Loading...
Forsíða- Vinnsla 2018-12-20T06:54:57+00:00

FRÆÐSLA & FORVARNIR

Fræðslu- og upplýsingamiðstöð í forvörnum og heilsueflingu

HVERS VEGNA FRÆÐSLA OG FORVARNIR

Forvarnir eru viðfangsefni sem tekur stöðugum breytingum vegna samfélagsþróunar, nýrrar þekkingar og breyttra viðhorfa. Á undanförnum árum  hefur áhugi á lýðheilsu og forvörnum aukist til muna og þeim fjölgar stöðugt sem átta sig á því að auknu álagi á heilbrigðisþjónustu verður ekki endalaust mætt með auknu fjármagni og uppbyggingu heilbrigðisstofnana til þess að takast á við sjúkdóma og vanheilsu. Við þurfum að huga að hinum endanum og efla forvarnir, fækka þeim sem missa heilsu og fjölga þeim  æviárum sem fólk getur notið lífsins við góða heilsu. Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi þess að meðalaldur fólks hækkar jafnt og þétt og þar með í þeim hópi sem líklegastur er til þess að eiga í heilsuvanda, þ.e. eldra fólki.

Leiðirnar í þessu skyni er ýmsar. Lífsstílsstýring af ýmsum toga er mikilvægt tæki, svo sem að takmarka aðgengi að heilsuspillandi vörum og auka framboð á heilsueflandi valkostum og gera þá eftirsóknarverðari umfram hina. Fræðsla í ýmsu formi og hvatning til heilbrigðra lífshátta er einnig öflugt tæki. Lýðheilsufræðsla er margþætt viðfangsefni sem snýr bæði að almenningi og þeim sem bera ábyrgð á samfélagslegum ákvörðunum og stefnumörkun og eru viðvarandi verkefni. Kynslóðir koma og fara og hagsmunir lýðheilsu (samfélagsins) og markaðshagsmunir (einstaklinga/fyrirtækja) togast á í stefnumörkun í lýðheilsu.

ÁVANA- OG VÍMUEFNAMÁL – ALÞJÓÐLEGT VIÐFANGSEFNI

Ávana- og vímuefnamál ganga þvert á landamæri ríkja og alþjóðlegt samstarf því mikilvægt. Áfengi og önnur ávana- og vímuefni eru notuð í nær öllum hlutum heims, framleiðendur áfengis eru flestir á alþjóðamarkaði og þekktir áhrifaþættir neyslu eru keimlíkir um allan heim, svo nokkrar ástæður séu nefndar. Vandinn vegna neyslu áfengis og annarra ávana- og vímuefna snertir þjóðir heims með líkum hætti þótt minniháttar frávik kunni að vera á birtingarformum hans. Niðurstöður rannsókna ávana- og vímuefnamálum og árangri aðgerða til varna og úrbóta eiga því við allar þjóðir.

FRÆ hefur frá stofnun tekið þátt í samstarfi félagasamtaka á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunun þar sem aðalmarkmiðið hefur verið að varpa ljósi á ávana- og vímuefnamál sem alþjóðlegt viðfangsefni og mikilvægi þess að þjóðir standi saman að stefnumarkandi tilmælum, eða samstarfssamningum, sem þær geta miðað lagasetningar sínar og ákvarðanir við. Þetta á til dæmis vel við um áfengisauglýsingar sem hafa engin landamæri í rafrænum heimi og viðhorf sem birtast í kvikmyndum og tónlist og flæða um heiminn. Tollamál og alþjóðasamningar á ýmsum sviðum gera það einnig að verkum að ávana- og vímuefnamál geta ekki einungis verið innanríkismál einstakra þjóða. Ávana- og vímuefnamál eru því til urmæðu og á dagskrá alþjóðlegra stofnana,svo sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðalögreglunnar, Evrópuráðsins, Evrópusambandsins og ýmiss alþjóðlegra og norrænna samstarfsstofnana.

OKKAR GILDI

Styrkja og efla forvarnir í landinu með fjölbreyttu upplýsinga- og fræðslustarfi með þekkingu í þágu forvarna að leiðarljósi. Auka almenna þekkingu og vitund um fjölþætt áhrif ávana- og vímuefna á lýðheilsu og samfélag.

Aukin þekking hvað þetta varðar eflir skilning á mikilvægi forvarna og lýðheilsusjónarmiða við stefnumörkun í ávana- og vímuefnamálum. Sérstök áhersla er lögð á að ná til barna og ungmenna og efla þátttöku og samstarf félagasamtaka í forvörnum.

Þótt starfsemi FRÆ felist fyrst og fremst í fræðslu- og upplýsingastarfi hefur starf og áherslur FRÆ frá upphafi byggst á þeirri sýn að ávana- og vímuvarnir felist ekki eingöngu í fræðslu og upplýsingamiðlun um skaðsemi fíkniefna heldur snerti nánast alla þætti samfélagsins. Fyrir vikið verður viðfangsefnið margslungið og leiðirnar fjölbreyttar.

Starfsemi FRÆ byggir á þeirri sýn að forvarnir séu samfélagslegt viðfangsefni; það sé samfélaginu hagfellt að forvarnir skili árangri og til þess að svo megi verða þurfi allt samfélagið að koma að, hvort heldur er stefnumörkun eða framkvæmd.

Sóknarfærin eru næg og möguleikar samfélags eins og okkar, með sterka innviði, menntakerfi, heilbrigðiskerfi, almenna menntun og almenna velferð, til að gera vel í forvörnum eru miklir. Í öllum þessum kerfum, sveitarfélögum, íþróttastarfi og innan grasrótar- og almannaheillasamtaka eru ótal tækfæri til að vinna á heildrænan og markvissan hátt þess að stuðla að heilbrigði þjóðarinnar. Þar á meðal hvað varðar ávana- og vímuefnaneyslu.

Forvarnastarf krefst þrautseigju, bjartsýni og áhuga, ávinningurinn er oftast í litlum skrefum og margt gengur hægt. en ekki síst krefst úthald í forvörnum vilja til þess að vinna samfélagi sínu vel. Hjá þeim sem vinna að forvörnum er rík löngun til þess að hafa áhrif á samfélagið og bæta mannlífið. Okkur finnst öllum erfitt að horfa upp á það mein sem áfengi og önnur vímuefni er í samfélaginu. Það er erfitt að horfa upp á ungt fólk missa fótanna í lífinu vegna neyslu; það er erfitt að sætta sig við dauðaslys í umferðinni vegna ölvunaraksturs, svo nokkuð sé nefnt. Í því liggur hvatinn að starfsemi FRÆ.

Lýðheilsa- og forvarnir eru langtímaverkefni. Ávinningur þeirra kemur yfirleitt í ljós á löngum tíma og þar reynir á þolinmæði og skýra heildar- og framtíðarsýn. Því miður skortir nokkuð á þennan skilning. Okkur er enn tamt að tala um forvarnir í verkefna- og skammtímasamhengi, s.s. forvarnaátök, forvarnavikur eða forvarnadaga.

Mikilvægi forvarna ætti öllum að vera ljóst. Talið er að sjúkdómar tengdir lífsstíl kosti heilbrigðiskerfið ríflega hundrað milljarða á ári, eða um 70-80 prósent af því fjármagni sem fer til heilbrigðismála. Fyrir utan kostnaðinn fyrir heilbrigðiskerfið missir þjóðfélagið verðmæta þegna; vegna ótímabærs dauða eða örorku missir samfélagið fólk af vinnumarkaði, fólk sem sinnir sjálfboðaliðastörfum, heimilisstörfum, barnauppeldi og öðrum störfum sem halda samfélaginu gangandi og skapa hagvöxt.

Íslenska heilbrigðiskerfið kostaði 139 milljarða árið 2013. 2,6% af þeirri fjárhæð fór í forvarnir. 0,4% til forvarna utan heilbrigðiskerfisins. 70-80% kostnaðar kemur til vegna langvinnra, lífsstílstengdra sjúkdóma. Íslendingar lifa lengi en verja að meðaltali 14 árum (17% ævinnar) við talsvert eða verulega skerta virkni. 17.000 eru á örorkulífeyri á Íslandi og hefur fjölgað þrefalt hraðar en almenn fólksfjölgun á landinu síðastliðin 15 ár. Það er því augljóslega eftir nokkru að slægjast fyrir samfélagið að bæta hér úr.

Stofnun FRÆ árið 1993 var m.a. svar við stöðnun eða hægagangi í forvarnamálum. Miðstöðinni var ætlað að fara nýjar leiðir í starfi sínu og leggja áherslu á þróunarstarf. ,,Forvarnastarf sem ekki fær að þróast í takt við tímann og samfélagsbreytingar er dæmt til þess að verða marklaust,“ segir í kynningarriti frá upphafsárunum. Þar var þekking lykilþáttur, eins og kemur fram í eftirfarandi frá árinu 1997: ,,Forvarnir verða að byggjast á þekkingu. Þekkingu á því hvaða leiðir eru líklegastar til árangurs og þekkingu á því hvernig meta má árangur forvarnastarfs.“ Hlutverk FRÆ skyldi vera að afla upplýsinga og þekkingar um ávana- og vímuefnamál og forvarnir, gera hana aðgengilega (m.a. með starfrækslu gagnasafns og vefsíðu) og koma henni á framfæri með fræðslu, útgáfu og ráðgjöf í forvörnum.

Um þetta segir nánar í áðurnefndum texta frá 1997: ,,Gagna- og upplýsingaöflun, úrvinnsla niðurstaðna rannsókna, áætlanagerð og þróunarstarf eru undirstaða skynsamlegra forvarna. Forvarnastarf verður að reka sem vísindi en ekki eingöngu á góðri trú á góðan málstað.“

Markmiðin í forvörnum og forsendur, þörfin fyrir forvarnir, eru sígild. Við þurfum hins vegar stöðugt að velta því fyrir okkur hvort tækin, eða aðferðirnar, sem við notum standist tímans tönn og séu í takt við þær samfélagsbreytingar sem verða. Það er hið stöðuga viðfangsefni okkar og verður að vera. Ekki til þess að rjúka til og breyta til þess eins að breyta, heldur til þess að halda vöku okkar og nota bestu verkfærin á hverjum tíma. Við þá vinnu þarf hugrekki, hugrekki til þess að sleppa því sem maður hefur og þekkir og grípa í eitthvað sem maður veit ekki fyrir víst hvert leiðir mann. Það þarf hugrekki til þess að ganga á vit óvissunnar. En ekki síst þarf trú á að það sem maður gerir skipti máli og trú á að mögulegt sé að koma einhverju til leiðar með því sem maður er að gera.

FRÆ lagði upp með ákveðnar grunnforsendur, eða leiðarljós, í starfinu. Miðstöðinni var ætlað að styrkja og efla ávana- og vímuvarnir í landinu með fjölbreyttu upplýsinga- og fræðslustarfi; afla upplýsinga um ávana- og vímuefnamál, starfrækja gagnasafn, veita fræðslu og upplýsingar um ávana- og vímuefnamál og veita ráðgjöf í forvörnum. Umfram allt hefur áhersla verið lögð á að byggja starfið á þekkingu, traustum rannsóknum og gagnreyndum aðferðum í forvörnum. Kjörorð FRÆ, þekking í þágu forvarna, endurspeglar þetta vel.

FRÉTTIR

STARFSEMI

VIÐBURÐIR

Fréttir af Fræðslu og forvörnum

Skráðu þig á póstlista og fáðu nýjustu fréttir frá Fræðslu og forvörnum.

Skráðu þig núna.

Fræðsla og forvarnir

Sigtúni 42, 105 Rekjavík

Phone: +354 511 1588