Í áratugi hafa Norðurlöndin verið leiðandi í áfengisstefnu þar sem lýðheilsa, öryggi og samfélagsleg velferð er í forgangi. Há gjöld á áfengi, auglýsingabann og ríkisstýring á smásölu áfengis eru hornsteinar þessarar stefnu. Með þessari stefnu hefur tekist að halda áfengisneyslu tiltölulega lágri og draga úr þeirri byrði sem tjón vegna hennar veldur samfélaginu.

Á aðalfundi  NordAN sem haldinn var í Osló 7. nóvember síðastliðinn var samþykkt ályktun þar sem stjórnvöld á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum voru hvött til þess að láta lýðheilsusjónarmið og gagnreynda þekkingu ráða för við stefnumörkun og ákvarðanatöku í áfengismálum. Varað er við að leyfa markaðsöflunum að leika lausum hala með tilheyrandi kostnaði fyrir einstaklinga og samfélag. Yfirskrfit ályktunarinnar er: Verndum norrænu áfengisstefnuna: Sjálfbær leið til lýðheilsu.

Í áratugi hafa Norðurlöndin verið leiðandi í áfengisstefnu þar sem lýðheilsa, öryggi og samfélagsleg velferð er í forgangi. Há gjöld á áfengi, auglýsingabann og ríkisstýring á smásölu áfengis eru hornsteinar þessarar stefnu. Með þessari stefnu hefur tekist að halda áfengisneyslu tiltölulega lágri og draga úr þeirri byrði sem tjón vegna hennar veldur samfélaginu.

Stefnan byggir á þeirri mikilvægu staðreynd að áfengi er ekki venjuleg neysluvara. Til að koma böndum á þann skaða sem áfengisneysla veldur einstaklingum og samfélögum þarf að hafa reglur um framboð/aðgengi þess og markaðssetningu. Gagnreynd stefnumótun, sem hefur dregið úr áfengisskaða og skilað heilbrigðari og öruggari samfélögum á Norðurlöndum, hefur einnig í ýmsu verið tekin upp á af Eystrasaltsríkjunum.

Nú ógna hugmyndir um breytta stefnu þessum góða árangri. Ríkisstýrðri smásöluverslun áfengis er mótmælt, áfengisgjöld eru til skoðunar og fylgja ekki verðbólgu og slakað er á auglýsingahöftum. Allt er þetta með litlu sem engu samráði við þá sem starfa á vettvangi, og ábendingar og kröfur almannaheillasamtaka eru virtar að vettugi. Breytingarnar eru réttlættar af stjórnmálafólki með því að nauðsynlegt sé að vernda viðskiptalega hagsmuni, en horft framhjá lýðheilsusjónarmiðunum sem legið hafa norrænu áfengisstefnunni til grundvallar.

Með þessari ályktun viljum við minna á gildi og markmið norrænu áfengisstefnunnar, vara norræn stjórnvöld og samfélög við skaðsemi þess að grafið sé undan henni, og krefjumst þess að staðinn sé vörður um sjálfbæra lýðheilsu með því að koma í veg fyrir verulegan skaða af völdum áfengis. Þessi ályktun áréttar að brýnt sé að standa vörð um grunngildi norrænnar áfengisstefnu, það er að lýðheilsa og samfélagsleg ábyrgð gangi framar viðskiptahagsmunum. Forsendur norrænu áfengisstefnunnar eru ekki horfnar.

Með þessari ályktun er krafist aðgerða til að viðhalda og styrkja grundvöll norrænnar áfengisstefnu með því að:

  1. Standa fast við há gjöld á áfengi, auglýsingabann á áfengi og ríkisstýrða smásölu áfengis, sem eru nauðsynleg tæki til að draga úr áfengistengdum skaða.
  2. Hafna þrýstingi um aukið frelsi á áfengismarkaði og niðurbrot stefnu sem setur lýðheilsu framar viðskiptahagsmunum.
  3. Fræða almenning um kosti hefðbundinnar norrænnar áfengisstefnu og tryggja að komandi kynslóðir skilji mikilvægi hennar fyrir lýðheilsu. Norðurlöndin hafa verið sameinuð í þessum efnum í langan tíma og forsendur stefnunnar eru jafn mikilvægar nú og verið hefur. Þessa stefnu þarf ekki aðeins að verja heldur efla hana svo verja megi komandi kynslóðir sem mest gegn skaðsemi áfengis.

Við værum þakklát ef þú deilir þessari frétt ...

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar