Könnun

Meirihlutinn vill ekki lækka áfengiskaupaaldurinn í 18 ár

Tæpur þriðjungur landsmanna vill lækka áfengiskaupaaldurinn í átján ár samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 en þjóðin klofnar í tvo jafn stóra hópa þegar spurt er um sölu áfengis í matvöruverslunum.

Meirihluti landsmanna, 56,3 prósent, er mjög eða frekar andvígur því að lækka áfengiskaupaaldurinn úr 20 árum í 18 ár, samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Tæpur þriðjungur, 28,2 prósent, sagðist mjög eða frekar hlynntur slíkri breytingu, og 15,5 prósent sögðust hvorki hlynnt né andvíg lækkun áfengiskaupaaldursins.

Þegar spurt var um afstöðu til þess hvort heimila ætti sölu áfengis í matvöruverslunum klofnaði þjóðin í tvo jafn stóra hópa. Um 45,9 prósent þeirra sem afstöðu tóku í könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 segjast mjög eða frekar andvíg því að selja áfengi í matvöruverslunum en 45,2 prósent segjast mjög eða frekar hlynnt slíkri breytingu.

Hringt var í 1.329 manns þar til náðist í 800 samkvæmt lagskiptu úrtaki miðvikudaginn 27. janúar og fimmtudaginn 28. janúar. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir búsetu og aldri.

Spurt var: Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ertu því að lækka áfengiskaupaaldurinn í 18 ár? Alls tóku 97,3 prósent afstöðu til spurningarinnar. Einnig var spurt: Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ertu því að heimilt verði að selja áfengi í matvöruverslunum? Alls tóku 98,3 prósent afstöðu til þeirrar spurningar.

Fréttablaðið 5. mars 2013

Deila þessari frétt

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar

Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.