Fulltrúar Breiðfylkingar forvarnasamtaka áttu góðan fund með Sigurði Inga Jóhannssyni, fjármála- og efnahagsráðherra 3. júlí síðastliðinn um ólöglega netsölu áfengis. Þökkuðu fulltrúarnir honum fyrir að hafa brugðist við og sent  lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu erindi vegna netsölunnar þar sem meðal annars er vakin athygli á að hún kunni að fela í sér brot á lögum, enda smásala áfengis bönnuð öðrum en ÁTVR. Ráðherrann var hvattur til þess að fylgja málin eftir, einnig með tilliti til skatta- og tollalagabrota. Bentu fulltrúarnir á að fjármála- og efnahagsráðherra er þar eftirlitsaðili samkvæmt lögum og geti ekki setið aðgerðarlaus og horft á þessi brot með hendur í skauti.

Á fundinum röktu fulltrúar samtakanna viðleitni sína til þess að bregðast við netsölu áfengis sem þeir telja með öllu ólöglega og vinna gegn lýðheilsu og sögðust ekki hafa séð nein lögfræðiálit sem segi að netsalan, með íslenskum lager, sé lögleg. Haft hefur verið samband skriflega við ýmsa aðila sem eftirlit eiga að hafa með að áfengislög séu virt, send opinber bréf, skrifaðar greinar í fjölmiðla, óskað eftir fundum, haldið málþing og reynt að hafa áhrif á þróun mála með þeim hætti sem unnt hefur verið. Í ljósi þessa töldu þeir sinnuleysi lögreglu ámælisvert og fleiri í stjórnsýslunni. Samtökin hafa vakið athygli ýmissa  innan hennar á því og óskað eftir upplýsingum á grundvelli upplýsingalaga, svo sem frá þremur öðrum ráðuneytum/ráðherrum, lögreglunni, Ríkissaksóknara, Umboðsmanni Alþingis, Ríkisendurskoðanda, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og lífeyrissjóðnum Gildi.

Var ráðherra bent á að almenn óánægja og vonbrigði ríkti meðal forvarnasamtaka og heilbrigðis- og lýðheilsustétta með sleifarlag stjórnvalda og sinnuleysi gagnvart netsölunni og nefndu meðal annars samþykktir, ályktanir fjölda slíkra aðila svo sem frá Læknafélagi Íslands, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félagi lýðheilsufræðinga, Embætti landlæknis, SÁÁ og fleiri sem vilja ábyrga stjórnsýslu og að forsendur lýðheilsu séu virtar á borði en ekki einungis í orði.

Fundinn með ráðherranum af hálfu forvarnarsamtaka sátu: Árni Einarsson framkvæmdastjóri Fræðslu og forvarna – félags áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu, Árni Guðmundsson formaður Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum, Björn G. Einarsson formaður IOGT á Íslandi og Hildur Helga Gísladóttir fulltrúi SAFF-Samstarfs félagasamtaka í forvörnum.

Skjöl varðandi erindi fjármála- og efnahagsráðherra til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Við værum þakklát ef þú deilir þessari frétt ...

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar