Heilsuefling

Fjölmenn ráðstefna um Heilsueflandi framhaldsskóla

Mánudaginn 2. nóvember síðastliðinn stóðu Embætti landlæknis, Heimili og skóli og FRÆ að ráðstefnu um Heilsueflandi framhaldsskóla undir yfirskriftinni Opnum verkfærakisturnar. Ráðstefnan var vel sótt, en auk þátttakenda úr starfsliði skólanna voru þar líka þátttakendur úr röðum nemenda og foreldra. Inntakið í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli er að nálgast forvarnir út frá víðtæku og jákvæðu sjónarhorni með það að markmiði að stuðla að vellíðan og auknum árangri allra í skólasamfélaginu, nemenda og starfsfólks.

Verkefnið Heilsueflandi framhaldsskóli skiptist í fjóra meginflokka, næringu, hreyfingu, geðrækt og lífsstíl. Framhaldsskólarnir kynntu ýmis verkefni sem þeir eru að vinna að undir formerkjum verkefnisins. Líflegar umræður og skoðanaskipti urðu um kynningar skólanna og ljóst að mikil gróska er í þessu starfi.

Dr. Anna Sigríður Ólafsdóttir flutti erindi um niðurstöðu rannsóknar á fæðuvali framhaldsskólanema og samspil þess við aðra heilsutengda hegðun og þrír skólameistarar sátu fyrir svörum í pallborði í lok ráðstefnunnar.

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra heimsótti ráðstefnuna og afhenti Gulleplið, sem er viðurkenning fyrir framúrskarandi starf á sviði  heilsueflandi framhaldsskóla. Þetta er í fimmta sinn sem Gulleplið er veitt og féll það í skaut Borgarholtsskóla. Áður hafa Flensborgarskólinn, Verzlunarskóli Íslands, Fjölbrautaskóli Vesturlands og Fjölbrautaskóli Suðurlands hlotið Gulleplið.

Deila þessari frétt

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar

Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.