Ýmsir hafa undanfarið viðrað áhyggjur af aukinni neyslu áfengis hjá ungmennum, sem virðist koma nú í kjölfar mikillar aukningar á nikótíni. Ef til vill þarf þetta ekki að koma alfarið á óvart ef litið er til þess að seint og illa var brugðist við óheftri markaðssetningu og sölu á nikótíni og aðgengi að áfengi verið aukið mikið undanfarið.

Meðal þeirra sem lýsa áhyggjum af þessari þróun er Valgerður Rúnarsdóttir læknir og forstjóri Sjúkrahússins Vogs í viðtali í Morgunblaðinu í dag (26. október 2023). Þar segir hún meðal annars að hin mikla aukning á notkun nikótíns meðal ungmenna sé áhyggjuefni og bendir á að aðgengi að nikótínpúðum sé nánast óheft. Í viðtalinu segir hún einnig: ,,Svo hefur almennt viðhorf til áfengisdrykkju, til áfengra drykkja, hvenær er ,,í lagi“ að drekka og hvar, mikil áhrif á neyslu. Ef efnið er ekki álitið skaðlegt má einnig búast við aukinni drykkju. Aðgengi hefur aukist í samfélaginu og enn bætir í það. Það eykur neyslu, gerir hana meinleysislegri og það hefur líka áhrif á unga fólkið í samfélaginu, beint og óbeint.“

Það verður að taka undir áhyggjur Valgerðar og fleiri í þessum efnum. Ekki síst ef haft er í huga að það hefur tekið langan tíma að byggja upp góðan árangur í ávana- og vímuefnamálum ungmenna á Íslandi. Leiðin niður á við getur tekið mun skemmri tíma. Það verða stjórnvöld, sem móta stefnuna, að hafa í huga; leggja forvarnastarfinu lið í stað þess að grafa undan því með auknu aðgengi og skeytingarleysi gagnvart aukinni þörf á íhlutun og meðferð. Við, almenningur, þurfum að krefjast þess að lagt sé mat á fórnarkostnað þess, til dæmis með lýðheilsumati.

Við værum þakklát ef þú deilir þessari frétt ...

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar