Lögleyfing kannabiss ekki skilað tilætluðum árangri.

Dagana 11. og 12. október síðastliðinn stóð NordAN, sem er samstarfsvettvangur félagasamtaka á Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum um stefnumörkun og forvarnir í ávana- og vímuefnamálum, fyrir árlegri ráðstefnu sinni sem haldin var að þessu sinni í Helsinki.

Yfirskrift ráðstefnunnar var ,,áfengi og vímuefni í samfélagi breytinga“ með tilvísun í að ávana- og vímuefnamál eru ekki undanþegin breytingum og við því þurfa þeir sem starfa að þeim málum að bregðast.

Dagskrá ráðstefnunnar var fjölbreytt. Fjallað var um að ekki er alltaf tekið tillit til bestu þekkingar við mörkun stefnu í ávana- og vímuefnamálum. Jevgeni Ossinovski, fyrrverandi heilbrigðisráðherra í Eistlandi, dró upp áhugaverða mynd af því hvernig það er að vera stjórnmálamaður og þurfa að takast á við andstæð sjónarmið innan stjórnmálanna varðandi tengsl áfengisneyslu og lýðheilsu og grímulausa hagsmunagæslu áfengisiðnaðarins. Fulltrúar ríkisáfengisverslananna í Svíþjóð og Finnlandi sögðu frá sýn þeirra á hlutverk og mikilvægi þess að halda sölu áfengis sem mest í höndum almannavaldsins.

Fjallað var um reynslu ýmissa ríkja Bandaríkjanna af því að lögleyfa kannabis. Samkvæmt samantekt Stig Erik Sørheim, sem er formaður samtakanna EURAD, hefur fæst af því sem ætlunin var að ná fram með lögleyfingunni gengið eftir. Sagði hann meðal annars að það sé stundum sagt að ríki heims hafi fylgt Bandaríkjunum í blindni í ,,stríðinu gegn fíkniefnum“ og spurði hvort ríki heims væru nú ef til vill að fylgja þeim í blindni í því að lögleyfa þau.

Í ályktun aðalfundar NordAN sem haldinn var samhliða ráðstefnunni var slegið á svipaða strengi og stjórnvöld hvött til þess að standa gegn áformum um lögleyfingu og almannaheillasamtök, foreldrar og aðra eru einnig hvattir  til þess að tala gegn ,,normalíseringu“ og lögleyfingu á enn einu ávanabindandi efninu.

Sjá upplýsingar um ráðstefnuna á vef NordAN.

Við værum þakklát ef þú deilir þessari frétt ...

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar