Það var ótrúlega ósmekklegt af dómsmálaráðherra að kynna, og leggja í samráðsgátt, frumvarp um að heimila einkaaðilum vefsölu á áfengi á sama tíma og Krabbameinsfélagið hleypti af stokkunum Bleiku slaufunni, árlegu árvekni- og fjáröflunarátaki félagsins í októbermánuði, tileinkað baráttunni gegn krabbameini hjá konum.
Frumvarp ráðherrans felur í sér aukið aðgengi að áfengi sem reikna má með að leiði af sér aukna áfengisneyslu sem gengur þvert gegn áherslum og ábendingum fjölmargra sem vinna að krabbameinsforvörnum, þar á meðal er Krabbameinsfélag Íslands, um að í ljósi mikillar krabbameinsáhættu vegna neyslu áfengis skuli forðast að gera neitt það sem líklegt sé að auki neyslu þess, svo sem að auðvelda og auka aðgengi að því.
Afstaða til að mynda World Cancer Research Fund International og skilaboð til stjórnvalda hvað þetta varðar er skýr;
- Haldið áfengi dýru með gjöldum og tollum.
- Takmarkið framboð áfengis: hvar og hvenær má selja áfengi og hafið eftirlit með sölustöðum áfengis.
- Gerið kröfu um (bindið í lög) að á áfengisumbúðum séu skýrar og sýnilegar upplýsingar fyrir neytendur um heilsufarsáhættu svo og næringarupplýsingar.
- Bannið, eða setjið strangar reglur um, markaðssetningu (til dæmis áfengisauglýsingar) og kostun áfengisvara og vörumerkja.
- Tryggið að fyrir hendi séu uppfærðar lýðheilsuleiðbeiningar í hverju landi sem endurspegli þekkingu á áfengis- og krabbameinsáhættu.
Stefnumótendur, segir World Cancer Research Fund International (það er að segja stjórnvöld), gegna mikilvægu hlutverki við að draga úr heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum skaða af völdum áfengis. Áfengi veldur um 4% krabbameinstilfella og eykur hættuna á að minnsta kosti 7 mismunandi tegundum krabbameins. Stefna til að draga úr neyslu og gera fólk meðvitað um áhættuna er nauðsynlega til að draga úr hættu á krabbameini.
Undir þetta tekur Krabbameinsfélag Íslanda heils hugar, eins og fram kemur á fésbókarsíðu félagsins.
- Setjum lýðheilsuna í forgang. Krabbameinsfélagið mælir gegn öllu auknu aðgengi að áfengi enda er áfengi þekktur, staðfestur krabbameinsvaldur samkvæmt flokkun Alþjóðakrabbameinsrannsóknarstofnunarinnar (IARC).
- Áfengisneysla tengist auknum líkum á að minnst kosti 7 tegundum krabbameina; í munnholi, koki, barkakýli, vélinda, lifur, brjóstum, ristli og endaþarmi.
- Það eru engin neðri örugg mörk, öll neysla áfengis eykur líkurnar en því meira eftir því sem neyslan er meiri.
- Aukið aðgengi – aukin neysla. Rannsóknir sýna að allt aukið og auðveldara aðgengi eykur heildaráfengisdrykkju í samfélögum.
- Áfengi er ekki venjuleg neysluvara. Aukið aðgengi, t.d. í matvöruverslunum myndi stuðla að normaliseringu áfengis sem venjulegrar neysluvöru sem það sannarlega er ekki.
- Fjölgun krabbameinstilvika. Ef aðgengi væri aukið á Íslandi frekar en nú er, eru allar líkur á að heildarneyslan myndi aukast og krabbameinstilfellum af völdum áfengis fjölga (fyrir utan allan annan þekktan heilsufarslegan skaða).
- Aukið aðgengi að áfengi stangast beint á við yfirlýsta stefnu stjórnvalda um að hafa lýðheilsu ætíð í forgangi. Aukin heilsufarsleg byrði. Aukin áfengisneysla myndi auka heilsufarslega byrði einstaklinga og að sjálfsögðu einnig þjóðhagslega.
- Ráðleggingar til stjórnvalda. World Cancer Research Fund International hefur fjallað um áfengi og krabbamein og unnið ráðleggingar til stjórnvalda um mikilvægi þess að þjóðir grípi til víðtækra stjórnvaldsaðgerða til að vinna að því að draga úr áfengisneyslu.
Skilaboð þeirra sem vinna að krabbameinsforvörnum eru skýr, en dómsmálaráðherra Íslands sér þetta í öðru ljósi.
FRÆ sendi eftirfarandi umsögn um frumvarpið í samráðsgáttina: Umsögn um mál nr. S-195/2024 – Frumvarp til breytinga á áfengislögum – vefverslun
Fræðsla og forvarnir-félag áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu leggst alfarið gegn frumvarpinu á grundvelli forvarna- og lýðheilsusjónarmiða.
Athygli vekur að viðurkennt er í frumvarpinu að sú netsala áfengis, sem nú fer fram á Íslandi þar sem áfengi er selt og afhent á lager sem er staðsettur í landinu, er ekki heimil samkvæmt gildandi lögum. Félagið telur fráleitt að skjóta lagastoðum undir þá áfengissölu sem nú fer fram í landinu með ólögmætum hætti, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Réttara er að byggja áfram á einkasölu ríkisins á áfengi í samræmi við leiðbeiningar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, en stofnunin hvetur aðildarríki til að taka upp ríkisreknar áfengissölur sökum forvarna- og lýðheilsusjónarmiða.
Þá telur félagið að samfélagið hafi ekki efni á þeim fjárútlátum sem fylgja markaðsvæðingu áfengissölunnar. Betra sé að nýta skattfé borgaranna á annan hátt en að greiða herkostnaðinn sem mun hljótast af frumvarpinu verði það samþykkt. Í frumvarpinu er rangt farið með því þar er sagt að
Frumvarpinu er ekki ætlað að hrófla við hlutverki Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og felur ekki í sér beinar tillögur um breytingu á áfengisstefnu, áherslum í lýðheilsumálum eða tekjuöflunarkerfi ríkisins á þessu sviði.
Og
Verði frumvarpið að lögum er ekki gert ráð fyrir að það muni hafa í för með sér teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs með þeim fyrirvara að ekki hefur farið fram mat á því hver áhrif frumvarpsins kunni að verða á áfengissölu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins.
Hið rétta er að verði frumvarpið að lögum er grundvelli kippt undan ÁTVR þar sem lýðheilsusjónarmið verða að engu, en þau eru grundvöllur þess að Ísland, eins og Finnland, Noregur og Svíþjóð, hafa fengið leyfi til að reka einkasölu ríkis á áfengi innan EES/ESB svæðisins. Með innreið markaðsaflanna í áfengissölu mun sala aukast eins og gefur að skilja með tilheyrandi fjárútlátum vegna heilbrigðiþjónustu, félagsþjónustu, barnaverndar, örorku og minni framleiðni vinnumarkaðar svo fátt eitt sé nefnt. Reikna má með að samfélagslegur kostnaður muni aukast um 15 milljarða króna árlega verði frumvarpið að lögum. Í dag er talið að samfélagslegur kostnaður af áfengisneyslu á Íslandi og hjá nágrannaþjóðum sé um 100 milljarðar króna á ári.
Félagið hefur nýlega komið sjónarmiðum sínum á framfæri ásamt breiðfylkingu heilbrigðisstétta, forvarnarsamtaka og fleiri með sérstakri áskorun til yfirvalda, sem send var alþingismönnum og ráðherrum þann 26. ágúst síðast liðinn. Í henni er skorað á yfirvöld að hvika í engu frá samþykktri lýðheilsustefnu til ársins 2030 og markmiðum gildandi laga um um einkasölu ÁTVR á áfengi.
Áskorunin er eftirfarandi:
Áskorun breiðfylkingar félaga heilbrigðisstétta, forvarnarsamtaka og fleiri til yfirvalda um að bregðast við yfirstandandi lýðheilsuógn vegna stóraukinnar netsölu áfengis.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félag lýðheilsufræðinga, Félag sjúkraþjálfara, Ljósmæðrafélag Íslands, Læknafélag Íslands, Sálfræðingafélag Íslands, Sjúkraliðafélag Íslands, Félagsráðgjafafélag Íslands, Lyfjafræðingafélag Íslands, Félag áfengis- og vímuefnaráðgjafa, SÁÁ, Fræðsla og forvarnir-félag áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu, Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum, IOGT á Íslandi og SAFF-Samstarf félagasamtaka í forvörnum:
- Taka undir orð heilbrigðisráðherra um þá yfirstandandi ógn sem nú steðjar að grundvallarmarkmiðum lýðheilsu vegna meintrar ólöglegrar netsölu áfengis, sem fram komu í opinberu bréfi ráðherra þann 5. júní sl.
- Í tilefni þess að rótgróin íslensk verslanakeðja, Hagkaup, áætlar að hefja áfengissölu til neytenda á næstu dögum skora félögin á yfirvöld að kveða strax upp úr um hvort slík sala sé lögleg. Yfirvöld geta ekki horft aðgerðarlaus á þá lýðheilsuógn sem nú steðjar að vegna stóraukinnar netsölu áfengis á Íslandi.
- Í samþykktri stefnu Alþingis um lýðheilsustefnu til ársins 2030 segir að Íslendingar verði meðal fremstu þjóða í lýðheilsustarfi sem byggist á bestu vísindaþekkingu og reynslu og að stjórnvöld skuli hafa lýðheilsu að leiðarljósi við alla áætlanagerð og stefnumótun. Í lögum um verslun með áfengi og tóbak segir að starfrækja skuli ÁTVR og að markmið laganna sé að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis og heildsölu tóbaks sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð, að takmarka og stýra aðgengi að áfengi og tóbaki og draga þannig úr skaðlegum áhrifum áfengis- og tóbaksneyslu, og að vernda ungt fólk gegn neyslu áfengis og tóbaks og takmarka framboð á óæskilegum vörum.
- Félögin skora á yfirvöld að hvika í engu frá samþykktri lýðheilsustefnu til ársins 2030 og markmiðum gildandi laga um um einkasölu ÁTVR á áfengi.
Að lokum skal áréttað að frumvarpið er í hrópandi mótsögn við gildandi lýðheilsustefnu sem samþykkt hefur verið á Alþingi. Frumvarpið kippir grundvelli undan ÁTVR, en rekstur þess er grundvallaður á lýðheilsu, samfélagslegri ábyrgð og að vernda ungt fólk gegn neyslu áfengis. Frumvarpinu ber því að hafna.