Hátt í hundrað þátttakendur sátu í dag málþing undir heitinu Lýðheilsa og áfengi-hver vilja kúvenda stefnunni og bjóða hættunni heim? og haldið var  í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins við Suðurgötu. Að málþinginu stóðu samtökin FRÆ – Fræðsla og forvarnir ásamt  Foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum, IOGT á Íslandi og SAFF-Samstarfi félagasamtaka í forvörnum. Málþingsstjóri var Siv Friðleifsdóttir fyrrverandi alþingismaður og ráðherra.

Árni Einarsson, framkvæmdastjóri FRÆ, sagði í setningarávarpi að ýmislegt hefði á undanförnum misserum verið í gangi í áfengismálunum sem gengi gegn yfirlýstri opinberri stefnu og lýðheilsumarkmiðum. Þar mætti meðal annars nefna sinnuleysi gagnvart áfengisauglýsingum og netsölu áfengis. Það væri sannarlega tímabært að staldra aðeins við og draga fram hvað væri undir í þessum málum og á hvaða leið við erum. Sá væri tilgangur málþingsins.

Fyrirlesarar á málþinginu komu víða að, þeirra á meðal heilbrigðisráðherra og landlæknir. Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, sagði frá vinnu við mótun opinberrar áfengis- og vímuvarnarstefnu og vitnaði í bréf frá Hans Henri P. Kluge, umdæmisstjóra WHO í Evrópu, þar sem hann lýsir meðal annars yfir áhyggjum af netsölu áfengis á Íslandi og hvetur heilbrigðisráðherra til þess að vera staðfastan í umræðunni, eins og hann orðar það, og huga að lýðheilsuáhættu sem tengist henni og minnir á að einkasöluverslanir ríkisins  séu árangursríkt fyrirkomulag við að draga úr aðgengi að áfengi og heilsufars- og félagslegum vandamálum tengdum áfengisneyslu.

Alma D. Möller, landlæknir, kallaði erindi sitt: Oft var þörf, en nú er nauðsyn að standa vörð um lýðheilsu. Hver á annars að bera ábyrgð á skaðanum og borga brúsann?

Bjarki Már Baxter, lögfræðingur, fór yfir stöðu ÁTVR í ljósi ólöglegrar netsölu áfengis á Íslandi í dag og sagði meðal annars frá dómi hæstaréttar Svíþjóðar 7. júlí sl. um netsölu áfengis sem sýndi hvað mætti og hvað ekki.

Ásthildur Knútsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu lýðheilsu og vísinda í heilbrigðisráðuneytinu, sagði frá vinnu heilbrigðisráðuneytisins við uppfærslu áfengis- og vímuvarnarstefnu.

Lára G. Sigurðardóttir, læknir  hjá SÁÁ, fór yfir áfengisneyslu Íslendinga eins og hún er nú og tók saman þá þætti sem vigta mest sem forvörn.

Gunnar Hersveinn, heimspekingur, velti fyrir sér frelsi einstaklinga. Hve langt nær það?, spurði hann.

Árni Guðmundsson, formaður Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum, velti fyrir sér hvort réttarríkið væri horfið og af hverju áfengisauglýsingar og ólögleg netsala áfengis væru ekki stöðvuð?

Fulltrúar þingflokka fluttu einnig stutt ávörp.

Í lokin var kynnt eftirfarandi áskorun samatakanna fjögurra sem stóðu að málþinginu til alþingismanna um að standa vörð um lýðheilsu og einkaleyfi ÁTVR til smásölu áfengis.

Meðal virkustu leiða í áfengisforvörnum er að takmarka aðgengi að áfengi eins og kostur er. Einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis er það fyrirkomulag sem Íslendingar hafa valið í þessu skyni. Þetta fyrirkomulag er í samræmi við tilmæli Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinn (WHO) sem segir að þar sem einkasala ríkis á smásölu áfengis sé fyrir hendi séu sterk rök fyrir því að varðveita hana því slíkt geti takmarkað framboð áfengis og dregið úr áfengistengdum skaða. Forsendurnar eru skýrar: Greiðara aðgengi að áfengi leiðir til aukinnar notkunar og þar með aukins vanda vegna neyslu þess. Þetta er staðreynd sem ekki verður horft fram hjá í áfengisforvörnum og lýðheilsustarfi.

Við mótmælum af þessum sökum því skeytingarleysi sem ríkir gagnvart þeirri ólöglegu netsölu áfengis sem fram fer hér á landi og illa ígrunduðum áformum um að heimila hana með lögum, sem augljóslega grefur undan núverandi fyrirkomulagi. Í jafn afdrifaríkum málum eins og áfengismálunum þarf að hafa lýðheilsusjónarmið og almannaheill að leiðarljósi.

Fræðsla og forvarnir – félag áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum

IOGT á Íslandi

SAFF-Samstarf félagasamtaka í forvörnum

Við værum þakklát ef þú deilir þessari frétt ...

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar