Frumvarp um félög til almannaheilla varð loksins að lögum fyrir þinglok fyrr í þessum mánuði. Breiður stuðningur var við frumvarpið. Með þessum lögum verða félagasamtök til almannaheilla aðgreind frá öðrum félagasamtökum, sérstaða þeirra skilgreind og þau skráð sérstaklega hjá fyrirtækjaskrá. Yfirsýn um starfsemi þeirra mun þar af leiðandi batna til muna sem stuðla mun að almennu trausti í þeirra garð, þeirra á milli og gagnvart stjórnvöldum. Þau fela einnig í sér hagnýtar leiðbeiningar um stofnun og rekstur almannaheillafélaga þar sem vandaðir stjórnarhættir, lýðræðisleg vinnubrögð og ábyrgur rekstur eru höfð að leiðarljósi.

Félagasamtök gegna veigamiklu og mikilvægu hlutverki til viðhalds og eflingar virku lýðræði og eru nauðsynlegur farvegur nýrra hugmynda, umbóta og samfélagsrýni. Þau hafa með höndum fjölþætt og umfangsmikil verkefni í þágu lands og lýðs og starfa á mörgum sviðum samhliða opinberum aðilum, ríki og sveitarfélögum. Mörg þeirra (jafnvel flest) fá greiðslur eða styrki af ýmsum toga frá ríki og sveitarfélögum til þess að sinna almannaheillastarfi og/eða eru í samstarfi við stjórnvöld um slíkt starf. Af því leiða ýmis fjármálaleg samskipti hins opinbera og félagasamtaka.

Það er því í þágu beggja að fyrir hendi séu viðmið um góða stjórnarhætti og reglur um lágmarksskilyrði um uppbyggingu almannaheillasamtaka og lykilþætti í rekstri, s.s. bókhald, ársreikninga, skuldbindingarhæfi, ábyrgð stjórnar á fjárreiðum, skaðabótaábyrgð og vanhæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra.

Við værum þakklát ef þú deilir þessari frétt ...

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar