FRÆ og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

FRÆ tekur heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna fagnandi sem sameiginlegum grunnviðmiðum, eða framkvæmdaáætlun, í þágu mannkyns og jarðar og hefur skilgreint (eða öllu heldur rýnt) starf sitt með tilliti til þeirra. Starfsemi FRÆ er beinlínis liður í því að ná sumum þessara markmiða og sum markmiðin styðja við að ýmis markmið FRÆ komist til framkvæmda. Finna má tengsl starfsemi FRÆ við mörg þessara markmiða, einkum ef rýnt er í undirmarkmið aðalmarkmiðanna, en beinust er tenging starfsemi FRÆ við eftirfarandi þætti í heimsmarkmiðunum með skírskotun til ávana- og vímuefna. Mun fleiri hafa skírskotun til starfsemi FRÆ, en óbeinni:

1. Útrýma fátækt í allri sinni mynd alls staðar.
Ávana- og vímuefnaneysla er þekktur áhrifaþáttur á fátækt. Vímufíkn og sjúkdómar vegna ávana- og vímuefnaneyslu gera marga óvinnufæra og skerðir fjárhagslega afkomu eða útilokar hana þannig að stundum leiði til fátæktar. Með því að draga úr ávana- og vímuefnaneyslu og vanda vegna hennar leggur FRÆ þessu markmiði lið.

3. Stuðla að heilbrigðu líferni og vellíðan fyrir alla frá vöggu til grafar.
Þetta markmið er inntakið í starfsemi FRÆ og meðal annars vísað beint í ávana- og vímuefnavanda í undirmarkmiðum 3.5 og 3.6.

4. Tryggja jafnan aðgang allra að góðri menntun og stuðla að tækifærum allra til náms alla ævi.
Það segir meðal annars í undirmarkmiði 4.2 að eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allar stúlkur og drengir eigi þess kost að þroskast og dafna frá unga aldri… Ávana- og vímuefnaneysla er meðal helstu áhrifa brottfalls ungmenna úr námi og getur haft varanleg áhrif á lífsgæði þeirra og framtíð.

5. Jafnrétti kynjanna verði tryggt og völd allra kvenna og stúlkna efld.
Í undirmarkmiði 5.2 segir að: Hvers kyns ofbeldi gagnvart konum og stúlkum á opinberum vettvangi sem og í einkalífi, þ.m.t. mansal, kynferðisleg misneyting og misneyting af öðru tagi, verði ekki liðið og regluverk sem styður við ofbeldi afnumið. Ofbeldi gagnvart konum á öllum þessum tilgreindu sviðum tengist mjög ávana- og vímuefnaneyslu.

8. Stuðla að viðvarandi sjálfbærum hagvexti og arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla.
Það segir meðal annars í undirmarkmiði 8.6 að eigi síðar en árið 2020 hafi hlutfall ungmenna, sem eru atvinnulaus, stunda ekki nám eða þjálfun, lækkað verulega. Ávana- og vímuefnaneysla stendur hér oft í vegi ungs fólks sem horfið hefur frá námi hennar vegna og stundar ekki vinnu. Það skapar meðal annars hættu á að þau sjái sér farborða með afbrotum. Í undirmarkmiði 8.7 segir meðal annars að stefnt sé að því að nútímaþrælahald og mansal heyri sögunni til … Mansal í tengslum við vændi hefur beina tengingu við ávana- og vímuefnaneyslu, bæði sem liður í vímuefnatengdri brotastarfsemi (t.d. burðardýr) og þar sem neyð vímuefnafíkla er nýtt til þess að gera þá út í vændi.

10. Draga úr ójöfnuði innan og á milli landa.
Það er þekkt að efnahagur hefur áhrif á nýtingu fólks á heilbrigðisþjónustu og hvort það leitar sér aðstoðar þegar með þarf. Einnig val á hollri fæðu og heilbrigðum lífsstíl. Tóbaksnotkun er t.d. meiri hjá þeim efnaminni.

11. Gera borgir og íbúðasvæði öllum mönnum auðnotuð, örugg, viðnámsþolin og sjálfbær.
Afbrot, ofbeldisglæpir, skemmdarverk og auðgunarbrot eru fylgifiskar ávana- og vímuefnaneyslu. Neysla þessara efna getur skert lífsgæði fólks á heimilum þess og umhverfi. Margir þekkja það á eigin skinni sem ónæði vegna drykkjuláta nágranna, eigin gesta eða heimilisfólks eða sem ógn í almannarými. Sumir þora jafnvel ekki að vera á ferli á ákveðnum svæðum á ákveðnum tímum vegna þeirra hættu sem þeir telja sig vera í.

16. Stuðla að friðsælum og sjálfbærum samfélögum fyrir alla menn, tryggja öllum jafnan aðgang að réttarkerfi og byggja upp skilvirkar og ábyrgar stofnanir fyrir alla menn á öllum sviðum.
Í undirmarkmiðum 16.1 (Dregið verði verulega úr hvers kyns ofbeldi og dauðsföllum sem rekja má til þess.), 16.2 (Tekið verði fyrir misnotkun, misneytingu, mansal og hvers kyns ofbeldi gegn börnum og pyntingar verði upprættar.), 16.4 (Eigi síðar en árið 2030 mun ólöglegt flæði fjármagns og vopna hafa snarminnkað, stolnar eignir verði endurheimtar í stórum stíl og barátta háð gegn hvers kyns skipulagðri glæpastarfsemi.), 16.5 (Dregið verði verulega úr hvers kyns spillingu og mútum.) og 16.a (Tilteknar innlendar stofnanir verði styrktar, meðal annars með alþjóðlegri samvinnu, í því skyni að efla þær, einkum í þróunarlöndunum, til að koma í veg fyrir ofbeldi og berjast gegn hryðjuverkum og glæpastarfsemi.) eru vímuefni, framleiðsla og dreifing (smygl) lykilþættir.
Minna framboð og eftirspurn eftir ávana- og vímuefnum vinnur gegn öllum þeim meinum sem tilgreind eru hér að framan.

Við værum þakklát ef þú deilir þessarri frétt ...

Nýlegar fréttir

Safn

Flokkar