Leyfilegt vínandamagn í blóði ökumanna lækkað í nýjum umferðarlögum

Um áramótin taka gildi ný umferðarlög sem samþykkt voru á Alþingi í júní síðastliðnum. Í nýju lögunum felast ýmsar breytingar sem Samgöngustofa hefur tekið saman á vef sínum.

Meðal þess sem breytist með tilkomu nýju laganna er að leyfilegt vínandamagn í blóði ökumanna lækkar úr 0,5 prómillum í 0,2 prómill. Refsimörk verða þó áfram miðuð við 0,5 prómill og verður ökumönnum því ekki gerð refsing nema áfengi í blóði mælist yfir 0,5 prómill. Í 49. grein laganna segir orðrétt:

Enginn má stjórna eða reyna að stjórna vélknúnu ökutæki ef hann er undir áhrifum áfengis.
Ef vínandamagn í blóði ökumanns nemur 0,20‰, en er minna en 1,20‰, eða magn vínanda í lofti sem hann andar frá sér nemur 0,1 milligrammi í lítra lofts, en er minna en 0,60 milligrömm, eða ökumaður er undir áhrifum áfengis þótt magn vínanda í blóði hans eða útöndun sé minna telst hann ekki geta stjórnað ökutæki örugglega.
Ef magn vínanda í blóði ökumanns nemur 1,20‰ eða meira eða vínandamagn í lofti sem hann andar frá sér nemur 0,60 milligrömmum í lítra lofts eða meira telst hann óhæfur til að stjórna ökutæki.

Þetta felur í sér að nú eru tekin af öll tvímæli um að það er bannað að aka undir áhrifum og öll óvissa um hvort í lagi sé að fá sér einn bjór eða vínglas án þess að fara yfir mörkin úr sögunni.

Með þessari lækkun prómillmarkanna er Ísland komið í hóp með Noregi og Svíþjóð. Í kjölfar lækkunar markanna í þeim löndum fækkaði til dæmis banaslysum í umferðinni. Vonandi verður hið sama hér á landi enda til mikils að vinna í ljósi þess að áfengi er annar orsakavaldur banaslysa í umferðinni á Íslandi.

Í hinum nýju lögum er einnig kveðið á um að neita megi þeim um ökuskírteini sem háðir eru notkun ávana- og fíkniefna, áfengis eða annarra sljóvgandi efna. Um það segir í 48. grein laganna:  Neita má þeim um ökuskírteini sem háður er notkun ávana- og fíkniefna, áfengis eða annarra sljóvgandi efna. Bera má ákvörðun um þetta undir dómstóla samkvæmt reglum 68. gr. a almennra hegningarlaga.

Við værum þakklát ef þú deilir þessari frétt ...

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar