Meðal tillagna sem ríkisstjórnin óskaði eftir um hvernig hægt er að hagræða í rekstri ríkisins er sparnaðarráð sextán félagasamtaka og forvarnasamtaka um að takmarka aðgengi að áfengi. Sérstaklega er bent á ávinning þess að hafa smásölu áfengis í hendi stjórnvalda, eða eins og er hér á landi í höndum Áfengis- og tóbaksverslunarinnar. Tillagan hefur í raun tvöfalt vægi, annars vegar efnahagslegt og hins vegar snýr hún að bættri lýðheilsu (https://island.is/samradsgatt/mal/3886).
Félögin benda á að samfélagslegur kostnaður af áfengisneyslu er mikill. Felst hann m.a. í kostnaði vegna heilbrigðis- og félagsþjónustu, í löggæslu og réttargæslukerfi, vegna eigna- og líkamstjóns og í minni framleiðni samfélagsins m.a. vegna dauðsfalla og vinnutaps. Kostnaður og önnur áhrif falla þannig á neytendur, aðstandendur þeirra og samfélagið í heild. Sjá má staðreyndir um áhrif áfengisneyslu á vef Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar https://www.who.int/news-room/fact-sheets/detail/alcohol
Þá er vakin athygli á því að í bréfi WHO til heilbrigðisyfirvalda á Íslandi þann 18. júlí 2023 er tilgreint að evrópska áætlunin um aðgerðir vegna áfengis 2022-2025, sem samþykkt var einróma af öllum 53 aðildarríkjum árið 2022, hvetur aðildarríkin til að forgangsraða aðgerðum til að stjórna framboði áfengis, þar á meðal að huga að því að taka upp ríkisreknar áfengissölur (including considering the provision of state-operated alcohol outlets).
Eins og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur undirstrikað þá hefur áfengisiðnaðurinn mikla hagsmuni af því að selja áfengi til að hagnast. Áfengisiðnaðurinn beitir sömu aðferðum og tóbaksiðnaðurinn til að koma í veg fyrir eða tefja fyrir reglusetningu stjórnvalda og grafa undan góðri opinberri stefnu. Í nýju skjal frá WHO (nóvember 2024) Empowering public health advocates to navigate alcohol policy challenges – alcohol policy playbook eru teknar saman þær fullyrðingar sem áfengisiðnaðurinn styðst við í sínum málflutningi og gagnrök lýðheilsufólks og stofnana.
Um efnahagslega ávinninginn segja félögin í tillögu sinni: Verg landsframleiðsla (VLF) á Íslandi var 4.321 milljarður árið 2023. Því má ætla að samfélagslegur kostnaður af áfengisneyslu hafi verið rúmir 112 milljarðar króna á Íslandi árið 2023 út frá gögnum WHO. Nákvæm uppreiknuð upphæð er 112.346.000.000. kr.
Samkvæmt úttekt frá desember 2018 er talið að með því að færa áfengissölu frá Systembolaget, ríkissölunni í Svíþjóð, til einkaaðila myndi áfengisneysla þar aukast verulega. Ef salan væri færð til einkarekinna sérverslana mætti gera ráð fyrir því að áfengisneysla ykist um 20,00% á hvern einstakling. Ef salan væri færð inn í matvöruverslanir ykist áfengisneyslan um 31,2% á hvern einstakling. Fyrirkomulag áfengissölu hefur verið mjög svipað hjá Systembolaget í Svíþjóð og hjá ÁTVR á Íslandi og því mætti gera ráð fyrir að sambærileg neysluaukning yrði hér ef einkaaðilar tækju yfir áfengissölu á Íslandi.
Allar rannsóknir sýna að áfengisneysla hefur neikvæð áhrif á lýðheilsu og mikinn samfélagslegan kostnaði í för með sér. Þær sýna einnig að öll aukning í sölu áfengis, m.a. vegna aukins aðgengis að áfengi, veldur tilheyrandi aukningu á áfengistengdum skaða og samfélagslegum kostnaði.
Það felst því mikill sparnaður í því að hvika í engu frá samþykktri lýðheilsustefnu til ársins 2030 og markmiðum gildandi laga um einkasölu ÁTVR á áfengi.
Sá sparnaður hleypur á milljörðum króna á ári.
Eftirtaldar heilbrigðisstéttir og forvarnarsamtök standa að sparnaðarráðinu:
- Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga,
- Félag lýðheilsufræðinga,
- Ljósmæðrafélag Íslands,
- Læknafélag Íslands,
- Sálfræðingafélag Íslands,
- Sjúkraliðafélag Íslands,
- Félagsráðgjafafélag Íslands,
- Lyfjafræðingafélag Íslands,
- Iðjuþjálfafélag Íslands,
- Þroskaþjálfafélag Íslands,
- Félag áfengis- og vímuefnaráðgjafa,
- SÁÁ,
- Fræðsla og forvarnir-félag áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu,
- Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum,
- IOGT á Íslandi
- SAFF-Samstarf félagasamtaka í forvörnum