Forvarnir eru alvörumál!
Ávana- og vímuefnaforvarnir eru lifandi og síkvikt viðfangsefni. Markmið þeirra og inntak er að bæta lífsgæði fólks og firra samfélagið kostnaði sem fylgir ávana- og vímuefnaneyslu. Birtingarform viðfangsefnisins eru ekki ávallt þau sömu og ný þekking á áhrifaþáttum hennar hefur áhrif á þær leiðir sem lögð er áhersla á hverju sinni og ýmsar samfélagsbreytingar kalla á breytta nálgun í forvörnum.
Meðal brýnna verkefna þeirra sem vinna að ávana- og vímuefnavörnum á Íslandi hefur verið að verja það fyrirkomulag á áfengissölu að það lúti samfélagslegri ábyrgð og sé á forræði almannavaldsins, svo og að halda aftur af markaðssetningu áfengis þar sem hvatinn er fjárhagslegur ávinningur á kostnað almannahagsmuna og lýðheilsu. Ítrekað hafa alþingismenn, eða hluti þeirra, lagt fram á Alþingi frumvörp sem hafa að markmiði að heimila sölu áfengis í almennum verslunum. Það er óneitanlega sérstakt að flestar hugmyndir og tillögur sem koma frá þingmönnum og varða ávana- og vímuefni miði að því að grafa undan og leggja af fyrirkomulag sem vitað er að skilar árangri og kemur bæði borgurunum og ríkisrekstrinum vel. Hvort um er að ræða vanþekkingu eða stuðning við aðra hagsmuni en almannahagsmuni er ekki ljóst. Sem betur fer eru þó á þessu undantekningar eins og samþykkt laga um rafsígarettur sem samþykktar voru í júní 2018 og koma til framkvæmda 1. mars 2019. Þótt æskilegt væri að lögin gengju lengra en sátt náðist um í þinginu eru þau samt spor í þá átt að bregðast við stóraukinni notkun rafsígaretta meðal ungmenna og ná tökum á því ástandi sem ríkt hefur í þessum efnum. Það hefur svo komið á daginn að betur má ef duga skal.
Með forvörnum viljum við fækka þeim sem missa ótímabært heilsu sína og fjölga þeim æviárum sem fólk getur notið lífsins við góða heilsu og hámarkað lífsgæði sín. Ávinningurinn af því nýtist bæði einstaklingum og samfélaginu öllu. Á undanförnum árum hefur áhugi á lýðheilsu og forvörnum aukist til muna og þeim fjölgar stöðugt sem átta sig á því að auknu álagi á heilbrigðisþjónustu verður ekki endalaust og eingöngu mætt með auknu fjármagni og uppbyggingu heilbrigðisstofnana til þess að takast á við sjúkdóma og vanheilsu. Þess vegna þurfa forvarnir og heilsuefling að vera forgangsmál stjórnvalda og félagsamtaka sem vinna að almannaheill. Það hagnast margir á því að framleiða, dreifa, selja og hvetja til neyslu ávana- og vímuefna og fleiri skaðlegra efna. Þeir eru meðal stærstu hindrana í því að draga úr eða uppræta neyslu þessara efna og vinna gegn lausnum á þeim skaða sem þau valda. Það er því meðal verkefna FRÆ- Fræðslu og forvarna og annarra sem vinna að heilsueflingu og forvörnum að takmarka eða koma í veg fyrir afskipti þessara aðila af stefnumörkun og forvarnastarfi. Þessi viðleitni mætti að ósekju njóta meiri stuðnings á Alþingi.
FRÆ hefur ekki skilgreint formlega eða metið vægi helstu áhættuþátta í íslensku samfélagi, það er þátta sem ógna lífi okkar, heilsu og velferð. Stærstu áhættuþættirnir sem við stöndum frammi fyrir eru alþjóðlegir eða hnattrænir. Það er nokkuð augljóst að ógnir sem steðja að í umhverfismálum eru þær sem kalla á skjótust og víðtækust viðbrögð og aðgerðir. Lífsvenjur okkar og lífsgæði, eins og við þekkjum þau nú, eru þar að veði. FRÆ hefur hins vegar valið að verja kröftum sínum að lífsstílstengdum heilsufarsáhættuþáttum, það er því sem hefur áhrif á heilsu og velferð fólks og er í mannlegu valdi að stjórna eða hafa markviss áhrif á. Þar er eftir miklu að slægjast, enda áætlað að koma megi í veg fyrir 60-80% lífstílstengdra sjúkdóma og samfélagslegra vandamála sem mannkynið stendur frammi fyrir.
Tilvist og starfsemi FRÆ helgast af samfélagslegri ábyrgð, sé sá skilningur lagður í það hugtak að það sem gert er skili ávinningi til samfélagsins. Aðgerðir sem miða að því að draga úr neyslu ávana- og vímuefna, hverju nafni sem þær nefnast, skila samfélaginu ávinningi. Sá ávinningur snýr bæði að einstaklingum, fjölskyldum og þjóðarbúinu öllu. Starfsemin og reksturinn er óhagnaðardrifinn og öllu fjármagni sem félagið hefur úr að spila er ráðstafað í þágu samfélagsins.
FRÆ byggir starf sitt og tilvist á þeim skilningi að til þess að koma á samfélagslegum breytinga, sem verða á lýðræðislegan hátt, þurfi að vera til staðar öflugir málsvarar þeirra og almenn þátttaka og viðurkenning borgaranna. Þessu reynir FRÆ að ná með víðtæku samstarfi við fjölda aðila, ýmist beint með formlegri aðild eða í gegnum ýmis tengslanet, bæði innanlands og í Evrópu (einkum á hinum Norðurlöndunum). Framkvæmdastjóri FRÆ og stjórnarfólk situr í stjórnum sumra þessara samtaka og tengslaneta til þess að styrkja þessar stoðir enn frekar. Meðal samstarfsaðila eru opinberar stofnanir (á landsvísu og sveitarstjórnarstigi) og félagasamtök sem vinna að forvörnum og eflingu lýðheilsu og eiga þar af leiðandi beina samleið með FRÆ. Einnig aðilar sem vinna að rannsóknum. Þessir aðildar eru margir hverjir bæði notendur þjónustu FRÆ og samstarfsaðilar.
FRÆ leggur áhersla á að fræða og þjálfa þá sem vinna með þeim í daglegu starfi á vettvangi skóla og frístundastarfs og hagnýta þekkingu á áhrifaríkum leiðum. Með því er lagður grunnur að því að forvarnir og heilsuefling séu hluti af skipulögðu uppeldis- og fræðslustarfi í höndum þeirra sem eru í daglegum tengslum við börn og ungmenni í stað þess að vera tilfallandi ,,viðburður“ í lífi þeirra, sem sjaldan eða ekki er fylgt eftir. Með öðrum orðum, áhersla er lögð á að ná til kennara, forvarnafulltrúa og annars starfsfólks grunnskóla, stjórnenda og starfsfólks í íþrótta- og tómstundastarfi og foreldra og auka þekkingu þeirra og færni til þess að sinna forvörnum á sínum sviðum.
Árni Einarsson, framkvæmdastjóri FRÆ
(Byggt á ársskýrslu FRÆ 2019)