Stefnumál

Félagasamtök á Norðurlöndum vilja sameiginlega lýðheilsumiðaða norræna áfengis- og tóbaksvarnastefnu

NordAN, sem er samstarfsvettvangur um 90 norrænna félagasamtaka og félagsamtaka í Eystrasaltsríkjunum þremur, samþykkti á aðalfundi sínum sem haldinn var í Tallinn 13. október síðastliðinn ályktun þar sem skorað er á Norrænu ráðherranefndina að samþykkja tillögu um sameiginlega áfengis- og tóbaksstefnu fyrir Norðurlöndin. Tillagan, sem á uppruna sinn hjá Velferðarnefnd Norðurlandaráðs og samþykkt á Norðurlandaráðsþingi í Helsinki 1. nóvember 2012 felur m.a. í sér lækkun áfengismarka í 0,2 prómill við akstur á öllum vélknúnum farartækjum á Norðurlöndum, en í dag eru þau 0.5 prómill í Danmörku, Finnlandi og á Íslandi. Í tillögunni er einnig kveðið á um reyklaus Norðurlönd, algert bann við markaðssetningu áfengis til ungs fólks og áfengislás í öll farartæki.

Ályktun NordAN er svohljóðandi:

Nordic Alcohol and Drug Policy Network (NordAN) styður samþykkt Norðurlandaráðs um ,,Lýðheilsumiðaða áfengis- og tóbaksvarnastefnu fyrir tímabilið 2014-2020” og hvetur Norrænu ráðherranefndina til þess að styðja það frumkvæði og tryggja með því framtíð öflugrar norrænnar áfengismálastefnu.

Sem samstarfsvettvangur félagasamtaka á Norðurlöndunum öllum og Eystrasaltsríkjunum þremur  vekur NordAN athygli á:

  • Ógnvekjandi mikilli áfengisneyslu (sérstaklega meðal ungs fólks) á svæðinu;
  • Vaxandi þekkingu á þeim vanda sem neysla áfengis veldur og leiðum til þess að bregðast við vandanum;
  • Misjöfnu regluverki ríkjanna á þessu svæði (t.d. hvað varðar skattlagningu og markaðssetningu);
  • Nauðsyn þess að viðurkenna að áfengisneysla hefur ekki aðeins áhrif á líðan og heilsu áfengisneytenda sjálfra heldur hefur umfangsmikil óviðunandi og afgerandi afleiðingar fyrir samfélagið allt og skaðar einnig annað fólk;
  • Ágengum afskiptum aðila af mótun lýðheilsustefnu í því skyni að verja eigin fjárhags- og viðskiptahagsmuni;
  • Skorti á almennum pólitískum vilja bæði innan ríkja á á alþjóðavettvangi;

og hvetur Norðurlönd á vettvangi samstarfs síns til þess að taka til alvarlegrar skoðunar þær ábendingar sem fram koma í tillögum velferðarnefndar Norðurlandaráðs og vinna af alhug að því að setja fram lýðheilsumiðaða áfengisstefnu fyrir tímabilið 2014-2020.

NordAN hvetur Norrænu ráðherranefndina til þess að gegna leiðandi  hlutverki í evrópskri og alþjóðlegri umræðu um áfengismálastefnu og sýna hvernig hrinda megi orðum í framkvæmd.

NordAN hefur áhyggjur af hve lítið miðar í þróun áfengismálastefnu í Eystrasaltsríkjunum og kallar eftir nánara samstarfi Eystrasaltsráðsins og Norrænu ráðherranefndarinnar um mótun áfengismálastefnu.

NordAN hvetur aðildarsamtök sín til þess að virkja sveitarstjórnarfólk, alþingsmenn og ráðherra til stuðnings við tillögu Norrænu velferðarnefndarinnar.

Deila þessari frétt

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar

Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.