Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hleypir í dag af stokkunum verkefninu Redefine alcohol for a healthier, safer, and happier Europe. Verkefnið, sem stendur yfir mánuðina október og nóvember, er liður í átaki sem hófst árið 2022 (WHO/EU Evidence into Action Alcohol Project (EVID-ACTION)) og hefur að markmiði að kynna rannsóknarniðurstöður sem leggja má til grundvallar opinberri stefnu í þeirri viðleitni að sporna gegn áfengistengdum vanda í ríkjum Evrópu, meðal annars með krabbameinsforvarnir í huga.

Í ákalli sem WHO birtir í dag segir meðal annars að tilgangur verkefnisins sé ekki síst að hvetja fólk til þess að endurmeta samband sitt við áfengi, læra meira um áfengi og heilsufarsáhættu af áfengisdrykkju og íhuga kosti þess að drekka minna eða alls ekki. Í þessu felist meðal annars að endurmeta umræðuna og goðsagnirnar um áfengi og íhuga hvers vegna áfengi er svo innbyggt í samfélag okkar og að mati margra talinn ómissandi þáttur í skemmtanahaldi, félagslegum samskiptum og jafnvel daglegu lífi.

Þá er einnig minnt á að áfengi hefur áhrif á meira en bara einstaklinginn sem neytir þess; það hafi víðtæk áhrif á fjölskyldur og samfélagið í heild. Að draga úr áfengisneyslu muni þýða færri áfengistengd dauðsföll og slys, færri drukknanir, færri sjálfsvíg, auk minna ofbeldis í öllum sínum myndum, þar með talið kynferðislegt og kynbundið ofbeldi.

Í ákallinu segir einnig að áfengi sé oft of ódýrt í Evrópuríkjum, of aðgengilegt og mikill áróður sé fyrir neyslu þess. Það sé kominn tími til að viðurkenna djúpstæð áhrif áfengis á heilsu okkar og samfélög. Í því sambandi er bent á að áfengi getur valdið yfir 200 sjúkdómum og heilsuvanda og að um 40 þeirra væru alls ekki til án áfengis. Innan við helmingur Evrópubúa sé til dæmis ekki meðvitaður um tengsl áfengis og krabbameins, þrátt fyrir að það sé einn helsti áhættuþáttur krabbameins. Jafnvel lítið magn af áfengi geti aukið hættu á krabbameini.

WHO bendir á að vissulega sé áfengisneysla einstaklingsbundið val en huga þurfi að fleiru: Breyttur skilningur á áfengi og áhrifum þess er nauðsynlegur, segir WHO, þar sem raunverulegar og sjálfbærar breytingar eru knúnar áfram af stefnu sem meðal annars takmarkar framboð áfengis og áfengisauglýsingar. Með því að skapa aðstæður sem stuðla að heilbrigðari ákvörðunum, auðveldum við fólki að draga úr áfengistengdri áhættu og leggja grunn að heilbrigðari framtíð.

Sjá ákall WHO hér.

Við værum þakklát ef þú deilir þessari frétt ...

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar