,, Eftir bið í meira en hálfan áratug er loks komin niðurstaða um að íslenska svindlaðferðin við netsölu áfengis af lager innanlands er ólögleg. Breiðfylking forvarnasamtaka fagnar því að kæra ÁTVR á hendur netsöluaðila áfengis hafi leitt til ákæru lögreglu. Skorað er á stjórnvöld að standa vörð um lýðheilsu og almannaheill.“ Þetta segir í fréttatilkynningu sem Breiðfylking forvarnasamtaka hefur sent fjölmiðlum.

Tilkynningin kemur í kjölfar frétta að loksins, eftir fimm ár, hafi Lög­reglu­stjór­inn á höfuðborg­ar­svæðinu ákært fram­kvæmda­stjóra Smárík­is­ins fyr­ir að starf­rækja smá­sölu áfeng­is án leyf­is. Fleiri fyr­ir­tæki í sam­bæri­leg­um rekstri eru und­ir rann­sókn lög­reglu og góðar lík­ur eru á því að þau verði einnig ákærð.

Í samtali við Hildi Sunnu Pálmadóttur, sviðsstjóra ákæru­sviðs hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu, sem birt er á mbl.is  segir hún að ákær­an á hend­ur fram­kvæmda­stjóra Smárík­is­ins teng­ist ekki kæru ÁTVR, held­ur hafi lög­regl­an haft frum­kvæði að því að rann­saka fyr­ir­tæki sem eru með smá­sölu á áfengi. „Það kom í ljós brot gegn áfeng­is­lög­um við eft­ir­lit lög­reglu með þess­um fyr­ir­tækj­um sem eru að aug­lýsa smá­sölu með áfengi,“ seg­ir Hild­ur. Í viðtalinu segir hún að málið verði þing­fest í héraði á næstu dög­um.

Á sama tíma og ólöglegar netsölur áfengis hafa sprottið upp átölulaust og aðgengi að áfengi þar með aukist verulega og unnið er markvisst að því að gera áfengisneyslu á íþróttakappleikjum sjálfsagða virðist unglingadrykkja vera orðin norm.

Í umfjöllun á visir.is segir að unglingadrykkja hafi aukist verulega síðustu ár og hafði lögregla afskipti af fjölmörgum ungmennum á Menningarnótt vegna drykkju. Unnar Þór Bjarnason, verkefnastjóri samfélagslögreglu segir drykkjuna vera orðna norm: „Unglingadrykkja virðist vera orðin norm, fyrir nokkrum árum þótti þetta bara ekkert sniðugt. Þau eru svona 14-15 ára þessi stærsti kjarni sem er byrjaður að drekka en svo erum við að sjá ölvuð börn alveg niður í tólf ára aldur.“

Í sömu umfjöllun segir Guðrún Halla Jónsdóttir, forvarnarfulltrúi Reykjavíkurborgar, að foreldrar þurfi að vakna. „Ef einhver á að vakna, vegna þessarar þróunar, þá eru það foreldrar.  Þeir eiga að halda vel utan um börnin sín og fylgjast með hvað þau eru að gera, hverjir vinir þeirra eru og hvar þau eru stödd. Foreldrar þurfa að leggja áherslu á samveru með börnum sínum og fylgja þeim eftir, líka þegar farið er á hátíðir eins og Menningarnótt og aðrar í svipuðum dúr,“ segir Guðrún Halla.

Fréttatilkynning forvarnasamtaka: Breiðfylking forvarnarsamtaka fagnar því að ólögleg áfengissala verður loks stöðvuð!

Eftir bið í meira en hálfan áratug er loks komin niðurstaða um að íslenska svindlaðferðin við netsölu áfengis af lager innanlands er ólögleg. Breiðfylking forvarnarsamtaka fagnar því að kæra ÁTVR á hendur netsöluaðila áfengis hafi leitt til ákæru lögreglu. Skorað er á stjórnvöld að standa vörð um lýðheilsu og almannaheill.

Niðurstaða þessi kemur ekki á óvart því lagabókstafurinn er ótvíræður eins og samtökin hafa ítrekað bent á og fært rök fyrir. Samtökin telja því að netsöluaðilar eigi ekki rétt á skaðabótum. Ef svo ólíklega vill til að skaðabótaréttur er til staðar, ættu stjórnvöld að greiða slíkar bætur. Ódýrara er að greiða þær en allan þann samfélagsskaða sem verður ef aðgengi að áfengi verður aukið með afnámi einkasölu ríkisins á áfengi.

Það er í hæsta máta gagnrýnivert að stjórnvöld og stjórnsýsla skuli hafa sett málið aftast í forgangsröðina í fjölmörg ár og gefið þannig áfengisiðnaðinum færi á að leika lausum hala til að grafa undan einkasölu ríkisins á áfengi. Ólögleg netsala hefur hvatt til aukningar á neyslu áfengis með tilboðum og afsláttum á áfengi þvert á markmið lýðheilsustefnu stjórnvalda. Þá hefur slík netsala einnig þverbrotið reglur um sölutíma á áfengi. Sala þessi er meðal annars talin hafa stuðlað að aukinni unglingadrykkju og hafa samtökin miklar áhyggjur af þeirri þróun. Einkasala ríkis á áfengi er það sölufyrirkomulag sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælir með og rannsóknir og vísindi sýna að reynist best til að vernda lýðheilsu og almannaheill.

Samtökin skora á stjórnvöld að sýna samfélagslega ábyrgð og láti af því að þjóna aðilum sem vilja gera verslun með áfengi að gróðalind. Seinagangur stjórnvalda hefur stóraukið hættu á að samstaðan um að viðhalda einkasölu ríkis á áfengi brotni niður. Ætla má að ólöglegir söluaðilar muni nú krefjast lagabreytinga til að geta selt og grætt sem mest fyrir sjálfan sig, þótt slíkt auki samfélagskostnað um á annað hundrað milljarða króna árlega. Netsöluaðilar greiða ekki samfélagsskaðann það gera skattborgararnir.

Samtökin krefjast þess að stjórnvöld geri nú það sem allir stjórnmálaflokkar segjast sammála um, sem er að auka fræðslu og þekkingu í áfengis- og nikótínforvörnum. Slíkt er gert með því að halda á lofti sannreyndri þekkingu og vísindum. Í samþykktri stefnu Alþingis um lýðheilsustefnu til ársins 2030 segir að Íslendingar verði meðal fremstu þjóða í lýðheilsustarfi sem byggist á bestu vísindaþekkingu og reynslu og að stjórnvöld skuli hafa lýðheilsu að leiðarljósi við alla áætlanagerð og stefnumótun.

Að Breiðfylkingu forvarnarsamtaka, standa: Fræðsla og forvarnir – félag áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu, Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum, IOGT á Íslandi og SAFF-Samstarf félagasamtaka í forvörnum.

Við værum þakklát ef þú deilir þessari frétt ...

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar