Vitundarvakning um áhrif rafsígaretta.

Mikil vitundarvakning hefur orðið á áhrifum og skaðsemi rafsígaretta á stuttum tíma. Stöðugt koma fram vísbendingar um skaðsemi þeirra og fréttir af veikindum og mögulegum dauðsföllum sem rakin eru til notkunar á rafsígarettum.

Viðbrögð við þessu endurspeglast í hertum takmörkunum á notkun og dreifingu á rafsígarettum og  ákalli um að spyrna þurfi við fótum og herða regluverk og eftirlit með sölu og dreifingu.

Bandaríski smásölurisinn Walmart ákvað til dæmis fyrir skömmu að hætta sölu á rafsígarettum og tilheyrandi varningi. Walmart rekur ríflega 11.000 verslanir í 27 löndum. Í Michigan og New York-ríki hefur sala á bragðbættum veipvökva verið bönnuð, og aukinn þrýstingur er á stjórnvöld að banna slíkan vökva á landsvísu. Á Indlandi hefur öll framleiðsla, innflutningur og sala á rafsígarettum og tengdum vörum verið bönnuð. Um­fangs­mikið reyk­inga­bann, sem varðar bæði hefðbundna tóbaksneyslu og notk­un rafsígaretta, tók gildi í Svíþjóð síðastliðið vor og nær meðal ann­ars til úti­svæða veit­ingastaða og strætó­skýla. Þetta eru aðeins nokkur dæmi af því sem er að gerast.

Kannanir hér á landi sýna að tæp tíu prósent unglinga í 10. bekk noti rafsígarettur að staðaldri og yfir tuttugu prósent framhaldsskólanema. Þær sýna einnig að hlutfall barna sem notar rafsígarettur hefur farið hratt hækkandi undanfarin ár. Heilbrigðisráðherra hefur óskað eftir úttekt Embættis landlæknis á því sem er að gerast og landlæknir hefur lýst áhyggjum sínum af stöðunni og að við óbreytt verði ekki unað. Margir aðrir hafa lýst sömu áhyggjum, ekki síst þeir sem láta sig varða heilsu og velferð barna og ungmenna.

Þegar nemendur eru spurðir um viðhorf foreldra sinna til vímuefna eins og áfengis, kannabis, sígaretta eða rafsígaretta má sjá að foreldrar hafa mildari viðhorf gagnvart rafsígarettum. Þarna þurfa foreldrar greinilega að gera betur.

Við værum þakklát ef þú deilir þessari frétt ...

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar