Ölvun
Heildarneysla áfengis að aukast
Færri yngri karlar stunda ölvunardrykkju en fleiri yngri konur
Í nýju fréttabréfi Embættis landlæknis, Talnabrunni (október 2015), eru skoðaðar nokkrar breytingar sem hafa orðið á áfengisneyslu Íslendinga á aldrinum 18–79 ára á árunum 2007, 2009 og 2012. Stuðst er við gögn úr rannsókninni Heilsa og líðan Íslendinga. Skoðuð er annars vegar áfengisneysla einu sinni í mánuði eða oftar og hins vegar ölvunardrykkja einu sinni eða oftar í mánuði á síðustu 12 mánuðum.
Heildarsala áfengis aukist síðustu ár en er minni en árið 2007 þegar hún var mest
Heildarsala áfengis er áætluð tæpir 7,2 lítrar af hreinum vínanda á íbúa (15 ára og eldri) árið 2014. Heildarsalan var nokkru meiri árið 2007, eða 7,5 lítrar af hreinum vínanda, 6,9 lítrar árið 2009 og tæplega 7 lítrar árið 2012. Athuga þarf að inn í þessar tölur vantar óskráða neyslu. Leiða má líkur að því að rekja megi þann samdrátt sem varð í heildarsölu áfengis frá árinu 2007 til 2009 og 2012 til minni kaupmáttar og hækkunar á áfengisgjaldi, segir í fréttabréfinu.
Áfengisneysla einu sinni í mánuði eða oftar: Minnkað frá 2007, Algengari en óbreytt meðal karla en minnkar meðal kvenna
Þegar bornar eru saman tölur um þá sem segjast í þessum könnunum hafa drukkið að minnsta kosti eitt glas af áfengum drykk, einu sinni í mánuði eða oftar á síðustu 12 mánuðum sést að fleiri karlar eru í þessum hópi heldur en konur. Á það við um öll árin. Ef bæði kynin eru tekin saman sést að þeim hefur aðeins fækkað sem segjast hafa drukkið að minnsta kosti eitt glas af áfengum drykk, einu sinni í mánuði eða oftar á síðustu 12 mánuðum á milli áranna 2007 og 2012. Fækkun hefur orðið hjá báðum kynjum eins og sést af eftirfarandi:
- Árið 2007 voru tæplega 59% Íslendinga í þessum hópi. 67% karla og tæplega 51% kvenna.
- Árið 2009 voru tæplega 56% Íslendinga í þessum hópi. 65% karla og 46% kvenna.
- Árið 2012 rúmlega 56% Íslendinga í þessum hópi. 64% karla og 48% kvenna.
Sama hlutfall og árið 2009 en lægra en 2007.
Ef karlarnir eru skoðaðir sérstaklega kemur í ljós engin breyting hefur orðið hjá ungum körlum (18–34 ára), er 67% öll árin, en hlutfallið hefur lækkað aðeins hjá eldri hópnum (67–79 ára), lækkað úr 54% árið 2007 í 51% árið 2012.
Ölvunardrykkja á síðustu 12 mánuðum: Algengari meðal karla en kvenna, stendur í stað hjá eldri körlum, minnkar hjá ungum körlum en eykst hjá ungum konum.
Ölvunardrykkja er skilgreind þannig að viðkomandi hafi drukkið fimm áfenga drykki eða fleiri við sama tilefni. Þegar tölur yfir þá sem segjast hafa drukkið 5 eða fleiri áfengi drykki einu sinni í mánuði eða oftar á þessum árum lítur myndin svona út:
- Árið 2007 sögðust 22,7% drekka 5 áfenga drykki eða meira einu sinni í mánuði eða oftar (tæplega 32% karla á móti tæplega 14% kvenna).
- Árið 2009 var hlutfallið 20,8% (30% karla á móti rúmlega 11% kvenna).
- Árið 2012 var hlutfallið 20,4% (rúmlega 27% karla á móti tæplega 14% kvenna).
Ölvunardrykkja er samkvæmt þessu algengari meðal karla en kvenna, minnkað hjá körlunum en staðið í stað hjá konunum.
Hlutfallið meðal ungra karla á aldrinum 18-34 ára hefur aðeins lækkað (45% árið 2007; 35% árið 2012), en aukist aðeins meðal kvenna á sama aldri (20% árið 2007; 24% árið 2012).
Fólk á aldrinum 18–34 ára drekkur sig oftar ölvað en fólk í öðrum aldurshópum. Þá verða yngri karlmenn talsvert oftar ölvaðir en eldri karlmenn en yngri karlarnar hafa færst nær þeim eldri og ölvunardrykkja karla á aldrinum 18-34 ára minnkað umtalsvert.
Fjá Talnabrunn Embættis landlæknis hér.
Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.