Fjórðungur Íslendinga með skaðlegt neyslumynstur áfengis
Samkvæmt vöktun áhrifaþátta heilbrigðis meðal Íslendinga, 18 ára og eldri*, segjast um það bil 86% fullorðinna Íslendinga hafa drukkið a.m.k. eitt glas af áfengum drykk síðustu 12 mánuði árið 2019 og 34% sögðust drekka áfengi í hverri viku.
Þá segjast 26% svarenda hafa orðið ölvaðir einu sinni í mánuði eða oftar síðastliðna 12 mánuði og fellur um fjórðungur Íslendinga þar með undir þá skilgreiningu að vera með skaðlegt neyslumynstur áfengis, svokallaða áhættudrykkju. Árið 2019 féllu 25% karla og 22% kvenna undir þá skilgreiningu að vera með skaðlegt neyslumynstur á áfengi. Ætla má að um 35 þúsund karla og 30 þúsund konur á Íslandi séu með skaðlegt neyslumynstur áfengis.
Það jákvæða er hins vegar að samkvæmt þessum könnunum var þetta hlutfall um 29% meðal karla árið 2018. Karlmönnum með skaðlegt neyslumynstur áfengis hefur því fækkað um 5 þúsund milli þessara tveggja ára en fjöldi kvenna haldist óbreyttur.
Yngri karlar og eldri karlar draga úr skaðlegri drykkju, einkum karlar 25-34 ára
Nánari greining eftir aldri sýnir að hlutfallslega fleiri í yngri aldurshópum beggja kynja eru með skaðlegt neyslumynstur áfengis heldur en í eldri aldurshópum (mynd 1). Þá sýnir samanburður milli áranna 2018 og 2019 enn fremur að það dregur úr áhættudrykkju karla í yngsta og elsta aldurshópnum. Áhættudrykkja kvenna stendur hins vegar nokkurn veginn í stað milli ára.
Hjá körlum dregur mest úr áhættudrykkju í aldurshópnum 18-34 ára, eða um 6 prósentustig, og eru nú hlutfallslega jafn margar konur og karlar í þessum yngsta aldurshópi með skaðlegt neyslumynstur áfengis. Sé rýnt enn frekar í þennan yngsta aldurshóp karla sýna gögnin að mest dregur úr áhættudrykkju þeirra sem eru á aldrinum 25-34 ára en mun minna hjá þeim sem eru 18- 24 ára (niðurstöður ekki sýndar á mynd).
*Frá árinu 2014 hefur embætti landlæknis vaktað valda áhrifaþætti heilbrigðis meðal landsmanna, 18 ára og eldri. Markmiðið er að fylgjast með heilsuhegðun og líðan fullorðinna Íslendinga og þróun tiltekinna áhrifaþátta, svo sem notkun áfengis og tóbaks, hreyfingu, mataræði, líðan og ofbeldi. Gallup framkvæmir könnunina fyrir embætti landlæknis og var könnunin lögð fyrir mánaðarlega á árinu 2019. Árið 2019 fengust samtals ríflega tíu þúsund svör og var þátttökuhlutfallið um 46%.
Heimild: https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item39682/Talnabrunnur_Mars_2020.pdf