Á lýðræðishátíðinni Fundi fólksins, sem haldinn verður haldinn í Hörpunni föstudaginn 29. nóvember næstkomandi, verður meðal annars á dagskrá málstofa um ávana- og vímuefnamál. Yfirskrift fundarins er Ávana- og vímuefni – áskoranir í forvörnum. Er baráttan töpuð?
Fundurinn er öllum opinn og ekki þarf að skrá sig. Umræðustjóri er Árni Einarsson, framkvæmdastjóri Fræðslu og forvarna-félags áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu. Þátttakendur í umræðuhópnum eru: Árni Guðmundsson, formaður Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum, Aðalsteinn Gunnarsson framkvæmdastjóri IOGT, Jóhanna Kristjánsdóttir hjúkrunarfræðingur og stjórnarkona í Krabbameinsfélagi höfuðborgarsvæðisins.
Fundur fólksins hefst kl. 14 og lýkur kl. 17:45. Síðast á dagskránni er opinn fundur með fulltrúum framboða til alþingiskosninga, sem verða daginn eftir, þar sem rætt verður um hvernig flokkarnir hyggjast bæta starfsumhverfi félagasamtaka.
Nánari upplýsingar um Fund fólkins er að finna hér og dagskrána hér.
Lýðræðishátíðin, Fundur fólksins: Markmið fundarins er að skapa meira traust og skilning á milli ólíkra aðila samfélagsins án þess að vera föst í venjubundnum umræðufarvegi stjórnmála og fjölmiðla. Fundur fólksins er sjálfstæð hátíð og ekki tengd neinum hagsmunaöflum á Íslandi eða annars staðar.
Fundur fólksins var fyrst haldinn hér á landi í Norræna húsinu í júní 2015 að fyrirmynd annarra Norðurlanda, sem hafa haldið sambærilega fundi; á Borgundarhólmi (Danmörk), í Arendal (Noregur) og í Almedalen (Svíþjóð). Gestir þessara funda í nágrannalöndunum telja að öllum jafnaði tugi þúsunda og þar er að finna afar umfangsmikla þátttöku frjálsra félagasamtaka, stofnana, stjórnmálamanna og fjölmiðlafólks, fyrirtækja auk almennra borgara.
Nokkur félagasamtök komu strax í upphafi að undirbúningi fundarins hér, þ.á.m. Almannaheill. Ári síðar tók Almannaheill hátíðina að sér með fjárhagsstyrk frá félagsmálaráðuneytinu og Reykjavíkurborg ásamt stuðningi frá Norræna húsinu.