Fulltrúar Breiðfylkingar forvarnasamtaka áttu í fyrradag (5. mars 2025) góðan og upplýsandi fund með Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, ásamt fulltrúum frá ákærusviði embættisins, um stöðu kæru sem ÁTVR lagði fram á hendur aðilum sem selja áfengi í smásölu og afhenda neytendum beint af lager sem er á Íslandi, fyrir tæpum 5 árum, eða þann 16. júní 2020.

Í bréfi samtakanna frá 14. febrúar síðastliðnum, þar sem óskað er eftir fundi með Höllu Bergþóru, segir meðal annars: Að mati samtakanna er afar óeðlilegt hve langan tíma hefur tekið að fá niðurstöðu varðandi kæruna. Brátt er hálfur áratugur liðinn frá kæru. Teljum við óboðlegt að embætti þitt taki svo langan tíma í að komast að niðurstöðu. Á meðan spretta upp æ fleiri netsölur og enginn gerir neitt. Í stað þess að aðhafast er einungis bent á að málið sé í höndum lögreglu. Þannig er málið ,,fryst” í mörg ár.“

Á fundinum viðurkenndi Halla Bergþóra að óheppilegt væri að dregist hefði á langinn að ljúka málinu af hálfu embættisins. Nefndi hún ýmsar ástæður fyrir því. Rannsókn málsins væri lokið og málið til meðferðar á ákærusviði. Margt þyrfti að skoða, en þess væri skammt að bíða að niðurstaða lægi fyrir.

Fulltrúar samtakanna fögnuðu því að niðurstaða málsins væri í sjónmáli og upplýstu að 16. júní væri fyrirhugað málþing þar sem meðal annars yrði farið yfir sögu og þróun ólöglegrar netverslunar áfengis í landinu, eins og fram kemur í grein Árna Guðmundssonar, formanns Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum, á visir.is. Þar segir meðal annars:

Þann 16. júní í ár verða liðin fimm ár frá því að kæran var lögð fram. Vonandi verður búið að gefa út ákæru fyrir þann tíma og rannsókn málsins lokið. En ef ekki þá er dagurinn okkur þörf áminning um mikilvægi þess að stjórnsýslan í landinu virki sem skildi. Af því tilefni munu Breiðfylking forvarnasamtaka, samtökin eru Fræðsla og forvarnir – félag áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu, Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum, IOGT á Íslandi og SAFF-Samstarf félagasamtaka í forvörnum, standa fyrir málþingi undir yfirskriftinni Lýðheilsa og áfengi. Þar verður meðal annars farið yfir skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar Norrænu áfengiseinkasölurnar: mikilvægi hlutverks þeirra í heildstæðri áfengisstefnu og bættri lýðheilsu, sem gefin var út 3. febrúar sl. og fleira þessu tengt.

Hér að neðan er bréf forvarnasamtakanna til lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, 14. febrúar 2025.

Sæl Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins!

Í gær var meðfylgjandi fréttatilkynning send fjölmiðlum, alþingismönnum og ráðuneytum í nafni breiðfylkingar forvarnarsamtaka sem láta sig lýðheilsu varða. Samtökin eru Fræðsla og forvarnir – félag áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu, Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum, IOGT á Íslandi og SAFF-Samstarf félagasamtaka í forvörnum.

Í fréttatilkynningunni kemur fram að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin vísi til lögreglukæru á Íslandi vegna netsölu áfengis sem enga niðurstöðu hafi hlotið. Okkur þykir mikilvægt að alþjóðastofnun hafi tekið mál þetta upp með þessum hætti.

Um er að ræða kæru, sem ÁTVR lagði fram á hendur aðilum sem selja áfengi í smásölu og afhenda neytendum beint af lager sem er á Íslandi, fyrir tæpum 5 árum, eða þann 16. júní 2020. Kæran eru til vinnslu hjá embætti þínu. Að mati samtakanna er afar óeðlilegt hve langan tíma hefur tekið að fá niðurstöðu varðandi kæruna. Brátt er hálfur áratugur liðinn frá kæru. Teljum við óboðlegt að embætti þitt taki svo langan tíma í að komast að niðurstöðu. Á meðan spretta upp æ fleiri netsölur og enginn gerir neitt. Í stað þess að aðhafast er einungis bent á að málið sé í höndum lögreglu. Þannig er málið ,,fryst” í mörg ár.

Okkur er kunnugt um að Ríkissaksóknari hafi grennslast fyrir um af hverju þetta mál hafi legið svo lengi á borði embættis þíns sbr. frétt frá 9. ágúst 2024. Samanber meðfylgjandi gögn sem samtökin hafa fengið á grundvelli upplýsingalaga.

Einnig er vitað að rannsókn hafi verið lokið í ágúst eða september sl. ár og  hefur nú legið á ákærusviði embættis þíns í fjölda mánaða skv. opinberum upplýsingum frá þínu fólki þann 3. september 2024 og 26. september 2024.

Þar sem um er að ræða netsölu áfengis, sem hefur neikvæð áhrif á lýðheilsu og er umfangsmikið samfélagsmál, bíða mjög margir, þ.m.t. umrædd forvarnarsamtök, eftir niðurstöðu hjá embætti þínu. Við reiknum jafnvel með því að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin fylgist einnig með málinu. Við teljum óeðlilegan drátt vera á niðurstöðu í þessu máli. Við teljum að bæði embætti þitt og embætti Ríkissaksóknara láti málið danka óeðlilega lengi.

Óskum við því eftir fundi með þér til að leita svara við því af hverju slíkur dráttur er á málinu.

Hingað til hefur engu verið til svarað, m.a. ekki opinberu bréfi formanns samtaka úr okkar hópi til þín þann 20. nóvember 2023 Með hendur í vösum? Opið bréf til Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins . Við teljum að lögreglan og forystufólk hennar sé ekki yfir fólkið í landinu hafið og eigi að svara erindum, þar með tali þessu erindi frá breiðfylkingu forvarnarsamtaka. Svar sendist á netfangið arni att forvarnir.is.

Við óskum eftir að af fundi verði nú í febrúar.

Fyrir hönd ofangreindra forvarnarsamtaka og með fyrirfram þökkum,

Árni Einarsson, framkvæmdastjóri Fræðslu og forvarna-félags áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu

Við værum þakklát ef þú deilir þessari frétt ...

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar