Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um um innleiðingu lýðheilsumats í íslenska löggjöf. Jóhann Friðrik hefur áður lagt fram hliðstæðar tillögur í þinginu, en þær ekki hlotið brautargengi. Er það miður, því hér er á ferðinni afar brýnt verkfæri stjórnsýslunnar til þess að ,,… meta bein og óbein áhrif stjórnsýsluákvarðana og lagasetningar á lýðheilsu“, eins og segir í tillögunni.
Í henni segir einnig: ,, Með innleiðingu lýðheilsumats skuli leitast við að tryggja að ákvarðanir stjórnvalda byggist á vandaðri og heildstæðri greiningu á heilsufarslegum áhrifum þeirra. Markmið þessa verði að tryggja að stjórnarfrumvörp sem lögð eru fyrir Alþingi verði metin miðað við áhrif þeirra á heilsu þjóðarinnar.“
Í tillögunni felst að Alþingi feli heilbrigðisráðherra að ljúka vinnu við innleiðingu lýðheilsumats í íslenska löggjöf. Stefnt skuli að því að lýðheilsumat verði fastur hluti af stjórnsýsluferlum til að stuðla að bættri heilsu og vellíðan landsmanna. Til að ná þessum markmiðum skuli ráðherra skipa sérfræðihóp fulltrúa frá fagráðuneytum, fræðasamfélagi, sveitarfélögum og embætti landlæknis. Sérfræðihópurinn leggi til aðferðir sem tryggi áhrifaríkt mat á heilsufarslegum áhrifum stjórnarfrumvarpa. Sérfræðihópurinn skili stöðuskýrslu sem kynnt verði Alþingi eigi síðar en 1. janúar 2026.
Sjá tillöguna hér.