,,Sérstök ástæða er til að vekja athygli á sambandi áfengisneyslu og tilurð krabbameina en það eru margir sem ekki vita að áfengi er þekktur krabbameinsvaldur. Jafnvel lítið magn eykur áhættu á krabbameinum og eru þannig engin örugg mörk varðandi neyslu áfengis en áhættan eykst eftir því sem notkunin er meiri.“
Þetta segir Alma D. Möller landlæknir í grein á visir.is í dag, 4. febrúar alþjóðadegi gegn krabbameini. Hún segir það áhyggjuefni að neysla áfengis fari vaxandi hérlendis þrátt fyrir að mikill heilsufarslegur ávinningur myndi fylgja minni neyslu.
Hún segir ennfremur að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin áætli að áfengi tengist 12% krabbameina. Vitað sé að áfengisneysla auki áhættu á krabbameini í ristli og endaþarmi, brjóstum, munni, vélinda, lifur, hálsi, barkakýli og munnholi. Þar fyrir utan tengist áfengi samtals 200 sjúkdómsgreiningum og er leiðandi áhættuþáttur í heiminum fyrir slæma heilsu og ótímabær dauðsföll, sérstaklega í aldurshópnum 25-59 ára.
Hún bendir á að sem betur fer hafi dregið úr reykingum hérlendis, en fólk sem neytir bæði áfengis og tóbaks er fimm sinnum líklegra til að fá krabbamein í munnholi, koki, barkakýli og vélinda, samanborið við þá sem neyta eingöngu áfengis eða eingöngu tóbaks. Fyrir þá sem drekka mikið áfengi að staðaldri er áhættan allt að 30 sinnum hærri.
Sjá alla greinina hér: https://www.visir.is/g/20242524668d/forvarnir-og-krabbamein