Breiðfylking forvarnarsamtaka átti fínan fund með félags- og vinnumarkaðsráðherra þann 29. apríl 2024. Erindið var að ræða félagslegar afleiðingar þess ef netsala áfengis, eins og hún er stunduð á Íslandi, verður látin viðgangast. Samtökin láta sig lýðheilsu og félagslega velferð varða. Þau tala fyrir því að velferð fólks gangi framar ólöglegri markaðsvæddri netsölu áfengis. Um þessar mundir ræða samtökin við forystumenn í stjórnmálum um hvernig tryggja megi að landslögum sé fylgt, ólögleg netsala áfengis stöðvuð og lýðheilsa varin eins og lög gera ráð fyrir.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, formaður VG og félags- og vinnumarkaðsráðherra, tók vel á móti samtökunum. Rætt var um lýðheilsu þjóðarinnar, félagslega velferð og þýðingu hennar í því velsældarhagkerfi sem stefnt er að. Rætt var um hlutverk ÁTVR en hún hefur einkarétt samkvæmt lögum á smásölu og afhendingu áfengis sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð. Sýn ráðherra og forvarnarsamtakanna fór saman í öllum atriðum.
Fundað með fleiri í forystu stjórnmálaflokka á næstunni
Á næstunni munu samtökin hitta fleiri ráðherra og forystufólk í stjórnmálaflokkum til að fara yfir málin. Nú þegar er búið að funda með dómsmálaráðherra. Í lok fundar afhentu samtökin ráðherra gögn. Einnig var afhent áskorun til alþingismanna frá 13. febrúar 2024 um að standa vörð um lýðheilsu og einkaleyfi ÁTVR til smásölu áfengis. Þar segir:
Meðal virkustu leiða í áfengisforvörnum er að takmarka aðgengi að áfengi eins og kostur er. Einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis er það fyrirkomulag sem Íslendingar hafa valið í þessu skyni. Þetta fyrirkomulag er í samræmi við tilmæli Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinn (WHO) sem segir að þar sem einkasala ríkis á smásölu áfengis sé fyrir hendi séu sterk rök fyrir því að varðveita hana því slíkt geti takmarkað framboð áfengis og dregið úr áfengistengdum skaða. Forsendurnar eru skýrar: Greiðara aðgengi að áfengi leiðir til aukinnar notkunar og þar með aukins vanda vegna neyslu þess. Þetta er staðreynd sem ekki verður horft fram hjá í áfengisforvörnum og lýðheilsustarfi.
Við mótmælum af þessum sökum því skeytingarleysi sem ríkir gagnvart þeirri ólöglegu netsölu áfengis sem fram fer hér innanlands og illa ígrunduðum áformum um að heimila hana með lögum sem augljóslega grefur undan núverandi fyrirkomulagi. Í jafn afdrifaríkum málum eins og áfengismálunum þarf að hafa lýðheilsusjónarmið og almannaheill að leiðarljósi.
Á fundinum voru eftirfarandi gögn afhent ráðherra:
- Áskorun til alþingismanna um að standa vörð um lýðheilsu og einkaleyfi ÁTVR til smásölu áfengis frá 13. febrúar 2024
- Kæra ÁTVR til lögreglu frá 16. júní 2020
- Bréf WHO til heilbrigðisráðherra um mikilvægi einkasölu áfengis frá 18. júlí 2023
- Þýðing forvarnarsamtaka á bréfi WHO til heilbrigðisráðherra um mikilvægi einkasölu áfengis frá 18. júlí 2023
- Minnisblað Málþings lögmannsstofu um dóm Hæstaréttar Svíþjóðar í Winefinder málinu, unnið fyrir ÁTVR, frá 18. desember 2023
- Bréf innanríkisráðuneytis um smásölu áfengis frá 4. desember 2015