Áfengisfrumvarp

Sala áfengis í matvöruverslunum stangast á við öll þekkt markmið um lýðheilsu og heilbrigði almennings

Nýráðinn landlæknir, Birgir Jakobsson, er í viðtali í síðasta tölublaði Læknablaðsins. Birgir var áður forstjóri Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi, eins stærsta og virtasta sjúkrahúss á Norðurlöndum.Spurður um skoðun Embættis landlæknis á frumvarpinu sem nú liggur fyrir Alþingi um að leyfa sölu á áfengi í matvörubúðum segir landlæknir hana skýra:

„Afstaða embættisins í báðum þessum málum er algjörlega afdráttarlaus enda stangast hvorutveggja á við öll þekkt markmið um lýðheilsu og heilbrigði almennings. Hlutverk embættisins í lýðheilsumálum er alveg skýrt. Okkur er ætlað að koma fram með leiðbeiningar um heilbrigði og mataræði og þar undir falla forvarnir á ýmsum sviðum, ekki síst hvað varðar tóbak og áfengi. Stærsti áhættuþáttur Íslendinga hvað varðar sjúkdóma er offita og mataræði á þar stærstan þátt. Markviss stefna í þá átt að draga úr neyslu sykurs hlýtur að vera eitt af því mikilvægasta sem hægt er að gera í þeim efnum. Embætti landlæknis hefur nýlega gefið út nýjar leiðbeiningar um heilsusamlegt mataræði og stjórnvöld tóku nánast samtímis ákvörðun um afnám sykurskatts sem gengur þvert á markmið lýðheilsustefnunnar. Það sjá allir sem vilja hversu fráleitt þetta er. Embættið hefur einnig nýlega skilað umsögn um frumvarpið um breytingar á áfengissölu og þar kemur skýrt fram að frá heilbrigðissjónarmiði er þetta afar slæm ráðstöfun. Það er auðvitað alveg ljóst að ákveðið pólitískt gildismat ræður þarna ferðinni og það er hreinlega hörmulegt þegar það stangast svo augljóslega á við líf og heilsu almennings í landinu. Undir þetta taka allir sem þekkja til og reynsla annarra þjóða tekur af öll tvímæli um hversu slæm ákvörðun þetta yrði. Þjóðin öll og ekki síst heilbrigðiskerfið mun sitja uppi með afleiðingarnar og ég segi bara hreint út að við þurfum ekki á því að halda.“

Heimild: Læknablaðið

Deila þessari frétt

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar

Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.