Frumvarp til laga um félög til almannaheilla.

Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur lagt fram á alþingi frumvarp um almannaheillafélög.

Frumvarpið heimilar félögum og félagasamtökum að skrá sig sérstaklega sem félag til almannaheilla og fá þannig endinguna .fta í fyrirtækjaskrá. Í frumvarpinu felast hagnýtar leiðbeiningar um stofnun og rekstur almannaheillafélaga þar sem vandaðir stjórnarhættir og fjármál eru höfð að leiðarljósi. Í frumvarpinu er í raun kveðið á nauðsynlegar lágmarkskröfur um fagmennsku og lýðræðisleg vinnubrögð í starfi félagasamtaka og leiðir til þess að verja sig gegn eiginhagsmunapoti eða taka á fjármálaóreiðu.

Fyrir lítil félagasamtök sem ekki höndla með fjármuni þurfa þessi lög ekki að hafa önnur áhrif en að vera fyrirmynd um góða stjórnarhætti og vandaða meðferð fjármuna.

Samkvæmt frumvarpinu geta ríkið, sveitarfélög, opinberar stofnanir og lögaðilar sem eru í meirihlutaeigu hins opinbera gert það að skilyrði fyrir styrkjum, rekstrarsamningum og opinberum leyfum til félaga til almannaheilla að þau séu skráð í almannaheillafélagaskrá.

Hugsunin þar að baki er sú að eðlilegt sé að ríkið, sveitarfélög, opinberar stofnanir og fyrirtæki í opinberri eigu geti gert það að skilyrði að almenn félagasamtök, sem sækjast eftir fyrirgreiðslu hins opinbera, uppfylli einhver lágmarksskilyrði um uppbyggingu og sýnileika svo að hafa megi eftirlit með því hvert fjármunir hins opinbera fara og aðrir styrktaraðilar slíkra félagasamtaka geti jafnframt gert sér grein fyrir því hvað þeir eru að styrkja og hverjir bera ábyrgð á styrktri framkvæmd.

Sjá frumvarpið hér.

Við værum þakklát ef þú deilir þessari frétt ...

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar