Vandi vegna neyslu ávana- og vímuefna getur verið afar þungbær, bæði þeim sem nota efnin, fjölskyldum þeirra og öllu samfélaginu. Af þeim sökum þarf að liggja skýrt fyrir hvort, hvernig og hvaða áhrif aðgerðir í ávana- og vímuefnamálum hafa til að mynda á fjölda dauðsfalla, ofbeldi, slys, langvinna sjúkdóma og töpuð góð æviár sem tengd eru við neyslu þessara efna. Það verður nánast að líta á það sem skyldu stjórnvalda að meta til að mynda áhrif lagabreytinga eða annarra stefnumarkandi aðgerða, hvort heldur þær eru á forræði þingsins eða ríkisstjórnar.

Ein mikilvægasta aðgerðin til að draga úr skaðlegum áhrifum og vandamálum tengdum áfengisdrykkju er að takmarka aðgengi að áfengi. Rannsóknir segja okkur að það sama gildi um önnur ávana- og vímuefni.

Það er því ekki að ófyrirsynju að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) leggi áherslu á að markvisst sé unnið að því að draga úr áfengisdrykkju og setur fram það markmið að aðildarríkin stefni að því að árið 2030 verði áfengisdrykkja orðin 20% minni (meðal íbúa 15 ára og eldri) en hún var árið 2010.

Í ljósi þess að heilsufarslegur og samfélagslegur vandi vegna ávana- og vímuefnaneyslu er umtalsverður er afar brýnt að vandað sé til verka við allar breytingar sem gerðar eru í málaflokknum; það verður að vera ljóst að markmiðin með breytingunum séu skýr og að ætla megi að þær nái þeim markmiðum sem að er stefnt.

Það verður einnig að liggja fyrir að hugsanleg önnur áhrif breytinganna valdi ekki skaða, sem jafnvel er meiri og verri en sá sem þeim er ætlað að leysa. Það er hlutverk stjórnvalda að standa vörð um heilsu og líðan íbúanna í samfélaginu við stefnumótun og stjórnsýsluákvarðanir og byggja þær á traustri þekkingu.

Það er opinber stefna íslenskra stjórnvalda, að minnsta kosti í orði kveðnu, að takmarka aðgengi að ávana- og vímuefnum. Í desember árið 2013 settu íslensk stjórnvöld sér, til að mynda, stefnu í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020 sem tekur til forvarna, meðferðarúrræða, eftirfylgni meðferðar og endurhæfingar auk lagaumhverfis. Í henni er vísað til þess að stefnan sem þar er sett fram endurspegli alþjóðlegar áherslur og alþjóðlegar skuldbindingar um stefnumótun um málefnið. Þótt gildistími þessarar stefnu sé formlega liðinn verður að líta svo á að á meðan ekki komi önnur í staðinn eða hún uppfærð með einhverjum hætti sé hún grundvöllur ákvarðana og aðgerða stjórnvalda.

Það er því vægast sagt, í ljósi þess sem sagt er hér á undan, sérstakt að ákvarðanir fulltrúa þjóðarinnar á alþingi og í ríkisstjórn miði fyrst og fremst að því að auka aðgengi að áfengi og jafnvel öðrum vímuefnum. Tóbaksvörur hafa þó notið nokkurrar sérstöðu hvað þetta varðar, þótt hægagangur í lagasetningu á nýjum nikótínvörum sem hafa hellst yfir hafi valdið tjóni sem ekki er séð fyrir endann á.

Íslendingar hafa náð frábærum árangri hvað varðar ávana- og vímuefnaneyslu ungmenna og almenn samstaða ríkt um að taka hana alvarlega og sporna gegn henni eins og hægt er. Þessi góði árangur byggist meðal annars á þeirri stefnu sem fylgt hefur verið á Íslandi hvað varðar aðgengi að og framboð á ávana- og vímuefnum. Stjórnvöld, sem hafa mótun stefnunnar í ávana- og vímuefnamálum í hendi sér, þurfa að gera sér ljósa grein fyrir mikilvægi vandaðrar og heildstæðrar stefnumörkunar í þessum góða árangri.

Árni Einarsson, framkvæmdastjóri FRÆ

Úr ársskýrslu FRÆ 2022

Við værum þakklát ef þú deilir þessari frétt ...

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar