Hundar
Fíkniefnahundar leita fíkniefna í sænskum skólum
Fíkniefnahundar verða látnir leita fíkniefna í framhaldsskólum í Landskrona í Suður-Svíþjóð frá og með komandi vori til þess að bregðast við jákvæðari viðhorfum til fíkniefna. Hundarnir verða látnir skoða skápa nemenda, salerni og anddyri. Finnist eitthvað verða nemendur sem tengjast málum settir í fíkniefnapróf. Þetta fyrirkomulag hefur einnig verið notað í Jämtaland í Norður-Svíþjóð og Noregi. Ýmsir hafa gagnrýnt þetta á þeirri forsendu m.a. að skólar séu vinnustaðir nemenda og óhugsandi sé að vinnustaðir annarra geti átt vona á leit með fíkniefnahundum.
Olle Olsson yfirmaður unglinga- og fíkniefnahóps lögreglunnar í Landskrona segir í viðtali við blaðið Helsingborgs Dagblad þessar aðgerðir lögreglu ekki tilkomnar vegna þess að fíkniefni flæði um skólana, heldur vegna þess að skólarnir eigi að vera fíkniefnalausir með öllu. Lögreglan segist einnig vonast til að með þessu séu auknar líkur á að hægt sé að ná snemma til ungmenna sem farin eru að neyta fíkniefna og bjóða þeim stuðning og hjálp.
Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.