Í gær, 29. maí 2024, áttu fulltrúar Breiðfylkingar forvarnasamtaka fund með Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra um ólöglega netsölu áfengis. Á fundinum lýstu samtökin áhyggjum sínum af því að ekki skuli vera farið að landslögum hvað varðar netsölu með áfengi á Íslandi sem felur í sér að áfengi er selt og afhent til neytenda á nokkrum mínútum af lager sem er innanlands og er því smásala í samkeppni við ÁTVR.

Undir heilbrigðisráðuneytið falla lýðheilsumál sem er grundvöllur reksturs ÁTVR samkvæmt lögum um verslun með áfengi og tóbak nr. 86/2011, en þar segir í 2. grein að markmið laganna sé að:

a. að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis og heildsölu tóbaks sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð,
b. að takmarka og stýra aðgengi að áfengi og tóbaki og draga þannig úr skaðlegum áhrifum áfengis- og tóbaksneyslu,
c. að vernda ungt fólk gegn neyslu áfengis og tóbaks og takmarka framboð á óæskilegum vörum.

Ráðherra tók erindi samtakanna vel og lýsti yfir stuðningi við starf þeirra og viðleitni í að standa vörð um núverandi fyrirkomulag í sölu áfengis, enda væri það einn af hornsteinum góðs árangurs í lýðheilsu. Willum lýsti einnig þeirri skoðun sinni, sem áður hefur komið fram, að við séum með einkasölu á áfengi og því fyrirkomulagi sé engin ástæða til að breyta. Ítrekaði hann áhyggjur sínar af auknu aðgengi að áfengi. Við ættum frekar að herða reglurnar um áfengissöluna en gefa eftir.

Fulltrúar forvarnasamtakanna lýstu yfir ánægju með skýrar línur ráðherra og þökkuðu honum fyrir að taka einarða afstöðu og standa vörð um lýðheilsuna í þeirri togstreitu sem búið er að efna til með óllöglegri netsölu áfengis.

Við værum þakklát ef þú deilir þessari frétt ...

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar