Áfengisfrumvarpið

Einkasala ríkisins á smásölu áfengis er mikilvægur hornsteinn í árangursríkri áfengismálastefnu Íslendinga
Á ráðstefnu og ársþingi NordAN (Nordic Alcohol and Drug Policy Network) sem haldinn var í Helsinki 23. október síðastliðinn var m.a. rætt um stöðu og þróun áfengismála á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum. Sérstaklega var rætt um stefnumörkun í þessum málum, pólitíska umræðu og framtíðarsýn.
Í umræðum lýstu margir yfir undrun sinni á að mögulega væri meirihluti þingmanna á Alþingi fylgjandi því að leggja af einkasölu ríkisins á smásölu áfengis og heimila sölu áfengis í almennum verslunum. Slíkt fyrirkomulag væri ein viðurkenndasta og sterkasta forvörnin í áfengismálunum.
Ársþing samtakanna, sem eru samstarfsvettvangur tæplega eitthundrað félagasamtaka á Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum og beita sér fyrir virkri og samfélagsmiðaðri áfengis- og vímuvarnastefnu, samþykkti eftirfarandi ályktun með vísan í hið svokallaða áfengisfrumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi.
Einkasala ríkisins á smásölu áfengis er mikilvægur hornsteinn í árangursríkri áfengismálastefnu Íslendinga!
The Nordic Alcohol and Drug Policy Network (NordAN) hvetur fulltrúa á Alþingi Íslendinga eindregið til þess að hafna frumvarpinu sem liggur nú fyrir Alþingi um að leggja niður einkasölu ríkisins á smásölu áfengis og heimila sölu áfengis í almennum verslunum.
- Aðalfundurinn hvetur alþingismenn til þess að standa vörð um eina best þekktu og árangursríkustu forvörnina í áfengismálum , þ.e. einkarétt ríkisins til smásölu á áfengi.
- Aðalfundurinn vekur athygli alþingismanna á þeirri mikilvægu staðreynd að áfengi er engin venjuleg neysluvara og löggjöf og stefna verður að taka mið af því.
- Rannsóknir sýna greinilega að takmarkanir á framboði áfengis er eitt virkasta úrræðið gegn áfengisvandanum. Einkaréttur ríkisins á smásölu áfengis, hár áfengiskaupaaldur, hátt verð á áfengi, bann við áfengisauglýsingum og virkar aðgerðir gegn ölvunarakstri eru þær leiðir sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælir sérstaklega með. Frumvarpið myndi líklega fjölga dreifingarstöðum áfengis á Íslandi um 300-400 prósent, úr 49 í 150-200. Samþykkt tillögunnar gengur gegn öllum niðurstöðum og þeirri meginreglum í stefnumörkunum í lýðheilsu að standa vörð um og bæta heilsu borgaranna og getur leitt til aukinna áfengisvandamála.
- Núverandi áfengismálastefna á Íslandi hefur skilað augljósum árangri, eins og sést meðal annars á mjög góðri stöðu Íslands í áfengis- og vímuefnaneyslu ungmenna og þeirri staðreynd að heildarneysla áfengis á Íslandi er ein sú lægsta í Evrópu.
- Við bendum á að mörg lönd líta til Íslands sem fyrirmyndar vegna árangursríkrar áfengismálastefnu.
- Kannanir sýna almennan stuðning Íslendinga við núverandi áfengisstefnu, þar á meðal Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, ÁTVR.
Sjá frumtexta ályktunarinnar hér.
Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.