Áfengi

Aukning skaðlegrar áfengisneyslu er mikið áhyggjuefni

Ísland er eitt fárra ríkja innan OECD þar sem áfengisneysla hefur aukist á síðustu 20 árum. Óhófleg áfengisneysla hefur aukist á meðal ungmenna og kvenna í mörgum ríkjum OECD.

Aukning óhóflegrar og skaðlegrar áfengisneyslu er mikið áhyggjuefni og henni fylgir aukið ofbeldi og fjölgun umferðarslysa auk þess sem hún hefur slæm áhrif á heilbrigði fólks. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu OECD sem kynnt var í gær.

OECD bendir á að stjórnvöld geti gert eitt og annað til að stemma stigu við óhóflegri áfengisdrykkju; aukið ráðgjöf til þeirra sem drekka of mikið, hert lög um ölvunarakstur, hækkað verð á áfengi og þrengt aðgengi fólks að áfengi.

Angel Gurría, framkvæmdastjóri OECD segir að þrátt fyrir að forvarnir geti verið dýrar, þá margborgi þær sig til lengri tíma.

Að meðaltali drekkur hver fullorðinn borgari í OECD-ríkjunum um 10 lítra af hreinu áfengi á ári. Þetta samsvarar um það bil 100 vínflöskum á mann á ári. Víðast hvar hefur dregið úr neyslu á síðustu 20 árum, en hún hefur þó aukist í nokkrum ríkjum innan OECD og mest á Íslandi, í Finnlandi, Ísrael, Noregi, Póllandi og Svíþjóð.

43 prósent drengja undir 15 ára aldri innan OECD hafa orðið ölvuð og 41 prósent stúlkna. Lítt menntaðir karlar eru líklegri til að neyta áfengis í óhófi en vel menntaðir karlar. Hið gagnstæða á við um konur, því betur sem þær eru menntaðar því meiri líkur eru á að þær neyti áfengis í óhófi.

Óhófleg áfengisneysla er fimmta algengasta banamein fólks í heiminum í dag. Hún dregur fleira fólk til dauða á ári hverju en alnæmi, ofbeldi og berklar til samans.

Deila þessari frétt

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar

Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.