Félag íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa (FÍÆT) hefur sent sveitarfélögum landsins bréf til þess að mótmæla áfengissölu á íþróttaviðburðum á landinu. Félagið lýsir þar yfir þungum áhyggjum vegna þessa og segir hana auka hættu á óviðeigandi hegðun. Fyrirmyndirnar séu líka í stúkunni.

Áfengissala á íþróttaleikjum hefur aukist á Íslandi á undanförnum árum, einkum á leikjum meistaraflokka og algengt er að sjá áhorfendur með bjór. Stundum hafa leyfamál ekki verið í lagi varðandi þessa áfengissölu.

Bendir félagið á að íþróttastarf á Íslandi sé mikilvægur og öflugur vettvangur heilsueflingar, forvarna og félagslegs þroska. Einkum hjá börnum og unglingum. Sala á áfengi á íþróttaviðburðum gangi þvert gegn tilgangi íþrótta og sendi röng skilaboð um tilgang íþróttastarfseminnar og grafi undan þeim gildum sem íþróttir standa fyrir, svo sem jákvæðum félagsþroska og heilbrigðum lífsstíl. Fyrirmyndir barna og ungmenna séu bæði innan vallar og í stúkunni og mikilvægt sé að fyrirmyndir í stúkunni séu líka til fyrirmyndar.

Leggur félagið áherslu á að tryggja heilbrigt umhverfi fyrir öll sem taki þátt í íþróttastarfi á Íslandi. Skorað er á stjórnvöld, sveitarfélög, íþróttasérsambönd, íþróttafélög og skipuleggjendur íþróttaviðburða að standa vörð um gildi íþróttahreyfingarinnar og tryggja að ekki sé selt áfengi á íþróttaviðburðum. Einnig er hvatt til frekari umræðu um ábyrga stefnumótun þegar kemur að áfengissölu í tengslum við samfélagslega viðburði.

Í sama streng tekur Árni Guðmundsson, sérfræðingur í æskulýðsmálum, í viðtali á RUV og telur að mögulega verði að endurhugsa fjárveitingar til KSÍ ef leyfð verður varanleg sala á áfengi á íþróttaviðburðum á Laugardalsvelli.

Segir hann mjög sérstakt að íþróttahreyfingin sé að fara að beita sér í einhvers konar djammstarfsemi eða sækja um áfengisleyfi, um þá ósk KSÍ um varanlegt leyfi til áfengissölu á íþróttaviðburðum á Laugardalsvelli.

„Þetta er í grundvallaratriðum allt önnur starfsemi, ef við tökum enska boltann sem dæmi þá eru það bara hlutafélög á markaði,“ bendir hann á. „Öll þessi ensku fótboltalið eru ekki með barna- og ungliðastarf, þau njóta ekki opinberra styrkja,“ segir Árni.

Ensku liðin séu rekin í hagnaðarskyni og því eðlilegra að þau leiti allra leiða til þess að verða sér úti um frekari gróða.

„KSÍ eru samtök eða hreyfing, það er víðtækt barna- og unglingastarf og þeir njóta verulegra opinberra styrkja í formi þess að við sem erum að borga skatta byggjum leikvanga og við styðjum íþróttahreyfinguna með ráðum og dáð,“ segir Árni sem telur það undarlegt að slíkur stuðningur sé síðan launaður með áformum um að taka þátt í því sem hann kallar „djammstarfsemi“.

„Erum við þá ekki komin þangað að við viljum endurskoða fjárveitingar hins opinbera til íþróttahreyfingarinnar?, spyr hann.

Í umsögn Íþróttabandalags Reykjavíkur er hvatt til þess að íþróttafélögum verði heimilað að selja áfengi. Áfengissala sé alþekkt á menningarviðburðum hér á landi og hafi verið lengi. Vísbendingar séu um að sala á áfengi á íþróttaviðburðum gæti orðið mikilvæg tekjulind fyrir rekstur afreksíþróttastarfs.

„Ég bara skil ekki þessa afstöðu Íþróttabandalags Reykjavíkur,“ segir Árni

„Það er alveg klárt að forvarnagildi og lýðheilsusjónarmið í íþróttahreyfingunni hafa í för með sér ákveðnar skyldur og það er það að hafa ekki bjórdollu í annarri hendi og forvarnaráætlun í hinni,“ segir Árni sem segir það óboðlegt að íþróttahreyfingar séu í samstarfi við áfengis- eða tóbaksiðnaðinn eða annað sem ógni lýðheilsu.

Í umsögn Landlæknis um sama mál kveður hins vegar við allt annan tón. „Að venjubinda (normalisera) áfengisneyslu í tengslum við íþróttaviðburði gengur því gegn allri fyrirliggjandi þekkingu á sviði forvarna og myndi draga úr jákvæðum áhrifum samveru barna og foreldra á slíkum viðburðum,“ segir í umsögn Landlæknis.

Við værum þakklát ef þú deilir þessari frétt ...

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar