Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður og formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra, og Ingibjörg Ísaksen þingflokksformaður flokksins, hafa lagt fram þrjár fyrirspurnir til núverandi fjármála- og efnahagsráðherra, um sölu áfengis með tilliti til skatta- og tollalaga, eftirlit ráðuneytisins með sölu áfengis og hvort stefnt sé að því að leggja ÁTVR niður.
Sigurður Ingi lagði fram eftirfarandi fyrirspurn á Alþingi 3. mars síðastliðinn til eftirmanns síns í ráðuneytinu og óskar skriflegs svars:
1. Telur ráðherra að allur innflutningur og sala áfengis standist skatta- og tollalög?
2. Hvað hefur verið gert í ráðuneytinu á undanförnum fimm árum, á grundvelli skatta- og tollalaga, til að hafa eftirlit með því að innflutningur og sala áfengis fari fram með löglegum hætti?
3. Hver hefur þróun á heildarinnflutningi áfengis verið ár hvert sl. tíu ár? Svar óskast sundurliðað eftir magni sem hefur farið til hvers flokks viðtakenda, þ.e. til ÁTVR, til smásala og til annarra, t.d. netsala.
Í greinargerð sem fylgir fyrirspurninni segir: Í nýrri skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar segir að áfengisneysla Norðurlandaþjóðanna, þar sem áfengissala er ríkisrekin, sé að meðaltali mun minni en hjá Evrópuþjóðum þar sem hún er frjáls, eða 7–8 lítrar á hvern íbúa 15 ára og eldri hjá Norðurlandaþjóðunum á móti 11 lítrum hjá samanburðarþjóðum. Í því ljósi er fyrirspurnin lögð fram.
Ingibjörg Ísaksen, lagði fram fyrirspurn 13. mars, einnig til fjármála- og efnahagsráðherra, þar sem spurt er um framtíð ÁTVR. Hún spyr og óskast skriflegs svars:
- Stendur til að leggja niður ÁTVR sem starfar m.a. á grundvelli lýðheilsu, samfélagslegrar ábyrgðar og þess að vernda ungt fólk skv. 2. gr. laga um verslun með áfengi og tóbak, nr. 86/2011? Ef svo er, hefur farið fram lýðheilsumat á slíkri niðurlagningu?
- Ef til stendur að leggja niður ÁTVR, hvenær má ætla að það verði gert?
Í annarri fyrirspurn sama dag til fjármála- og efnahagsráðherra spyr Ingibjörg að auki:
1. Stendur til að færa út á markað til einkaaðila hluta af þeim vörum sem ÁTVR selur nú og draga þannig úr vöruúrvali og hlutverki ÁTVR?
2. Ef svo er, hvenær má ætla að það verði gert?