Það er okkur áhyggjuefni að svo virðist sem viðtækt sinnuleysi ríki gagnvart netsölu áfengis af hálfu stjórnvalda, sem gjarnan vísa í að lagaleg óvissa sé til staðar en gera þó ekkert til þess að eyða þeirri ætluðu óvissu fyrir atbeina dómstóla (ef með þarf) þannig að hægt sé að leggja fram afdráttarlausa staðfestingu á því hvort það fyrirkomulag sem er á netsölu áfengis hér á landi stenst lög eða ekki. Við teljum að stöðuga fjölgun áfengisnetsala megi rekja til þess. Með því er vegið að ríkjandi áfengisstefnu og þeim lýðheilsu- og samfélagshagsmunum sem liggja henni til grundvallar.

Þetta var inntakið í máli fulltrúa Breiðfylkingar forvarnasamtaka sem áttu fund með nýjum heilbrigðisráðherra, Ölmu Möller, 5. febrúar síðastliðinn. Á fundinum var fjallað um hinar ýmsu hliðar áfengismálastefnu Íslendinga og ráðherrann tók heilshugar undir þær áherslur sem fram hafa komið af hálfu forvarnasamtakanna, og kemur skýrt fram í samþykktri stefnu Alþingis um lýðheilsustefnu til ársins 2030, að Íslendingar séu meðal fremstu þjóða í lýðheilsustarfi sem byggist á bestu vísindaþekkingu og reynslu og að stjórnvöld skuli hafa lýðheilsu að leiðarljósi við alla áætlanagerð og stefnumótun. Einnig að takmarka beri og stýra aðgengi að áfengi og tóbaki og draga þannig úr skaðlegum áhrifum áfengis- og tóbaksneyslu, og að vernda ungt fólk gegn neyslu áfengis og tóbaks og takmarka framboð á óæskilegum vörum.

Á fundinum kynntu forvarnasamtökin lauslega það sem þau hafa gert til þess að fá úr því skorið hvort netsala áfengis standist íslensk lög og upplýstu ráðherrann um árangurslausar og ítrekaðar tilraunir til þess að fá upplýsingar um lögmæti hennar. Þess í stað er einungis vísað í fullyrðingar um að lagaleg óvissa ríki hvað það varðar, án þess þó að fyrir liggi í hverju sú óvissa felst.

Samtökin telja að þvert á móti virðist blasa við að rekstur netsala áfengis sem viðgengst á Íslandi sé í trássi við landslög.  Sú netsala afhendir áfengi til neytenda á örfáum mínútum af lager sem er innanlands og er því smásala í samkeppni við ÁTVR. Aukið aðgengi að áfengi með þessu lagi er til þess fallið að auka heildarneyslu áfengis sem gengur þvert á yfirlýst markmið og opinbera stefnumörkun í málaflokknum.

Fundinn sátu af hálfu Breiðfylkingar forvarnasamtakanna:  Árni Einarsson, framkvæmdastjóri Fræðslu og forvarna – félags áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu; Árni Guðmundsson, formaður Samtakanna Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum; Björn Sævar Einarsson, formaður IOGT á Íslandi og Hildur Helga Gísladóttir, fulltrúi SAFF-Samstarfs félagasamtaka í forvörnum.

Við værum þakklát ef þú deilir þessari frétt ...

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar