum.

Til þess að auka enn frekar hagkvæmni samstarfsins og skjóta sterkari stoðum undir stofnun og starfsemi miðstöðvarinnar seldu Íslenskir ungtemplarar húseign sína að Barónsstíg 20 í Reykjavík og keyptu húsnæði að Grensásvegi 16. Vímulaus æska flutti starfsemi sína úr Borgartúni 28 á Grensásveginn og leigði hluta af húsnæðinu þar fyrir starfsemi sína. Með þessu minnkaði að flatarmáli það húsnæði sem þessir tveir aðilar höfðu áður búið í en með því að flytja aðstöðuna saman fékkst í raun meira rými vegna margs konar samnýtingar, svo sem á ýmiss konar skrifstofu- og tækjabúnaði. Með sambýlinu opnaðist einnig möguleiki á að nýta enn betur hina fjölbreyttu reynslu og menntun starfsfólks þessara samtaka í þágu forvarna og veittu hinni nýju Fræðslumiðstöð mikilvægt bakland og stuðning. Á þessum grunni var svo Fræðslumiðstöð í fíknvörnum opnuð formlega 5. nóvember 1993 og sleit barnsskónum.

Framan af mynduðu fulltrúar stjórna Íslenskra ungtemplara og Vímulausrar æsku stjórn miðstöðvarinnar. Þegar VÆ hætti þátttöku í starfi FRÆ árið 1999 og stofnaði Foreldrahús varð stjórn Ungtemplara jafnframt stjórn miðstöðvarinnar næstu þrjú ár. Árið 2002 setti stjórn ÍUT miðstöðinni sérstaka stjórn.

Þetta fyrirkomulag hélst til ársins 2012 að Íslenskir ungtemplarar fólu Félagi áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu starfrækslu miðstöðvarinnar 8. febrúar 2012 samhliða ákvörðun um slit samtakanna og sérstakur samningur gerður þar um. Á fyrsta aðalfundi þess félags var ákveðið að stjórn þess færi einnig með stjórn miðstöðvarinnar.

Reksturinn var tryggður fyrst tvö starfsárin með því að ungtemplarar lögðu miðstöðinni til húsnæði og aðstöðu endurgjaldslaust og Vímulaus æska lagði til fjármagn, auk þess sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið styrkti starfsemina. Að öðru leyti var gert ráð fyrir að miðstöðin aflaði sjálf tekna með styrkjum og útseldri þjónustu (fyrirlestrum og námskeiðum) til þess að standa undir kostnaði við afmörkuð verkefni.

Það ríkti hátíðarstemming við opnun Fræðslumiðstöðvar í fíknivörnum þann 5. nóvember 1993. Forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, var heiðursgestur, en um 100 góðir gestir voru viðstaddir.

Fjölmiðlar létu hins vegar ekki sjá sig þrátt fyrir ítrekuð boð, enda uppteknir við annað mikilvægara sem var að taka á móti geimverum sem spáspakir sjáendur víðs vegar um heiminn töldu að væru væntanlegar í heimsókn. Gestirnir áttu að lenda á Snæfellsjökli nákvæmlega kl. 21.07 um kvöldið. Á staðinn voru mættir á sjötta hundrað áhugamanna um geimverur og fljúgandi furðuhluti auk fjölda fjölmiðlafólks. Þegar á hólminn var komið létu engar geimverur sjá sig og hefur ekkert til þeirra spurst en Fræðslumiðstöð í fíknivörnum hóf sig til flugs þennan dag og hóf þegar að marka spor í forvörnum á Íslandi og er enn að.

Leiðarljósin

Forvarnir, hagkvæmar fyrir samfélagið

Aðstandendur FRÆ höfðu þegar í upphafi skýra sýn á hlutverk miðstöðvarinnar. Í kynningarbæklingi upphafsáranna segir m.a.: ,,Miklum fjármunum er varið til meðferðar og endurhæfingar fólks sem ánetjast áfengi og öðrum fíkniefnum en það virðist þó ekki nægja til að mæta eftirspurn. Því er ljóst að efla verður stórlega aðrar leiðir til þess að ná árangri og gera betur en aðeins að halda í horfinu. Efla verður forvarnastarf til muna og styrkja þá þætti sem miða að því að ná sem fyrst til fólks sem hefur nánetjast þessum efnum til þess að auka líkur á árangri og komast hjá kostnaðarsömum leiðum til úrbóta. Mikilvægustu þættirnir eru æskulýðs- og foreldrastarf.“

Samstarf

Í boðsbréfi vegna stofnunar miðstöðvarinnar 5. nóvember 1993 segir m.a.: ,,Forvarnastarf má ekki sitja á hakanum eða verða marklaust vegna skorts á samstöðu og samvinnu eða peningaleysis. Forvarnastarf er langtum ódýrari leið fyrir samfélagið en meðferðarúrræði og kemur þar að auki í veg fyrir margvísleg vandamál og þjáningar einstaklinga og fjölskyldna.“ Um samstarf segir einnig í þessu sama bréfi: ,,Um árabil hafa margir aðilar unnið að forvarnastarfi í fíkniefnamálum hér á landi. Samvinna þeirra á milli hefur verið nokkur en þó minni en efni standa til ef litið er til þess að um sömu markhópa er að ræða, áherslur svipaðar og fjármögnunarleiðir þær sömu.“

Mikilvægi samstarfs og forsendur fyrir því koma vel fram í ársskýrslu 2001. Þar segir m.a.: ,,Forvarnir felast ekki fyrst og fremst í fræðslu og uppýsingamiðlun um skaðsemi fíkniefna heldur snertir nánast alla þætti samfélagsins, s.s. uppeldi, menntun, heilsugæslu, æskulýðsstarf, skemmtanalíf og afþreyingu. Fyrir vikir verða fíknivarnir flóknara viðfangsefni en áður og hugmyndir um leiðir fjölbreyttari. Aðstæður breytast, tíðarandinn breytist og nýjar kynslóðir vaxa úr grasi. Forvarnir þurfa því að vera í stöðugri umræðu og endurskoðun.

Forvarnir eru ekki einangraður þáttur í samfélaginu. Sú áhættuhegðun sem neysla ávana- og vímuefna er tengist ýmsum öðrum áhættuþáttum í lífi fólks, s.s. geðrænum vanda, hegðunar- og þroskaröskun af ýmsum toga og félagslegum vanda fólks. Forvarnir gegn fíkniefnum eiga því samleið með forvörnum gegn ýmsum öðrum vanda. Forvarnir þurfa að vera hluti af mörgum sviðum samfélagsins, samþættar öllu uppeldisstarfi og sjálfsagður hluti af uppeldisskilyrðum barna og unglinga. Ríka áherslu verður að leggja á þátttöku foreldra og samstarf við heimli og virka þátttöku ungs fólks. Samfélagið þarf að líta á það sem sjálfsögð mannréttindi að börn og unglingar alist upp án ógnunar frá ávana- og vímuefnum hverju nafni sem þau nefnast.“

Þekking og þróunarstarf

Stofnun FRÆ var m.a. svar við stöðnun eða hægagangi í forvarnamálum. Miðstöðinni var ætlað að fara nýjar leiðir í starfi sínu og leggja áherslu á þróunarstarf. ,,Forvarnastarf sem ekki fær að þróast í takt við tímann og samfélagsbreytingar er dæmt til þess að verða marklaust,“ segir í kynningarriti frá upphafsárunum. Þar var þekking lykilþáttur, eins og kemur fram í eftirfarandi frá árinu 1997: ,,Forvarnir verða að byggjast á þekkingu. Þekkingu á því hvaða leiðir eru líklegastar til árangurs og þekkingu á því hvernig meta má árangur forvarnastarfs.“ Hlutverk FRÆ skyldi vera að afla upplýsinga og þekkingar um ávana- og vímuefnamál og forvarnir, gera hana aðgengilega (m.a. með starfrækslu gagnasafns og vefsíðu) og koma henni á framfæri með fræðslu, útgáfu og ráðgjöf í forvörnum.

Um þetta segir nánar í áðurnefndum texta frá 1997: ,,Gagna- og upplýsingaöflun, úrvinnsla niðurstaðna rannsókna, áætlanagerð og þróunarstarf eru undirstaða skynsamlegra forvarna. Forvarnastarf verður að reka sem vísindi en ekki eingöngu á góðri trú á góðan málstað.“

Heildarsýn og betri nýting fjármagns

Flestir, eða allir, sem vinna að heilsueflingu, forvörnum og úrbótum ýmissa meina samfélagsins kvarta stöðugt undan fjárskorti. Viðfangsefnin kalla úr öllum hornum og hugsjónafólkið sem fer fyrir þessum málum brennur í skinninu og vill gera betur. FRÆ er þar engin undantekning en var að auki strax frá upphafi gagnrýnið á meðferð þeirra fjármuna sem ætlaðir voru til forvarna og vildi að þeim væri í meira mæli ráðstafað til samstarfsverkefna þar sem fleiri kæmu að með viðbótarkrafta, þekkingu og fjármagn. Kallað var eftir heildar- og langtímasýn. Í ársskýrslu að loknu fyrsta starfsárinu segir t.d. í þessa veru: ,,Samhliða auknu samstarfi þarf að skilgreina betur forvarnastarfið og koma á bættri verkaskiptingu þeirra sem vinna að áfengis- og fíkniefnamálum. Meðferðaraðilar ættu einungis að sinna meðferð og upplýsinga- og ráðgjafarstarfi sem tengist henni beint og samræma þarf forvarnastarf sem unnið er í skólum landsins. Á meðan stjórnvöld dreifa því fjármagni sem ætlað er til forvarna til jafnmargra aðila og nú er er ekki að vænta mikilla framfara í forvarnastarfi. Til þess kemur og lítið í hlut hvers og eins. Forvarnastarf er uppeldis- og fræðslustarf sem ekki verður unnið í formi átaka og upphlaupa heldur jafnt og þétt með faglegum hætti í tengslum við annað uppeldis- og fræðslustarf.“ Á þessu var hnykkt í ársskýrslu frá 2001 og kallað eftir stöðugleika og samfellu í starfinu: ,,Til að svo geti orðið þarf að vera fyrir hendi vel skilgreindur ,,strúktúr“ sem gerir ráð fyrir samstarfi og sérhæfingu þeirra sem vilja leggja forvörnum lið,“ segir þar.

Starfsfólk og rekstur. Mottóið að nýta hverja krónu vel.

Þeirri stefnu sem sett var við stofnun FRÆ, að halda skyldi yfirbyggingu og rekstrarkostnaði í lágmarki, hefur verið fylgt fast eftir alla tíð. Fastir starfsmenn hafa aldrei verið fleiri en tveir og sjaldnast báðir í fullu starfi. Að öðru leyti hefur starfsfólk verið ráðið tímabundið vegna sérþekkingar sinnar til ákveðinna verkefna. Nánast engu fé hefur verið varið til kaupa á tækjum, skrifstofubúnaði og húsgögnum. Allt slíkt hefur annað hvort fengist gefins eða starfsmenn lagt með sér sjálfir. Með þessu er reynt að nýta til hins ítrasta allt fjármagn sem miðstöðin hefur úr að spila hverju sinni beint í starfið og verkefnin.

Árni Einarsson (MA) uppeldis- og menntunarfræðingur var ráðinn framkvæmdastjóri frá og með 1. júlí 1993 og Guðni Ragnar Björnsson (BA) uppeldis- og menntunarfræðingur var ráðinn í hlutastarf sem verkefnisstjóri frá og með 1. janúar 1995. Starfshlutfall þeirra hefur verið mismikið og farið eftir því sem fjárhagur hefur leyft. Að öðru leyti hefur starfsfólk verið ráðið tímabundið í ákveðin verkefni.

Starfsfólk FRÆ hverju sinni er kjarninn í starfsemi miðstöðvarinnar. Þekking þess og reynsla eru þau verkfæri sem miðstöðin hefur til þess að vinna verkin. Af því leiðir að mikilvægt er að starfsfólk FRÆ hafi sem víðtækastan og fjölbreyttastan bakgrunn og reynslu. Þess vegna er lögð áhersla á að starfsfólk miðstöðvarinnar sé virkt á ýmsum sviðum þjóðlífsins, sérstaklega þeim sem tengjast ávana- og vímefnamálum og forvörnum, og taki þátt í verkefnum sem koma því að notum í starfi.

Þeir tveir sem verið hafa fastir starfsmenn miðstöðvarinnar fyrstu tuttugu árin eru með háskólamenntun á sviði uppeldis og menntunar og með áralanga reynslu í forvörnum úr uppeldis- og menntastarfi, íþrótta- og æskulýðsstarfi, foreldrasamstarfi, sveitarstjórnarmálum, útgáfumálum og alþjóðlegu samstarfi auk áratuga reynslu úr grasrótarstarfi á vettvangi félagasamtaka.

Aðsetur og aðstaða

FRÆ hóf starfsemi sína á Grensásvegi 16 og var þar til húsa til ársloka 1998 en í janúar 1999 flutti miðstöðin í Brautarholt 4a í kjölfar þess að Vímulaus æska hætti samstarfi um miðstöðina. Ungtemplarar seldu húseign sína á Grensásveginum og flutti með FRÆ í Brautarholtið þar sem báðir aðilar leigðu skrifstofuherbergi með afnot af fundar- og kennslusal.

Miðstöðin var kölluð Fræðslumiðstöð í fíknivörnum til 1. mars 2008 að nafni hennar var breytt í Fræðsla og forvarnir. Með breytingunni var komið til móts við breyttar áherslur í vímuvörnum og laga nafn miðstöðvarinnar að fjölbreyttari viðfangsefnum en hún sinnti fyrstu árin. FRÆ var áfram notað til styttingar á nafninu. Þegar félagið Fræðsla og forvarnir tóku yfir miðstöðina árið 2012 var nafni miðstöðvarinnar enn breytt og heitir frá þeim tíma Fræðsla og forvarnir, fræðslu- og upplýsingamiðstöð í heilsueflingu og forvörnum.

Miðstöðin er að forminu til rekin af Fræðslu og forvörnum, félagi áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu, en rekin sem rekstrarlega sjálfstæð eining. Starfsemin er því byggð á eigin fjármögnun. Rekstrartekjur eru einkum af fernum toga: Í fyrsta lagi opinberir rekstrar- og verkefnastyrkir (þar er fyrst og fremst um að ræða styrki úr Forvarnasjóði/Lýðheilsusjóði); annars vegar tekjur vegna ráðgjafar og umsjónar með verkefnum; þriðja lagi styrkir og auglýsingatekjur vegna verkefna, s.s. útgáfuverkefna; fjórða lagi tekjur vegna fyrirlestrahalds starfsfólks.

Á réttum stað á réttum tíma.

Mikil gróska hljóp í forvarnastarf á Íslandi á árunum 1994-2000. Þar kom FRÆ mikið við sögu; átti bæði þátt í þeirri grósku og naut góðs af henni. Fyrsta stóra verkefnið sem FRÆ koma að með virkum hætti var verkefnið Stöðvum unglingadrykkju sem hófst árið 1994 og gaf e.t.v. tóninn fyrir það sem á eftir kom, ekki síst hvað varðaði áhersluna á að fá sem flesta til þátttöku. Mörg önnur forvarnaverkefni urðu til á þessum árum sem eru enn við lýði og/eða gátu af sér önnur. Viðhorf til forvarna breyttist einnig á þessum árum í þá veru að í auknum mæli var litið á forvarnir sem fjölþætt samfélagslegt viðfangsefni, en ekki einungis sem fræðslu til barna og ungmenna. Kallað var eftir heildstæðum aðgerðum og almennri hugarfarsbreytingu. Áhersla var lögð á samstarf og að virkja foreldra og uppalendur. Sveitarfélög og ýmsar stofnanir samfélagsins komu af meiri þunga en áður að forvörnum, bæði hvað varðar stefnumörkun og aðgerðir. Hér á eftir er þessum árum gerð stuttlega skil og lýst helstu verkefnum sem FRÆ kom að og ekki eru beinlínis runnin undan rifjum FRÆ.

Reykjavíkurborg tekur frumkvæði. ECAD, Ísland án eiturlyfja og Vímuvarnaskólinn

Samtökin Evrópuborgir gegn eiturlyfjum (ECAD) voru stofnuð í apríl 1994. Stofnun samtakanna var m.a. svar við áformum ýmissa borga í Evrópu um að lögleiða tiltekin eiturlyf. Reykjavíkurborg var ein af 21 stofnborgum. Megintilgangurinn með starfi samtakanna var að hvetja borgir til aðgerða og baráttu gegn ólöglegum fíkniefnum í stað þess að gefast upp í baráttunni gegn þeim og lögleiða þau.

Í nóvember 1994 samþykkti borgarráð Reykjavíkur a skipa starfshóp til þess að gera tillögur um aðgerðir og stefnumótun í vímuefnavörnum á vegum borgarinnar. Þá um haustið (1995) setti Reykjavíkurborg á laggirnar Vímuvarnanefnd Reykjavíkur sem ætlað var að samþætta starf allra þeirra sem komu að forvörnum í borginni og útfæra stefnu borgarinnar í vímuvörnum.

Fyrsta verk nefndarinnar var að koma á fót Vímuvarnaskólanum vorið 1996. Skólinn var ætlaður kennurum og öðrum starfsmönnum grunnskóla í Reykjavík. Markmið Vímuvarnaskólans var að efla forvarnastarf grunnskóla og koma á skipulögðum forvörnum í grunnskólum Reykjavíkur með því að skapa forsendur fyrir því að grunnskólar í Reykjavík mætu stöðu sína í vímuvörnum og gerðu sér heildstæða vímuvarnaáætlun auk þess að upplýsa og fræða starfsfólk um ýmsar hliðar vímuefnaneyslu og möguleika í forvörnum.

Vímuvarnanefnd Reykjavíkur, sem hafði umsjón með verkefninu, kallaði til liðs við sig fulltrúa frá FRÆ, SÁÁ, RKÍ og Barnaverndarstofu. Árna Einarssyni hjá FRÆ og Einari Gylfa Jónssyni frá SÁÁ var í framhaldinu falið að skipuleggja Vímuvarnaskólann, útfæra námsefni, annast gerð námsgagna og hafa yfirstjórn með starfsdögum í hverjum skóla. Vímuarnaskólinn starfaði þannig að tekinn var starfsdagur í hverjum skóla til þess að hægt væri að bjóða öllu starfsfólki skólanna fræðslu um vímuefni, ekki aðeins kennurum. Voru sett saman tvö fjögurra manna teymi fyrirlesara sem skiptu skólunum 29 í borginni með sér. Fyrsti starfsdagurinn var 15. mars en sá síðasti 7. maí 1996.

Þegar verkefni Vímuvarnaskólans í Reykjavík lauk vorið 1996 ákváðu FRÆ og Forvarnadeild SÁÁ að bjóða sameiginlega framhaldsskólakennurum farandnámskeið um vímuarnir á sömu nótum og Vímuvarnaskólinn hafði gert. Fjallað var um stefnumörkun í vímuvörnum og ábyrgð og frumkvæði í félagsstarfi með unglingum. Markmið námskeiðanna var að virkja fleiri innan framhaldsskólanna í vímuvörnum og gera forvarnir að föstum lið í skólastarfi og skerpa stefnumörkun og sáu Árni Einarsson og Einar Gylfi Jónsson um þau.

FRÆ, SÁÁ og RKÍ ákváðu svo þá um haustið að halda starfi Vímuvarnaskólans áfram þannig að hann nýttist öllum sveitarfélögum í landinu og gerðu með sér fimm ára samsstarfssamning þar um 17. nóvember 1997. Auk fulltrúa þessara aðila sat fulltrúi frá Kennarasambandi Íslands í stjórn Vímuvarnaskólans. Verkefnið hafði þó í raun hafist þá strax í júní. Árið 1997 (vor- og haustönn) voru haldin nítján námskeið á vegum Vímuvarnaskólans í flestum landshlutum. Sex hundruð kennarar sóttu námskeiðin. Forvarnadeild SÁÁ var lögð niður á haustmánuðum 2001 en starfsemi Vímuvarnaskólans var haldið áfram um nokkurð skeið í óbreyttri mynd af hinum tveimur.

Þátttaka Reykjavíkurborg í ECAD átti eftir að segja til sín með ýmsum hætti og ná til alls landsins með stofnun átaksins Ísland án eiturlyfja. Hinn 6. febrúar 1997 undirrituðu Þorsteinn Pálsson dómsmálaráðherra f.h. ríkisstjórnarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgastjóri f.h. Reykjavíkurborgar og Åke Setréus framkvæmdastjóri ECAD fyrir hönd samtakanna, samstarfssamning um áætlunina. Árið 1998 bættist Samband íslenskra sveitarfélaga í hópinn. Auk þessara aðila komu fjölmargir aðrir að verkefninu, enda hinn rauði þráður verkefnisins að kalla sem flesta til umræðu og aðgerða, s.s. íþróttahreyfinguna, lögreglu, bindindishreyfinguna, foreldrasamtök, fjölmiðla og aðila vinnumarkaðarins svo fáeinir séu tilgreindir.

Áætlunin Ísland án eiturlyfja var liður í stærri áætlun ECAD um Evrópu án eiturlyfja árið 2012. Samtökin vonuðust til að árangur af verkefnum sem hrundið yrði af stað hér á landi yrði slíkur að þau gætu orðið fyrirmyndir fyrir aðrar borgir í baráttunni gegn eiturlyfjum. Meginmarkmið samstarfsins var að sameina krafta þjóðarinnar í baráttunni gegn ólöglegum fíkniefnum, efla forvarnir og skipuleggja verkefni og aðgerðir sem hefðu þetta markmið að leiðarljósi. ECAD taldi að Ísland ætti mikla möguleika á því að stemma stigu við innflutningi og dreifingu eiturlyfja vegna landfræðilegrar legu landsins og hefur það áreiðanlega vegið þungt í ákvörðun samtakanna um að standa að verkefninu.

Ísland án eiturlyfja stóð fyrir ýmsum verkefnum sem ekki verða gerð skil hér. Vímuvarnaskólinn, sem sagt er frá hér á undan, var eitt þeirra. Af öðrum má nefna ráðstefnur um land allt í samstarfi við Heimili og skóla, UMFÍ og ýmsa fleiri þar sem fjallað var um vímuvarnir í sveitarfélögum.

FRÆ átti eftir að taka þátt í ýmsum verkefnum sem stofnað var til innan vébanda Íslands án eiturlyfja en auk þess sat fulltrúi FRÆ í starfshópi á vegum verkefnisins, hafði m.a. umsjón með vinnu starfshóps um stöðu og framtíðarhugmyndir í forvörnum sem skilaði niðurstöðum 17. desember 2001. Stærsta verkefnið sem FRÆ kom að var stofnun og þróun Fjölskyldumiðstöðvar.

Vímulaus grunnskóli og stofnun Fjölskyldumiðstöðvar

Stofnun Fjölskyldumiðstöðvar vegna barna í vanda árið 1997 varð til sem hluti af forvarnaverkefni Reykjavíkurborgar, Vímulaus grunnskóli, sem var hluti af áætluninni Ísland án eiturlyfja 2002. Verkefnið, og starfræksla Fjölskyldumiðstöðvar, var samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, félagsmálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands sem hófst í apríl 1997.

Markmið verkefnisins Vímulaus grunnskóli var að draga úr áfengis- og vímuefnaneyslu barna á grunnskólaaldri í Reykjavík, styðja og styrkja fjölskyldur þeirra gegn áfengis- og vímuefnaneyslu og stuðla þar með að vímuefnalausum grunnskólanemum. Með verkefninu var einnig stefnt að því að draga úr umburðarlyndi gagnvart barna- og unglingadrykkju og stuðla að því að foreldrar, börn og ungmenni, svo og þeir sem vinna að barna- og unglingamálum tækju höndum saman í baráttunni gegn vímuefnaneyslu barna og ungmenna.

Fjölskyldumiðstöðin hafði það hlutverk að veita börnum á grunnskólaaldri í Reykjavík og fjölskyldum þeirra snemmtæka viðeigandi aðstoð vegna ávana- og vímuefnaneyslu. Verkefnið var einnig tilraunverkefni í því að „samhæfa“ störf opinberra aðila sem lögum samkvæmt skulu bregðast við ef börn eru í vanda vegna ávana- og vímuefnaneyslu og félagasamtaka sem vinna að sama marki.

Í byrjun lagði Reykjavíkurdeild Rauða krossins verkefninu og Fjölskyldumiðstöðinni til rekstrarfé en auk þess styrkti Forvarnasjóður verkefnið. Félagsmálaráðuneytið styrkti rekstur miðstöðvarinnar einnig árið 1999. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið lagði miðstöðinni til húsnæði í Heilsuverndarstöðinni og þær stofnanir sem lögðu Fjölskyldumiðstöðinni til ráðgjafa stóðu að mestu sjálfar straum af kostnaði vegna þeirra. Ráðgjafar Fjölskyldumiðstöðvar komu frá Stuðlum, Teigi, Barna- og unglingageðdeild Landspítalans og Félagsþjónustu Reykjavíkur.

Samstarfssamningur um Fjölskyldumiðstöðina var undirritaður 18. mars 1997 en fyrsta viðtal var tekið 28. apríl. Starfsemin hófst formlega í húsakynnum Heilsuverndarstöðvarinnar við Barónsstíg í Reykjavík. Þar var hún til ársins 2004 að starfsemin fluttist að Háaleitisbraut 13 í Reykjavík og starfar þar enn.

FRÆ lagði strax í upphafi áherslu á mikilvægi þess að vera vakandi fyrir þróun áhættuþátta ávana- og vímuefnaneyslu og grípa sem fyrst inn í liggi fyrir vísbendingar um að óheillaþróun sé að hefjast. Það féll því vel að þessum áherslum að FRÆ tæki að sér mótun starfsemi Fjölskyldumiðstöðvarinnar. Framkvæmdastjóri FRÆ var ráðinn sem verkefnastjóri miðstöðvarinnar og leiddi það starf fyrstu árin. Gegndi hann því starfi til 1. júní 2003, eða þar til uppsögn samningsins við FRÆ kom til framkvæmda. Auk verkefnisstjóra var starfsmaður ráðinn að miðstöðinni þegar frá byrjun til þess að bóka viðtöl og veita foreldrum upplýsingar og ráðgjöf í síma, annast skráningu nauðsynlegra upplýsinga og fylgja eftir málum gagnvart foreldrum eftir óskum ráðgjafa.

Upphaflega var gert ráð fyrir að starfræksla Fjölskyldumiðstöðvar stæði til áramóta 1997/1998 en ákveðið var að halda því áfram út árið 1998 og síðar út árið 1999. Í árslok 1999 var ákveðið að halda starfsemi miðstöðvarinnar áfram ótímabundið um sinn.

Strax á fyrstu mánuðum í starfi Fjölskyldumiðstöðvar kom skýrt í ljós að þörf var aðgengilegrar þjónustu fyrir börn með ýmsan annan vanda en vímuefnavanda. Einnig kom í ljós að börnin og unglingarnir sem komu á Fjölskyldumiðstöð vegna vímuefnaneyslu voru oft samhliða að fást við annan vanda, s.s. samskiptavanda á heimili og í skóla og hegðunarvanda. Af þessum sökum var fljótlega hætt við að einblína á vímuefnavanda sem eina skilgreinda viðfangsefni miðstöðvarinnar.

Aðalsmerki og sérstaða Fjölskyldumiðstöðvar var aðgengileiki og viðbragsflýtir og að öflun persónulegra upplýsinga var haldið í lágmarki. Þjónustan var fjölskyldum að kostnaðarlausu og gert var ráð fyrir að fyrsta viðtal væri veitt eigi síður en þremur dögum eftir að óskað var eftir viðtali. Ekki þurfti tilvísanir til þess að fá þjónustu hjá Fjölskyldumiðstöð, heldur gat fólk snúið sér beint og milliliðalaust til miðstöðvarinnar. Markmiðið var að fá fleiri fjölskyldur sem á þurftu að halda til þess að bregðast fyrr við en ella og leita sér ráðgjafar.

Ríkið kemur til leiks

Verkefnið Ísland án eiturlyfja hefði hugsanlega ekki orðið til, eða a.m.k. ekki orðið jafn viðamikið, ef ekki hefði komið til þátttaka ríkisins. Hún kom einkum til af því að í desember 1996 samþykkti ríkisstjórn Íslands að móta sér stefnu í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum. Þar var lögð áhersla á að efla forvarnir sem beinast að einstaklingum sem eru í áhættu gagnvart notkun fíkniefna, áfengis og tóbaks og að efla meðferðarúrræði fyrir ungmenni sem orðið hafa fíkninni að bráð. Skipuð var nefnd ráðuneyta til þess að útfæra stefnuna og aðgerðir ríkisstjórnarinnar þar til nýtt áfengis- og vímuvarnaráð tæki til starfa og skilaði hún af sér í mars 1998. Lög um nýtt áfengis- og vímuvarnaráð gengu í gildi 1. júlí 1998. Ráðið tók til starfa 1. janúar 1999, en þá var eldra Áfengisvarnaráð lagt niður, og tók þá við stjórn Forvarnasjóðs sem stofnaður var 1995. Í hann rann ákveðinn hluti áfengisgjalds en við það jukust fjárveitingar til forvarna á sviði áfengis- og fíkniefnamála. Einn liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar var að ganga til samstarfs við Reykjavíkurborg og ECAD um áætlunina Ísland án eiturlyfja.

Í framhaldi af starfi ráðuneytanefndarinnar var viðkomandi ráðuneytum og undirstofnunum þeirra gert að leggja fram framkvæmdaáætlun, hvert á sínu sviði. Í kjölfarið var ráðist var í ýmis verkefni. M.a. var ávana- og fíkniefnastarfsemi löggæslunnar eflt með auknu fjármagni og stöðugildum fjölgað. Síðla hausts 1998 hófst forvarnaverkefnið Hættu áður en þú byrjar sem að stóðu lögreglan í Reykjavík, Félagsþjónustan í Reykjavík og Hvítasunnukirkja Fíladelfíu í Reykjavík. Það verkefni er enn við lýði. Árið 1998 var skipað fjölskylduráð sem hafði það hlutverk að stuðla að eflingu og vernd fjölskyldunnar í samræmi við almenn markmið ríkisstjórnarinnar og það bent að fjölskyldan og heimilin eru tvímælalaust mikilvægasti vettvangurinn á sviði forvarna í fíkniefnamálum. Þá var sjálfræðisaldur hækkaður úr 16 árum í 18 ár 1. janúar 1998. Ein rökin fyrir hækkun sjálfræðisaldurs voru að gera foreldrum og samfélaginu í heild kleift að taka á stjórnlausri neyslu áfengis og vímuefna 16 til 18 ára ungmenna. Barnahús var opnað árið 1998 og í ársbyrjun 1998 var undirritaður samstarfssamningur milli heilbrigðisráðuneytisins og forvarnadeildar SÁÁ um tveggja ára samstarf í forvarnamálum. Markmið verkefnisins var að virkja sveitarfélög, opinbera aðila, félagasamtök, skóla, nemendur, foreldra og aðra áhugamenn til að vinna að markvissu forvarnastarfi innan sveitarfélagsins með faglegri ráðgjöf, aðstoð og stuðningi forvarnadeildar SÁÁ og heilbrigðisráðuneytisins. Áður hafði SÁÁ undirbúið verkefnið og gert tilraunir með framkvæmd þess í 5 sveitarfélögum og var byggt á þeirri reynslu í verkefninu. Í framhaldi af því varð til verkefnið Vertu til árið 2003 en það var samstarfsverkefni Sambands íslenskra sveitarfélaga og áfengis- og vímuvarnaráðs um eflingu forvarna í sveitarfélögum. Verkefnið var til þriggja ára eða frá 2003 til ársloka 2005. Megininntak verkefnisins var ráðgjöf og upplýsingaöflun um skipulag og framkvæmd forvarnastarfs gagnvart ungu fólki. Því var einkum ætlað að ná fram skilvirkri og ítarlegri samvinnu bæjaryfirvalda og grasrótarstarfs í sveitarfélögum landsins.

Einnig má nefna að Ísland tók í fyrsta sinn þátt í ESPAD-rannsókninni árið 1995. ESPAD (European School Survey Project on Alcohol and Other Drugs) er fjölþjóðleg könnun framkvæmd að tilstuðlan Evrópuráðsins og er lögð fyrir ungmenni á aldrinum 15–16 í 25 löndum. ESPAD rannsóknin gerði í fyrsta sinn mögulegt að bera saman með samræmdum hætti stöðu og þróun í mörgum löndum Evrópu og hefur átti sinn þátt í því að halda ávana- og vímuefnumálunum á dagskrá.

Menntamálaráðuneytið og forvarnastarf í framhaldsskólum

Í samræmi við þá kröfu til ráðuneyta að þau mörkuðu stefnu fyrir sig og undirstofnanir sínar setti menntamálaráðuneytið á fót teymi sérfræðinga til þess að endurskoða og gera tillögur um forvarnastarf í skólum. Teymið fjallaði eingöngu um forvarnir í grunn- og framhaldsskólum en lagði áherslu á að mikilvægt væri að sinna einnig formlegum forvörnum á dagvistarstofnunum fyrir forskólabörn. Í upphafi árs 1997 var gerður samningur við FRÆ um umsjón með starfi teymisins. Árni Einarsson framkvæmdastjóri FRÆ hafði það verk með höndum og var ritari þess. Verkefninu lauk í ársbyrjun 1998 og skilaði teymið skýrslu um starf sitt vorið 1998.

Liður í þessu verkefni var námskeið á vegum Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands dagana 13. – 15. ágúst 1997 þar sem fjallað var um sjálfsvíg og fíkniefnaneyslu. Námskeiðið var haldið í Háskóla Íslands og Norræna húsinu og ætlað skólastjórnendum grunn- og framhaldsskóla auk þeirra starfsmanna skóla sem sinna ráðgjöf til nemenda og/eða höfðu með höndum úrlausn ýmiss konar vanda sem kemur upp í skólastarfi. Þátttakendur voru tæplega eitt hundrað. Fyrirlesarar voru fjölmargir, þar á meðal dr. Gil Noam kennari við Harvard háskóla í Boston. Dr. Noam stýrði þá verkefni í Boston um forvarnir í skólum í tengslum við áhættuhegðun barna og unglinga. Umsjón með námskeiðinu höfðu Árni Einarsson og Wilhelm Norðfjörð.

Dr. Gil var aftur á ferðinni árið eftir og flutti ásamt fleirum fyrirlestur á námskeiði sem haldið var á vegum FRÆ í samvinnu við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands og Endurmenntunardeild Kennaraháskólans á Akureyri dagana 19. – 21. ágúst.

Meðal tillagna teymisins til þess að stuðla þessu markmiði má nefnda aukna ráðgjöf og stuðning við foreldra, fræðslu og aukna fjölbreytni í námsvali og kennsluaðferðum, áherslu á að styrkja sjálfsmynd og félagsþroska nemenda, að forvarnir verði liður í kennaranámi og að skólar eigi kost á ráðgjöf í forvörnum. Einnig var bent á mikilvægi þess að innan allra skóla, á báðum skólastigum væri starfandi forvarnafulltrúi sem hefði það hlutverk að samræma forvarnastarf skólanna og eiga nauðsynlegt frumkvæði að forvarnastarfinu.

Teymið hvatti til þess að stutt yrði við bakið á Jafningafræðslu framhaldsskólanema sem þá var nýbúið að hrinda af stokkunum (um áramótin 1995/1996) og taldi jafningjafræðslu líklega til árangurs í framhaldsskólum. Það kom svo í hlut FRÆ að fylgja tveimur aðalverkefnum menntamálaráðuneytisins úr hlaði og sinna þeim næstu árin. Annars vegar umsjón með forvarnaverkefni fyrir framhaldsskólana og hins vegar uppbygging og þátttaka í Jafningjafræðslu framhaldsskólanema.

Forvarnir í framhaldsskólum

Þegar formlegu starfi teymis menntamálaráðuneytisins var að ljúka í árslok 1997 var ákveðið að framlengja samninginn við FRÆ um óákveðinn tíma, um eitt ár í senn. Fyrri hluti árs fór í að ljúka verkefni teymisins og undirbúning og framkvæmd námskeiðs á Akureyri sem haldið var í ágúst 1998.

Árið 2003 gerðu FRÆ og menntamálaráðuneytið svo samning til þriggja ára sem var síðan endurnýjaður 2007 eða til og með ágústmánuði 2010. Skömmu fyrir ármót 2010/2011 var skrifað undir nýjan en mikið breyttan samning sem gilti út skólaárið 2012. Þar með lauk rúmlega fimmtán ára samstarfi FRÆ og menntamálaráðuneytisins. Umsjón með verkefninu allan tímann höfðu Árni Einarsson og Sigríður Hulda Jónsdóttir sem starfaði í hlutastarfi.

Hlutverk FRÆ í þessu verkefni var að aðstoða við stefnumörkun/gerð forvarnaáætlana í framhaldsskólum í samráði við stjórnendur þeirra. Einnig að veita starfsfólki framhaldsskóla ráðgjöf við framkvæmd forvarnaáætlana; Standa fyrir og skipuleggja námskeið/endurmenntun fyrir starfsmenn framhaldsskóla í tengslum við verkefnið; Vinna að því að gera forvarnastarf framhaldsskóla sýnilegt meðal nemenda og kennara og leita leiða til að efla samstarf við foreldra í tengslum við forvarnastarf og hafa umsjón með útgáfu og dreifingu kynningarefnis vegna verkefnisins að höfðu nánara samkomulagi við ráðuneytið.

Þegar verkefninu lauk var forvarnastarf innan framhaldsskólanna orðinn fastur liður í starfsemi flestra þeirra og þeir komnir með forvarnastefnu og starfandi forvarnafulltrúa. Í nær öllum voru starfandi forvarnafulltrúar og mikil fjölbreytni orðin í forvarnastarfinu.

Jafningjafræðslan

Mikil umræða varð um fíkniefnamál haustið 1995 þegar E-pillan kom eins og sprengja inn á fíkniefnamarkaðinn íslenska og mikil umræða varð um ástandið í fjölmiðlum. Upp úr þessari umræðu varð Jafningjafræðsla framhaldsskólanema til.

Þá um haustið (1995) sátu tveir fulltrúar Félags framhaldsskólanema (FF) námskeið í Danmörku um svokallaða jafningafræðslu í forvarnastarfi meðal ungs fólks. Áhugi hafði þá vaknað innan stjórnar FF að hefja forvarnastarf í skólum en á sama tíma var forvarnahópur á vegum menntamálaráðuneytisins að vinna að tillögum að forvarnaverkefnum í framhaldsskólum. Aðalfundur FF, sem haldinn var á Akureyri í október 1995, samþykkti að hefja undirbýúning að forvarnastarfi í framhaldsskólum þá um veturinn. Því var kominn sterkur grundvöllur fyrir samstarfi þessara aðila þegar fulltrúar FF áttu viðræður við menntamálaráðuneytið um tilhögun og framkvæmd jafningjafræðslunnar. Verkefnið fékk síðan byr undir báða vængi þegar menntamálaráðherra ákvað að styrkja Jafningjafræðslu framhaldsskólanema með þriggja milljóna króna framlagi.

Jafningjafræðslan (JF) var sett af stað sem tilraunaverkefni í fíknivörnum. Með það að leiðarljósi setti ráðuneytið það skilyrði fyrir samstarfinu að verkefninu stýrði verkefnisstjórn sem í sætu fulltrúar frá ráðuneyti, Skólameistarafélagi Íslands, kennarafélögunum og Félagi framhaldsskólanema (FF). Árni Einarsson framkvæmdastjóri FRÆ tók sæti í verkefnisstjórn Jafningafræðslunnar 1. janúar 1996 og tók þátt í ýmsum námskeiðum á vegum hennar og aðstoðaði starfsmenn verkefnisins eftir þörfum

FRÆ var svo fengin til þess að hafa umsjón með daglegum rekstri og leiða hinn faglega hluta verkefnisins fyrsta árið. FRÆ sá einnig um að gera lauslega úttekt á verkefninu eftir fyrstu sex mánuðina og taka saman skýrslu um verkefnið og framvindu þess á sama tímabili. Bein tengsl FRÆ við verkefnið héldust áfram eftir að miðstöðin hætti beinni þátttöku í því, eða til vors 2001. Þá hætti Árni í verkefnisstjórninni. Frá þeim tíma hefur FRÆ svo tekið með ýmsum hætti þátt í námskeiðahaldi og fræðslu á vegum JF.

Jafningjafræðsla framhaldsskólanema hefur breyst talsvert frá því að henni var hrundið af stað hér á landi árið 1996 þótt grunnurinn sé hinn sami. Viðfangsefnið sem í upphafi var áfengis- og fíkniefnaneyslu hefur víkkað, en vettvangurinn þrengst nokkuð. Verkefnið er nú starfrækt sem hluti af starfsemi Hins hússins í Reykjavík með aðaláherslu á höfuðborgarsvæðið og markhópurinn einkum unglingar sem taka þátt í sumarstarfi sveitarfélaga (vinnuskólar). Framkvæmdastjóri FRÆ hefur um árabil tekið þátt í undirbúningi jafningjafræðaranna með fyrirlestrum um ávana- og vímuefnamál og forvarnir.

FRÆ setti árið 2012 einnig á laggirnar Samstarf um jafningjamiðaða forvarnafræðslu fyrir ungt fólk. Það felst í samstarfi við nokkra aðila sem bjóða upp á fræðslufyrirlestra fyrir nemendur í 8. – 10. bekk grunnskóla og nemendur í framhaldsskólum. Einnig fyrir ungt fólk í félags- og íþróttastarfi. Markmiðið með samstarfinu er að stuðla að nýsköpun og þróun í forvarnafræðslu fyrir ungt fólk, efla þekkingu, menntun og færni ungs fólks sem sinnir forvarnafræðslu á jafningjagrunni og skapa vettvang umræðu og miðlunar á reynslu. Þátttakendur hafa verið Jafningjafræðslan og Verjan, en ætlunin er að bjóða fleirum til samstarfsins síðar. FRÆ heldur utan um samstarfið, skipuleggur menntun og endurmenntun fyrir ungt fólk í forvörnum og kynnir starf samstarfsaðilanna á vefsíðu sinni og með öðrum tiltækum hætti. Samstarfið er að öðru leyti án kvaða og skuldbindinga af hálfu samstarfsaðila og því má slíta fyrirvaralaust að hluta eða öllu leyti.

Stiklur úr starfinu. Frumkvæði og þróunarstarf FRÆ

Þegar horft er til baka sést að víða hefur verið komið við í starfsemi FRÆ. Lögð hefur verið áhersla á samstarf um verkefni og reynt að forðast að ráðast í viðfangsefni sem aðrir sinntu fyrir. Þannig hefur veri fylgt þeirri línu sem lögð var í upphafi um frumkvæði og nýjar leiðir; í stað þess að fylgja einungis annarra sporum og halda sig við hefðbundnar leiðir. Vissulega hefur skortur á fjármagni takmarkað umsvif og margar góðar hugmyndir komust aldrei af teikniborðinu vegna skorts á framkvæmdafé.

Hér á eftir er gerð grein fyrir helstu verkefnum FRÆ í tuttugu ára starfssögu. Ýmislegt vantar í þá greinargerð og öðru lýst í í styttra máli en gott er, en sú leið valin til þess að sýna hversu fjölbreytt verkefnin hafa verið. Einnig er minnst á nokkra mikilvæga samstarfsaðila.

Lagt úr höfn með látum. Börn og ungmenni í fyrirrúmi.

Fyrstu tvö starfsár FRÆ var fræðsla í skólum og fræðsla fyrir foreldra umsvifamesti þátturinn í starfi FRÆ, enda litið á að vænlegast væri að stemma á að ósi og hafa sem fyrst og varanlegust áhrif á börn og ungmenni. Einnig var rík áhersla lögð á að skapa tengsl við aðra sem unnu að ávana- og vímuefnamálum og forvörnum, með samtölum, kynningar- og samráðsfundum og þátttöku í samstarfsverkefnum.

Strax á fyrsta starfsárinu voru nemendur í öllum 10. bekkjum grunnskóla á Reykjavíkursvæðinu heimsóttir í samstarfi við Krabbameinsfélag Reykjavíkur, auk hluta nemenda í 6. og 7. bekkjum þar sem fjallað var um skaðsemi tóbaks. Í upphafi skólaárs 1993-1994 var öllum grunnskólum landsins sent kynningarbréf um FRÆ og þá þjónustu sem miðstöðin bauð. Margir skólar brugðust við og þáðu fræðslu. Og það var ekki slegið slöku við. Starfsmenn FRÆ heimsóttu 49 grunnskóla þetta skólaár og töluðu við 22,4% grunnskólanema í 6. – 10. bekkjum á Íslandi á sínu fyrsta starfsári (16% árið á eftir; 20,5% þar á eftir). Ef aðeins er horft til Reykjavíkur náði fræðslan til rúmlega 33% nemenda í þessum árgöngum og ef miðað er við heildarfjölda grunnskólanema í landinu þetta ár náði fræðsla FRÆ til 11,5% þeirra (8,3% árið á eftir; 10,3% þar á eftir). Auk þess að ræða við nemendur var einnig fundað með kennurum og öðru starfsfólki skólanna og víða haldnir foreldrafundir í tengslum við heimsóknir í skólana. Nokkrir framhaldsskólar voru einnig heimsóttir fyrsta starfsárið. Kennarar komu einnig til námskeiðahalds og funda í miðstöðina sjálfa. T.d. komu allir grunnskólakennarar sem þá kenndu námsefnið Að ná tökum á tilverunni til fræðslufunda á Grensásveginn dagana 1. og 7. október 1994.

Auk foreldrafræðslu sem tengdist skólum bauð FRÆ upp á sérstök námskeið fyrsta starfsárið, sem kölluðust Agi og uppeldi. Leiðbeinendur voru sálfræðingarnir Sæmundur Hafsteinsson og Jóhann Ingi Gunnarsson. Námskeiðin, sem urðu þrjú fyrsta starfsárið, snérust um foreldrahlutverkið og var ætlað að kenna foreldrum barna á öllum aldri að tileinka sér ákveðni í samskiptum við börn sín. Setja þeim mörk og reglur með jákvæðum aga. Haldið var áfram með námskeiðin árið eftir.

FRÆ bauð ekki aðeins upp á starfsmenn sína tvo sem fyrirlesara á borgarafundum, fræðslufundum í klúbbum og félagasamtökum, fræðslufundum í skólum og foreldrafélögum í skólum. Árið 1994 voru t.d. tólf aðrir fyrirlesarar á skrá miðstöðvarinnar til þess að sinna óskum um fræðslu.

Eins og þessi dæmi sýna var fyrstu starfsárin mikil áhersla lögð á skólaheimsóknir, fræðslufundi, fyrirlestra á ráðstefnum og námskeið fyrir foreldra, en síðustu ár hefur þessi þáttur í starfinu að mestu lagst af og önnur verkefni tekið yfir.

Mikil áhersla á samvinnu

Eins og ráð var fyrir gert, og var meðal forsenda fyrir stofnun FRÆ, var strax frá byrjun lögð mikil áhersla á samstarf við aðra aðila sem sinna uppeldis- og menntamálum, félagsmálum, félagsstarfi og aðra sem með einum eða öðrum hætti sinna lýðheilsumálum og forvörnum. Auk samstarfs við formlega eigendur sína, Íslenska ungtemplara og Vímulausa æsku, átti FRÆ þegar í upphafi gott samstarf við Bindindisfélag ökumanna, Krabbameinsfélag Reykjavíkur og Krabbameinsfélag Íslands. Einnig voru góð tengsl við menntamálaráðuneytið, Forvarnadeild lögreglunnar í Reykjavík og Fíkniefnadeild lögreglunnar. Af öðrum vel tengdum aðilum frá fyrstu árum má nefna meðferðarheimilið á Tindum (sem starfar ekki lengur) og Rannsóknarstofnun uppeldis- og kennslumála varðandi rannsóknir og niðurstöður þeirra (RUM starfar ekki lengur).

FRÆ vill eiga frumkvæði að sem víðtækustu samstarfi í forvörnum og hefur boðið fjölda gesta í heimsókn í miðstöðina í því skyni, bæði á Grensásveginn og Brautarholtið, s.s. stjórnmálamönnum, starfsmönnum ráðuneyta og stofnana og fulltrúum félagasamtaka. Markmið þessara heimsókna hefur verið að kynna starfsemi FRÆ, ræða forvarnamál frá ýmsum hliðum og kanna möguleika á samstarfi og tengslum.

Vímuefnavandinn er alþjóðlegt viðfangsefni.

Samstarfsáhugi FRÆ hefur ekki einskorðast við innlenda aðila. Árið 1995 sá FRÆ um alþjóðlega ráðstefnu kennara í vímuvörnum. Til ráðstefnunnar var boðað af Samtökum skólamanna um bindindisfræðslu fyrir hönd alþjóðasamtaka skólamanna um forvarnir (IVES) sem samdi við FRÆ um framkvæmd hennar. Dagskrá ráðstefnunnar, sem haldin var á Laugarvatni vikuna 16. – 22. júlí, var mjög fjölbreytt og sambland af fræðandi efni og skemmtun þar sem margir ráðstefnugestir höfðu með sér maka og börn. Fyrirlesarar voru allir íslenskir. Þátttakendur voru 90 frá tíu þjóðlöndum.

Snemma árs 1995 gerðist FRÆ aðili að samstarfsvettvangi opinberra stofnana og stjórnvalda á Norðurlöndum um vímuvarnir og skipulagði m.a. fund þessara aðila sem haldinn var í Reykjavík dagana 28. – 30. september 1995. Samstarfi á þessum vettvangi var hætt í árslok 1998.

Árið 2000 stofnuðu nokkur félagasamtök á Norðurlöndum samstarfsvettvanginn NordAN (Nordic Alcohol and Drug Policy Network) sem nú hefur um níutíu norræn félagasamtök og samtök í Eystrasaltsríkjunum þremur innan sinna vébanda. Þetta eru samtök sem starfa á ýmsum sviðum forvarna og beita sér fyrir áfengis- og vímuvarnastefnu sem hefur að markmiði að draga úr neyslu áfengis og annarra fíkniefna. Stjórn NordAN skipa fulltrúar allra Norðurlandana auk Færeyja og Eystrasaltsríkjanna.FRÆ gerðist formlegur aðili að NordAN vorið 2001 og hefur framkvæmdastjóri FRÆ setið þar í stjórn frá þeim tíma.

FRÆ og Samstarfsráð um forvarnir sáu um framkvæmd árlegrar ráðstefnu NordAN sem haldin var í Reykjavík dagana 12. – 14. október 2005. Ráðstefnan tókst í alla staði vel og er ein hin fjölmennasta sem NordAN hefur staðið að, en þátttakendur voru 132, 52 íslenskir og 80 erlendir.

Í tengslum við samstarfið við NordAN tók FRÆ þátt í sérstöku samstarfsverkefni NordAN, Noregs og Íslands við félagasamtök í Sankti Pétursborg í Rússlandi árið 2011. Markmið þess samstarfs var miðlun reynslu og gagnkvæm kynning á aðstæðum og forvarnastarfi Íslands, Noregs og Sankti Pétursborgar.

Dagana 21. og 22. mars 2011 komu til Íslands fjórir gestir í kynnisferð frá Sankti Pétursborg í Rússlandi í kynnisferð í þeim tilgangi að kynna sér hvernig Íslendingar byggja upp og sinna forvörnum almennt, en áhersla var á forvarnir meðal ungs fólks. FRÆ undirbjó komu hópsins hingað til lands, hafði samband við ýmsa aðila sem vinna að forvörnum og undirbjó heimsóknir til þeirra. Framkvæmdastjóri FRÆ tók saman fyrirlestur um samstarf félagasamtaka að forvörnum hér á landi og kynnti almennt fyrirkomulag forvarna á Íslandi. Framkvæmdastjóranum var svo boðið að sitja ráðstefnu í Saint Petersburg dagana 20. – 23. september 2011 og flutti þar fyrirlestur ásamt því að kynnast starfi ýmissa samtaka sem vinna þar að forvörnum.

Í tengslum við samstarfið við NordAN bauð velferðarráðuneytið Árna Einarssyni framkvæmdastjóra FRÆ að sitja ráðstefnu um vímuefni og áhrif hennar á heilsufar í Brussel dagana 16. – 18. maí 2011. Þátttakan var að fullu greidd af Evrópusambandinu en ráðstefnan var ætluð fólki sem tengist þessum málaflokki gegnum starf í frjálsum félagasamtökum eða forvarnar- og meðferðarverkefnum. Evrópuverkefnið People to People stóð að verkefninu.

Útgáfa og upplýsingastarf

Útgáfa hefur verið umfangsmikill þáttur í starfi FRÆ og kennir þar ýmissa grasa. Markmiðið með henni er þó eitt og hið sama; að koma upplýsingum á framfæri í fjölbreyttu formi.

…fréttabréf og vefsíða

Í febrúar 1994 kom út fyrsta tölublað af Fræinu, fréttabréfi miðstöðvarinnar. Nokkur slík komu út á næstu árum. Með opnun fjölþættrar vefsíðu um forvarnir og fíkniefnamál í ársbyrjun 1997 var þeirri útgáfu hætt. Á vefsíða FRÆ, www.forvarnir.is er aðgangur að viðamiklu gagna- og þekkingarsafni ásamt aðgengi að fréttatengdu efni og opinni umræðu um ávana- og fíkniefnamál. Ný og endurbætt vefsíða var svo opnuð 10. desember 2003 og í byrjun árs 2011 var tekið í notkun nýtt heimasíðuforrit og vistun gagna flutti um set. Vefsiðan og þróun hennar hefur aðallega verið í höndum Guðna Ragnars Björnssonar.

…Áhrif, tímarit um vímuefnamál og forvarnir

Útgáfa tímaritsins Áhrifa hófst árið 1994 og kom blaðið þá út í níu þúsund eintökum. Áhrif er vettvangur umfjöllunar um áfengis- og fíkniefnamál í víðu samhengi og ætlað að hvetja til umræðu um þau mál. Áhrif hafa unnið sér sess meðal þeirra sem vinna að áfengis- og vímuefnamálum og er víða notuð við fræðslu í grunn- og framhaldsskólum. Fjallað er um fjölþætt efni, s.s. rannsóknir, stefnumörkun, forvarnaverkefni og fréttir af forvarnamálum almennt.

Blaðið hefur komið út 1-2 sinnum á ári að fimm árum undanskildum. Tímaritinu er dreift til félagsfólks FRÆ, félagasamtaka og sent öllum sveitarstjórnum, alþingismönnum, grunn- og framhaldsskólum, lögregluembættum og ýmsum stofnunum og öllum bókasöfnum landsins. Blaðið er nú aðgengilegt á vefsíðu FRÆ og prentuðum eintökum fækkað fyrir vikið. Um tveggja ára skeið var því einnig dreift endurgjaldslaust á þjónustustöðvum Skeljungs á SV-horni landsins.

…Fíkniefni og forvarnir – handbók fyrir heimili og skóla

Árið 2001 gaf Fræðsla og forvarnir út bókina Fíkniefni og forvarnir – handbók fyrir heimili og skól í 8000 eintökum. Fíkniefni og forvarnir – handbók fyrir heimili og skóla er lang stærsta útgáfuverkefni FRÆ og eina rit sinnar tegundar á íslensku og einkum ætlað skólum og fræðslustofnunum, foreldrum og gagnasöfnum (bókasöfnum) af ýmsu tagi. Bókin er 320 síður, myndskreytt í stóru broti. Myndir eru eftir Önnu Gunnlaugsdóttur, myndlistarkonu. Þrjátíu íslenskir sérfræðingar í ávana- og fíkniefnamálum skrifuðu efni bókarinnar og heimildaskráin telur yfir þrjú hundruð heimildir.

Oddfellowreglan á Íslandi veitti útgáfunni 2 milljóna króna styrk í tilefni af 100 ára stofnafmæli reglunnar árið 1997 og forvarnasjóður styrkti útgáfuna árið 2000. Að öðru leyti var útgáfa ritsins fjármögnuð með styrkjum frá fyrirtækjum, félagasamtökum, stofnunum, sveitarfélögum og einstaklingum um allt land auk þess að vera seld í bókaverslunum.

Fíkniefni og forvarnir handbók fyrir heimili og skóla

var sett í sölu í bókaverslanir auk þess að vera fáanleg hjá FRÆ. Bókinni var einnig dreift til barna í viðkomandi fermingarárgöngum áranna 2002 og 2003 í mörgum sveitarfélögum í landinum, m.a. Reykjavík og Garðabæ með stuðningi sveitar- og bæjarstjórna og ýmissa samtaka, stofnana og fyrirtækja í viðkomandi sveitarfélögum. Bókin var einnig send öllum grunnskólum landsins þeim að kostnaðarlausu og fjölmargar stofnanir og félagasamtök keyptu bókina til ýmissa nota innan sinnan vébanda.

Auk þess að vera almennt upplýsingarit og mikilvægt hjálpartæki foreldrum og þeim fjölmörgu sem vinna að forvörnum hefur bókin verið notuð sem kennsluefni nokkrum deildum Háskóla Íslands og ýmsum framhaldsskólum. Þar var kafli um áhrif ávana- og fíkniefna á miðtaugakerfið eftir Þorkel Jóhannesson vinsælastur og var því sérprentaður til hægðarauka fyrir þessa aðila.

…FRÆ – viku- og forvarnarit

Á vormánuðum 2007 hóf FRÆ útgáfu á FRÆ – viku- og forvarnariti. Ritið kom að jafnaði út vikulega og var dreift ókeypis á 75 þúsund heimili á höfuðborgarsvæðinu. Efni blaðsins var sambland af skemmtiefni, sjónvarpsdagskrá, auglýsingum og forvarnatengdu efni. Frá 1. júní til 31. desember 2007 voru gefin út 27 tölublöð af FRÆ-vikuritinu (rúmlega 2 milljónir eintaka). Árið 2008 voru gefin út 10 tölublöð en útgáfunni var hætt í maí 2008. Ritstjórn og umsjón með útgáfunni voru á ábyrgð starfsmanna FRÆ.

Mörg samtök og félög sem vinna með málefni barna og ungmenna á Íslandi fengu fríbirtingar á greinar og augýsingar í þessum tölublöðum FRÆ ritsins en megin markmið útgáfunnar var að koma forvarnatengdri umfjöllun inná heimili landsmanna. Auk þess var stefnt að því með þessari útgáfu og útfæra frekari aðferðir FRÆ til fjáröflunar en hagnað af rekstri FRÆrits var ætlað að standa undir öðru forvarnastarfi miðstöðvarinnar.

Með þessu verkefni var brotið blað í sögu FRÆ en rekstur FRÆ-ritsins byggðist alfarið á sölu auglýsinga en önnur verkefnavinna í FRÆ hefur byggst á samstarfssamningum og styrkjum frá fjölmörgum stofnunum ríkis og sveitarfélaga auk styrkja frá fyrirtækjum.

Á árinu 2007 var lagt í stofnkostnað vegna útgáfu blaðsins. Útgáfan skilaði ekki því sem reiknað var með, auglýsingatekjur voru ekki nægar til þess að fá til baka stofnkostnað og standa undir kostnaði. Meginástæða fyrir þessu var sú að vinnubrögðum við auglýsingasöfnun var áfátt. Við það bættist efnahagshrunið í lok ársins 2008 sem gerði innheimtu útistandandi auglýsinga þunga. Innheimta auglýsinga þyngdist strax upp úr áramótum 2007-2008 og skilaði engu síðustu mánuði ársins. Útgáfan reyndist FRÆ því erfiður baggi þegar upp var staðið.

…fræðslumyndband um forvarnir – hvað getum við gert?

Árið 1997 gaf FRÆ út 25 mínútna fræðslumyndband um forvarnir. Fræðsluþættinum fylgdi bæklingur með upplýsingum um ýmsa aðila sem unnu að forvörnum. Þátturinn, sem unninn var í samstarfi ið dr. Sigrúnu Stefánsdóttur fjölmiðlafræðing, var svo sýndur í Sjónvarpinu 19. október 1997 en var einnig seldur til stofnana, fyrirtækja og samtaka.

…skýrsla um þróun fíkniefnamála

Skýrsla um þróun fíkniefnamála á tímabilinu 1986 – 1989 kom út í október 1998. Aldís Yngvadóttir var ráðin í hlutastarf frá 1. september 1997 til ársloka 1998 til þessa verks. Skýrslunni var dreift ókeypis til ráðuneyta og ríkisstofnana sem koma með einhverjum hætti að forvarnatengdum viðfangsefnum, svo og alþingismanna. Að öðru leyti var hún seld. Fyrirhugað var að gefa skýrsluna út á tveggja ára fresti og nota hluta af henni til þess að taka afmarkaða þætti forvarnamála fyrir hverju sinni og byggja þannig upp sögulegan þekkingargrunn í forvörnum.

Markmiðið með útgáfunni var að bæta úr brýnni þörf á upplýsingum og til þess að auðvelda þeim sem unnu að þeim málum heildarsýn í ávana- og vímuefnamálum á hverjum tíma.

Þegar Áfengis- og vímuefnaráð hóf að gefa út í skýrsluformi tölulegar upplýsingar um ávana- og vímuefnamál var ákveðið að hverfa frá þessari útgáfu. Áfengis- og vímuvarnaráð gaf einungis út skýrslur sínar um skamma hríð og engar samantektir í þessa veru hafa verið gefnar út um árabil.

…gagnasafn

Eitt af verkefnum upphafsáranna var að koma á laggirnar gagnasafni með því að draga saman eftir föngum innlend og erlend gögn, heimildir og upplýsingar um forvarnir og ávana- og vímuefnamál. Í því skyni að gera þessi gögn sem aðgengilegust voru þau efnisflokkuð árið 1995 og gerð aðgengileg til notkunar. Vinnuaðstaða hefur ávallt verið til reiðu í húsakynnum FRÆ til þess að vinna úr gögnunum. Um skeið var efni lánað út en því hætt vegna slakra endurheimta.

Árið 2000 lagði Lýðheilsustöð til vinnu við skráningu valinna gagna í bókasafnsforritið Feng sem er aðgengilegt víða um land, á flestum almenningsbókasöfnum og grunnskólasöfnum og um internetið. Bókasafnsfræðingur tók að sér sem BA- verkefni að efnistaka safnkost Áfengis- og vímuvarnaráðs og fékk FRÆ að fljóta með í verkinu.

Þeir sem einkum hafa nýtt sér gagnasafn FRÆ eru nemendur á öllum skólastigum og ýmsir sem unnið hafa að fyrirlestrum um ávana- og vímuefnamál og forvarnir. Síðustu ár hafa heimsóknir gesta til þess að nýta sér gögn í safninu nánast lagst af. Með auðveldu aðgengi að miklu magni gagna og upplýsinga á netinu hefur prentaður texti á pappír látið undan síga og þörfin fyrir gagnasafnið minnkað.

Samstarfsverkefni

Stöðvum unglingadrykkju – víðtækt samstarfsverkefni

FRÆ og Vímulaus æska hrundu af stað landsátaki vorið 1994 undir heitinu Stöðvum unglingadrykkju. Átakinu var upphaflega ætlað að standa yfir í eitt ár. Rúmlega 80 samtök, stofnanir og sveitarfélög stóðu að stofnun átaksins 11. maí 1994. Síðar bættust fleiri samstarfsaðilar í hópinn og urðu á endanum vel á annað hundrað. Átakinu var kjörin fimmtán manna stjórn á stofnfundinum en fimm manna framkvæmdastjórn fór með hið daglega starf. Valdimar Jóhannsson var ráðinn framkvæmdastjóri átaksins.

Markmið átaksins var að snúa við þeirri óheillaþróun sem ríkt hafði í áfengismálum barna og unglinga á Íslandi. Rannsóknir og kannanir bentu til stöðugrar fjölgunar ungra áfengisneytenda og aukinnar neyslu. Fyrsta verkefni átaksins var að stemma stigu við mikilli áfengisneyslu ungmenna á útihátíðum um verslunarmannahelgar. Haft var samband við sýslumenn og lögreglustjórna í umdæmum þar sem fyrirhugaðar voru skipulagðar útisamkomur um verslunarmannahelgi. Bent var á almennar reglur um hátíðahald af þessu tagi og skorað á viðkomandi yfirvöld að fylgja þeim eftir. Staðið var fyrir fjölmiðlaumræðu um drykkju unglinga á útihátíðum, gefnir út límmiðar og unnið með nokkrum skipuleggjendum útihátíða með það að markmiði að draga úr unglingadrykkju. Gefið var út blað í dagblaðsbroti sem dreift var til allra heimila í landinu og gefin út handbók fyrir foreldra sem send var foreldrum allra 12-14 ára barna í landinu þeim að kostnaðarlausu. Átakinu lauk formlega fyrri hluta árs 1996, tveimur árum frá því að það hófst.

Hvort sem það var fyrir tilverknað átaksins eða annarra þátta var það mat Lögreglunnar í Reykjavík ári eftir að verkefnið hófst að verulega hefði dregið úr landadrykkju ungmenna og yfirbragð þeirra tveggja útihátíða sem haldnar höfðu verið á tímabilinu hefði lagast, ekki síst vegna þess að eftirlitslausum ungmennum hefði fækkað.

Lífsýn – forvarnir og fræðsla

Lífsýn forvarnir og fræðsla er nafn á verkefni sem hófst árið 2006 undir nafninu Líf án áfengis. Liðir í verkefninu eru m.a. tónlistarsmiðja fyrir unglinga á aldrinum 10-17 ára, neyðarlína, fræðslufundir og heimasíða þar sem m.a. er fjallað um áhrif og skaðsemi áfengis og fíkniefna.

Tveimur árum seinna opnaði Lífsýn fræðslumiðstöð og býður þar upp á sjálfstyrkingarnámskeið fyrir ungmenni sem hafa orðið fyrir áfalli af einhverju tagi. Auk þess er boðið uppá hópavinnu, verkefni, samtöl, tómstundir og slökun fyrir börn og unglinga sem og fullorðna. Umfangsmesti þáttur starfsins sem snýr að börnum og unglingum á aldrinum 10-16 ára eru námskeið sem kallast TST (tómstundir, sjálfstyrking og tónlist). Á þessum námskeiðum fá ungmennin að þróa áhugasvið sín og vinna í sinni sjálfsmynd útfrá því.

Framkvæmdastjóri FRÆ hefur frá árinu 2011 komið að starfi Lífsýnar, forvarnir og fræðsla sem verklegur handleiðari í starfstengdri ráðgjöf.

Þróunarverkefni í leikskólum í Reykjavík

Vorið 2001 hóf FRÆ í samstarfi við Stefán Jóhannsson ráðgjafa samstarf við nokkra leikskóla í Reykjavík um þróun forvarnaverkefnis í leikskólum. Meginmarkmið verkefnisins var að að leggja drög að forvarnaáætlun í leikskólum og leita leiða til þess að mæta sértækum vanda barna vegna aðstæðna sinna, hegðunar eða lyndiseinkenna. Verkefnið byggði á því viðhorfi að mikilvægt sé að hefja forvarnir eins snemma og hægt er.

Forvarnaskólinn

FRÆ stóð upphaflega að stofnun Forvarnaskólans í samstarfi við Ráðgjafarskóla Íslands, en fyrsta námsönn hófst í janúar 2007 og fyrstu nemendur voru útskrifaðir vorið 2007. Árni Einarsson framkvæmdastjóri FRÆ hefur frá upphafi verið skólastjóri Forvarnaskólans og aðalkennari.

Forvarnaskólinn er nú alfarið rekinn undir merkjum FRÆ. Skólinn býður upp á nám fyrir þá sem vinna að forvörnum. Markmið Forvarnaskólans er að auka þekkingu þeirra sem starfa að forvörnum með því að bjóða upp á skipulagða og skilgreinda fræðslu fyrir þá sem starfað að eða hyggjast starfa við forvarnir, s.s. í sveitarfélögum, fyrirtækjum, skólum, félagasamtökum, æskulýðs- og íþróttastarfi, löggæslu, sálgæslu, félagsþjónustu og kirkjulegu starfi. Með náminu gefst kostur á að öðlast yfirsýn um forvarnir á stuttum tíma.

Samstarfsráð um forvarnir (SAMFO)

FRÆ hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á að virkja félagasamtök, grasrótina, í forvörnum. Um það vitna ýmis verkefni, s.s. Stöðvum unglingadrykkju og stofnun Samstarfsráðs um forvarnir. Líka tekið þátt í norrænu samstarfi félagasamtaka eftir mætti. Sú sýn nýtur nú almennrar viðurkenningar og mikilvægi þátttöku félagasamtaka í heilsueflingu og forvörnum viðurkennt.

FRÆ stóð fyrir því að starfandi bindindissamtök á Íslandi stofnuðu Samstarfsráð um forvarnir árið 2003. Sambærilegan vettvang er að finna á öllum hinum Norðurlöndunum. Samið var við FRÆ um umsjón með verkefnum á vegum Samstarfsráðsins, umsjón með bókhaldi og fjárreiðum, undirbúningi verkefna og úrvinnslu ákvarðana stjórnarfunda

Árið 2004 gerði Samstarfsráðið samning við þrjú ráðuneyti um verkefni á sviði vímuvarna. Samningurinn var til þriggja ára og var svo framlengdur til eins árs árin 2007- 2010. Árið 2011 var samningurinn enn á ný framlengdur til eins árs, en þá einungis við velferðarráðuneytið.

Eitt af verkefnunum í samningi velferðarráðuneytisins og Samfo var að standa fyrir málþingi haustið 2011 meðal félagasamtaka í landinu sem vinna að áfengis- og vímuvörnum. Efni málþingsins skyldi vera framtíðarskiplag forvarnastarfs og samhæfing á því afli sem býr í félagasamtökum á vettvangi forvarnastarfs í landinu.

Til þess málþings var boðað 11. nóvember 2011. Í lok þess var skipaður þriggja manna starfshópur til þess að vinna úr niðurstöðum umræðna og hópastarfs á þinginu og setja fram hugmyndir og drög að samstarfsvettvangi félagasamtaka í forvörnum.

Starfshópurinn lauk verki sínu 15. desember og sendi félagasamtökunum drög að nýrri samþykkt og reglum fyrir Samstarfsráð um forvarnir. 9. febrúar 2012 samþykktu svo rúmlega tuttugu félagsamtök aðild að nýju og breyttu Samstarfsráði um forvarnir.

Mörg verkefni hafa orðið til fyrir tilverknað Samstarfsráðsins og hefur áhersla m.a. verið lögð á að afla forvörnum fylgi, bæði meðal annarra félagasamtaka og stjórnmálamanna. Einnig á verkefni sem hafa að markmiði að vekja athygli almennings á ýmsum áhrifum áfengis- og vímuefnaneyslu á einstaklinga, fjölskyldur og samfélag. Meðal verkefna eru Vímuvarnavikan sem haldin hefur verið árlega í 43. viku ársins frá árinu 2004; verkefnið Ég ætla að bíða og fræðsluverkefnið Bara gras? um skaðsemi kannabis sem hófst 2009.

Náum áttum

Náum áttum er fræðslu- og forvarnahópur samtaka, stofnana og áhugafólks um forvarna- og uppeldismál sem skipuleggur mánaðarlega morgunverðarfundi um ýmis mál er varða forvarnir og velferð barna og ungmenna. FRÆ kom inn í samstarfið árið 2005. Hugmyndin að stofnun hópsins varð til innan verkefnisins Ísland án eiturlyfja 2002 og fyrstu fundirnir voru haldnir árið 2000 en þá var mikil umræða um eiturlyf og forvarnir. FRÆ hefur frá upphafi átt aðild að Náum áttum og tekið virkan þátt í starfi hans. Fundir Náum áttum skipta nú orðið tugum, fyrirlestrar hátt í þrjúhundruð og þátttakendur verið að meðaltali 70 – 80, eða vel á sjötta þúsund frá stofnun hópsins.

SAMAN hópurinn

SAMAN er samstarfsverkefni fjölmargra stofnana og samtaka sem vinna að velferð barna og unglinga. Hlutverk hópsins er að hvetja fjölskylduna til að vera saman á tímamótum með það að markmiði að draga úr vímuefnaneyslu barna og unglinga.

BRAUTIN – bindindisfélag ökumanna

Brautin, bindindisfélag ökumanna er félag sem hefur það að markmiði að draga úr neyslu áfengis og auka umferðaröryggi. FRÆ hefur tekið að sér ýmis fræðslu- og upplýsingaverkefni fyrir félagið. Brautin á einnig aðild að útgáfu Áhrifa og hefur tekið þátt í ýmsum verkefnum FRÆ, s.s. upplýsingaátaki um jól og áramót.

IOGT á Íslandi

FRÆ hefur starfað með IOGT á Íslandi með ýmsum hætti. Sem dæmi um afmörkuð verkefni má nefna að FRÆ og IOGT gerðu með sér samkomulag um útgáfu eins tölublaðs af unglingablaðinu Smelli árið 2006. Smelli var dreift ókeypis til allra unglinga á aldrinum 13-15 ára í gegnum grunnskóla. Heildarupplag blaðsins var 12.500 eintök. Fjárhagslega var gert ráð fyrir að blaðið stæði undir sér með auglýsingatekjum. IOGT heimilaði FRÆ að nota nafn blaðsins til að fjármagna útgáfuna. FRÆ annaðist því útgáfu blaðsins í umboði IOGT sem var útgefandi blaðsins. Halldóra Sigurðardóttir var ráðin tímabundið til þess að ritstýra Smelli. Aðeins komu út tvö tölublöð þar sem kostun blaðanna gekk treglega í mikilli samkeppni á auglýsingamarkaði.

Hliðstæður samningur var gerður um útgáfu hins sögufræga barnablaðs Æskuna, en útgáfa þess hafði legið niðri um skeið, og fyrirhugað að dreifa því ókeypis til þriggja árganga í efstu bekkjum grunnskóla. Ekki tókst að finna rekstrargrundvöll fyrir útgáfunni og kom því einungis út eitt tölublað.

Af öðrum verkefnum má nefna að haustið 2007 vann FRÆ að sérstöku upplýsinga- og hvatningaverkefni fyrir IOGT undir kjörorðinu „gömlu gildin“ þar sem vakin var athygli á skoðunum IOGT um stefnumörkun í áfengismálum. Gerðar voru heilsíðuauglýsingar, birtar greinar um áhrif þess að leyfa sölu áfengra drykkja í matvöruverslunum og heimasíða IOGT www.iogt.is uppfærð að þessu sama verkefni.

Haustið 2009 var blásið nýju lífi í 3. október sem alþjóðlegan dag bindindissamtaka og gerði IOGT daginn að upphafsdegi vetrarstarfs síns og blásið var til hátíðar í Vinabæ af því tilefni. Árið 2010 stóð IOGT fyrir verkefni meðal skólaforeldra og tók FRÆ þátt í þróunarvinnu og aðlögun fræðslu- og kynningarefnis. Auglýsingaverkefni IOGT „Ökum edrú“ vakti töluverða athygli sumarið 2010 en FRÆ kom að hönnun þess og kynningu.

Krabbameinsfélag Reykjavíkur

Starfsmenn KR og FRÆ hittast reglulega, m.a. á formlegum samstarfsfundum tvisvar á ári, kynna verkefni sín og ræða stöðu og þróun í tóbaks-, áfengis- og vímuvörnum. Fyrstu árin var samtarfið sérstaklega náið vegna samtarfsins í tóbaksvörnum sem sagt er frá hér á undan.

Vímulaus æska

Mikil samskipti hafa verið við VÆ í gegnum tíðina, einkum fyrstu árin. Samstarfið hélt áfram þrátt fyrir að VÆ hyrfi frá starfrækslu miðstöðvarinnar og stofnaði Foreldrahús.

Lýðheilsustöð og embætti landlæknis

Lýðheilsustöð tók til starfa 1. júlí 2003. Henni var ætlað að efla og samræma lýðheilsustarf í landinu, efla kennslu og rannsókir á sviði lýðheilsu, vinna að lýðheilsuverkefnum á eigin vegum og í samvinnu við aðra sem og að byggja upp þekkingarsetur allra landsmanna, fagfólks jafnt sem almennings, á þessu sviði. Einnig vera stjórnvöldum til ráðgjafar um stefnumótun á sviði lýðheilsu, taka þátt í alþjóðlegu samstarfi og vera í tengslum við aðra sem starfa á sviði lýðheilsu. Lýðheilsustöð var lögð niður 1. maí 2011 og verkefni hennar færð til Embætti landlæknis,

FRÆ tengdist Lýðheilsustöð með ýmsum hætti og átti við hana samstarf um ýmis verkefni. Þau tengsl fluttust svo að nokkru marki yfir á Embætti landlæknis. Meðal formlegra samstarfsverkefna var gerð og kynning á námsefni um ávana- og vímuefni fyrir grunnskóla árið 2008 og uppfærsla þess árið 2012.

Verkefnisstjóri áfengis- og vímuvarna hjá Lýðheilsustöð/Landlæknisembættinu og starfsfólk FRÆ hefur um árabil fundað reglulega til þess að ræða stöðu og þróun ávana- og vímuefnamála og skiptast á skoðunum um forvarnir.

Íþrótta- og æskulýðsstarf

FRÆ hefur átt í ýmiss konar samstarfi við íþróttahreyfinguna, s.s. með ráðgjöf og þátttöku í gerð fræðsluefnis, m.a. um áhrif áfengis á árangur í íþróttum og íþróttaiðkun. Samstarf hefur einnig verið við félagsmiðstöðvar. Skólaárið 1995-1996 áttu FRÆ og félagsmiðstöðvar í Reykjavík t.d. samstarf um fræðslu og þjálfun ungmenna. Í félagsmiðstöðinn í Bústöðum var m.a. haldin ráðstefna fyrir ungmenna. Um 30 þátttakendur úr í 8., 9., og 10. bekkjum grunnskóla komu saman í einn dag til þess að fræðast um fíkniefnamál og gerast leiðbeinendur í jafningjafræðslu grunnskólanema.

Sitt lítið af hverju…

…verslunarmannahelgar, jól og áramót

Ýmsir viðburðir í samfélaginu eru öðrum líklegir til neyslu áfengis og auka þar með líkur á ýmsum áföllum. Slíkir viðburðir eru t.d. verslunarmannahelgar með útihátíðum og mikilli umferð og aðventa og jól. FRÆ hóf strax árið 1996 að beina kastljósi að þessum viðburðum sérstaklega. FRÆ, Vímulaus æska og Íslenskir ungtemplarar stóðu saman að átaki fyrir verslunarmannahelgina 1996 undir heitinu Fimm ráð til foreldra gegn fíkniefnum – líf barnsins er í húfi. Átakið fólst í því að birtar voru auglýsignar í blöðum þar sem foreldrum var bent á að margir unglingar byrja að neyta vímuefna í skjóli útihátíða. Einnig var dagblöðum send fréttatilkynning sama efnis. Verkefnið var endurtekið um verslunarmannahelgi 1998 en frá þeim tíma hefur FRÆ staðið að forvarnaverkefnum um verslunarmannahelgar, ýmis eitt eða í samstarfi við aðra.

…óáfengt

Á árinu 2004 hleypti Brautin – bindindisfélag ökumanna af stokkunum verkefni til þess að vekja athygli á óáfengum drykkjum í samstarfi við Samstarfsráð um forvarnir, FRÆ og Samtök ferðaþjónustunnar. Félagið fékk þá styrk úr Forvarnasjóði til þess að vinna verkefnið en að auki lögðu ýmsir aðilar verkefninu lið. Lögð var áhersla á að góður gestgjafi kappkosti að veita gestum sínum vel og að þeir njóti veitinganna sem fram eru bornar. Þeir sem ekki drekka áfengi vilji ljúffenga óáfenga drykki, fallega framborna. Í verkefninu var sjónum einkum beint að jólum og áramótum. Samstarfsráðið tók síðan verkefnið yfir, en síðust ár hefur FRÆ séð um það.

Árlega hafa fagmenn verið fengnir til þess að setja saman óáfengan hátíðardrykk sem hefur verið kynntur með ýmsum hætti, s.s. gefa uppskriftirnar út og senda til veitingahúsa og ýmissa annarra aðila auk dreifingar í stórmörkuðum. Einnig með kynningu í fjölmiðlum og auglýsingum.

Árið 2010 var sett upp heimasíðan www.oafengt.is þar sem birtar eru yfir 100 óáfengar uppskriftir auk annars ítarefnis um gildi þess að gera vel við þá sem velja óáfengar uppskriftir og þær gerðar aðgengilegar með því að flokka þær með ýmsum hætti eftir tækifærum sem við eiga, s.s. hvaða uppskriftir/óáfengir drykkir eiga við með mismunandi réttum.

…hlaupið fyrir forvarnir

Bryddað hefur verið upp á ýmsu til þess að vekja athygli á forvörnum og ávana- og vímuefnmálum á 20 ára starfstíma FRÆ. Laugardaginn 16. júlí 1994 stóðu FRÆ og Vímulaus æska fyrir fjölskylduhlaupi í Reykjavík undir nafninu FRÆ-hlaup. Hlaupið var liður í verkefninu Stöðvum unglingadrykkju sem hrint var af stað skömmu áður. Lögð var áherslu á þátttöku en ekki keppni. Hlaupnar voru tvær vegalengdir: 3 km og 6 km. Mörg fyrirtæki styrktu hlauðið sem um 250 manns tóku þátt í. Sama mánaðardag árið eftir var á ný efnt til FRÆ-hlaups. Þá tóku 115 þátt í hlaupinu. Þann 13. júlí árið 1996 var enn efnt til FRÆ-hlaups. Þá mættu 80 hlauparar á öllum aldri. Markmiðið með hlaupinu var sem fyrr að vekja athygli á vímvörnum og leggja áherslu á mikilvægi barna og foreldra. Umsjón með hlaupinu hafði Bryndís Svavarsdóttir.

…rokk gegn ruglinu

Þriðjudaginn 30. nóvember 1993 stóð FRÆ að tónleikum fyrir ungt fólk á aldrinum 16-18 ára á Hótel Ísland í samvinnu við ÍTR, Bylguna og DV undir yfirskriftinni Rokk gegn ruglinu. Samstarfið var þannig að FRÆ sá um undirbúning og framkvæmd, ÍTR lagði til heimakstur tónleikagesta með strætisvögnum og Bylgjan og DV lögðu til auglýsingar og kynningu á tónleikunum. Hljómsveitir voru ekki af verri endanum, Pís og keik, Jet Black Joe, SSSól og Pláhnetan. Aðsóknin var hins vegar minni en reiknað var með og varð verulegur halli á tiltækinu þegar upp var staðið.

…ráðgjöf og verkefnastjórnun

Frá upphafi hefur FRÆ boðið upp á forvarnaráðgjöf fyrir skóla og sveitarfélög, bæði við stefnumörkun og framkvæmd afmarkaðra verkefna. Mikið hefur verið leitað til FRÆ eftir upplýsingum, einkum fyrstu árin. Þegar frá leið bættist á verkefnalistann ráðgjöf og leiðsögn til háskólanema vegna verkefnavinnu og í nokkrum tilfellum handleiðsla vegna vinnslu lokaverkefna.

…fyrirlestrar og greinaskrif

Fyrirlestrahald, auk fyrirlestra í grunn- og framhaldsskólum, hefur alla tíð verið ríkur þáttur í starfi FRÆ og listinn þar langur. Fyrirlestrahald í Háskóla Íslands og fyrr á árum Kennaraháskóla Íslands hafa verið fastur liður svo og fyrirlestrar á fundum með foreldrum. Fyrirlestrar á ýmsum ráðstefnum, innlendum og erlendum, eru fjölmargir og tilefnin fjölbreytt. Sem dæmi um þessa fjölbreytni má nefna að framkvæmdastjóri FRÆ hélt fræðslufund fyrir alla unga starfsmenn Domino‘s á Íslandi á Hótel Íslandi 6. febrúar 1996 og dagana 12. – 20. júní sama ár fór hann í allar sjö virkjanir Landsvirkjunar og hélt námskeið fyrir alla starfsmenn á aldrinum 16-22 ára, 250 að tölu. Starfsfólk FRÆ hefur einnig um árabil komið með fræðslu inn í fermingarundirbúning og fastur liður í starfinu hefur verið greinaskrif í tímarit og dagblöð og þátttaka í umræðum í fjölmiðlum.

Vímuvarnir á villigötum? Afmælisráðstefna FRÆ 5. og 6. nóvember 1998.

FRÆ fagnaði fimm ára starfsafmæli með því að bjóða til ráðstefnu um forvarnamál. Markmið ráðstefnunnar, auk þess að minnast fimm ára starfsafmælis FRÆ, var að skapa umræðu um forvarnir; varpa ljósi á það sem ekki virtist hafa tekist í forvörnum og spyrja ögrandi og uppbyggjandi spurninga um forvarnir, s.s. þeirri hvort fúsk og ófagleg vinnubrögð viðgengjust í forvörnum. Einnig var spurt hvaða möguleika samfélagið hefði í vímuvörnum og hvort þeir möguleikar sem væru augljóslega fyrir hendi væru nýttir. Er einhver týndur hlekkur í keðjunni? var spurt. En ekki síst var sjónum beint að framtíðinni og fjallað um nýjustu strauma og stefnur í forvörnum, undangenginni þróun og hvaða leiðir líklegastar væru til árangurs.

Aðalfyrirlesarar á ráðstefnunni voru Gail Gleason Milgram og Thomas Griffin. Milgram var prófessor við Rutgers háskólann í New Jersey og veitti forstöðu hinni þekktu rannsóknar- og kennsludeild háskólans um áfengis- og fíkniefnaneyslu, forvarnir og meðferð og átti þá að baki um 30 ára starf við rannsóknir og kennslu um forvarnir. Griffin hafði starfað við skipulag og kennslu í 26 ár og var forstjóri Minnesota Institute of Public Health.

Í opnunarávarpi sínu á ráðstefnunni sagði Árni Einarsson framkvæmdastjóri FRÆ m.a.: ,,Í titli ráðstefnunnar felst enginn dómur yfir því sem gert er í forvörnum nú. Í honum felst fyrst og fremst áminning um nauðsyn gagnrýninnar umfjöllunar bæði út á við og inn á við. Með blindri sjálfhælni stöndum við í vegi fyrir nauðsynlegri þróun í vímuvörnum. Verðum uppteknari af umbúðunum en innihaldinu. Þess vegna verðum við að geta skoðað og rætt af hreinskilni um það sem við gerum hverju sinni. Á þann hátt stuðlum við að betri árangri. Á hverjum tíma verðum við að geta litið í eigin barm og spurt okkur hvort það sem við erum að gera í vímuvörnum skili árangri, hvort að við séum á réttri leið eða villigötum. Þessi ráðstefna er tilraun í þá veru og þótt annað væri ekki, að undirstrika nauðsyn slíkrar hugsunar í vímuvörnum.“

Á vaktinni í 20 ár

Þessi stutta samantekt úr starfsemi FRÆ sýnir að víða hefur verið komið við á fyrstu tuttugu árum í starfi miðstöðvarinnar og ekki að sjá að föst stöðugildi hafa aldrei náð því að vera tvö. Fjölbreytni í verkefnavali og leiðum hefur verið einkennandi fyrir starf miðstöðvarinnar. Sérstök áhersla hefur verið lögð á frumkvæði, nýbreytni og samstarf. Framkvæmdafé hefur oftar en ekki verið af skornum skammti en fyrir elju starfsmanna og góðan stuðningi fjölda velunnara hefur tekist að halda starfinu gangandi öll þessi ár og tryggja að FRÆ hefur verið einn af burðarásunum í þróun og framkvæmd forvarna á Íslandi síðustu tvo áratugi.

Sé litið til þróunar síðustu ára á Íslandi geta þeir sem vinna að forvörnum í sjálfu sér borið höfuðið hátt. Jafnt og þétt hefur dregið úr reykingum og áfengis- og vímuefnaneysla ungmenna hefur minnkað ár frá ári. Enn virðist ríkja almenn sátt um grundvallaratriði í áfengisvörnum, s.s. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og að ekki verði leyft að selja áfengi í almennum matvöruverslunum; 20 ára aldursmörk til áfengiskaupa og það meginviðmið að fresta upphafi áfengisneyslu sem lengst; mikill meirihluti styður auglýsingabann á áfengi þótt farið sé í kringum það vegna veikleika í áfengislögunum og mikill meirihluti þjóðarinnar er því alfarið andvígur að leyfa innflutning, sölu og dreifingu kannabisefna, svo nokkrir mikilvægir þættir séu nefndir. Almennur skilningur er ríkjandi á mikilvægi forvarna og samstarf félagasamtaka undir formerkjum Samstarfsráðs um forvarnir styrkir án efa forvarnir innan þeirra í sessi.

Markmiðin í forvörnum og forsendur, þörfin fyrir forvarnir, eru sígild.Við þurfum hins vegar stöðugt að velta því fyrir okkur hvort tækin, eða aðferðirnar, sem við notum standist tímans tönn og séu í takt við þær samfélagsbreytingar sem verða. Það er hið stöðuga viðfangsefni forvarnafólks og verður að vera svo hægt sé að nota bestu verkfærin á hverjum tíma. Við þá vinnu þarf hugrekki, hugrekki til þess að sleppa því sem maður hefur og þekkir og grípa í eitthvað sem maður veit ekki fyrir vist hvert leiðir mann. Það þarf hugrekki til þess að ganga á vit óvissunnar. Það hugrekki hefur FRÆ sýnt.

FRÆ í 20 ár – 1993-2013

Stiklað á stóru úr starfinu

Texti: Árni Einarsson

Fræðsla og forvarnir, FRÆ var stofnuð 5. nóvember 1993 undir nafninu Fræðslumiðstöð í fíknivörnum. Að stofnun miðstöðvarinnar stóð stórhuga fólk sem vildi hleypa nýju lífi og krafti í ávana- og vímuvarnastarf í landinu. Árin eftir stofnun FRÆ voru sérstaklega viðburðarrík frá sjónarhóli forvarna. Ný hugsun ruddi sér rúms og bryddað var upp á nýjum leiðum í forvörnum og fleiri voru kallaðir til. Forvarnir urðu samfélagslegt viðfangsefni sem kallaði á samstarf og heildarsýn. FRÆ naut góðs af þessu og festi sig í sessi en lagði einnig sitt að mörkun.

Stofnun og aðdragandi

Á árunum 1991 og 1992 hafði stöðu forvarna í landinu oft borið á góma í samtölum einstaklinga innan samtakanna Íslenskra ungtemplara (stofnuð 1958) og Vímulausrar æsku (stofnuð 1986), einkum skort á samvinnu og takmarkaða þróun í forvarnastarfi. M.a. var rætt að nauðsynlegt væri að stilla saman og samhæfa krafta samtaka, almennings og stofnana sem vinna að framkvæmd forvarna og nýta þannig betur fjármagn sem varið væri til málaflokksins. Horft var til þess að yfirleitt væru forvarnaverkefni afmörkuð og tímabundin og án tengsla við önnur hliðstæð verkefni. Einnig skorti stefnumörkun og leggja þyrfti aukna áherslu á árangursmat og þróunarstarf. Þessi samtöl leiddu til formlegrar ákvörðunar í ársbyrjun 1993 um að setja á stofn Fræðslumiðstöð sem hefði það einkum að markmiði að bæta úr þessum ágöllum.

Til þess að auka enn frekar hagkvæmni samstarfsins og skjóta sterkari stoðum undir stofnun og starfsemi miðstöðvarinnar seldu Íslenskir ungtemplarar húseign sína að Barónsstíg 20 í Reykjavík og keyptu húsnæði að Grensásvegi 16. Vímulaus æska flutti starfsemi sína úr Borgartúni 28 á Grensásveginn og leigði hluta af húsnæðinu þar fyrir starfsemi sína. Með þessu minnkaði að flatarmáli það húsnæði sem þessir tveir aðilar höfðu áður búið í en með því að flytja aðstöðuna saman fékkst í raun meira rými vegna margs konar samnýtingar, svo sem á ýmiss konar skrifstofu- og tækjabúnaði. Með sambýlinu opnaðist einnig möguleiki á að nýta enn betur hina fjölbreyttu reynslu og menntun starfsfólks þessara samtaka í þágu forvarna og veittu hinni nýju Fræðslumiðstöð mikilvægt bakland og stuðning. Á þessum grunni var svo Fræðslumiðstöð í fíknvörnum opnuð formlega 5. nóvember 1993 og sleit barnsskónum.

Framan af mynduðu fulltrúar stjórna Íslenskra ungtemplara og Vímulausrar æsku stjórn miðstöðvarinnar. Þegar VÆ hætti þátttöku í starfi FRÆ árið 1999 og stofnaði Foreldrahús varð stjórn Ungtemplara jafnframt stjórn miðstöðvarinnar næstu þrjú ár. Árið 2002 setti stjórn ÍUT miðstöðinni sérstaka stjórn.

Þetta fyrirkomulag hélst til ársins 2012 að Íslenskir ungtemplarar fólu Félagi áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu starfrækslu miðstöðvarinnar 8. febrúar 2012 samhliða ákvörðun um slit samtakanna og sérstakur samningur gerður þar um. Á fyrsta aðalfundi þess félags var ákveðið að stjórn þess færi einnig með stjórn miðstöðvarinnar.

Reksturinn var tryggður fyrst tvö starfsárin með því að ungtemplarar lögðu miðstöðinni til húsnæði og aðstöðu endurgjaldslaust og Vímulaus æska lagði til fjármagn, auk þess sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið styrkti starfsemina. Að öðru leyti var gert ráð fyrir að miðstöðin aflaði sjálf tekna með styrkjum og útseldri þjónustu (fyrirlestrum og námskeiðum) til þess að standa undir kostnaði við afmörkuð verkefni.

Það ríkti hátíðarstemming við opnun Fræðslumiðstöðvar í fíknivörnum þann 5. nóvember 1993. Forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, var heiðursgestur, en um 100 góðir gestir voru viðstaddir.

Fjölmiðlar létu hins vegar ekki sjá sig þrátt fyrir ítrekuð boð, enda uppteknir við annað mikilvægara sem var að taka á móti geimverum sem spáspakir sjáendur víðs vegar um heiminn töldu að væru væntanlegar í heimsókn. Gestirnir áttu að lenda á Snæfellsjökli nákvæmlega kl. 21.07 um kvöldið. Á staðinn voru mættir á sjötta hundrað áhugamanna um geimverur og fljúgandi furðuhluti auk fjölda fjölmiðlafólks. Þegar á hólminn var komið létu engar geimverur sjá sig og hefur ekkert til þeirra spurst en Fræðslumiðstöð í fíknivörnum hóf sig til flugs þennan dag og hóf þegar að marka spor í forvörnum á Íslandi og er enn að.

Leiðarljósin

Forvarnir, hagkvæmar fyrir samfélagið

Aðstandendur FRÆ höfðu þegar í upphafi skýra sýn á hlutverk miðstöðvarinnar. Í kynningarbæklingi upphafsáranna segir m.a.: ,,Miklum fjármunum er varið til meðferðar og endurhæfingar fólks sem ánetjast áfengi og öðrum fíkniefnum en það virðist þó ekki nægja til að mæta eftirspurn. Því er ljóst að efla verður stórlega aðrar leiðir til þess að ná árangri og gera betur en aðeins að halda í horfinu. Efla verður forvarnastarf til muna og styrkja þá þætti sem miða að því að ná sem fyrst til fólks sem hefur nánetjast þessum efnum til þess að auka líkur á árangri og komast hjá kostnaðarsömum leiðum til úrbóta. Mikilvægustu þættirnir eru æskulýðs- og foreldrastarf.“

Samstarf

Í boðsbréfi vegna stofnunar miðstöðvarinnar 5. nóvember 1993 segir m.a.: ,,Forvarnastarf má ekki sitja á hakanum eða verða marklaust vegna skorts á samstöðu og samvinnu eða peningaleysis. Forvarnastarf er langtum ódýrari leið fyrir samfélagið en meðferðarúrræði og kemur þar að auki í veg fyrir margvísleg vandamál og þjáningar einstaklinga og fjölskyldna.“ Um samstarf segir einnig í þessu sama bréfi: ,,Um árabil hafa margir aðilar unnið að forvarnastarfi í fíkniefnamálum hér á landi. Samvinna þeirra á milli hefur verið nokkur en þó minni en efni standa til ef litið er til þess að um sömu markhópa er að ræða, áherslur svipaðar og fjármögnunarleiðir þær sömu.“

Mikilvægi samstarfs og forsendur fyrir því koma vel fram í ársskýrslu 2001. Þar segir m.a.: ,,Forvarnir felast ekki fyrst og fremst í fræðslu og uppýsingamiðlun um skaðsemi fíkniefna heldur snertir nánast alla þætti samfélagsins, s.s. uppeldi, menntun, heilsugæslu, æskulýðsstarf, skemmtanalíf og afþreyingu. Fyrir vikir verða fíknivarnir flóknara viðfangsefni en áður og hugmyndir um leiðir fjölbreyttari. Aðstæður breytast, tíðarandinn breytist og nýjar kynslóðir vaxa úr grasi. Forvarnir þurfa því að vera í stöðugri umræðu og endurskoðun.

Forvarnir eru ekki einangraður þáttur í samfélaginu. Sú áhættuhegðun sem neysla ávana- og vímuefna er tengist ýmsum öðrum áhættuþáttum í lífi fólks, s.s. geðrænum vanda, hegðunar- og þroskaröskun af ýmsum toga og félagslegum vanda fólks. Forvarnir gegn fíkniefnum eiga því samleið með forvörnum gegn ýmsum öðrum vanda. Forvarnir þurfa að vera hluti af mörgum sviðum samfélagsins, samþættar öllu uppeldisstarfi og sjálfsagður hluti af uppeldisskilyrðum barna og unglinga. Ríka áherslu verður að leggja á þátttöku foreldra og samstarf við heimli og virka þátttöku ungs fólks. Samfélagið þarf að líta á það sem sjálfsögð mannréttindi að börn og unglingar alist upp án ógnunar frá ávana- og vímuefnum hverju nafni sem þau nefnast.“

Þekking og þróunarstarf

Stofnun FRÆ var m.a. svar við stöðnun eða hægagangi í forvarnamálum. Miðstöðinni var ætlað að fara nýjar leiðir í starfi sínu og leggja áherslu á þróunarstarf. ,,Forvarnastarf sem ekki fær að þróast í takt við tímann og samfélagsbreytingar er dæmt til þess að verða marklaust,“ segir í kynningarriti frá upphafsárunum. Þar var þekking lykilþáttur, eins og kemur fram í eftirfarandi frá árinu 1997: ,,Forvarnir verða að byggjast á þekkingu. Þekkingu á því hvaða leiðir eru líklegastar til árangurs og þekkingu á því hvernig meta má árangur forvarnastarfs.“ Hlutverk FRÆ skyldi vera að afla upplýsinga og þekkingar um ávana- og vímuefnamál og forvarnir, gera hana aðgengilega (m.a. með starfrækslu gagnasafns og vefsíðu) og koma henni á framfæri með fræðslu, útgáfu og ráðgjöf í forvörnum.

Um þetta segir nánar í áðurnefndum texta frá 1997: ,,Gagna- og upplýsingaöflun, úrvinnsla niðurstaðna rannsókna, áætlanagerð og þróunarstarf eru undirstaða skynsamlegra forvarna. Forvarnastarf verður að reka sem vísindi en ekki eingöngu á góðri trú á góðan málstað.“

Heildarsýn og betri nýting fjármagns

Flestir, eða allir, sem vinna að heilsueflingu, forvörnum og úrbótum ýmissa meina samfélagsins kvarta stöðugt undan fjárskorti. Viðfangsefnin kalla úr öllum hornum og hugsjónafólkið sem fer fyrir þessum málum brennur í skinninu og vill gera betur. FRÆ er þar engin undantekning en var að auki strax frá upphafi gagnrýnið á meðferð þeirra fjármuna sem ætlaðir voru til forvarna og vildi að þeim væri í meira mæli ráðstafað til samstarfsverkefna þar sem fleiri kæmu að með viðbótarkrafta, þekkingu og fjármagn. Kallað var eftir heildar- og langtímasýn. Í ársskýrslu að loknu fyrsta starfsárinu segir t.d. í þessa veru: ,,Samhliða auknu samstarfi þarf að skilgreina betur forvarnastarfið og koma á bættri verkaskiptingu þeirra sem vinna að áfengis- og fíkniefnamálum. Meðferðaraðilar ættu einungis að sinna meðferð og upplýsinga- og ráðgjafarstarfi sem tengist henni beint og samræma þarf forvarnastarf sem unnið er í skólum landsins. Á meðan stjórnvöld dreifa því fjármagni sem ætlað er til forvarna til jafnmargra aðila og nú er er ekki að vænta mikilla framfara í forvarnastarfi. Til þess kemur og lítið í hlut hvers og eins. Forvarnastarf er uppeldis- og fræðslustarf sem ekki verður unnið í formi átaka og upphlaupa heldur jafnt og þétt með faglegum hætti í tengslum við annað uppeldis- og fræðslustarf.“ Á þessu var hnykkt í ársskýrslu frá 2001 og kallað eftir stöðugleika og samfellu í starfinu: ,,Til að svo geti orðið þarf að vera fyrir hendi vel skilgreindur ,,strúktúr“ sem gerir ráð fyrir samstarfi og sérhæfingu þeirra sem vilja leggja forvörnum lið,“ segir þar.

Starfsfólk og rekstur. Mottóið að nýta hverja krónu vel.

Þeirri stefnu sem sett var við stofnun FRÆ, að halda skyldi yfirbyggingu og rekstrarkostnaði í lágmarki, hefur verið fylgt fast eftir alla tíð. Fastir starfsmenn hafa aldrei verið fleiri en tveir og sjaldnast báðir í fullu starfi. Að öðru leyti hefur starfsfólk verið ráðið tímabundið vegna sérþekkingar sinnar til ákveðinna verkefna. Nánast engu fé hefur verið varið til kaupa á tækjum, skrifstofubúnaði og húsgögnum. Allt slíkt hefur annað hvort fengist gefins eða starfsmenn lagt með sér sjálfir. Með þessu er reynt að nýta til hins ítrasta allt fjármagn sem miðstöðin hefur úr að spila hverju sinni beint í starfið og verkefnin.

Árni Einarsson (MA) uppeldis- og menntunarfræðingur var ráðinn framkvæmdastjóri frá og með 1. júlí 1993 og Guðni Ragnar Björnsson (BA) uppeldis- og menntunarfræðingur var ráðinn í hlutastarf sem verkefnisstjóri frá og með 1. janúar 1995. Starfshlutfall þeirra hefur verið mismikið og farið eftir því sem fjárhagur hefur leyft. Að öðru leyti hefur starfsfólk verið ráðið tímabundið í ákveðin verkefni.

Starfsfólk FRÆ hverju sinni er kjarninn í starfsemi miðstöðvarinnar. Þekking þess og reynsla eru þau verkfæri sem miðstöðin hefur til þess að vinna verkin. Af því leiðir að mikilvægt er að starfsfólk FRÆ hafi sem víðtækastan og fjölbreyttastan bakgrunn og reynslu. Þess vegna er lögð áhersla á að starfsfólk miðstöðvarinnar sé virkt á ýmsum sviðum þjóðlífsins, sérstaklega þeim sem tengjast ávana- og vímefnamálum og forvörnum, og taki þátt í verkefnum sem koma því að notum í starfi.

Þeir tveir sem verið hafa fastir starfsmenn miðstöðvarinnar fyrstu tuttugu árin eru með háskólamenntun á sviði uppeldis og menntunar og með áralanga reynslu í forvörnum úr uppeldis- og menntastarfi, íþrótta- og æskulýðsstarfi, foreldrasamstarfi, sveitarstjórnarmálum, útgáfumálum og alþjóðlegu samstarfi auk áratuga reynslu úr grasrótarstarfi á vettvangi félagasamtaka.

Aðsetur og aðstaða

FRÆ hóf starfsemi sína á Grensásvegi 16 og var þar til húsa til ársloka 1998 en í janúar 1999 flutti miðstöðin í Brautarholt 4a í kjölfar þess að Vímulaus æska hætti samstarfi um miðstöðina. Ungtemplarar seldu húseign sína á Grensásveginum og flutti með FRÆ í Brautarholtið þar sem báðir aðilar leigðu skrifstofuherbergi með afnot af fundar- og kennslusal.

Miðstöðin var kölluð Fræðslumiðstöð í fíknivörnum til 1. mars 2008 að nafni hennar var breytt í Fræðsla og forvarnir. Með breytingunni var komið til móts við breyttar áherslur í vímuvörnum og laga nafn miðstöðvarinnar að fjölbreyttari viðfangsefnum en hún sinnti fyrstu árin. FRÆ var áfram notað til styttingar á nafninu. Þegar félagið Fræðsla og forvarnir tóku yfir miðstöðina árið 2012 var nafni miðstöðvarinnar enn breytt og heitir frá þeim tíma Fræðsla og forvarnir, fræðslu- og upplýsingamiðstöð í heilsueflingu og forvörnum.

Miðstöðin er að forminu til rekin af Fræðslu og forvörnum, félagi áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu, en rekin sem rekstrarlega sjálfstæð eining. Starfsemin er því byggð á eigin fjármögnun. Rekstrartekjur eru einkum af fernum toga: Í fyrsta lagi opinberir rekstrar- og verkefnastyrkir (þar er fyrst og fremst um að ræða styrki úr Forvarnasjóði/Lýðheilsusjóði); annars vegar tekjur vegna ráðgjafar og umsjónar með verkefnum; þriðja lagi styrkir og auglýsingatekjur vegna verkefna, s.s. útgáfuverkefna; fjórða lagi tekjur vegna fyrirlestrahalds starfsfólks.

Á réttum stað á réttum tíma.

Mikil gróska hljóp í forvarnastarf á Íslandi á árunum 1994-2000. Þar kom FRÆ mikið við sögu; átti bæði þátt í þeirri grósku og naut góðs af henni. Fyrsta stóra verkefnið sem FRÆ koma að með virkum hætti var verkefnið Stöðvum unglingadrykkju sem hófst árið 1994 og gaf e.t.v. tóninn fyrir það sem á eftir kom, ekki síst hvað varðaði áhersluna á að fá sem flesta til þátttöku. Mörg önnur forvarnaverkefni urðu til á þessum árum sem eru enn við lýði og/eða gátu af sér önnur. Viðhorf til forvarna breyttist einnig á þessum árum í þá veru að í auknum mæli var litið á forvarnir sem fjölþætt samfélagslegt viðfangsefni, en ekki einungis sem fræðslu til barna og ungmenna. Kallað var eftir heildstæðum aðgerðum og almennri hugarfarsbreytingu. Áhersla var lögð á samstarf og að virkja foreldra og uppalendur. Sveitarfélög og ýmsar stofnanir samfélagsins komu af meiri þunga en áður að forvörnum, bæði hvað varðar stefnumörkun og aðgerðir. Hér á eftir er þessum árum gerð stuttlega skil og lýst helstu verkefnum sem FRÆ kom að og ekki eru beinlínis runnin undan rifjum FRÆ.

Reykjavíkurborg tekur frumkvæði. ECAD, Ísland án eiturlyfja og Vímuvarnaskólinn

Samtökin Evrópuborgir gegn eiturlyfjum (ECAD) voru stofnuð í apríl 1994. Stofnun samtakanna var m.a. svar við áformum ýmissa borga í Evrópu um að lögleiða tiltekin eiturlyf. Reykjavíkurborg var ein af 21 stofnborgum. Megintilgangurinn með starfi samtakanna var að hvetja borgir til aðgerða og baráttu gegn ólöglegum fíkniefnum í stað þess að gefast upp í baráttunni gegn þeim og lögleiða þau.

Í nóvember 1994 samþykkti borgarráð Reykjavíkur a skipa starfshóp til þess að gera tillögur um aðgerðir og stefnumótun í vímuefnavörnum á vegum borgarinnar. Þá um haustið (1995) setti Reykjavíkurborg á laggirnar Vímuvarnanefnd Reykjavíkur sem ætlað var að samþætta starf allra þeirra sem komu að forvörnum í borginni og útfæra stefnu borgarinnar í vímuvörnum.

Fyrsta verk nefndarinnar var að koma á fót Vímuvarnaskólanum vorið 1996. Skólinn var ætlaður kennurum og öðrum starfsmönnum grunnskóla í Reykjavík. Markmið Vímuvarnaskólans var að efla forvarnastarf grunnskóla og koma á skipulögðum forvörnum í grunnskólum Reykjavíkur með því að skapa forsendur fyrir því að grunnskólar í Reykjavík mætu stöðu sína í vímuvörnum og gerðu sér heildstæða vímuvarnaáætlun auk þess að upplýsa og fræða starfsfólk um ýmsar hliðar vímuefnaneyslu og möguleika í forvörnum.

Vímuvarnanefnd Reykjavíkur, sem hafði umsjón með verkefninu, kallaði til liðs við sig fulltrúa frá FRÆ, SÁÁ, RKÍ og Barnaverndarstofu. Árna Einarssyni hjá FRÆ og Einari Gylfa Jónssyni frá SÁÁ var í framhaldinu falið að skipuleggja Vímuvarnaskólann, útfæra námsefni, annast gerð námsgagna og hafa yfirstjórn með starfsdögum í hverjum skóla. Vímuarnaskólinn starfaði þannig að tekinn var starfsdagur í hverjum skóla til þess að hægt væri að bjóða öllu starfsfólki skólanna fræðslu um vímuefni, ekki aðeins kennurum. Voru sett saman tvö fjögurra manna teymi fyrirlesara sem skiptu skólunum 29 í borginni með sér. Fyrsti starfsdagurinn var 15. mars en sá síðasti 7. maí 1996.

Þegar verkefni Vímuvarnaskólans í Reykjavík lauk vorið 1996 ákváðu FRÆ og Forvarnadeild SÁÁ að bjóða sameiginlega framhaldsskólakennurum farandnámskeið um vímuarnir á sömu nótum og Vímuvarnaskólinn hafði gert. Fjallað var um stefnumörkun í vímuvörnum og ábyrgð og frumkvæði í félagsstarfi með unglingum. Markmið námskeiðanna var að virkja fleiri innan framhaldsskólanna í vímuvörnum og gera forvarnir að föstum lið í skólastarfi og skerpa stefnumörkun og sáu Árni Einarsson og Einar Gylfi Jónsson um þau.

FRÆ, SÁÁ og RKÍ ákváðu svo þá um haustið að halda starfi Vímuvarnaskólans áfram þannig að hann nýttist öllum sveitarfélögum í landinu og gerðu með sér fimm ára samsstarfssamning þar um 17. nóvember 1997. Auk fulltrúa þessara aðila sat fulltrúi frá Kennarasambandi Íslands í stjórn Vímuvarnaskólans. Verkefnið hafði þó í raun hafist þá strax í júní. Árið 1997 (vor- og haustönn) voru haldin nítján námskeið á vegum Vímuvarnaskólans í flestum landshlutum. Sex hundruð kennarar sóttu námskeiðin. Forvarnadeild SÁÁ var lögð niður á haustmánuðum 2001 en starfsemi Vímuvarnaskólans var haldið áfram um nokkurð skeið í óbreyttri mynd af hinum tveimur.

Þátttaka Reykjavíkurborg í ECAD átti eftir að segja til sín með ýmsum hætti og ná til alls landsins með stofnun átaksins Ísland án eiturlyfja. Hinn 6. febrúar 1997 undirrituðu Þorsteinn Pálsson dómsmálaráðherra f.h. ríkisstjórnarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgastjóri f.h. Reykjavíkurborgar og Åke Setréus framkvæmdastjóri ECAD fyrir hönd samtakanna, samstarfssamning um áætlunina. Árið 1998 bættist Samband íslenskra sveitarfélaga í hópinn. Auk þessara aðila komu fjölmargir aðrir að verkefninu, enda hinn rauði þráður verkefnisins að kalla sem flesta til umræðu og aðgerða, s.s. íþróttahreyfinguna, lögreglu, bindindishreyfinguna, foreldrasamtök, fjölmiðla og aðila vinnumarkaðarins svo fáeinir séu tilgreindir.

Áætlunin Ísland án eiturlyfja var liður í stærri áætlun ECAD um Evrópu án eiturlyfja árið 2012. Samtökin vonuðust til að árangur af verkefnum sem hrundið yrði af stað hér á landi yrði slíkur að þau gætu orðið fyrirmyndir fyrir aðrar borgir í baráttunni gegn eiturlyfjum. Meginmarkmið samstarfsins var að sameina krafta þjóðarinnar í baráttunni gegn ólöglegum fíkniefnum, efla forvarnir og skipuleggja verkefni og aðgerðir sem hefðu þetta markmið að leiðarljósi. ECAD taldi að Ísland ætti mikla möguleika á því að stemma stigu við innflutningi og dreifingu eiturlyfja vegna landfræðilegrar legu landsins og hefur það áreiðanlega vegið þungt í ákvörðun samtakanna um að standa að verkefninu.

Ísland án eiturlyfja stóð fyrir ýmsum verkefnum sem ekki verða gerð skil hér. Vímuvarnaskólinn, sem sagt er frá hér á undan, var eitt þeirra. Af öðrum má nefna ráðstefnur um land allt í samstarfi við Heimili og skóla, UMFÍ og ýmsa fleiri þar sem fjallað var um vímuvarnir í sveitarfélögum.

FRÆ átti eftir að taka þátt í ýmsum verkefnum sem stofnað var til innan vébanda Íslands án eiturlyfja en auk þess sat fulltrúi FRÆ í starfshópi á vegum verkefnisins, hafði m.a. umsjón með vinnu starfshóps um stöðu og framtíðarhugmyndir í forvörnum sem skilaði niðurstöðum 17. desember 2001. Stærsta verkefnið sem FRÆ kom að var stofnun og þróun Fjölskyldumiðstöðvar.

Vímulaus grunnskóli og stofnun Fjölskyldumiðstöðvar

Stofnun Fjölskyldumiðstöðvar vegna barna í vanda árið 1997 varð til sem hluti af forvarnaverkefni Reykjavíkurborgar, Vímulaus grunnskóli, sem var hluti af áætluninni Ísland án eiturlyfja 2002. Verkefnið, og starfræksla Fjölskyldumiðstöðvar, var samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, félagsmálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands sem hófst í apríl 1997.

Markmið verkefnisins Vímulaus grunnskóli var að draga úr áfengis- og vímuefnaneyslu barna á grunnskólaaldri í Reykjavík, styðja og styrkja fjölskyldur þeirra gegn áfengis- og vímuefnaneyslu og stuðla þar með að vímuefnalausum grunnskólanemum. Með verkefninu var einnig stefnt að því að draga úr umburðarlyndi gagnvart barna- og unglingadrykkju og stuðla að því að foreldrar, börn og ungmenni, svo og þeir sem vinna að barna- og unglingamálum tækju höndum saman í baráttunni gegn vímuefnaneyslu barna og ungmenna.

Fjölskyldumiðstöðin hafði það hlutverk að veita börnum á grunnskólaaldri í Reykjavík og fjölskyldum þeirra snemmtæka viðeigandi aðstoð vegna ávana- og vímuefnaneyslu. Verkefnið var einnig tilraunverkefni í því að „samhæfa“ störf opinberra aðila sem lögum samkvæmt skulu bregðast við ef börn eru í vanda vegna ávana- og vímuefnaneyslu og félagasamtaka sem vinna að sama marki.

Í byrjun lagði Reykjavíkurdeild Rauða krossins verkefninu og Fjölskyldumiðstöðinni til rekstrarfé en auk þess styrkti Forvarnasjóður verkefnið. Félagsmálaráðuneytið styrkti rekstur miðstöðvarinnar einnig árið 1999. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið lagði miðstöðinni til húsnæði í Heilsuverndarstöðinni og þær stofnanir sem lögðu Fjölskyldumiðstöðinni til ráðgjafa stóðu að mestu sjálfar straum af kostnaði vegna þeirra. Ráðgjafar Fjölskyldumiðstöðvar komu frá Stuðlum, Teigi, Barna- og unglingageðdeild Landspítalans og Félagsþjónustu Reykjavíkur.

Samstarfssamningur um Fjölskyldumiðstöðina var undirritaður 18. mars 1997 en fyrsta viðtal var tekið 28. apríl. Starfsemin hófst formlega í húsakynnum Heilsuverndarstöðvarinnar við Barónsstíg í Reykjavík. Þar var hún til ársins 2004 að starfsemin fluttist að Háaleitisbraut 13 í Reykjavík og starfar þar enn.

FRÆ lagði strax í upphafi áherslu á mikilvægi þess að vera vakandi fyrir þróun áhættuþátta ávana- og vímuefnaneyslu og grípa sem fyrst inn í liggi fyrir vísbendingar um að óheillaþróun sé að hefjast. Það féll því vel að þessum áherslum að FRÆ tæki að sér mótun starfsemi Fjölskyldumiðstöðvarinnar. Framkvæmdastjóri FRÆ var ráðinn sem verkefnastjóri miðstöðvarinnar og leiddi það starf fyrstu árin. Gegndi hann því starfi til 1. júní 2003, eða þar til uppsögn samningsins við FRÆ kom til framkvæmda. Auk verkefnisstjóra var starfsmaður ráðinn að miðstöðinni þegar frá byrjun til þess að bóka viðtöl og veita foreldrum upplýsingar og ráðgjöf í síma, annast skráningu nauðsynlegra upplýsinga og fylgja eftir málum gagnvart foreldrum eftir óskum ráðgjafa.

Upphaflega var gert ráð fyrir að starfræksla Fjölskyldumiðstöðvar stæði til áramóta 1997/1998 en ákveðið var að halda því áfram út árið 1998 og síðar út árið 1999. Í árslok 1999 var ákveðið að halda starfsemi miðstöðvarinnar áfram ótímabundið um sinn.

Strax á fyrstu mánuðum í starfi Fjölskyldumiðstöðvar kom skýrt í ljós að þörf var aðgengilegrar þjónustu fyrir börn með ýmsan annan vanda en vímuefnavanda. Einnig kom í ljós að börnin og unglingarnir sem komu á Fjölskyldumiðstöð vegna vímuefnaneyslu voru oft samhliða að fást við annan vanda, s.s. samskiptavanda á heimili og í skóla og hegðunarvanda. Af þessum sökum var fljótlega hætt við að einblína á vímuefnavanda sem eina skilgreinda viðfangsefni miðstöðvarinnar.

Aðalsmerki og sérstaða Fjölskyldumiðstöðvar var aðgengileiki og viðbragsflýtir og að öflun persónulegra upplýsinga var haldið í lágmarki. Þjónustan var fjölskyldum að kostnaðarlausu og gert var ráð fyrir að fyrsta viðtal væri veitt eigi síður en þremur dögum eftir að óskað var eftir viðtali. Ekki þurfti tilvísanir til þess að fá þjónustu hjá Fjölskyldumiðstöð, heldur gat fólk snúið sér beint og milliliðalaust til miðstöðvarinnar. Markmiðið var að fá fleiri fjölskyldur sem á þurftu að halda til þess að bregðast fyrr við en ella og leita sér ráðgjafar.

Ríkið kemur til leiks

Verkefnið Ísland án eiturlyfja hefði hugsanlega ekki orðið til, eða a.m.k. ekki orðið jafn viðamikið, ef ekki hefði komið til þátttaka ríkisins. Hún kom einkum til af því að í desember 1996 samþykkti ríkisstjórn Íslands að móta sér stefnu í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum. Þar var lögð áhersla á að efla forvarnir sem beinast að einstaklingum sem eru í áhættu gagnvart notkun fíkniefna, áfengis og tóbaks og að efla meðferðarúrræði fyrir ungmenni sem orðið hafa fíkninni að bráð. Skipuð var nefnd ráðuneyta til þess að útfæra stefnuna og aðgerðir ríkisstjórnarinnar þar til nýtt áfengis- og vímuvarnaráð tæki til starfa og skilaði hún af sér í mars 1998. Lög um nýtt áfengis- og vímuvarnaráð gengu í gildi 1. júlí 1998. Ráðið tók til starfa 1. janúar 1999, en þá var eldra Áfengisvarnaráð lagt niður, og tók þá við stjórn Forvarnasjóðs sem stofnaður var 1995. Í hann rann ákveðinn hluti áfengisgjalds en við það jukust fjárveitingar til forvarna á sviði áfengis- og fíkniefnamála. Einn liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar var að ganga til samstarfs við Reykjavíkurborg og ECAD um áætlunina Ísland án eiturlyfja.

Í framhaldi af starfi ráðuneytanefndarinnar var viðkomandi ráðuneytum og undirstofnunum þeirra gert að leggja fram framkvæmdaáætlun, hvert á sínu sviði. Í kjölfarið var ráðist var í ýmis verkefni. M.a. var ávana- og fíkniefnastarfsemi löggæslunnar eflt með auknu fjármagni og stöðugildum fjölgað. Síðla hausts 1998 hófst forvarnaverkefnið Hættu áður en þú byrjar sem að stóðu lögreglan í Reykjavík, Félagsþjónustan í Reykjavík og Hvítasunnukirkja Fíladelfíu í Reykjavík. Það verkefni er enn við lýði. Árið 1998 var skipað fjölskylduráð sem hafði það hlutverk að stuðla að eflingu og vernd fjölskyldunnar í samræmi við almenn markmið ríkisstjórnarinnar og það bent að fjölskyldan og heimilin eru tvímælalaust mikilvægasti vettvangurinn á sviði forvarna í fíkniefnamálum. Þá var sjálfræðisaldur hækkaður úr 16 árum í 18 ár 1. janúar 1998. Ein rökin fyrir hækkun sjálfræðisaldurs voru að gera foreldrum og samfélaginu í heild kleift að taka á stjórnlausri neyslu áfengis og vímuefna 16 til 18 ára ungmenna. Barnahús var opnað árið 1998 og í ársbyrjun 1998 var undirritaður samstarfssamningur milli heilbrigðisráðuneytisins og forvarnadeildar SÁÁ um tveggja ára samstarf í forvarnamálum. Markmið verkefnisins var að virkja sveitarfélög, opinbera aðila, félagasamtök, skóla, nemendur, foreldra og aðra áhugamenn til að vinna að markvissu forvarnastarfi innan sveitarfélagsins með faglegri ráðgjöf, aðstoð og stuðningi forvarnadeildar SÁÁ og heilbrigðisráðuneytisins. Áður hafði SÁÁ undirbúið verkefnið og gert tilraunir með framkvæmd þess í 5 sveitarfélögum og var byggt á þeirri reynslu í verkefninu. Í framhaldi af því varð til verkefnið Vertu til árið 2003 en það var samstarfsverkefni Sambands íslenskra sveitarfélaga og áfengis- og vímuvarnaráðs um eflingu forvarna í sveitarfélögum. Verkefnið var til þriggja ára eða frá 2003 til ársloka 2005. Megininntak verkefnisins var ráðgjöf og upplýsingaöflun um skipulag og framkvæmd forvarnastarfs gagnvart ungu fólki. Því var einkum ætlað að ná fram skilvirkri og ítarlegri samvinnu bæjaryfirvalda og grasrótarstarfs í sveitarfélögum landsins.

Einnig má nefna að Ísland tók í fyrsta sinn þátt í ESPAD-rannsókninni árið 1995. ESPAD (European School Survey Project on Alcohol and Other Drugs) er fjölþjóðleg könnun framkvæmd að tilstuðlan Evrópuráðsins og er lögð fyrir ungmenni á aldrinum 15–16 í 25 löndum. ESPAD rannsóknin gerði í fyrsta sinn mögulegt að bera saman með samræmdum hætti stöðu og þróun í mörgum löndum Evrópu og hefur átti sinn þátt í því að halda ávana- og vímuefnumálunum á dagskrá.

Menntamálaráðuneytið og forvarnastarf í framhaldsskólum

Í samræmi við þá kröfu til ráðuneyta að þau mörkuðu stefnu fyrir sig og undirstofnanir sínar setti menntamálaráðuneytið á fót teymi sérfræðinga til þess að endurskoða og gera tillögur um forvarnastarf í skólum. Teymið fjallaði eingöngu um forvarnir í grunn- og framhaldsskólum en lagði áherslu á að mikilvægt væri að sinna einnig formlegum forvörnum á dagvistarstofnunum fyrir forskólabörn. Í upphafi árs 1997 var gerður samningur við FRÆ um umsjón með starfi teymisins. Árni Einarsson framkvæmdastjóri FRÆ hafði það verk með höndum og var ritari þess. Verkefninu lauk í ársbyrjun 1998 og skilaði teymið skýrslu um starf sitt vorið 1998.

Liður í þessu verkefni var námskeið á vegum Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands dagana 13. – 15. ágúst 1997 þar sem fjallað var um sjálfsvíg og fíkniefnaneyslu. Námskeiðið var haldið í Háskóla Íslands og Norræna húsinu og ætlað skólastjórnendum grunn- og framhaldsskóla auk þeirra starfsmanna skóla sem sinna ráðgjöf til nemenda og/eða höfðu með höndum úrlausn ýmiss konar vanda sem kemur upp í skólastarfi. Þátttakendur voru tæplega eitt hundrað. Fyrirlesarar voru fjölmargir, þar á meðal dr. Gil Noam kennari við Harvard háskóla í Boston. Dr. Noam stýrði þá verkefni í Boston um forvarnir í skólum í tengslum við áhættuhegðun barna og unglinga. Umsjón með námskeiðinu höfðu Árni Einarsson og Wilhelm Norðfjörð.

Dr. Gil var aftur á ferðinni árið eftir og flutti ásamt fleirum fyrirlestur á námskeiði sem haldið var á vegum FRÆ í samvinnu við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands og Endurmenntunardeild Kennaraháskólans á Akureyri dagana 19. – 21. ágúst.

Meðal tillagna teymisins til þess að stuðla þessu markmiði má nefnda aukna ráðgjöf og stuðning við foreldra, fræðslu og aukna fjölbreytni í námsvali og kennsluaðferðum, áherslu á að styrkja sjálfsmynd og félagsþroska nemenda, að forvarnir verði liður í kennaranámi og að skólar eigi kost á ráðgjöf í forvörnum. Einnig var bent á mikilvægi þess að innan allra skóla, á báðum skólastigum væri starfandi forvarnafulltrúi sem hefði það hlutverk að samræma forvarnastarf skólanna og eiga nauðsynlegt frumkvæði að forvarnastarfinu.

Teymið hvatti til þess að stutt yrði við bakið á Jafningafræðslu framhaldsskólanema sem þá var nýbúið að hrinda af stokkunum (um áramótin 1995/1996) og taldi jafningjafræðslu líklega til árangurs í framhaldsskólum. Það kom svo í hlut FRÆ að fylgja tveimur aðalverkefnum menntamálaráðuneytisins úr hlaði og sinna þeim næstu árin. Annars vegar umsjón með forvarnaverkefni fyrir framhaldsskólana og hins vegar uppbygging og þátttaka í Jafningjafræðslu framhaldsskólanema.

Forvarnir í framhaldsskólum

Þegar formlegu starfi teymis menntamálaráðuneytisins var að ljúka í árslok 1997 var ákveðið að framlengja samninginn við FRÆ um óákveðinn tíma, um eitt ár í senn. Fyrri hluti árs fór í að ljúka verkefni teymisins og undirbúning og framkvæmd námskeiðs á Akureyri sem haldið var í ágúst 1998.

Árið 2003 gerðu FRÆ og menntamálaráðuneytið svo samning til þriggja ára sem var síðan endurnýjaður 2007 eða til og með ágústmánuði 2010. Skömmu fyrir ármót 2010/2011 var skrifað undir nýjan en mikið breyttan samning sem gilti út skólaárið 2012. Þar með lauk rúmlega fimmtán ára samstarfi FRÆ og menntamálaráðuneytisins. Umsjón með verkefninu allan tímann höfðu Árni Einarsson og Sigríður Hulda Jónsdóttir sem starfaði í hlutastarfi.

Hlutverk FRÆ í þessu verkefni var að aðstoða við stefnumörkun/gerð forvarnaáætlana í framhaldsskólum í samráði við stjórnendur þeirra. Einnig að veita starfsfólki framhaldsskóla ráðgjöf við framkvæmd forvarnaáætlana; Standa fyrir og skipuleggja námskeið/endurmenntun fyrir starfsmenn framhaldsskóla í tengslum við verkefnið; Vinna að því að gera forvarnastarf framhaldsskóla sýnilegt meðal nemenda og kennara og leita leiða til að efla samstarf við foreldra í tengslum við forvarnastarf og hafa umsjón með útgáfu og dreifingu kynningarefnis vegna verkefnisins að höfðu nánara samkomulagi við ráðuneytið.

Þegar verkefninu lauk var forvarnastarf innan framhaldsskólanna orðinn fastur liður í starfsemi flestra þeirra og þeir komnir með forvarnastefnu og starfandi forvarnafulltrúa. Í nær öllum voru starfandi forvarnafulltrúar og mikil fjölbreytni orðin í forvarnastarfinu.

Jafningjafræðslan

Mikil umræða varð um fíkniefnamál haustið 1995 þegar E-pillan kom eins og sprengja inn á fíkniefnamarkaðinn íslenska og mikil umræða varð um ástandið í fjölmiðlum. Upp úr þessari umræðu varð Jafningjafræðsla framhaldsskólanema til.

Þá um haustið (1995) sátu tveir fulltrúar Félags framhaldsskólanema (FF) námskeið í Danmörku um svokallaða jafningafræðslu í forvarnastarfi meðal ungs fólks. Áhugi hafði þá vaknað innan stjórnar FF að hefja forvarnastarf í skólum en á sama tíma var forvarnahópur á vegum menntamálaráðuneytisins að vinna að tillögum að forvarnaverkefnum í framhaldsskólum. Aðalfundur FF, sem haldinn var á Akureyri í október 1995, samþykkti að hefja undirbýúning að forvarnastarfi í framhaldsskólum þá um veturinn. Því var kominn sterkur grundvöllur fyrir samstarfi þessara aðila þegar fulltrúar FF áttu viðræður við menntamálaráðuneytið um tilhögun og framkvæmd jafningjafræðslunnar. Verkefnið fékk síðan byr undir báða vængi þegar menntamálaráðherra ákvað að styrkja Jafningjafræðslu framhaldsskólanema með þriggja milljóna króna framlagi.

Jafningjafræðslan (JF) var sett af stað sem tilraunaverkefni í fíknivörnum. Með það að leiðarljósi setti ráðuneytið það skilyrði fyrir samstarfinu að verkefninu stýrði verkefnisstjórn sem í sætu fulltrúar frá ráðuneyti, Skólameistarafélagi Íslands, kennarafélögunum og Félagi framhaldsskólanema (FF). Árni Einarsson framkvæmdastjóri FRÆ tók sæti í verkefnisstjórn Jafningafræðslunnar 1. janúar 1996 og tók þátt í ýmsum námskeiðum á vegum hennar og aðstoðaði starfsmenn verkefnisins eftir þörfum

FRÆ var svo fengin til þess að hafa umsjón með daglegum rekstri og leiða hinn faglega hluta verkefnisins fyrsta árið. FRÆ sá einnig um að gera lauslega úttekt á verkefninu eftir fyrstu sex mánuðina og taka saman skýrslu um verkefnið og framvindu þess á sama tímabili. Bein tengsl FRÆ við verkefnið héldust áfram eftir að miðstöðin hætti beinni þátttöku í því, eða til vors 2001. Þá hætti Árni í verkefnisstjórninni. Frá þeim tíma hefur FRÆ svo tekið með ýmsum hætti þátt í námskeiðahaldi og fræðslu á vegum JF.

Jafningjafræðsla framhaldsskólanema hefur breyst talsvert frá því að henni var hrundið af stað hér á landi árið 1996 þótt grunnurinn sé hinn sami. Viðfangsefnið sem í upphafi var áfengis- og fíkniefnaneyslu hefur víkkað, en vettvangurinn þrengst nokkuð. Verkefnið er nú starfrækt sem hluti af starfsemi Hins hússins í Reykjavík með aðaláherslu á höfuðborgarsvæðið og markhópurinn einkum unglingar sem taka þátt í sumarstarfi sveitarfélaga (vinnuskólar). Framkvæmdastjóri FRÆ hefur um árabil tekið þátt í undirbúningi jafningjafræðaranna með fyrirlestrum um ávana- og vímuefnamál og forvarnir.

FRÆ setti árið 2012 einnig á laggirnar Samstarf um jafningjamiðaða forvarnafræðslu fyrir ungt fólk. Það felst í samstarfi við nokkra aðila sem bjóða upp á fræðslufyrirlestra fyrir nemendur í 8. – 10. bekk grunnskóla og nemendur í framhaldsskólum. Einnig fyrir ungt fólk í félags- og íþróttastarfi. Markmiðið með samstarfinu er að stuðla að nýsköpun og þróun í forvarnafræðslu fyrir ungt fólk, efla þekkingu, menntun og færni ungs fólks sem sinnir forvarnafræðslu á jafningjagrunni og skapa vettvang umræðu og miðlunar á reynslu. Þátttakendur hafa verið Jafningjafræðslan og Verjan, en ætlunin er að bjóða fleirum til samstarfsins síðar. FRÆ heldur utan um samstarfið, skipuleggur menntun og endurmenntun fyrir ungt fólk í forvörnum og kynnir starf samstarfsaðilanna á vefsíðu sinni og með öðrum tiltækum hætti. Samstarfið er að öðru leyti án kvaða og skuldbindinga af hálfu samstarfsaðila og því má slíta fyrirvaralaust að hluta eða öllu leyti.

Stiklur úr starfinu. Frumkvæði og þróunarstarf FRÆ

Þegar horft er til baka sést að víða hefur verið komið við í starfsemi FRÆ. Lögð hefur verið áhersla á samstarf um verkefni og reynt að forðast að ráðast í viðfangsefni sem aðrir sinntu fyrir. Þannig hefur veri fylgt þeirri línu sem lögð var í upphafi um frumkvæði og nýjar leiðir; í stað þess að fylgja einungis annarra sporum og halda sig við hefðbundnar leiðir. Vissulega hefur skortur á fjármagni takmarkað umsvif og margar góðar hugmyndir komust aldrei af teikniborðinu vegna skorts á framkvæmdafé.

Hér á eftir er gerð grein fyrir helstu verkefnum FRÆ í tuttugu ára starfssögu. Ýmislegt vantar í þá greinargerð og öðru lýst í í styttra máli en gott er, en sú leið valin til þess að sýna hversu fjölbreytt verkefnin hafa verið. Einnig er minnst á nokkra mikilvæga samstarfsaðila.

Lagt úr höfn með látum. Börn og ungmenni í fyrirrúmi.

Fyrstu tvö starfsár FRÆ var fræðsla í skólum og fræðsla fyrir foreldra umsvifamesti þátturinn í starfi FRÆ, enda litið á að vænlegast væri að stemma á að ósi og hafa sem fyrst og varanlegust áhrif á börn og ungmenni. Einnig var rík áhersla lögð á að skapa tengsl við aðra sem unnu að ávana- og vímuefnamálum og forvörnum, með samtölum, kynningar- og samráðsfundum og þátttöku í samstarfsverkefnum.

Strax á fyrsta starfsárinu voru nemendur í öllum 10. bekkjum grunnskóla á Reykjavíkursvæðinu heimsóttir í samstarfi við Krabbameinsfélag Reykjavíkur, auk hluta nemenda í 6. og 7. bekkjum þar sem fjallað var um skaðsemi tóbaks. Í upphafi skólaárs 1993-1994 var öllum grunnskólum landsins sent kynningarbréf um FRÆ og þá þjónustu sem miðstöðin bauð. Margir skólar brugðust við og þáðu fræðslu. Og það var ekki slegið slöku við. Starfsmenn FRÆ heimsóttu 49 grunnskóla þetta skólaár og töluðu við 22,4% grunnskólanema í 6. – 10. bekkjum á Íslandi á sínu fyrsta starfsári (16% árið á eftir; 20,5% þar á eftir). Ef aðeins er horft til Reykjavíkur náði fræðslan til rúmlega 33% nemenda í þessum árgöngum og ef miðað er við heildarfjölda grunnskólanema í landinu þetta ár náði fræðsla FRÆ til 11,5% þeirra (8,3% árið á eftir; 10,3% þar á eftir). Auk þess að ræða við nemendur var einnig fundað með kennurum og öðru starfsfólki skólanna og víða haldnir foreldrafundir í tengslum við heimsóknir í skólana. Nokkrir framhaldsskólar voru einnig heimsóttir fyrsta starfsárið. Kennarar komu einnig til námskeiðahalds og funda í miðstöðina sjálfa. T.d. komu allir grunnskólakennarar sem þá kenndu námsefnið Að ná tökum á tilverunni til fræðslufunda á Grensásveginn dagana 1. og 7. október 1994.

Auk foreldrafræðslu sem tengdist skólum bauð FRÆ upp á sérstök námskeið fyrsta starfsárið, sem kölluðust Agi og uppeldi. Leiðbeinendur voru sálfræðingarnir Sæmundur Hafsteinsson og Jóhann Ingi Gunnarsson. Námskeiðin, sem urðu þrjú fyrsta starfsárið, snérust um foreldrahlutverkið og var ætlað að kenna foreldrum barna á öllum aldri að tileinka sér ákveðni í samskiptum við börn sín. Setja þeim mörk og reglur með jákvæðum aga. Haldið var áfram með námskeiðin árið eftir.

FRÆ bauð ekki aðeins upp á starfsmenn sína tvo sem fyrirlesara á borgarafundum, fræðslufundum í klúbbum og félagasamtökum, fræðslufundum í skólum og foreldrafélögum í skólum. Árið 1994 voru t.d. tólf aðrir fyrirlesarar á skrá miðstöðvarinnar til þess að sinna óskum um fræðslu.

Eins og þessi dæmi sýna var fyrstu starfsárin mikil áhersla lögð á skólaheimsóknir, fræðslufundi, fyrirlestra á ráðstefnum og námskeið fyrir foreldra, en síðustu ár hefur þessi þáttur í starfinu að mestu lagst af og önnur verkefni tekið yfir.

Mikil áhersla á samvinnu

Eins og ráð var fyrir gert, og var meðal forsenda fyrir stofnun FRÆ, var strax frá byrjun lögð mikil áhersla á samstarf við aðra aðila sem sinna uppeldis- og menntamálum, félagsmálum, félagsstarfi og aðra sem með einum eða öðrum hætti sinna lýðheilsumálum og forvörnum. Auk samstarfs við formlega eigendur sína, Íslenska ungtemplara og Vímulausa æsku, átti FRÆ þegar í upphafi gott samstarf við Bindindisfélag ökumanna, Krabbameinsfélag Reykjavíkur og Krabbameinsfélag Íslands. Einnig voru góð tengsl við menntamálaráðuneytið, Forvarnadeild lögreglunnar í Reykjavík og Fíkniefnadeild lögreglunnar. Af öðrum vel tengdum aðilum frá fyrstu árum má nefna meðferðarheimilið á Tindum (sem starfar ekki lengur) og Rannsóknarstofnun uppeldis- og kennslumála varðandi rannsóknir og niðurstöður þeirra (RUM starfar ekki lengur).

FRÆ vill eiga frumkvæði að sem víðtækustu samstarfi í forvörnum og hefur boðið fjölda gesta í heimsókn í miðstöðina í því skyni, bæði á Grensásveginn og Brautarholtið, s.s. stjórnmálamönnum, starfsmönnum ráðuneyta og stofnana og fulltrúum félagasamtaka. Markmið þessara heimsókna hefur verið að kynna starfsemi FRÆ, ræða forvarnamál frá ýmsum hliðum og kanna möguleika á samstarfi og tengslum.

Vímuefnavandinn er alþjóðlegt viðfangsefni.

Samstarfsáhugi FRÆ hefur ekki einskorðast við innlenda aðila. Árið 1995 sá FRÆ um alþjóðlega ráðstefnu kennara í vímuvörnum. Til ráðstefnunnar var boðað af Samtökum skólamanna um bindindisfræðslu fyrir hönd alþjóðasamtaka skólamanna um forvarnir (IVES) sem samdi við FRÆ um framkvæmd hennar. Dagskrá ráðstefnunnar, sem haldin var á Laugarvatni vikuna 16. – 22. júlí, var mjög fjölbreytt og sambland af fræðandi efni og skemmtun þar sem margir ráðstefnugestir höfðu með sér maka og börn. Fyrirlesarar voru allir íslenskir. Þátttakendur voru 90 frá tíu þjóðlöndum.

Snemma árs 1995 gerðist FRÆ aðili að samstarfsvettvangi opinberra stofnana og stjórnvalda á Norðurlöndum um vímuvarnir og skipulagði m.a. fund þessara aðila sem haldinn var í Reykjavík dagana 28. – 30. september 1995. Samstarfi á þessum vettvangi var hætt í árslok 1998.

Árið 2000 stofnuðu nokkur félagasamtök á Norðurlöndum samstarfsvettvanginn NordAN (Nordic Alcohol and Drug Policy Network) sem nú hefur um níutíu norræn félagasamtök og samtök í Eystrasaltsríkjunum þremur innan sinna vébanda. Þetta eru samtök sem starfa á ýmsum sviðum forvarna og beita sér fyrir áfengis- og vímuvarnastefnu sem hefur að markmiði að draga úr neyslu áfengis og annarra fíkniefna. Stjórn NordAN skipa fulltrúar allra Norðurlandana auk Færeyja og Eystrasaltsríkjanna.FRÆ gerðist formlegur aðili að NordAN vorið 2001 og hefur framkvæmdastjóri FRÆ setið þar í stjórn frá þeim tíma.

FRÆ og Samstarfsráð um forvarnir sáu um framkvæmd árlegrar ráðstefnu NordAN sem haldin var í Reykjavík dagana 12. – 14. október 2005. Ráðstefnan tókst í alla staði vel og er ein hin fjölmennasta sem NordAN hefur staðið að, en þátttakendur voru 132, 52 íslenskir og 80 erlendir.

Í tengslum við samstarfið við NordAN tók FRÆ þátt í sérstöku samstarfsverkefni NordAN, Noregs og Íslands við félagasamtök í Sankti Pétursborg í Rússlandi árið 2011. Markmið þess samstarfs var miðlun reynslu og gagnkvæm kynning á aðstæðum og forvarnastarfi Íslands, Noregs og Sankti Pétursborgar.

Dagana 21. og 22. mars 2011 komu til Íslands fjórir gestir í kynnisferð frá Sankti Pétursborg í Rússlandi í kynnisferð í þeim tilgangi að kynna sér hvernig Íslendingar byggja upp og sinna forvörnum almennt, en áhersla var á forvarnir meðal ungs fólks. FRÆ undirbjó komu hópsins hingað til lands, hafði samband við ýmsa aðila sem vinna að forvörnum og undirbjó heimsóknir til þeirra. Framkvæmdastjóri FRÆ tók saman fyrirlestur um samstarf félagasamtaka að forvörnum hér á landi og kynnti almennt fyrirkomulag forvarna á Íslandi. Framkvæmdastjóranum var svo boðið að sitja ráðstefnu í Saint Petersburg dagana 20. – 23. september 2011 og flutti þar fyrirlestur ásamt því að kynnast starfi ýmissa samtaka sem vinna þar að forvörnum.

Í tengslum við samstarfið við NordAN bauð velferðarráðuneytið Árna Einarssyni framkvæmdastjóra FRÆ að sitja ráðstefnu um vímuefni og áhrif hennar á heilsufar í Brussel dagana 16. – 18. maí 2011. Þátttakan var að fullu greidd af Evrópusambandinu en ráðstefnan var ætluð fólki sem tengist þessum málaflokki gegnum starf í frjálsum félagasamtökum eða forvarnar- og meðferðarverkefnum. Evrópuverkefnið People to People stóð að verkefninu.

Útgáfa og upplýsingastarf

Útgáfa hefur verið umfangsmikill þáttur í starfi FRÆ og kennir þar ýmissa grasa. Markmiðið með henni er þó eitt og hið sama; að koma upplýsingum á framfæri í fjölbreyttu formi.

…fréttabréf og vefsíða

Í febrúar 1994 kom út fyrsta tölublað af Fræinu, fréttabréfi miðstöðvarinnar. Nokkur slík komu út á næstu árum. Með opnun fjölþættrar vefsíðu um forvarnir og fíkniefnamál í ársbyrjun 1997 var þeirri útgáfu hætt. Á vefsíða FRÆ, www.forvarnir.is er aðgangur að viðamiklu gagna- og þekkingarsafni ásamt aðgengi að fréttatengdu efni og opinni umræðu um ávana- og fíkniefnamál. Ný og endurbætt vefsíða var svo opnuð 10. desember 2003 og í byrjun árs 2011 var tekið í notkun nýtt heimasíðuforrit og vistun gagna flutti um set. Vefsiðan og þróun hennar hefur aðallega verið í höndum Guðna Ragnars Björnssonar.

…Áhrif, tímarit um vímuefnamál og forvarnir

Útgáfa tímaritsins Áhrifa hófst árið 1994 og kom blaðið þá út í níu þúsund eintökum. Áhrif er vettvangur umfjöllunar um áfengis- og fíkniefnamál í víðu samhengi og ætlað að hvetja til umræðu um þau mál. Áhrif hafa unnið sér sess meðal þeirra sem vinna að áfengis- og vímuefnamálum og er víða notuð við fræðslu í grunn- og framhaldsskólum. Fjallað er um fjölþætt efni, s.s. rannsóknir, stefnumörkun, forvarnaverkefni og fréttir af forvarnamálum almennt.

Blaðið hefur komið út 1-2 sinnum á ári að fimm árum undanskildum. Tímaritinu er dreift til félagsfólks FRÆ, félagasamtaka og sent öllum sveitarstjórnum, alþingismönnum, grunn- og framhaldsskólum, lögregluembættum og ýmsum stofnunum og öllum bókasöfnum landsins. Blaðið er nú aðgengilegt á vefsíðu FRÆ og prentuðum eintökum fækkað fyrir vikið. Um tveggja ára skeið var því einnig dreift endurgjaldslaust á þjónustustöðvum Skeljungs á SV-horni landsins.

…Fíkniefni og forvarnir – handbók fyrir heimili og skóla

Árið 2001 gaf Fræðsla og forvarnir út bókina Fíkniefni og forvarnir – handbók fyrir heimili og skól í 8000 eintökum. Fíkniefni og forvarnir – handbók fyrir heimili og skóla er lang stærsta útgáfuverkefni FRÆ og eina rit sinnar tegundar á íslensku og einkum ætlað skólum og fræðslustofnunum, foreldrum og gagnasöfnum (bókasöfnum) af ýmsu tagi. Bókin er 320 síður, myndskreytt í stóru broti. Myndir eru eftir Önnu Gunnlaugsdóttur, myndlistarkonu. Þrjátíu íslenskir sérfræðingar í ávana- og fíkniefnamálum skrifuðu efni bókarinnar og heimildaskráin telur yfir þrjú hundruð heimildir.

Oddfellowreglan á Íslandi veitti útgáfunni 2 milljóna króna styrk í tilefni af 100 ára stofnafmæli reglunnar árið 1997 og forvarnasjóður styrkti útgáfuna árið 2000. Að öðru leyti var útgáfa ritsins fjármögnuð með styrkjum frá fyrirtækjum, félagasamtökum, stofnunum, sveitarfélögum og einstaklingum um allt land auk þess að vera seld í bókaverslunum.

Fíkniefni og forvarnir handbók fyrir heimili og skóla

var sett í sölu í bókaverslanir auk þess að vera fáanleg hjá FRÆ. Bókinni var einnig dreift til barna í viðkomandi fermingarárgöngum áranna 2002 og 2003 í mörgum sveitarfélögum í landinum, m.a. Reykjavík og Garðabæ með stuðningi sveitar- og bæjarstjórna og ýmissa samtaka, stofnana og fyrirtækja í viðkomandi sveitarfélögum. Bókin var einnig send öllum grunnskólum landsins þeim að kostnaðarlausu og fjölmargar stofnanir og félagasamtök keyptu bókina til ýmissa nota innan sinnan vébanda.

Auk þess að vera almennt upplýsingarit og mikilvægt hjálpartæki foreldrum og þeim fjölmörgu sem vinna að forvörnum hefur bókin verið notuð sem kennsluefni nokkrum deildum Háskóla Íslands og ýmsum framhaldsskólum. Þar var kafli um áhrif ávana- og fíkniefna á miðtaugakerfið eftir Þorkel Jóhannesson vinsælastur og var því sérprentaður til hægðarauka fyrir þessa aðila.

…FRÆ – viku- og forvarnarit

Á vormánuðum 2007 hóf FRÆ útgáfu á FRÆ – viku- og forvarnariti. Ritið kom að jafnaði út vikulega og var dreift ókeypis á 75 þúsund heimili á höfuðborgarsvæðinu. Efni blaðsins var sambland af skemmtiefni, sjónvarpsdagskrá, auglýsingum og forvarnatengdu efni. Frá 1. júní til 31. desember 2007 voru gefin út 27 tölublöð af FRÆ-vikuritinu (rúmlega 2 milljónir eintaka). Árið 2008 voru gefin út 10 tölublöð en útgáfunni var hætt í maí 2008. Ritstjórn og umsjón með útgáfunni voru á ábyrgð starfsmanna FRÆ.

Mörg samtök og félög sem vinna með málefni barna og ungmenna á Íslandi fengu fríbirtingar á greinar og augýsingar í þessum tölublöðum FRÆ ritsins en megin markmið útgáfunnar var að koma forvarnatengdri umfjöllun inná heimili landsmanna. Auk þess var stefnt að því með þessari útgáfu og útfæra frekari aðferðir FRÆ til fjáröflunar en hagnað af rekstri FRÆrits var ætlað að standa undir öðru forvarnastarfi miðstöðvarinnar.

Með þessu verkefni var brotið blað í sögu FRÆ en rekstur FRÆ-ritsins byggðist alfarið á sölu auglýsinga en önnur verkefnavinna í FRÆ hefur byggst á samstarfssamningum og styrkjum frá fjölmörgum stofnunum ríkis og sveitarfélaga auk styrkja frá fyrirtækjum.

Á árinu 2007 var lagt í stofnkostnað vegna útgáfu blaðsins. Útgáfan skilaði ekki því sem reiknað var með, auglýsingatekjur voru ekki nægar til þess að fá til baka stofnkostnað og standa undir kostnaði. Meginástæða fyrir þessu var sú að vinnubrögðum við auglýsingasöfnun var áfátt. Við það bættist efnahagshrunið í lok ársins 2008 sem gerði innheimtu útistandandi auglýsinga þunga. Innheimta auglýsinga þyngdist strax upp úr áramótum 2007-2008 og skilaði engu síðustu mánuði ársins. Útgáfan reyndist FRÆ því erfiður baggi þegar upp var staðið.

…fræðslumyndband um forvarnir – hvað getum við gert?

Árið 1997 gaf FRÆ út 25 mínútna fræðslumyndband um forvarnir. Fræðsluþættinum fylgdi bæklingur með upplýsingum um ýmsa aðila sem unnu að forvörnum. Þátturinn, sem unninn var í samstarfi ið dr. Sigrúnu Stefánsdóttur fjölmiðlafræðing, var svo sýndur í Sjónvarpinu 19. október 1997 en var einnig seldur til stofnana, fyrirtækja og samtaka.

…skýrsla um þróun fíkniefnamála

Skýrsla um þróun fíkniefnamála á tímabilinu 1986 – 1989 kom út í október 1998. Aldís Yngvadóttir var ráðin í hlutastarf frá 1. september 1997 til ársloka 1998 til þessa verks. Skýrslunni var dreift ókeypis til ráðuneyta og ríkisstofnana sem koma með einhverjum hætti að forvarnatengdum viðfangsefnum, svo og alþingismanna. Að öðru leyti var hún seld. Fyrirhugað var að gefa skýrsluna út á tveggja ára fresti og nota hluta af henni til þess að taka afmarkaða þætti forvarnamála fyrir hverju sinni og byggja þannig upp sögulegan þekkingargrunn í forvörnum.

Markmiðið með útgáfunni var að bæta úr brýnni þörf á upplýsingum og til þess að auðvelda þeim sem unnu að þeim málum heildarsýn í ávana- og vímuefnamálum á hverjum tíma.

Þegar Áfengis- og vímuefnaráð hóf að gefa út í skýrsluformi tölulegar upplýsingar um ávana- og vímuefnamál var ákveðið að hverfa frá þessari útgáfu. Áfengis- og vímuvarnaráð gaf einungis út skýrslur sínar um skamma hríð og engar samantektir í þessa veru hafa verið gefnar út um árabil.

…gagnasafn

Eitt af verkefnum upphafsáranna var að koma á laggirnar gagnasafni með því að draga saman eftir föngum innlend og erlend gögn, heimildir og upplýsingar um forvarnir og ávana- og vímuefnamál. Í því skyni að gera þessi gögn sem aðgengilegust voru þau efnisflokkuð árið 1995 og gerð aðgengileg til notkunar. Vinnuaðstaða hefur ávallt verið til reiðu í húsakynnum FRÆ til þess að vinna úr gögnunum. Um skeið var efni lánað út en því hætt vegna slakra endurheimta.

Árið 2000 lagði Lýðheilsustöð til vinnu við skráningu valinna gagna í bókasafnsforritið Feng sem er aðgengilegt víða um land, á flestum almenningsbókasöfnum og grunnskólasöfnum og um internetið. Bókasafnsfræðingur tók að sér sem BA- verkefni að efnistaka safnkost Áfengis- og vímuvarnaráðs og fékk FRÆ að fljóta með í verkinu.

Þeir sem einkum hafa nýtt sér gagnasafn FRÆ eru nemendur á öllum skólastigum og ýmsir sem unnið hafa að fyrirlestrum um ávana- og vímuefnamál og forvarnir. Síðustu ár hafa heimsóknir gesta til þess að nýta sér gögn í safninu nánast lagst af. Með auðveldu aðgengi að miklu magni gagna og upplýsinga á netinu hefur prentaður texti á pappír látið undan síga og þörfin fyrir gagnasafnið minnkað.

Samstarfsverkefni

Stöðvum unglingadrykkju – víðtækt samstarfsverkefni

FRÆ og Vímulaus æska hrundu af stað landsátaki vorið 1994 undir heitinu Stöðvum unglingadrykkju. Átakinu var upphaflega ætlað að standa yfir í eitt ár. Rúmlega 80 samtök, stofnanir og sveitarfélög stóðu að stofnun átaksins 11. maí 1994. Síðar bættust fleiri samstarfsaðilar í hópinn og urðu á endanum vel á annað hundrað. Átakinu var kjörin fimmtán manna stjórn á stofnfundinum en fimm manna framkvæmdastjórn fór með hið daglega starf. Valdimar Jóhannsson var ráðinn framkvæmdastjóri átaksins.

Markmið átaksins var að snúa við þeirri óheillaþróun sem ríkt hafði í áfengismálum barna og unglinga á Íslandi. Rannsóknir og kannanir bentu til stöðugrar fjölgunar ungra áfengisneytenda og aukinnar neyslu. Fyrsta verkefni átaksins var að stemma stigu við mikilli áfengisneyslu ungmenna á útihátíðum um verslunarmannahelgar. Haft var samband við sýslumenn og lögreglustjórna í umdæmum þar sem fyrirhugaðar voru skipulagðar útisamkomur um verslunarmannahelgi. Bent var á almennar reglur um hátíðahald af þessu tagi og skorað á viðkomandi yfirvöld að fylgja þeim eftir. Staðið var fyrir fjölmiðlaumræðu um drykkju unglinga á útihátíðum, gefnir út límmiðar og unnið með nokkrum skipuleggjendum útihátíða með það að markmiði að draga úr unglingadrykkju. Gefið var út blað í dagblaðsbroti sem dreift var til allra heimila í landinu og gefin út handbók fyrir foreldra sem send var foreldrum allra 12-14 ára barna í landinu þeim að kostnaðarlausu. Átakinu lauk formlega fyrri hluta árs 1996, tveimur árum frá því að það hófst.

Hvort sem það var fyrir tilverknað átaksins eða annarra þátta var það mat Lögreglunnar í Reykjavík ári eftir að verkefnið hófst að verulega hefði dregið úr landadrykkju ungmenna og yfirbragð þeirra tveggja útihátíða sem haldnar höfðu verið á tímabilinu hefði lagast, ekki síst vegna þess að eftirlitslausum ungmennum hefði fækkað.

Lífsýn – forvarnir og fræðsla

Lífsýn forvarnir og fræðsla er nafn á verkefni sem hófst árið 2006 undir nafninu Líf án áfengis. Liðir í verkefninu eru m.a. tónlistarsmiðja fyrir unglinga á aldrinum 10-17 ára, neyðarlína, fræðslufundir og heimasíða þar sem m.a. er fjallað um áhrif og skaðsemi áfengis og fíkniefna.

Tveimur árum seinna opnaði Lífsýn fræðslumiðstöð og býður þar upp á sjálfstyrkingarnámskeið fyrir ungmenni sem hafa orðið fyrir áfalli af einhverju tagi. Auk þess er boðið uppá hópavinnu, verkefni, samtöl, tómstundir og slökun fyrir börn og unglinga sem og fullorðna. Umfangsmesti þáttur starfsins sem snýr að börnum og unglingum á aldrinum 10-16 ára eru námskeið sem kallast TST (tómstundir, sjálfstyrking og tónlist). Á þessum námskeiðum fá ungmennin að þróa áhugasvið sín og vinna í sinni sjálfsmynd útfrá því.

Framkvæmdastjóri FRÆ hefur frá árinu 2011 komið að starfi Lífsýnar, forvarnir og fræðsla sem verklegur handleiðari í starfstengdri ráðgjöf.

Þróunarverkefni í leikskólum í Reykjavík

Vorið 2001 hóf FRÆ í samstarfi við Stefán Jóhannsson ráðgjafa samstarf við nokkra leikskóla í Reykjavík um þróun forvarnaverkefnis í leikskólum. Meginmarkmið verkefnisins var að að leggja drög að forvarnaáætlun í leikskólum og leita leiða til þess að mæta sértækum vanda barna vegna aðstæðna sinna, hegðunar eða lyndiseinkenna. Verkefnið byggði á því viðhorfi að mikilvægt sé að hefja forvarnir eins snemma og hægt er.

Forvarnaskólinn

FRÆ stóð upphaflega að stofnun Forvarnaskólans í samstarfi við Ráðgjafarskóla Íslands, en fyrsta námsönn hófst í janúar 2007 og fyrstu nemendur voru útskrifaðir vorið 2007. Árni Einarsson framkvæmdastjóri FRÆ hefur frá upphafi verið skólastjóri Forvarnaskólans og aðalkennari.

Forvarnaskólinn er nú alfarið rekinn undir merkjum FRÆ. Skólinn býður upp á nám fyrir þá sem vinna að forvörnum. Markmið Forvarnaskólans er að auka þekkingu þeirra sem starfa að forvörnum með því að bjóða upp á skipulagða og skilgreinda fræðslu fyrir þá sem starfað að eða hyggjast starfa við forvarnir, s.s. í sveitarfélögum, fyrirtækjum, skólum, félagasamtökum, æskulýðs- og íþróttastarfi, löggæslu, sálgæslu, félagsþjónustu og kirkjulegu starfi. Með náminu gefst kostur á að öðlast yfirsýn um forvarnir á stuttum tíma.

Samstarfsráð um forvarnir (SAMFO)

FRÆ hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á að virkja félagasamtök, grasrótina, í forvörnum. Um það vitna ýmis verkefni, s.s. Stöðvum unglingadrykkju og stofnun Samstarfsráðs um forvarnir. Líka tekið þátt í norrænu samstarfi félagasamtaka eftir mætti. Sú sýn nýtur nú almennrar viðurkenningar og mikilvægi þátttöku félagasamtaka í heilsueflingu og forvörnum viðurkennt.

FRÆ stóð fyrir því að starfandi bindindissamtök á Íslandi stofnuðu Samstarfsráð um forvarnir árið 2003. Sambærilegan vettvang er að finna á öllum hinum Norðurlöndunum. Samið var við FRÆ um umsjón með verkefnum á vegum Samstarfsráðsins, umsjón með bókhaldi og fjárreiðum, undirbúningi verkefna og úrvinnslu ákvarðana stjórnarfunda

Árið 2004 gerði Samstarfsráðið samning við þrjú ráðuneyti um verkefni á sviði vímuvarna. Samningurinn var til þriggja ára og var svo framlengdur til eins árs árin 2007- 2010. Árið 2011 var samningurinn enn á ný framlengdur til eins árs, en þá einungis við velferðarráðuneytið.

Eitt af verkefnunum í samningi velferðarráðuneytisins og Samfo var að standa fyrir málþingi haustið 2011 meðal félagasamtaka í landinu sem vinna að áfengis- og vímuvörnum. Efni málþingsins skyldi vera framtíðarskiplag forvarnastarfs og samhæfing á því afli sem býr í félagasamtökum á vettvangi forvarnastarfs í landinu.

Til þess málþings var boðað 11. nóvember 2011. Í lok þess var skipaður þriggja manna starfshópur til þess að vinna úr niðurstöðum umræðna og hópastarfs á þinginu og setja fram hugmyndir og drög að samstarfsvettvangi félagasamtaka í forvörnum.

Starfshópurinn lauk verki sínu 15. desember og sendi félagasamtökunum drög að nýrri samþykkt og reglum fyrir Samstarfsráð um forvarnir. 9. febrúar 2012 samþykktu svo rúmlega tuttugu félagsamtök aðild að nýju og breyttu Samstarfsráði um forvarnir.

Mörg verkefni hafa orðið til fyrir tilverknað Samstarfsráðsins og hefur áhersla m.a. verið lögð á að afla forvörnum fylgi, bæði meðal annarra félagasamtaka og stjórnmálamanna. Einnig á verkefni sem hafa að markmiði að vekja athygli almennings á ýmsum áhrifum áfengis- og vímuefnaneyslu á einstaklinga, fjölskyldur og samfélag. Meðal verkefna eru Vímuvarnavikan sem haldin hefur verið árlega í 43. viku ársins frá árinu 2004; verkefnið Ég ætla að bíða og fræðsluverkefnið Bara gras? um skaðsemi kannabis sem hófst 2009.

Náum áttum

Náum áttum er fræðslu- og forvarnahópur samtaka, stofnana og áhugafólks um forvarna- og uppeldismál sem skipuleggur mánaðarlega morgunverðarfundi um ýmis mál er varða forvarnir og velferð barna og ungmenna. FRÆ kom inn í samstarfið árið 2005. Hugmyndin að stofnun hópsins varð til innan verkefnisins Ísland án eiturlyfja 2002 og fyrstu fundirnir voru haldnir árið 2000 en þá var mikil umræða um eiturlyf og forvarnir. FRÆ hefur frá upphafi átt aðild að Náum áttum og tekið virkan þátt í starfi hans. Fundir Náum áttum skipta nú orðið tugum, fyrirlestrar hátt í þrjúhundruð og þátttakendur verið að meðaltali 70 – 80, eða vel á sjötta þúsund frá stofnun hópsins.

SAMAN hópurinn

SAMAN er samstarfsverkefni fjölmargra stofnana og samtaka sem vinna að velferð barna og unglinga. Hlutverk hópsins er að hvetja fjölskylduna til að vera saman á tímamótum með það að markmiði að draga úr vímuefnaneyslu barna og unglinga.

BRAUTIN – bindindisfélag ökumanna

Brautin, bindindisfélag ökumanna er félag sem hefur það að markmiði að draga úr neyslu áfengis og auka umferðaröryggi. FRÆ hefur tekið að sér ýmis fræðslu- og upplýsingaverkefni fyrir félagið. Brautin á einnig aðild að útgáfu Áhrifa og hefur tekið þátt í ýmsum verkefnum FRÆ, s.s. upplýsingaátaki um jól og áramót.

IOGT á Íslandi

FRÆ hefur starfað með IOGT á Íslandi með ýmsum hætti. Sem dæmi um afmörkuð verkefni má nefna að FRÆ og IOGT gerðu með sér samkomulag um útgáfu eins tölublaðs af unglingablaðinu Smelli árið 2006. Smelli var dreift ókeypis til allra unglinga á aldrinum 13-15 ára í gegnum grunnskóla. Heildarupplag blaðsins var 12.500 eintök. Fjárhagslega var gert ráð fyrir að blaðið stæði undir sér með auglýsingatekjum. IOGT heimilaði FRÆ að nota nafn blaðsins til að fjármagna útgáfuna. FRÆ annaðist því útgáfu blaðsins í umboði IOGT sem var útgefandi blaðsins. Halldóra Sigurðardóttir var ráðin tímabundið til þess að ritstýra Smelli. Aðeins komu út tvö tölublöð þar sem kostun blaðanna gekk treglega í mikilli samkeppni á auglýsingamarkaði.

Hliðstæður samningur var gerður um útgáfu hins sögufræga barnablaðs Æskuna, en útgáfa þess hafði legið niðri um skeið, og fyrirhugað að dreifa því ókeypis til þriggja árganga í efstu bekkjum grunnskóla. Ekki tókst að finna rekstrargrundvöll fyrir útgáfunni og kom því einungis út eitt tölublað.

Af öðrum verkefnum má nefna að haustið 2007 vann FRÆ að sérstöku upplýsinga- og hvatningaverkefni fyrir IOGT undir kjörorðinu „gömlu gildin“ þar sem vakin var athygli á skoðunum IOGT um stefnumörkun í áfengismálum. Gerðar voru heilsíðuauglýsingar, birtar greinar um áhrif þess að leyfa sölu áfengra drykkja í matvöruverslunum og heimasíða IOGT www.iogt.is uppfærð að þessu sama verkefni.

Haustið 2009 var blásið nýju lífi í 3. október sem alþjóðlegan dag bindindissamtaka og gerði IOGT daginn að upphafsdegi vetrarstarfs síns og blásið var til hátíðar í Vinabæ af því tilefni. Árið 2010 stóð IOGT fyrir verkefni meðal skólaforeldra og tók FRÆ þátt í þróunarvinnu og aðlögun fræðslu- og kynningarefnis. Auglýsingaverkefni IOGT „Ökum edrú“ vakti töluverða athygli sumarið 2010 en FRÆ kom að hönnun þess og kynningu.

Krabbameinsfélag Reykjavíkur

Starfsmenn KR og FRÆ hittast reglulega, m.a. á formlegum samstarfsfundum tvisvar á ári, kynna verkefni sín og ræða stöðu og þróun í tóbaks-, áfengis- og vímuvörnum. Fyrstu árin var samtarfið sérstaklega náið vegna samtarfsins í tóbaksvörnum sem sagt er frá hér á undan.

Vímulaus æska

Mikil samskipti hafa verið við VÆ í gegnum tíðina, einkum fyrstu árin. Samstarfið hélt áfram þrátt fyrir að VÆ hyrfi frá starfrækslu miðstöðvarinnar og stofnaði Foreldrahús.

Lýðheilsustöð og embætti landlæknis

Lýðheilsustöð tók til starfa 1. júlí 2003. Henni var ætlað að efla og samræma lýðheilsustarf í landinu, efla kennslu og rannsókir á sviði lýðheilsu, vinna að lýðheilsuverkefnum á eigin vegum og í samvinnu við aðra sem og að byggja upp þekkingarsetur allra landsmanna, fagfólks jafnt sem almennings, á þessu sviði. Einnig vera stjórnvöldum til ráðgjafar um stefnumótun á sviði lýðheilsu, taka þátt í alþjóðlegu samstarfi og vera í tengslum við aðra sem starfa á sviði lýðheilsu. Lýðheilsustöð var lögð niður 1. maí 2011 og verkefni hennar færð til Embætti landlæknis,

FRÆ tengdist Lýðheilsustöð með ýmsum hætti og átti við hana samstarf um ýmis verkefni. Þau tengsl fluttust svo að nokkru marki yfir á Embætti landlæknis. Meðal formlegra samstarfsverkefna var gerð og kynning á námsefni um ávana- og vímuefni fyrir grunnskóla árið 2008 og uppfærsla þess árið 2012.

Verkefnisstjóri áfengis- og vímuvarna hjá Lýðheilsustöð/Landlæknisembættinu og starfsfólk FRÆ hefur um árabil fundað reglulega til þess að ræða stöðu og þróun ávana- og vímuefnamála og skiptast á skoðunum um forvarnir.

Íþrótta- og æskulýðsstarf

FRÆ hefur átt í ýmiss konar samstarfi við íþróttahreyfinguna, s.s. með ráðgjöf og þátttöku í gerð fræðsluefnis, m.a. um áhrif áfengis á árangur í íþróttum og íþróttaiðkun. Samstarf hefur einnig verið við félagsmiðstöðvar. Skólaárið 1995-1996 áttu FRÆ og félagsmiðstöðvar í Reykjavík t.d. samstarf um fræðslu og þjálfun ungmenna. Í félagsmiðstöðinn í Bústöðum var m.a. haldin ráðstefna fyrir ungmenna. Um 30 þátttakendur úr í 8., 9., og 10. bekkjum grunnskóla komu saman í einn dag til þess að fræðast um fíkniefnamál og gerast leiðbeinendur í jafningjafræðslu grunnskólanema.

Sitt lítið af hverju…

…verslunarmannahelgar, jól og áramót

Ýmsir viðburðir í samfélaginu eru öðrum líklegir til neyslu áfengis og auka þar með líkur á ýmsum áföllum. Slíkir viðburðir eru t.d. verslunarmannahelgar með útihátíðum og mikilli umferð og aðventa og jól. FRÆ hóf strax árið 1996 að beina kastljósi að þessum viðburðum sérstaklega. FRÆ, Vímulaus æska og Íslenskir ungtemplarar stóðu saman að átaki fyrir verslunarmannahelgina 1996 undir heitinu Fimm ráð til foreldra gegn fíkniefnum – líf barnsins er í húfi. Átakið fólst í því að birtar voru auglýsignar í blöðum þar sem foreldrum var bent á að margir unglingar byrja að neyta vímuefna í skjóli útihátíða. Einnig var dagblöðum send fréttatilkynning sama efnis. Verkefnið var endurtekið um verslunarmannahelgi 1998 en frá þeim tíma hefur FRÆ staðið að forvarnaverkefnum um verslunarmannahelgar, ýmis eitt eða í samstarfi við aðra.

…óáfengt

Á árinu 2004 hleypti Brautin – bindindisfélag ökumanna af stokkunum verkefni til þess að vekja athygli á óáfengum drykkjum í samstarfi við Samstarfsráð um forvarnir, FRÆ og Samtök ferðaþjónustunnar. Félagið fékk þá styrk úr Forvarnasjóði til þess að vinna verkefnið en að auki lögðu ýmsir aðilar verkefninu lið. Lögð var áhersla á að góður gestgjafi kappkosti að veita gestum sínum vel og að þeir njóti veitinganna sem fram eru bornar. Þeir sem ekki drekka áfengi vilji ljúffenga óáfenga drykki, fallega framborna. Í verkefninu var sjónum einkum beint að jólum og áramótum. Samstarfsráðið tók síðan verkefnið yfir, en síðust ár hefur FRÆ séð um það.

Árlega hafa fagmenn verið fengnir til þess að setja saman óáfengan hátíðardrykk sem hefur verið kynntur með ýmsum hætti, s.s. gefa uppskriftirnar út og senda til veitingahúsa og ýmissa annarra aðila auk dreifingar í stórmörkuðum. Einnig með kynningu í fjölmiðlum og auglýsingum.

Árið 2010 var sett upp heimasíðan www.oafengt.is þar sem birtar eru yfir 100 óáfengar uppskriftir auk annars ítarefnis um gildi þess að gera vel við þá sem velja óáfengar uppskriftir og þær gerðar aðgengilegar með því að flokka þær með ýmsum hætti eftir tækifærum sem við eiga, s.s. hvaða uppskriftir/óáfengir drykkir eiga við með mismunandi réttum.

…hlaupið fyrir forvarnir

Bryddað hefur verið upp á ýmsu til þess að vekja athygli á forvörnum og ávana- og vímuefnmálum á 20 ára starfstíma FRÆ. Laugardaginn 16. júlí 1994 stóðu FRÆ og Vímulaus æska fyrir fjölskylduhlaupi í Reykjavík undir nafninu FRÆ-hlaup. Hlaupið var liður í verkefninu Stöðvum unglingadrykkju sem hrint var af stað skömmu áður. Lögð var áherslu á þátttöku en ekki keppni. Hlaupnar voru tvær vegalengdir: 3 km og 6 km. Mörg fyrirtæki styrktu hlauðið sem um 250 manns tóku þátt í. Sama mánaðardag árið eftir var á ný efnt til FRÆ-hlaups. Þá tóku 115 þátt í hlaupinu. Þann 13. júlí árið 1996 var enn efnt til FRÆ-hlaups. Þá mættu 80 hlauparar á öllum aldri. Markmiðið með hlaupinu var sem fyrr að vekja athygli á vímvörnum og leggja áherslu á mikilvægi barna og foreldra. Umsjón með hlaupinu hafði Bryndís Svavarsdóttir.

…rokk gegn ruglinu

Þriðjudaginn 30. nóvember 1993 stóð FRÆ að tónleikum fyrir ungt fólk á aldrinum 16-18 ára á Hótel Ísland í samvinnu við ÍTR, Bylguna og DV undir yfirskriftinni Rokk gegn ruglinu. Samstarfið var þannig að FRÆ sá um undirbúning og framkvæmd, ÍTR lagði til heimakstur tónleikagesta með strætisvögnum og Bylgjan og DV lögðu til auglýsingar og kynningu á tónleikunum. Hljómsveitir voru ekki af verri endanum, Pís og keik, Jet Black Joe, SSSól og Pláhnetan. Aðsóknin var hins vegar minni en reiknað var með og varð verulegur halli á tiltækinu þegar upp var staðið.

…ráðgjöf og verkefnastjórnun

Frá upphafi hefur FRÆ boðið upp á forvarnaráðgjöf fyrir skóla og sveitarfélög, bæði við stefnumörkun og framkvæmd afmarkaðra verkefna. Mikið hefur verið leitað til FRÆ eftir upplýsingum, einkum fyrstu árin. Þegar frá leið bættist á verkefnalistann ráðgjöf og leiðsögn til háskólanema vegna verkefnavinnu og í nokkrum tilfellum handleiðsla vegna vinnslu lokaverkefna.

…fyrirlestrar og greinaskrif

Fyrirlestrahald, auk fyrirlestra í grunn- og framhaldsskólum, hefur alla tíð verið ríkur þáttur í starfi FRÆ og listinn þar langur. Fyrirlestrahald í Háskóla Íslands og fyrr á árum Kennaraháskóla Íslands hafa verið fastur liður svo og fyrirlestrar á fundum með foreldrum. Fyrirlestrar á ýmsum ráðstefnum, innlendum og erlendum, eru fjölmargir og tilefnin fjölbreytt. Sem dæmi um þessa fjölbreytni má nefna að framkvæmdastjóri FRÆ hélt fræðslufund fyrir alla unga starfsmenn Domino‘s á Íslandi á Hótel Íslandi 6. febrúar 1996 og dagana 12. – 20. júní sama ár fór hann í allar sjö virkjanir Landsvirkjunar og hélt námskeið fyrir alla starfsmenn á aldrinum 16-22 ára, 250 að tölu. Starfsfólk FRÆ hefur einnig um árabil komið með fræðslu inn í fermingarundirbúning og fastur liður í starfinu hefur verið greinaskrif í tímarit og dagblöð og þátttaka í umræðum í fjölmiðlum.

Vímuvarnir á villigötum? Afmælisráðstefna FRÆ 5. og 6. nóvember 1998.

FRÆ fagnaði fimm ára starfsafmæli með því að bjóða til ráðstefnu um forvarnamál. Markmið ráðstefnunnar, auk þess að minnast fimm ára starfsafmælis FRÆ, var að skapa umræðu um forvarnir; varpa ljósi á það sem ekki virtist hafa tekist í forvörnum og spyrja ögrandi og uppbyggjandi spurninga um forvarnir, s.s. þeirri hvort fúsk og ófagleg vinnubrögð viðgengjust í forvörnum. Einnig var spurt hvaða möguleika samfélagið hefði í vímuvörnum og hvort þeir möguleikar sem væru augljóslega fyrir hendi væru nýttir. Er einhver týndur hlekkur í keðjunni? var spurt. En ekki síst var sjónum beint að framtíðinni og fjallað um nýjustu strauma og stefnur í forvörnum, undangenginni þróun og hvaða leiðir líklegastar væru til árangurs.

Aðalfyrirlesarar á ráðstefnunni voru Gail Gleason Milgram og Thomas Griffin. Milgram var prófessor við Rutgers háskólann í New Jersey og veitti forstöðu hinni þekktu rannsóknar- og kennsludeild háskólans um áfengis- og fíkniefnaneyslu, forvarnir og meðferð og átti þá að baki um 30 ára starf við rannsóknir og kennslu um forvarnir. Griffin hafði starfað við skipulag og kennslu í 26 ár og var forstjóri Minnesota Institute of Public Health.

Í opnunarávarpi sínu á ráðstefnunni sagði Árni Einarsson framkvæmdastjóri FRÆ m.a.: ,,Í titli ráðstefnunnar felst enginn dómur yfir því sem gert er í forvörnum nú. Í honum felst fyrst og fremst áminning um nauðsyn gagnrýninnar umfjöllunar bæði út á við og inn á við. Með blindri sjálfhælni stöndum við í vegi fyrir nauðsynlegri þróun í vímuvörnum. Verðum uppteknari af umbúðunum en innihaldinu. Þess vegna verðum við að geta skoðað og rætt af hreinskilni um það sem við gerum hverju sinni. Á þann hátt stuðlum við að betri árangri. Á hverjum tíma verðum við að geta litið í eigin barm og spurt okkur hvort það sem við erum að gera í vímuvörnum skili árangri, hvort að við séum á réttri leið eða villigötum. Þessi ráðstefna er tilraun í þá veru og þótt annað væri ekki, að undirstrika nauðsyn slíkrar hugsunar í vímuvörnum.“

Á vaktinni í 20 ár

Þessi stutta samantekt úr starfsemi FRÆ sýnir að víða hefur verið komið við á fyrstu tuttugu árum í starfi miðstöðvarinnar og ekki að sjá að föst stöðugildi hafa aldrei náð því að vera tvö. Fjölbreytni í verkefnavali og leiðum hefur verið einkennandi fyrir starf miðstöðvarinnar. Sérstök áhersla hefur verið lögð á frumkvæði, nýbreytni og samstarf. Framkvæmdafé hefur oftar en ekki verið af skornum skammti en fyrir elju starfsmanna og góðan stuðningi fjölda velunnara hefur tekist að halda starfinu gangandi öll þessi ár og tryggja að FRÆ hefur verið einn af burðarásunum í þróun og framkvæmd forvarna á Íslandi síðustu tvo áratugi.

Sé litið til þróunar síðustu ára á Íslandi geta þeir sem vinna að forvörnum í sjálfu sér borið höfuðið hátt. Jafnt og þétt hefur dregið úr reykingum og áfengis- og vímuefnaneysla ungmenna hefur minnkað ár frá ári. Enn virðist ríkja almenn sátt um grundvallaratriði í áfengisvörnum, s.s. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og að ekki verði leyft að selja áfengi í almennum matvöruverslunum; 20 ára aldursmörk til áfengiskaupa og það meginviðmið að fresta upphafi áfengisneyslu sem lengst; mikill meirihluti styður auglýsingabann á áfengi þótt farið sé í kringum það vegna veikleika í áfengislögunum og mikill meirihluti þjóðarinnar er því alfarið andvígur að leyfa innflutning, sölu og dreifingu kannabisefna, svo nokkrir mikilvægir þættir séu nefndir. Almennur skilningur er ríkjandi á mikilvægi forvarna og samstarf félagasamtaka undir formerkjum Samstarfsráðs um forvarnir styrkir án efa forvarnir innan þeirra í sessi.

Markmiðin í forvörnum og forsendur, þörfin fyrir forvarnir, eru sígild.Við þurfum hins vegar stöðugt að velta því fyrir okkur hvort tækin, eða aðferðirnar, sem við notum standist tímans tönn og séu í takt við þær samfélagsbreytingar sem verða. Það er hið stöðuga viðfangsefni forvarnafólks og verður að vera svo hægt sé að nota bestu verkfærin á hverjum tíma. Við þá vinnu þarf hugrekki, hugrekki til þess að sleppa því sem maður hefur og þekkir og grípa í eitthvað sem maður veit ekki fyrir vist hvert leiðir mann. Það þarf hugrekki til þess að ganga á vit óvissunnar. Það hugrekki hefur FRÆ sýnt.

Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.