Almannaheillasamtök gegna mikilvægu hlutverki  við að draga úr afleiðingum Covid-faraldursins.

Yfirlýsing frá Almannaheillum:

Almannaheill, regnhlífasamtök þriðja geirans, hvetja aðildarfélög sín, önnur félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir og allan almenning til að leggjast á sveif með yfirvöldum í að draga úr áhrifum veirufaraldursins og fylla í þau skörð sem ekki er á færi opinberra aðila að fylla.

Eftir því sem líður á tíma Covid-faraldursins skýrast afleiðingar hans hér á landi á einstaklinga og samfélag. Þær verða margþættari og víðtækari en í fyrstu var talið. Ekki er eingöngu um líkamlegar afleiðingar að ræða, heldur einnig andlegar, félagslegar, samfélagslegar og efnahagslegar. Þær verða langvinnar og þeirra mun eflaust gæta a.m.k. þar til stór hluti mannkyns hefur verið bólusettur við vágestinum með öruggu bóluefni.

Fátækt getur náð til millitekjuhópa
Allar líkur eru á að áhrif heimsfaraldursins muni teygja sig til hópa sem að jafnaði telja sig óhulta. Atvinnuleysi, tekjuskerðing og fátækt geta náð til millitekjuhópa sem hingað til hafa talið sig búa við efnahagslegt öryggi. Andlegir brestir og ofbeldi virðast þegar vera fylgifiskar faraldurins án tillits til þjóðfélagsstöðu.

Skjót viðbrögð og skýr stefna opinberra aðila hafa skipt sköpum og eru aflið í baráttunni við faraldurinn. En viðbrögðin þarf ennfremur að hugsa til lengri tíma og fleiri þurfa að koma að málum. Lögreglu- og heilbrigðisyfirvöld sendu strax ákall til félagasamtaka um að koma til aðstoðar og þau brugðust við: hagsmunasamtök aldurshópa, sjúklingasamtök, björgunarsveitir, hjálparsamtök og réttindasamtök hafa þegar sinnt brýnum verkefnum. Eftir því sem tíminn líður er þörf fyrir að fleiri almannaheillasamtök taki þátt í aðgerðunum, samtök sem eru vel til þess fallin að bregðast við vandamálum með viðeigandi og skapandi hætti, bæta úr þrengingum, vinna á móti með jákvæðum hætti, s.s. fræðslu og leiðsögn. Almannaheillasamtök eru líka nægilega nálægt eldinum sem brennur til að að rýna með gagnrýnum hætti aðgerðir stórnvalda til lausnar á vandanum.

Forðumst frekari skaða
Stjórn Almannaheilla hvetur því félagasamtök til að styðja við félagsmenn sína og skjólstæðinga eftir öllum þeim leiðum sem tiltækar eru. Almannaheillasamtök eru vön að glíma við samfélagsvandamál og vanda einstaklinga; faraldur kórónaveirunnar setur þau í skarpara ljós og gerir fátækt, andlega vanlíðan og fleiri mein alvarlegri viðfangs. Stjórnin mun á næstunni efna til samráðs við félagasamtök, deila þekkingu á úrræðum og efna til samvinnu um þau verkefni sem fyrir liggja. Stjórnin hvetur ennfremur þá einstaklinga sem þurfa á aðstoð að halda til að leita sér aðstoðar, ekki síst hjá viðurkenndum samtökum sem vinna að almannaheill.

Til að sinna hlutverkum sínum þurfa félagasamtök sem vinna að almannaheill eins og áður að reiða sig á stuðning almennings, opinberra aðila og annarra stuðningsaðila. Þeir sem eiga þess kost að leggja af mörkum vinnu, sérfræðiþekkingu, aðstöðu eða fjármuni ættu að beina sjónum sínum til viðurkenndra samtaka og leggja þeim lið við að forða frekari skaða en sjálf veiran veldur á heilsu fólks.

Við værum þakklát ef þú deilir þessari frétt ...

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar