Frumvarp til laga um breytingu á áfengislögum, nr. 75/1998 (afnám banns við heimabruggun til einkaneyslu).

Flm.: Helgi Hrafn Gunnarsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halldóra Mogensen, Jón Þór Ólafsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Logi Einarsson, Smári McCarthy, Snæbjörn Brynjarsson, Vilhjálmur Árnason, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.

Með frumvarpinu er lagt til að bann við framleiðslu áfengis til einkaneyslu með gerjun verði afnumið. Frumvarpinu var útbýtt í þinginu 12. desember 2018 en hefur ekki verið tekið til umræðu.

Frumvarp til umferðarlaga frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Frumvarpinu var útbýtt í þinginu 11. október 2018 og tekið til 1. umræðu 23. október. Að henni lokinni var því vísað til umhverfis- og samgöngu­nefndar og opnað fyrir umsagnir. Frumvarpið hefur ekki verið tekið til frekari umræðu í þinginu.

Í frumvarpinu er lagt bann við neyslu áfengis eða annarra örvandi efna við stjórn vélknúins ökutækis, sem eru til þess fallin að hafa áhrif á aksturshæfni. Sömuleiðis er þar lagt bann við tóbaksreykingum og notkun rafsígaretta við stjórn bifreiða til farþegaflutninga í atvinnuskyni. Er þetta fyrst og fremst til þess að vernda farþega fyrir óbeinum tóbaksreykingum og gufu úr rafsígarettum sem getur innihaldið nikótín eða önnur skaðleg efni.

Í frumvarpinu er lagt til að gerð verði sú breyting að sé magn vínanda í blóði ökumanns meira en 0,20‰ ( núgildandi viðmið er 0,50‰) eða vínandamagn í lofti sem hann andar frá sér nemur 0,1 milligrammi í lítra lofts, geti hann ekki talist hæfur til að stjórna ökutæki örugglega, enda sé magn vínanda í blóði minna en 1,20‰ eða 0,60 milligrömm í lítra lofts. Mælist magn vínanda hins vegar 1,20‰ eða meira eða vínandamagn í lofti sem hann andar frá sér er 0,60 milligrömm eða meira telst hann óhæfur til að stjórna ökutæki.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, nr. 86/2011 (staðsetning áfengisverslunar).

Flm.: Bryndís Haraldsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Willum Þór Þórsson.

Frumvarpinu var útbýtt á Alþingi 14. desember 2018 en hefur ekki verið tekið til umræðu.

Með frumvarpi þessu er lagt til að sveitarfélögin hafi aðkomu að staðarvali þegar verið er að opna nýjar áfengisverslanir. ÁTVR hefur hingað til haft fullt frelsi til að staðsetja verslanir sínar án þess að hafa þurft að hafa um það samráð við handhafa skipulagsvaldsins, það er sveitarfélögin.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, lögum um aukatekjur ríkissjóðs, áfengislögum, lögum um landlækni og lýðheilsu og lögum um fjölmiðla, með síðari breytingum (smásala áfengis).

Flm.: Þorsteinn Víglundsson, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Jón Þór Ólafsson, Jón Gunnarsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

Frumvarpinu var útbýtt á Alþingi 20. september 2018 en hefur ekki komið til umræðu.Frumvarpið er sambærilegt frumvörpum sem hafa áður verið lögð fram á 144. (17. mál), 145. (13. mál), 146. (106. mál) og 148. löggjafarþingi (287. mál).

Meginmarkmið frumvarpsins er að afnema einkaleyfi ríkisins á smásölu áfengis og að einkaaðilum verði heimiluð slík sala að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Frumvarpið gerir ráð fyrir að almennt verði heimilt að selja áfengi í smásölu í sérverslunum með mat- og drykkjarvörur en ekki stórmörkuðum og matvöruverslunum.

Ekki er lagt til í frumvarpinu að ÁTVR verði gert að hætta smásölu á áfengi. Afnám einkaleyfis ríkisins á smásölu áfengis kallar engu síður á að starfsemi ÁTVR verði, í kjölfar lögfestingar frumvarpsins.

Frumvarpið kveður einnig á um að heimilt verði að auglýsa áfengi með ýmsum takmörkunum, m.a. að hvers kyns áfengisauglýsingu skuli fylgja aðvörunarorð um skaðsemi áfengis og að aldrei megi beina áfengisauglýsingum að börnum og ungmennum. Flutningsmenn taka fram að rétt að stíga varlega til jarðar vegna sérstöðu áfengis sem á ekki að kynna sem almenna sjálfsagða neysluvöru og er því lögð áhersla á að áfengisauglýsingar miði fyrst og fremst að því að kynna vöruna í tengslum við sölu hennar eða framleiðslu.