Forvarnarsamtökum hafa borist svör við tveimur spurningum sem sendar voru í lok október til framboða sem bjóða fram á landsvísu til Alþingis þann 30. nóvember n.k. Spurningarnar tengjast mikilvægum lýðheilsumálum sem hafa verið áberandi í samfélagsumræðu síðustu mánaða og ára.
Spurt var:
- Telur flokkur þinn rétt að stemma stigu við aukinni notkun nikótínpúða meðal barna og ungmenna? Ef já, til hvaða aðgerða viltu að stjórnvöld grípi?
- Vill flokkur þinn að ÁTVR verði lagt niður og áfengið selt í almennum verslunum?
Samtökin sem spurðu flokkana eru: Fræðsla og forvarnir-félag áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu, Foreldrasamtökin gegn áfengisauglýsingum, IOGT á Íslandi og SAFF-Samstarf félagasamtaka í forvörnum.
Þrátt fyrir að þrotlausa vinnu forvarnarsamtaka og fleiri við að halda lýðheilsu á lofti er staðan sú að nikótínpúðanotkun ungmenna hefur stóraukist vegna aðgangshörku markaðsafla og takmarkaðra viðbragða stjórnvalda. Nú notar um þriðji hver ungur karlmaður nikótínpúða daglega, en nikótínnotkun getur haft neikvæð áhrif á þroska heilans, einkum á þau svæði sem stýra einbeitingu, skapi, hvatastjórnun o.fl.
Þá má líkja sölu áfengis hérlendis við villta vestrið þar sem nú er farið að selja áfengi í smásölu til neytenda í matvöruverslunum í gegnum netsölu, sem forvarnarsamtökin og fleiri telja ólöglega. ÁTVR kærði slíka netsölu til lögreglu fyrir rúmlega fjórum árum, þann 16. júní 2020. Lögreglan hefur ekki afgreitt kæruna með neinum hætti þrátt fyrir eftirrekstur ríkissaksóknaraembættisins. Er slíkt undrunarefni án hliðstæðu.
Þá sendi breiðfylking félaga heilbrigðisstétta og forvarnarsamtaka áskorun til alþingismanna og ráðherra 26. ágúst sl. um að bregðast við yfirstandandi lýðheilsuógn vegna stóraukinnar netsölu áfengis. Í áskoruninni segir m.a. að „Félögin skora á yfirvöld að hvika í engu frá samþykktri lýðheilsustefnu til ársins 2030 og markmiðum gildandi laga um einkasölu ÁTVR á áfengi.“ Viðbrögð yfirvalda við áskoruninni hafa verið lítil sem engin.
Vegna sorglegrar þróunar í nikótínpúða- og áfengismálum, sem eru bæði mikilvæg lýðheilsu- og samfélagsmál, telja forvarnarsamtök að almenningur eigi rétt á að vita afstöðu flokkanna til þessara mála nú þegar styttast fer í myndun nýrrar ríkisstjórnar.
Forvarnarsamtök telja að svör flokkanna sýni samstöðu þeirra um að verja börn og ungmenni gegn nikótíni, en ósamstöðu um áfengissöluna. Mið- og vinstriflokkar vilja ekki leggja niður ÁTVR og selja áfengi í almennum verslunum vegna lýðheilsu- og samfélagsjónarmiða. Hægri flokkar vilja hins vegar leggja niður ÁTVR og selja áfengi í almennum verslunum til að auka frelsi í verslun.
Samstaðan um vörn gegn nikótíni gleður, en ósamstaðan um áfengissöluna er forvarnarsamtökum mikið áhyggjuefni.
Hér neðar eru töflur með einfaldri já-nei útgáfu af svörum framboða sem bjóða fram á landsvísu. Píratar og Lýðræðisflokkur svöruðu ekki.
Telur flokkur þinn rétt að stemma stigu við aukinni notkun nikótínpúða meðal barna og ungmenna? Ef já, til hvaða aðgerða viltu að stjórnvöld grípi?
Flokkur fólksins | Já | |
Framsókn | Já | |
Miðflokkur | Já | |
Samfylking | Já | |
Sjálfstæðisflokkur | Já | |
Sósíalistaflokkur | Já | |
Vinstri græn | Já | |
Viðreisn | Já | |
Alls | 8 | 0 |
Vill flokkur þinn að ÁTVR verði lagt niður og áfengið selt í almennum verslunum?
Flokkur fólksins | Nei | |
Framsókn | Nei | |
Miðflokkur | Nei? | |
Samfylking | Nei | |
Sjálfstæðisflokkur | Já | |
Sósíalistaflokkur | Nei | |
Vinstri græn | Nei | |
Viðreisn | Já | |
Alls | 2 | 6 |
Ítarleg svör framboða á landsvísu við spurningum forvarnarsamtaka eru hér fyrir neðan. Spurningar sendar í lok október 2024 og svör bárust fyrri hluta nóvember 2024.
- Svör við spurningunni: Telur flokkur þinn rétt að stemma stigu við aukinni notkun nikótínpúða meðal barna og ungmenna? Ef já, til hvaða aðgerða viltu að stjórnvöld grípi?
Flokkur fólksins Já. Við viljum efla forvarnir og setja strangari viðurlög við því að selja börnum nikótínpúða.
Framsókn Framsókn leggur áherslu á að stemma stigu við aukinni notkun nikotínpúða meðal barna og ungmenna til vernda heilsu þeirra og koma í veg fyrir að þau þrói með sér fíkn. Framsókn telur að fella eigi rafrettur og aðrar nikótínvörur undir sömu lög og tóbaksvörur líkt og gert hefur verið í flestum Evrópulöndum. Þá er mikilvægt að ná til barna og ungmenna með fræðslu um skaðsemi nikotíns með það að markmiði að draga úr notkun.
Miðflokkurinn Forvarnir eru Miðflokknum hugleiknar og hér er freistandi að nefna baráttu Lárusar Guðmundssonar, frambjóðanda Miðflokksins og fyrrverandi atvinnumanns í knattspyrnu. Hann stóð að samstarfi við Landlæknisembættið fyrir áratug um átakið: „Fyrirmyndir nota ekki munntóbak.“ Þar voru fyrirmyndir þess tíma, í íþróttum og tónlist, notaðar í auglýsingar og veggspjöld með ungum börnum og minnt á að fyrirmyndir nota ekki munntóbak. Stöðugt steðja nýjar hættur að ungu fólki, hvort sem það eru fíkniefni, rafrettur (veip) eða munntóbaksnotkun. Það er skoðun Miðflokksins að yfirvöld verði að vera á varðbergi gegn nýjum vanabindandi efnum, sérstaklega ef þau beinast að ungu fólki.
Samfylkingin Það er lýðheilsumál að stemma stigu við notkun nikótínpúða meðal barna og ungmenna. Neysla nikótínpúða hefur vaxið hratt hér á landi og rannsóknir sýna að nú neytir allt að þriðjungur framhaldskólanema á aldrinum 16–18 ára púðanna. Mikilvægt er að takmarka aðgengi barna og ungmenna að nikótínpúðum með takmörkunum á markaðssetningu s.s. með því að draga úr sýnileika og aðgengi. Að mati Samfylkingarinnar er virkt forvarnarstarf og fræðsla um skaðsemi neyslu nikótínpúða þó áhrifaríkasta leiðin til að draga úr notkun nikótíns.
Sjálfstæðisflokkurinn Já, Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að stemma stigu við aukinni notkun nikótínpúða meðal barna og ungmenna. Flokkurinn leggur áherslu á vernd heilsu ungs fólks og vill koma í veg fyrir aðgengi þeirra að nikótínvörum.
Sjálfstæðisflokkurinn telur að markviss fræðsla og forvarnir séu lykilþáttur í því. Aukin fræðsla í skólum og samfélaginu öllu um skaðsemi nikótíns og að hvatt sé til heilbrigðs lífsstíls skiptir miklu máli sem og haldgóðar reglur sem koma í veg fyrir sölu nikótínpúða til einstaklinga undir lögbundnum aldri.
Sósíalistaflokkurinn Já. Með því að takmarka aðgengi barna og ungmenna að skaðlegum vörum.
Vinstri græn Já, það er mjög nauðsynlegt. Breytt neyslumynstur ungmenna á seinustu árum þar sem farið hefur saman neysla á tóbaki, rafrettum og nikótínpúðum hefur er mikið áhyggjuefni. Alþjóðlegar rannsóknir hafa sýnt að neysla af nikótínvörum er skaðleg og sérstakt áhyggjuefni þar er að magn nikótíns sem verið er að neyta hefur aukist verulega.
Fyrsta skrefið var að sjálfsögðu að setja aldurstakmark á kaup og sölu þessara vara, en Svandís Svavarsdóttir lagði fram frumvarp um rafrettur í sinni tíð sem heilbrigðisráðherra, sem var svo fylgt eftir í fráfarandi ríkisstjórn með því að tengja slíkar takmarkanir við allar nikótínvörur.
En mikilvægt er að fylgja þessu eftir með skipulögðu forvarnarstarfi líkt og gert var með góðum árangri með tóbak á sínum tíma. Einnig þarf að takmarka markaðsetningu þessara vara, sérstaklega þegar þeim er augljóslega beint að ungu fólki og auka eftirlit með sölu og dreifingu.
Viðreisn Nikótín á ekkert erindi til barna. Það er sjálfsagt og eðlilegt að framfylgja lögum og reglum sem banna að selja börnum slíkar vörur og beina auglýsingum að þeim.
- Svör við spurningunni: Vill flokkur þinn að ÁTVR verði lagt niður og áfengið selt í almennum verslunum?
Flokkur fólksins Nei.
Framsókn Framsókn vill viðhalda einkasölufyrirkomulagi ríkisins á áfengi, enda byggir það á lýðheilsu- og samfélagsrökum sem felast í að takmarka aðgengi og draga þannig úr skaða af völdum neyslu áfengis. Rannsóknir á sviði lýðheilsumála hafa sýnt að takmarkanir á aðgengi að áfengi eru meðal öflugustu forvarnaraðgerða sem við eigum og hefur verið staðfest að þær hafa áhrif til að draga úr neyslu áfengis.
Miðflokkurinn Þegar kemur að sölu áfengis þá má áfram minna á mikilvægi forvarna eins og Sigurður Páll Jónsson, fyrrverandi þingmaður flokksins, hefur verið óþreytandi að berjast fyrir. Miðflokkurinn telur að önnur brýnni verk kalli á en að ráðast í endurskipulagningu áfengissölu hér á landi. Ef til þess kæmi yrði það að vera í sátt og að vel athuguðu máli og þannig að æska landsins byði ekki skaða af. Við sjáum að breytingar hafa orðið með tilkomu póstverslunar en ekki verður séð að stefnubreyting eða breytt lagasetning hafi stuðlað að því. Einfaldlega hefur hið opinbera kosið að láta það afskiptalaust.
Samfylkingin Samfylkingin hefur það ekki á stefnuskrá sinni að leggja niður ÁTVR og heimila sölu í almennum verslunum. Samfylkingin hefur stutt einkaleyfi ÁTVR á grundvelli lýðheilsusjónarmiða en studdi þó breytingar sem heimiluðu smærri framleiðendum smásölu á áfengi á framleiðslustað. Nauðsynlegt er að skera úr um lögmæti netverslunar með áfengi hér á landi og skýra heimildir einkaaðila til netsölu á áfengi.
Sjálfstæðisflokkurinn Já, Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi talað fyrir því að afnema ríkiseinokun á áfengissölu og leyfa sölu áfengis í almennum verslunum. Að mati Sjálfstæðisflokksins á ekki að skipta máli hver fer með sölu áfengis enda hefur aðgengi að áfengi aukist til muna á síðustu árum þrátt fyrir einokunarverslun ríkisins á áfengi með fleiri útibúum ÁTVR og stórauknu vöruúrvali.
Þó leggur flokkurinn áherslu á að sala áfengis fari fram með ábyrgum hætti og reglum sé fylgt til að vernda lýðheilsu og koma í veg fyrir misnotkun, sérstaklega meðal ungs fólks.
Sósíalistaflokkurinn Nei.
Vinstri græn Vinstri græn hafa alla tíð staðið með ÁTVR. Við erum alfarið á móti sölu áfengis í almennum verslunum, hvort sem það eru matvöruverslanir eða netverslun. Við lítum svo á að ÁTVR leiki mikilvægt hlutverk í lýðheilsu landsmanna, ekki síst barna og ungmenna, og að takmarkanir á aðgengi að áfengi séu samfélaginu til góða. Og í raun að það sé engum í raun til ama að þurfa að fara í sérverslun eftir áfengi.
Viðreisn Við treystum fólki og viljum aukið frelsi í verslun með áfengi. Viðreisn telur að afnema eigi einkaleyfi ÁTVR til þess að selja áfengi í smásölu. Viðreisn telur að einkaaðilum sé mjög vel treystandi til þess að annast sölu áfengis og að fara að lögum og reglum sem um slíka sölu gilda, s.s. um lágmarksaldur þeirra sem mega kaup áfengi.