Aukum ekki  aðgengi að áfengi á meðan á Covidfaraldrinum stendur!

„Áfengis er neytt í miklu magni í Evrópu og skilur eftir sig of mörg fórnarlömb. Við Covid-19 heimsfaraldurinn ættum við að leiða hugann að því hvaða áhætta fylgir því að fólk dvelji innilokað á heimilum sínum með efni sem er skaðlegt bæði hvað varðar heilsufar og skaðleg áhrif á hegðun fólks á aðra, þar á meðal ofbeldi, “ segir Carina Ferreira-Borges, verkefnisstjóri áfengis- og fíkniefnamála hjá WHO í Evrópu í viðtali á vefsíðu stofnunarinnar. Hún bendir einnig á að forðast ætti að slaka á lögum og reglum sem ætlað er að vernda heilsu og draga úr skaða af völdum áfengis, svo sem þeim sem ætlað er að takmarka aðgengi að áfengi. Svæðisskrifstofa WHO í Evrópu hvetur stjórnvöld til að framfylgja ráðstöfunum sem takmarka áfengisneyslu. Þær ætti jafnvel frekar að efla en hitt.

Vitað er að áfengi er almennt skaðlegt heilsu og vitað að það eykur hættu á slysum og ofbeldi, þar með talið heimilisofbeldi, og getur valdið áfengiseitrun. Með takmörkunum á samgangi fólks vegna Covid-19 heimsfaraldursins getur áfengisneysla ýtt undir alla þessa þætti. Þessu þarf að mæta með upplýsingagjöf til almennings um áhættu af áfengisneyslu og tryggja þjónustu og aðstoð vegna áfengisvandamála.

Áfengi hefur margvísleg skaðleg áhrif á heilsu og velferð fólks og eykur líkur á fjölda sjúkdóma. Áfengi skerðir til dæmis ónæmiskerfi líkamans og eykur þar með áhættu gagnvart veikindum af Covid-19. Í því ljósi ætti fólk að huga sérstaklega að því að draga úr eða hætta neyslu áfengis.

Það er ekki að ástæðulausu að Evrópuskrifstofa WHO hefur sérstakar áhyggjur af áfengisneyslu í því ástandi sem skapast hefur vegna Covid-19. Rekja má um 3 milljónir dauðsfalla á ári í heiminum til neyslu áfengis, þar af er þriðjungurinn í Evrópu. Þá er ótalið allt annað tjón sem rekja má til áfengis.

Í Evrópu er áfengisneysla meiri en í öðrum heimshlutum og hlutfall áfengisneytenda hæst. Þar er líka hæsta hlutfall áfengisvandamála og hlutdeild áfengis í dauðsföllum hæst.

Við værum þakklát ef þú deilir þessari frétt ...

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar